Ferill 930. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 1376  —  930. mál.
Stjórnarfrumvarp.



Frumvarp til laga


um lagareldi.

Frá matvælaráðherra.



1. ÞÁTTUR

Gildissvið, stjórnsýsla o.fl.

I. KAFLI

Markmið, gildissvið og orðskýringar.

1. gr.

Markmið.

    Markmið laga þessara er að skapa skilyrði til sjálfbærrar uppbyggingar lagareldis og efla þannig verðmætasköpun, atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Skal leitast við að tryggja vernd vistkerfa, sjávarbotns og vatnshlota sem og líffræðilega fjölbreytni, velferð eldisfiska og gæði framleiðslu. Við framkvæmd laganna skal byggt á vistkerfisnálgun og varúðarnálgun.
    Leitast skal við að fyrirbyggja hugsanleg spjöll á villtum nytjastofnum og vistkerfi þeirra ásamt því að tryggja hagsmuni þeirra sem nýta villta nytjastofna. Til að ná því markmiði skal tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd í lagareldi standist ströngustu staðla og kröfur sem gerðir eru til lagareldis. Skal þess ávallt gætt að sem minnst röskun verði á vistkerfi villtra nytjastofna og annarra villtra fiskstofna og að sjálfbærri nýtingu þeirra sé ekki stefnt í hættu.

2. gr.

Gildissvið og lagaskil.

    Lög þessi gilda um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Lögin gilda ekki um ræktun og nýtingu sjávargróðurs, skelfiskrækt eða fiskrækt í ferskvatni samkvæmt lögum um fiskrækt.

3. gr.

Orðskýringar.

    Í lögum þessum, reglugerðum og reglum settum á grundvelli þeirra, er merking hugtaka sem hér segir:
     1.      Afföll: Dauði eldisfisks í eldiseiningum eða í sjó. Til affalla telst einnig förgun á fiski vegna sára, sjúkdóma og sníkjudýra.
     2.      Áhættumat erfðablöndunar: Mat á þeim fjölda frjórra eldislaxa sem strýkur úr eldi í sjó og vænta má að komi í ár og valdi erfðablöndun við villta nytjastofna lax.
     3.      Burðarþolsmat: Mat á þoli vatnshlota eða annarra afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu álagi af völdum sjókvíaeldis eða hafeldis án þess að það hafi óæskileg áhrif á vistkerfi og þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru fyrir það samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Hluti burðarþolsmats er að meta óæskileg staðbundin áhrif af sjókvíaeldi og hafeldi.
     4.      Eldisfiskur: Fiskur sem hefur verið alinn í lengri eða skemmri tíma í sjókvíaeldi, hafeldi eða landeldi.
     5.      Eldiseining: Eldisker, tankur, tjörn, stöðuvatn eða sambærilegar afmarkaðar einingar á landi. Sjókvíar eru ekki eldiseiningar í skilningi laga þessara.
     6.      Eldislax: Lax sem hefur verið alinn í lengri eða skemmri tíma í sjókvíaeldi, hafeldi eða í landeldi.
     7.      Eldissvæði: Svæði innan smitvarnasvæðis þar sem sjókvíaeldi eða hafeldi er leyft og afmarkað með sérstökum hnitum.
     8.      Fiskrækt: Hvers konar aðgerðir sem ætla má að skapi eða auki fiskgengd í veiðivatni eða sjó.
     9.      Fiskstofn: Hópur fiska sömu tegundar sem hrygnir á tilteknum stað og tíma en gerir það ekki í neinum mæli með öðrum hópum á öðrum stað eða tíma.
     10.      Fiskur: Allur fiskur og önnur lagardýr óháð þroskastigi, þ.m.t. seiði, hrogn og svil.
     11.      Frjór lax: Lax sem er fær um að framleiða frjóar kynfrumur.
     12.      Göngusilungur: Silungur sem gengur á milli sjávar og ferskvatns, svo sem sjóbirtingur og sjóbleikja.
     13.      Hafbeit: Slepping gönguseiða til sjógöngu og föngun þeirra sem fullvaxta fiska á sleppistað þegar þeir ganga úr sjó í ferskt vatn, annaðhvort til slátrunar eða flutnings í annað veiðivatn til endurveiða.
     14.      Hafeldi: Sjókvíaeldi á svæðum sem eru hvort tveggja í senn utan friðunarsvæða skv. 7. gr. laga þessara og viðmiðunarlínu skv. 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997.
     15.      Hálflokaður eldisbúnaður: Búnaður sem er opinn ofan sjávarmáls en með ógegndræpa girðingu utan um nótapoka þannig að fóðurleifum og úrgangi er safnað saman en ferskum sjó dælt inn fyrir girðinguna.
     16.      Hámarkslífmassi: Hámark lífmassa samkvæmt burðarþolsmati eins og lífmassa hefur verið skipt niður á tiltekið vatnshlot, smitvarnasvæði eða annað hafsvæði.
     17.      Heildarlaxamagn: Heildarmagn frjós lax sem heimilt er að ala í sjó hverju sinni, mælt í lífmassa.
     18.      Kynbætur: Markvisst val með tilliti til ákveðinna arfgengra eiginleika. Slíkir eiginleikar geta verið mikill vaxtarhraði eða síðbúinn kynþroski. Til undaneldis eru valdir fiskar sem sýna ákjósanlega eiginleika umfram aðra fiska í stofninum. Slíku vali er viðhaldið og það aukið með vali í hverri kynslóð.
     19.      Kynslóð: Allir þeir fiskar sem settir eru út í sjó á sama almanaksári á sama smitvarnasvæði.
     20.      Lagardýr: Öll dýr með kalt blóð sem lifa og geta afkvæmi í sjó eða fersku vatni.
     21.      Lagareldi: Sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi á fiski.
     22.      Landeldi: Geymsla, gæsla, fóðrun og önnur meðhöndlun fiska í eldiseiningum.
     23.      Landeldisstöð: Starfsstöð á landi sem nýtt er í þágu landeldis.
     24.      Lax: Fiskur af tegundinni Salmo salar.
     25.      Laxamagn:
Heimild rekstrarleyfishafa til eldis á frjóum laxi í sjó hverju sinni, mælt í lífmassa.
     26.      Laxahlutur: Hlutdeild rekstrarleyfishafa í heildarlaxamagni.
     27.      Laxfiskar: Fiskar af laxfiskaætt ( Salmonidae), m.a. tegundirnar lax (Salmo salar), urriði ( Salmo trutta), bleikja ( Salvelinus alpinus) og regnbogasilungur ( Oncorhynchus mykiss).
     28.      Leyfilegur lífmassi:
Leyfilegt hámark lífmassa fisks sem rekstraraðili má ala hverju sinni að teknu tilliti til breytinga samkvæmt lögum þessum.
     29.      Lífmassi: Lífmassi er margfeldi fjölda og meðalþyngdar fiska.
     30.      Lokaður eldisbúnaður: Eldisbúnaður þar sem fiski er haldið í lokuðu rými í sjó eða söltu vatni, sjó- eða vatnsskiptum er stýrt og mögulegt er að endurnýta úrgang vegna eldisins með því að fjarlægja hann úr eldisbúnaðinum.
     31.      Lús: Sníkjudýr sem finnast á fiskum í sjó og eru ýmist á eldisfiski eða villtum fiskum, þ.m.t. laxalús ( Lepeophtheirus salmonis) og fiskilús ( Caligus elongatus).
     32.      Ófrjór lax: Lax sem er ófær um að framleiða frjóar kynfrumur.
     33.      Sjókví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir við yfirborð sjávar auk hvers konar annars búnaðar sem ætlaður er til sjókvíaeldis, þ.m.t. festingar og akkeri.
     34.      Sjókvíaeldi: Geymsla, gæsla, fóðrun og önnur meðhöndlun fiska í sjó, þ.m.t. eldi á fiskum í sjókvíum, hálflokuðum eða lokuðum eldisbúnaði.
     35.      Sjókvíaeldisbyggðir: Sveitarfélög sem hafa nána landfræðilega tengingu við smitvarnasvæði innan tiltekins landshluta.
     36.      Sjókvíaeldisstöð: Starfsstöð á eða við sjó sem nýtt er í þágu sjókvíaeldis. Sjókvíaeldisstöð getur verið sjókví, lokaður eldisbúnaður eða hálflokaður eldisbúnaður, fleki, fóðurlagnir og/eða annar sá búnaður sem er nauðsynlegur til reksturs sjókvíaeldis. Búnaðurinn getur verið sökkvanlegur eða fljótandi.
     37.      Smitvarnasvæði: Afmarkað svæði á sjó þar sem heimilt er að stunda sjókvíaeldi eða hafeldi á nánar tilgreindum eldissvæðum.
     38.      Sníkjudýr: Dýr sem lifir sníkjulífi á eða í fiski og getur valdið honum skaða.
     39.      Vatnshlot: Eining vatns, svo sem allt það vatn sem er finna í stöðuvatni, á eða strandsjó samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.
     40.      Veiðivatn: Á eða stöðuvatn sem veiði er í eða sem mætti vera í ef fiskur væri ræktaður þar.
     41.      Villtir nytjastofnar: Fiskstofn villtra fiska, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska, sem er nytjaður, eða kann að verða nytjaður, í íslenskri fiskveiðilandhelgi, í ám eða vötnum.
     42.      Villtir nytjastofnar lax: Fiskstofn villtra laxa sem er nytjaður, eða kann að verða nytjaður, í íslenskri fiskveiðilandhelgi, í ám eða vötnum. Til villtra nytjastofna lax teljast annars vegar laxastofnar þar sem meiri hluti fisks er klakinn í náttúrulegu umhverfi, elst þar upp og er kominn undan villtum foreldrum og hins vegar laxastofn í veiðiám þar sem samþykkt hefur verið fiskræktaráætlun.

II. KAFLI

Stjórnsýsla.

4. gr.

Stjórnsýsla.

    Ráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum, en framkvæmd stjórnsýslunnar er að öðru leyti í höndum Matvælastofnunar sem hefur eftirlit með að ákvæðum laganna sé framfylgt.
    Ákvarðanir Matvælastofnunar er lúta að skráningarskyldu eða veitingu og afturköllun rekstrarleyfis til lagareldis samkvæmt lögum þessum sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Sama gildir um ákvarðanir Matvælastofnunar er lúta að breytingu á heimildum vegna affalla og lúsar. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kærur fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Aðrar ákvarðanir sem Matvælastofnun tekur á grundvelli laga þessara sæta kæru til ráðherra og fer um kærur samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga.
    Hafrannsóknastofnun er til ráðgjafar við framkvæmd laga þessara samkvæmt lögum um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna.

2. ÞÁTTUR

Sjókvíaeldi.

III. KAFLI

Umhverfisvernd og rannsóknir.

5. gr.

Burðarþolsmat, vöktun og rannsóknir.

    Ráðherra ákveður fyrir hvaða vatnshlot eða önnur afmörkuð hafsvæði burðarþolsmat skuli gert og tímasetningu þess. Hafrannsóknastofnun skal framkvæma burðarþolsmat.
    Hafrannsóknastofnun skal meta áhrif af völdum álags frá sjókvíaeldi með því að framkvæma tímabundnar rannsóknir á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis og vakta ástand vistkerfa innan vatnshlota eða annarra afmarkaðra hafsvæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols. Endurskoða skal burðarþolsmat svo oft sem þurfa þykir, til dæmis ef niðurstöður vöktunar eða rannsókna gefa tilefni til, en eigi sjaldnar en á sex ára fresti. Hafrannsóknastofnun skal árlega birta niðurstöður vöktunar á áhrifum af völdum álags fyrir þau hafsvæði sem vöktuð voru árið áður. Rannsóknir og vöktun Hafrannsóknastofnunar á vatnshlotum eða öðrum afmörkuðum hafsvæðum koma ekki í stað eftirlits Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfishafa með áhrifum af sjókvíaeldi innan eldissvæða.
    Matvælastofnun skal halda skrá um leyfilegan lífmassa smitvarnasvæða sem sýnir hámarkslífmassa samkvæmt burðarþolsmati hverju sinni. Lífmassi fisks í skrá Matvælastofnunar skal að hámarki samrýmast burðarþolsmati. Skráin skal að auki sýna breytingar sem verða á leyfilegum lífmassa hvers smitvarnasvæðis sem leiðir af breytingum skv. IX. og X. kafla. Skráin skal birt opinberlega á vef Matvælastofnunar.
    Skal Matvælastofnun, ef burðarþolsmat lækkar, aðlaga skrá sína fyrir hvert smitvarnasvæði til samræmis við burðarþolsmat, og skal gefa rekstrarleyfishöfum hæfilegan frest til aðlögunar. Um afleiðingar af hækkun burðarþolsmats fer skv. 32. gr. Hvorki skal tilgreina hámarkslífmassa í rekstrarleyfum samkvæmt lögum þessum né starfsleyfum sem gefin eru út samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að loknum aðlögunarfresti samkvæmt þessari grein, sem ekki skal vera lengri en 24 mánuðir, er óheimilt að ala meiri fisk í vatnshloti eða öðru afmörkuðu hafsvæði en gildandi burðarþolsmat og skrá Matvælastofnunar segir til um.
    Burðarþolsmat og endurskoðun þess telst áætlun í skilningi laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ráðherra ber ábyrgð á öflun umhverfismats áætlana. Komi ekki til aukningar á hámarkslífmassa við endurskoðun á burðarþolsmati, og séu forsendur fyrir endurskoðuðu burðarþolsmati í veigamiklum atriðum óbreyttar frá fyrra burðarþolsmati, er ráðherra heimilt, að fengnu jákvæðu áliti Skipulagsstofnunar, að láta hjá líða að gera umhverfismat áætlana vegna viðkomandi endurskoðunar burðarþolsmats.
    Heimilt er að setja nánari ákvæði í reglugerð um framkvæmd, efni, meðferð, útgáfu og breytingu burðarþolsmats. Einnig er heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um skrá Matvælastofnunar samkvæmt þessari grein.

6. gr.

Áhættumat erfðablöndunar.

    Hafrannsóknastofnun gerir tillögu til ráðherra um það hámarksmagn frjórra laxa, mælt í lífmassa, sem heimilt er að ala í sjó hverju sinni á tilteknu hafsvæði á grundvelli áhættumats erfðablöndunar. Ráðherra staðfestir áhættumat erfðablöndunar að fenginni tillögu Hafrannsóknastofnunar og er tillagan bindandi fyrir ráðherra. Áhættumat erfðablöndunar skal byggjast á vistkerfis- og varúðarnálgun. Heimildir til að ala frjóan lax samkvæmt lögum þessum skulu miðast við það magn sem fram kemur í reglugerð.
    Með áhættumatinu er áhætta af erfðablöndun frjórra eldislaxa við villta nytjastofna lax metin með líkani. Áhættumat skal gefið út miðað við þann lífmassa frjórra laxa sem mætti ala í sjó ef hagkvæmustu skiptingu milli smitvarnasvæða væri fylgt. Áhættumat erfðablöndunar skal ekki skipt niður á smitvarnasvæði af Hafrannsóknastofnun en getur tekið mið af skiptingu milli hafsvæða og landshluta ef við á. Hluti ráðgjafar Hafrannsóknastofnunar í áhættumati erfðablöndunar er framsetning skiptihlutfalla vegna flutnings laxahluta milli smitvarnasvæða. Áhættumatið skal byggt á þáttum eins og áætlun um fjölda strokufiska og endurkomuhlutfalli þeirra, áhrifum hafstrauma og dreifingu fiska, fjarlægð áa frá eldissvæðum, stofnstærð laxa í ám og öðru sem þýðingu kann að hafa.
    Í áhættumati erfðablöndunar er heimilt að taka tillit til mótvægisaðgerða sem draga úr mögulegri erfðablöndun. Einungis skal tekið tillit til mótvægisaðgerða við gerð og notkun áhættumats erfðablöndunar ef fyrir liggur við gerð áhættumats erfðablöndunar að allir rekstrarleyfishafar sem ala frjóan lax á sama hafsvæði hafa samþykkt að rekstrarleyfum verði breytt þannig að skylda til viðkomandi mótvægisaðgerða verði hluti rekstrarleyfa. Ný rekstrarleyfi sem gefin eru út eftir að mótvægisaðgerðir hafa verið samþykktar skulu hafa að geyma skyldu til sömu mótvægisaðgerða.
    Hafrannsóknastofnun skal endurskoða áhættumat svo oft sem þurfa þykir, en þó eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
    Matvælastofnun skal, við útgáfu nýrrar reglugerðar um heildarlaxamagni skv. 1. mgr., breyta skráningu á laxamagni rekstrarleyfishafa miðað við laxahlut. Rekstrarleyfishöfum skal vera heimilt að ljúka eldi á þeim kynslóðum sem eru í sjó en við næstu útsetningu fiska eftir útgáfu reglugerðar skv. 1. málsl. skal taka mið af heildarlaxamagni samkvæmt reglugerðinni.
    Sé heildarlaxamagn bundið tilteknum skilyrðum, t.d. um mótvægisaðgerðir, skal Matvælastofnun hafa eftirlit með að rekstrarleyfishafar fullnægi þeim skilyrðum.
    Áhættumat erfðablöndunar og endurskoðun þess telst áætlun í skilningi laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ráðherra ber ábyrgð á öflun umhverfismats áætlana. Komi ekki til aukningar á heildarlaxamagni við endurskoðun á áhættumati erfðablöndunar, og séu forsendur fyrir endurskoðuðu áhættumati erfðablöndunar í veigamiklum atriðum óbreyttar frá fyrra áhættumati erfðablöndunar, er ráðherra heimilt, að fengnu jákvæðu áliti Skipulagsstofnunar, að láta hjá líða að gera umhverfismat áætlana vegna viðkomandi endurskoðunar áhættumats erfðablöndunar.
    Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um meðferð, útgáfu og breytingu rekstrarleyfa og mótvægisaðgerðir, hvaða stofnar teljast til villtra nytjastofna lax, sem og framkvæmd vöktunar á fjölda frjórra laxa og lífmassa þeirra. Þar verða nánari ákvæði um afmörkun landshluta sem og um meðferð, útgáfu og breytingu áhættumats. Reglugerðin skal taka tillit til bestu fáanlegrar tækni.

7. gr.

Friðunarsvæði.

    Til verndar villtum laxi er eldi laxfiska í sjókvíum óheimilt á eftirtöldum svæðum við strendur landsins:
     1.      Í Faxaflóa innan línu sem dregin er frá Garðskaga að Malarrifi á Snæfellsnesi.
     2.      Í Breiðafirði innan línu sem dregin er frá Hellissandi að Látrabjargi.
     3.      Í Húnaflóa og Skagafirði innan línu sem dregin er frá Geirólfsgnúp að Siglunesi.
     4.      Í Eyjafirði innan línu sem dregin er frá Siglunesi að Bjarnarfjalli.
     5.      Við Skjálfanda innan línu sem dregin er frá Bjarnarfjalli að Tjörnestá.
     6.      Í Öxarfirði innan línu sem dregin er frá Tjörnestá að Rauðanúpi.
     7.      Við Norðausturland innan línu sem dregin er frá Hraunhafnartanga að Fonti á Langanesi og frá Fonti að Glettinganesi.
    Ráðherra er heimilt að kveða nánar á í reglugerð um takmörk friðunarsvæða skv. 1. mgr. með vísan til hnita eða nákvæmari kennileita.

8. gr.

Upprunarakning laxa og aðskilnaður í eldi.

    Skylt er að halda skrá yfir uppruna eldislaxa sem byggist á gagnagrunni um erfðaefni hjá framleiðanda hrogna. Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um þær aðferðir sem skylt er að nota til að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna sjókvíaeldisstöðva og um framkvæmd þeirra.
    Eldi ófrjórra laxa skal halda aðgreindu frá eldi frjórra laxa.

9. gr.

Sleppingar eldisfisks.

    Eldisfisk sem alinn er til notkunar í sjókvíaeldi er óheimilt að nýta í fiskrækt eða hafbeit. Þó getur Hafrannsóknastofnun gert sleppitilraunir í óverulegum mæli, að fenginni umsögn Matvælastofnunar og Fiskistofu, og eftir atvikum annarra fagaðila, ef ástæða þykir til.

10. gr.

Tímabundnar rannsóknir Hafrannsóknastofnunar.

    Hafrannsóknastofnun getur, sjálf eða í samvinnu við aðra, stundað tímabundnar rannsóknir í fiskveiðilandhelgi Íslands á eldi fiska, eldisaðferðum, atferli fiska í sjókvíaeldi, mannvirkjum, búnaði og heilbrigði fiska.
    Ráðherra veitir samþykki fyrir rannsóknum skv. 1. mgr. samkvæmt umsókn þar sem fram koma m.a. upplýsingar um markmið og framkvæmd rannsóknarinnar.
    Við slíkar rannsóknir skal gætt allra varúðarsjónarmiða vegna þeirrar eldisstarfsemi sem þegar er starfrækt á viðkomandi svæði og þess gætt að tilraunastarfsemi raski ekki eða auki rekstrarlega áhættu þeirrar starfsemi.

IV. KAFLI

Smitvarnasvæði og dýraheilbrigði.

11. gr.

Afmörkun smitvarnasvæða.

    Afmarka skal tiltekin smitvarnasvæði þar sem stunda má sjókvíaeldi. Almennt skal miða við að hvert einstakt vatnshlot sé eitt smitvarnasvæði en þó er heimilt að skipta vatnshloti í fleiri en eitt smitvarnasvæði ef slíkt er mögulegt með tilliti til rekstraröryggis og smitvarna. Með sama hætti má ákveða að smitvarnasvæði nái yfir fleiri en eitt vatnshlot, eða hluta vatnshlota.
    Að fenginni umsögn Matvælastofnunar skal ráðherra ákveða með reglugerð hvaða vatnshlot teljast smitvarnasvæði skv. 1. mgr. og hvernig smitvarnasvæði eru afmörkuð. Í þeim tilfellum þegar vatnshlot skiptist í fleiri en eitt smitvarnasvæði skal ráðherra einnig ákveða hvernig hámarkslífmassi viðkomandi vatnshlots skiptist milli smitvarnasvæða að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.

12. gr.

Almennt um smitvarnasvæði.

    Tilgangur með afmörkun smitvarnasvæða er að takmarka útbreiðslu sjúkdóma og sníkjudýra milli einstakra hafsvæða.
    Á hverju smitvarnasvæði skal aðeins veita einum rekstraraðila rekstrarleyfi og starfsleyfi til sjókvíaeldis. Rekstrarleyfishafa er óheimilt að starfrækja sjókvíaeldi á smitvarnasvæði þar sem annar rekstrarleyfishafi starfrækir sjókvíaeldi. Rekstrarleyfishafa er heimilt að starfrækja sjókvíaeldi á fleiri en einu smitvarnasvæði svo fremi sem aðrir rekstrarleyfishafar starfræki ekki sjókvíaeldi á sömu svæðum.
    Starfræki rekstrarleyfishafi sjókvíaeldi á fleiri en einu smitvarnasvæði skulu engu að síður sömu reglur gilda og endranær um flutning milli svæða á fiski, farartækjum, búnaði og öðru því sem getur borið smit eða sníkjudýr milli smitvarnasvæða, sbr. 14. og 15. gr.
    Ráðherra er heimilt að kveða á um lágmarksfjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva og einstakra sjókvía í reglugerð.

13. gr.

Hvíld smitvarnasvæða.

    Rekstrarleyfishafa er einungis heimilt að ala eina kynslóð fisks í einu á smitvarnasvæði. Rekstrarleyfishafa er skylt að hvíla smitvarnasvæði í tiltekinn tíma eftir að eldi kynslóðar lýkur. Þegar smitvarnasvæði er í hvíld er með öllu óheimilt að stunda þar sjókvíaeldi eða tengda starfsemi.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um skyldu til sótthreinsunar tækja og búnaðar meðan á hvíld stendur og tiltekna starfsemi sem undanþegin er banni við starfsemi á hvíldartíma smitvarnasvæðis. Í reglugerð skal kveða á um lengd hvíldartíma.

14. gr.

Flutningur farartækja og búnaðar milli smitvarnasvæða.

    Flutningur hvers konar farartækja og/eða búnaðar á vegum rekstrarleyfishafa eða annarra milli smitvarnasvæða er óheimill nema samkvæmt leyfi Matvælastofnunar. Leyfi Matvælastofnunar er ávallt bundið skilyrði um sótthreinsun farartækja og búnaðar nema stofnunin taki annað sérstaklega fram.
    Leyfi sem Matvælastofnun veitir skv. 1. mgr. má veita í einstök skipti eða sem ótímabundið leyfi vegna skipulagðra og endurtekinna ferða um eða milli smitvarnasvæða.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einnig um flutning og ferðir farartækja og/eða búnaðar milli smitvarnasvæða og landeldisstöðva.

15. gr.

Útsetning og flutningur eldisfisks.

    Matvælastofnun veitir heimild til útsetningar fiska í sjó með tilliti til fjölda fiska, lífmassa og tímasetningar útsetningar á einstökum eldissvæðum. Rekstrarleyfishafi skal sækja um heimild til útsetningar fisks í sjókvíar til Matvælastofnunar fyrir fram og eigi síðar en tveimur vikum fyrir áætlaða útsetningu. Rekstrarleyfishafi skal afhenda Matvælastofnun heilsufarsyfirlýsingu dýralæknis áður en heimild er veitt fyrir útsetningu.
    Flutningur eldistegunda, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi, milli eldissvæða, svo og flutningur á öllum fiski milli smitvarnasvæða eða ótengdra vatnshlota, er óheimill.
    Flutningur fiska á milli sjókvía innan smitvarnasvæðis er tilkynningarskyldur til Matvælastofnunar og skal skráður af rekstrarleyfishafa.

16. gr.

Talning upp úr sjókví.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að telja allan fisk upp úr sjókví að kröfu Matvælastofnunar, sé ríkt tilefni til. Talning skal fara þannig fram að Matvælastofnun geti fylgst með henni með áreiðanlegum hætti. Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um skilyrði og aðferðir við talningu upp úr sjókví.

17. gr.

Þéttleiki og fjöldi fiska í sjókvíum.

    Rekstrarleyfishafa ber að sjá til þess að fjöldi fiska og þéttleiki fisks í sjókvíum sé ávallt í samræmi við ákvæði rekstrarleyfis og reglugerða settum samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal í reglugerð setja ákvæði um hámarksþéttleika fiska í sjókvíum og útreikning á þéttleika.

18. gr.

Skimun og bólusetning við sjúkdómum.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að láta fara fram reglulega skimun fyrir tilkynningarskyldum sjúkdómum í fiski í sjókvíum, m.a. fyrir flutning til útsetningar fiska í sjó. Rekstrarleyfishafa er óheimilt að taka við fiskum til útsetningar í sjó nema niðurstaða úr skimun fyrir flutning liggi fyrir og að sú niðurstaða staðfesti að fiskar séu ekki smitaðir af tilkynningarskyldum sjúkdómum.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða á um fyrir hvaða sjúkdómum skuli bólusetja, sem og um framkvæmd skimunar og bólusetningar.

19. gr.

Bann við eldi tiltekinna tegunda.

    Að fenginni umsögn Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar getur ráðherra með reglugerð bannað eldi tiltekinna fisktegunda, tiltekinna fiskstofna eða fisks með tiltekna erfðaeiginleika vegna atriða sem varða dýravelferð eða vistkerfi.

20. gr.

Innflutningur á notuðum eldisbúnaði og flutningstækjum.

    Innflutningur á notuðum eldisbúnaði til sjókvíaeldis er óheimill. Til slíks búnaðar teljast m.a. sjókvíar, eldisker, tankar, nætur, fóðrarar og fiskidælur. Þó er heimilt að flytja inn notuð vísindatæki og tæknibúnað, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Einnig getur Matvælastofnun með sömu skilyrðum heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði enda telji Matvælastofnun ekki líklegt að smitefni sem valda dýrasjúkdómum berist með honum. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísindatækjum, tæknibúnaði og eldisbúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.
    Sækja skal um leyfi til Matvælastofnunar fyrir innflutningi á brunnbátum og öðrum tækjum til flutnings á fiski. Matvælastofnun getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar. Matvælastofnun getur bannað innflutning á brunnbátum og öðrum tækjum sem kunna að hafa verið notuð í tengslum við tilkynningarskylda sjúkdóma eða sníkjudýr.

21. gr.

Brunnbátar og sótthreinsun.

    Brunnbátar og önnur tæki til flutnings á fiski skulu vera lokuð og yfirbyggð. Brunnbátar skulu hafa búnað sem gerir þeim kleift að sigla með lokaða brunna sem geta lokað fyrir inntöku og fráveitu á sjó. Jafnframt skulu brunnbátar vera með búnað sem dauðhreinsar fráveitu. Tæmingu brunnbáta skal haga þannig að tryggt sé að smitefni og lúsalirfur berist ekki á smitvarnasvæði.
    Öll flutningstæki, farartæki og búnað skal vera hægt að sótthreinsa með fullnægjandi hætti.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um notkun, eiginleika og sótthreinsun flutningstækja, farartækja og búnaðar sem notaður er í sjókvíaeldi.

22. gr.

Hættusvæði vegna sjúkdóma eða sníkjudýra í sjókvíaeldi.

    Komi upp tilkynningarskyldur atburður vegna sjúkdóma eða sníkjudýra samkvæmt lögum þessum, lögum um varnir gegn fisksjúkdómum eða öðrum reglum sem gilda um sjókvíaeldi, getur Matvælastofnun ákveðið að viðkomandi smitvarnasvæði sé hættusvæði. Þá er Matvælastofnun einnig heimilt að ákveða að nærliggjandi smitvarnasvæði séu áhættusvæði vegna sama atburðar sem og allt svæði innan tiltekinnar fjarlægðar frá eldissvæði eða sjókvíaeldisstöð.
    Sé svæði skilgreint sem hættusvæði skal leita samþykkis Matvælastofnunar fyrir allri umferð á vegum rekstrarleyfishafa um svæðið, slátrun og förgun fisks sem og aðgerðum sem rekstrarleyfishafi hyggst grípa til vegna tilkynningarskylds atburðar.
    Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um heimildir Matvælastofnunar til ráðstafana og takmarkana á hættusvæðum og áhættusvæðum.

23. gr.

Tilvísanir til almennra laga á sviði lagareldis.

    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum skulu lög um varnir gegn fisksjúkdómum gilda um varnir og viðbrögð gegn fisksjúkdómum og sníkjudýrum í sjókvíaeldi.
    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum skulu lög um velferð dýra gilda um velferð fiska í sjókvíaeldi.

V. KAFLI

Úthlutun smitvarnasvæða og rekstrarleyfi.

24. gr.

Úthlutun smitvarnasvæða.

    Þegar burðarþolsmat hefur verið gert fyrir vatnshlot eða önnur afmörkuð hafsvæði er ráðherra heimilt að úthluta smitvarnasvæðum í viðkomandi vatnshloti eða hafsvæði. Ráðherra ákveður hvenær smitvarnasvæðum er úthlutað og hversu mörgum er úthlutað hverju sinni.
    Smitvarnasvæði skal úthlutað til umsækjanda með útboði og skulu umsækjendur tilgreina í tilboði, auk annarra upplýsinga, þá tilboðsfjárhæð sem þeir eru reiðubúnir að greiða fyrir úthlutun viðkomandi smitvarnasvæðis. Heimilt er að gera kröfu um lágmarkstilboðsfjárhæð í útboðinu. Tilboðsfjárhæð rennur í ríkissjóð.
    Við mat á tilboðum kemur m.a. til skoðunar fjárhæð tilboðs, reynsla af sjókvíaeldisstarfsemi, fjárhagslegur styrkur, mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað annan rekstur sinn, svo sem nýtingu þegar útgefinna rekstrarleyfa, og upplýsingar um hvernig tilboðsgjafi hyggst stunda reksturinn, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum. Ávallt skal heimilt að víkja frá hæsta boði ef aðrir þættir en tilboðsfjárhæð mæla með því að öðru tilboði sé tekið. Úthlutun smitvarnasvæða skal auglýsa opinberlega.
    Komi í ljós að umsækjandi uppfyllir ekki skilmála úthlutunar eða forsendur fyrir henni bresta af öðrum ástæðum er heimilt að úthluta smitvarnasvæðum að nýju samkvæmt þessari grein.
    Úthlutun smitvarnasvæða samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir einstaka smitvarnasvæðum eða yfir heimildum til eldis á smitvarnasvæðum. Hafi aðili, sem fengið hefur smitvarnasvæði til úthlutunar, ekki fengið gefið út rekstrarleyfi til starfsemi á viðkomandi smitvarnasvæði innan fimm ára frá úthlutun, skal úthlutun til viðkomandi aðila falla niður og jafnframt er heimilt að úthluta svæðinu að nýju án bóta eða endurgreiðslu. Glati aðili rekstrarleyfi til sjókvíaeldis á tilteknu smitvarnasvæði glatar sami aðili einnig öllum rétti til smitvarnasvæðis og er heimilt að úthluta því að nýju.
    Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um auglýsingu og úthlutun smitvarnasvæða, skilmála úthlutunar, hvað teljist hagstæðasta tilboð og afturköllun tilboðs.

25. gr.

Rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi.

    Til að starfrækja sjókvíaeldi þarf rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitir og starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir. Rekstrarleyfi er gefið út fyrir hvert og eitt smitvarnasvæði og veitir heimild til sjókvíaeldis á öllum eldissvæðum innan viðkomandi smitvarnasvæðis. Umsækjandi skal uppfylla kröfur sem gerðar eru um vernd vistkerfa og vatnshlota, heilbrigði fiska og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í fiskum, um velferð fiska og um varnir gegn stroki.
    Sjókvíaeldi skal einungis stunda á eldissvæðum og skulu sjókvíar og tengdur búnaður vera að öllu leyti innan marka eldissvæða.

26. gr.

Móttaka og afgreiðsla umsókna.

    Áður en sótt er um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og starfsleyfi til Umhverfisstofnunar skal umsækjandi afla staðfestingar frá Skipulagsstofnun um hvort gera þurfi umhverfismat vegna framkvæmda og starfsemi sem gert er ráð fyrir samkvæmt umsóknum um rekstrarleyfi og starfsleyfi.
    Þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir skal umsækjandi afhenda Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 25. gr. og skulu þær afgreiddar samhliða, sbr. þó 11. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.
    Rekstrarleyfi og starfsleyfi verða ekki gefin út til sjókvíaeldis nema fyrir liggi strandsvæðaskipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Heimilt er að sækja um rekstrarleyfi þrátt fyrir að umsókn samræmist ekki gildandi strandsvæðaskipulagi en Matvælastofnun er óheimilt að auglýsa tillögu að rekstrarleyfi nema nauðsynlegar breytingar séu gerðar á strandsvæðaskipulagi.
    Matvælastofnun skal framsenda umsókn um starfsleyfi fyrir sjókvíaeldi til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hvor stofnun um sig skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi, innan tveggja mánaða frá því að umsókn berst. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi skal það sent Matvælastofnun. Matvælastofnun afhendir umsækjanda útgefin starfs- og rekstrarleyfi samtímis. Sé starfsleyfi sem útgefið er af Umhverfisstofnun endurútgefið eða endurskoðað skal Umhverfisstofnun afhenda umsækjanda starfsleyfið.

27. gr.

Umsókn um rekstrarleyfi.

    Umsókn um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis skal vera skrifleg. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að sjókvíaeldisstöð, sem og raunverulega eigendur umsækjanda sem eiga meira en 10% í honum ef hann er lögaðili, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, að tillaga að innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar og eldisbúnaður standist kröfur sem nánar er kveðið á um í lögum þessum eða reglugerðum, um stærð og framleiðslumagn mælt í lífmassa og laxahlut, ef við á, eldistegundir, eldisstofna, hlutfall frjórra laxa og ófrjórra laxa í eldi og eldisaðferðir. Einnig skal fylgja umsókn afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Umsókn skv. 1. mgr. skulu fylgja gögn um úthlutun smitvarnasvæðis skv. 24. gr. ef við á. Þá skal í umsókn tilgreina hvaða eldissvæði hafa verið afmörkuð á viðkomandi smitvarnasvæði. Umsókn skal einnig fylgja eldisáætlun og rekstraráætlun sem sýnir m.a. uppbyggingarferil eldis og öflun hrogna, seiða og fiska, svo og önnur gögn sem Matvælastofnun telur nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi.
    Umsókn um rekstrarleyfi skal fylgja áætlun um fjárfestingar í búnaði ásamt staðfestingu á stöðu eigin fjár og eiginfjárhlutfalli umsækjanda þegar umsókn er lögð fram. Eiginfjárhlutfall skal vera að lágmarki 30% að teknu tilliti til fjárfestinga í búnaði samkvæmt áætlun.

28. gr.

Afstaða Matvælastofnunar.

    Sé fyrirhuguð starfsemi háð mati á umhverfisáhrifum skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar við afgreiðslu rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal taka saman greinargerð um afgreiðslu rekstrarleyfis þar sem fjallað er um samræmi milli rekstrarleyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skal það koma fram í leyfinu. Matvælastofnun skal í greinargerðinni einnig taka tillit til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni er til, ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar. Sé framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun um matsskyldu og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd.
    Matvælastofnun skal taka tillit til áhættumats erfðablöndunar og burðarþolsmats fyrir viðkomandi smitvarnasvæði og taka rökstudda afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi sjókvíaeldis.

29. gr.

Auglýsing tillögu að rekstrarleyfi. Birting rekstrarleyfis.

    Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu auglýsa tillögu að rekstrarleyfi og starfsleyfi á sama tíma. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
    Matvælastofnun skal innan tveggja mánaða frá því að frestur rann út til að gera athugasemdir við tillögu að rekstrarleyfi taka ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal tilkynna Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrarleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir við tillöguna um afgreiðslu rekstrarleyfis.
    Matvælastofnun skal auglýsa útgáfu rekstrarleyfa á vef sínum. Birting á vef Matvælastofnunar telst vera opinber birting. Matvælastofnun skal birta ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og leiðbeina um kæruheimild og kærufrest.

30. gr.

Efni og útgáfa rekstrarleyfis.

    Telji Matvælastofnun að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara, og eftir auglýsingu tillögu að rekstrarleyfi skv. 29. gr., skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi.
    Í rekstrarleyfi skal kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi, leyfilega eldisstofna, mótvægisaðgerðir, sem og fjölda og staðsetningu eldissvæða innan viðkomandi smitvarnasvæðis. Í rekstrarleyfi skal hvorki tilgreina hámarkslífmassa smitvarnasvæðis né leyfilegan lífmassa hverju sinni sem skal einungis tilgreina í skrá skv. 3. mgr. 5. gr. Með sama hætti skal ekki tilgreina laxahlut í rekstrarleyfi heldur einungis í skrá skv. 1. mgr. 38. gr. Í rekstrarleyfi fyrir laxeldi skal kveðið á um hvort um sé að ræða eldi á frjóum laxi eða ófrjóum laxi.
    Skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis er að fyrirhuguð starfsemi samræmist skipulagi á svæðinu samkvæmt skipulagslögum eða lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Það er jafnframt skilyrði að framkvæmdir við sjókvíar, sjókvíaeldisstöðvar og önnur mannvirki samræmist lögum um mannvirki eftir því sem við á.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að mæla fyrir um nánari skilyrði sem setja má í rekstrarleyfi.
    Matvælastofnun skal aðlaga umsókn um rekstrarleyfi til sjókvíaeldis, sem felur í sér meira umfang en viðkomandi smitvarnasvæði þolir samkvæmt burðarþolsmati, að hámarkslífmassa viðkomandi smitvarnasvæðis.
    Matvælastofnun skal hafna umsókn ef umsækjandi leggur ekki fram þau gögn sem kveðið er á um í 27. gr., enda hafi umsækjanda verið gefinn hæfilegur frestur til úrbóta.

31. gr.

Breytingar á rekstrarleyfi.

    Rekstrarleyfishafi getur sótt um til Matvælastofnunar að rekstrarleyfi verði breytt hvað varðar eldissvæði á því smitvarnasvæði sem hann hefur rekstrarleyfi til að starfa á. Rekstrarleyfishafi getur með sama hætti sótt um að rekstrarleyfi verði breytt, m.a. með tilliti til leyfilegra tegunda í eldi, leyfilegra eldisstofna og þeirra mótvægisaðgerða sem kveðið er á um í rekstrarleyfi.
    Ákvæði 26. gr. gilda um umsókn um breytingu á rekstrarleyfi eftir því sem við á.

32. gr.

Úthlutun aukins burðarþols.

    Ef endurskoðun Hafrannsóknastofnunar á burðarþolsmati vatnshlots eða annarra hafsvæða skv. 5. gr. leiðir til hækkunar burðarþolsmats er rekstrarleyfishafa, sem þegar hefur fengið rekstrarleyfi á þeim smitvarnasvæðum sem verða fyrir áhrifum af hækkun burðarþolsmats, heimilt að sækja um hækkun á leyfilegum lífmassa til Matvælastofnunar en slík hækkun getur þó aldrei orðið meiri en hámarkslífmassi hverju sinni.
    Um umsókn skv. 1. mgr. skal að öðru leyti fara eftir ákvæðum þessa kafla. Skal sérstaklega höfð til hliðsjónar fyrri rekstrarsaga og eldissaga rekstraraðila. Ráðherra skal heimilt að setja nánari ákvæði í reglugerð um þau atriði sem tekið skal tillit til við afgreiðslu umsóknar um hækkun á leyfilegum lífmassa.
    Þegar umsókn um aukinn leyfilegan lífmassa samkvæmt þessari grein hefur verið afgreidd skal skrá nýjan leyfilegan lífmassa í skrá Matvælastofnunar skv. 5. gr.

33. gr.

Ótímabundin rekstrarleyfi.

    Uppfylli rekstrarleyfishafi öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skal rekstrarleyfi til sjókvíaeldis vera ótímabundið. Rekstrarleyfi skulu sæta breytingum samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma sem og afturköllun skv. XII. kafla.

VI. KAFLI

Starfræksla sjókvíaeldisstöðva og eftirlit.

34. gr.

Upphaf starfsemi.

    Óheimilt er að hefja rekstur samkvæmt rekstrarleyfi fyrr en Matvælastofnun hefur gert úttekt á sjókvíaeldisstöðvum sem starfræktar verða samkvæmt leyfinu og m.a. staðfest að fyrirhuguð framkvæmd og eldisbúnaður standist ströngustu staðla sem gerðir eru fyrir sjókvíaeldismannvirki og settir eru samkvæmt reglugerðum. Markmið úttektar er að staðreyna eftir föngum að rekstrarleyfishafi sé fær um að fullnægja skilyrðum laga þessara og skilmálum rekstrarleyfis.
    Óheimilt er að flytja eldisfisk eða seiði í sjókvíaeldisstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið og úttekt hefur farið fram.
    Sjókvíaeldisstöðvar skulu hafa stöðvarskírteini útgefið af faggiltri skoðunarstofu og skal skírteinið aðeins gilda fyrir eina sjókvíaeldisstöð á tilteknum stað. Í stöðvarskírteini skulu koma fram upplýsingar um hönnun, ástand og samsetningu búnaðar sjókvíaeldisstöðvar og vottun um að búnaður uppfylli kröfur laga og gildandi staðla samkvæmt reglugerðum.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um upphaf starfsemi, m.a. um staðarúttekt, matsgreiningar festinga, meginíhluti og stöðvarskírteini með reglugerð.

35. gr.

Innra eftirlit.

    Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, þ.m.t. fiskum og heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Innra eftirlit skal tryggja að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla eða rekstrarleyfi sem eru veitt samkvæmt þeim. Rekstrarleyfishafi skal sannprófa að eftirlit og úrbætur séu í samræmi við reglur um innra eftirlit.
    Innra eftirlit sjókvíaeldisstöðvar skal m.a. fela í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra í eldinu í samræmi við leiðbeiningar sem fram koma í reglugerð sem ráðherra setur. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem birta skal þær opinberlega í samræmi við 122. gr. Á grundvelli vöktunar getur rekstrarleyfishafi ákveðið að grípa til aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu sníkjudýra. Ákvörðun um aðgerðir skulu sendar til Matvælastofnunar ásamt rökstuðningi þjónustudýralæknis rekstrarleyfishafa. Matvælastofnun skal innan þriggja virkra daga taka afstöðu til aðgerða og getur innan þess frests synjað um beitingu fyrirhugaðra aðgerða. Matvælastofnun er heimilt að leita umsagnar fisksjúkdómanefndar og Hafrannsóknastofnunar áður en afstaða er tekin til aðgerða rekstrarleyfishafa. Rekstrarleyfishafi sjókvíaeldisstöðvar skal, sem hluta af innra eftirliti, starfrækja gæðakerfi þar sem fram koma verklagsreglur, m.a. um þjálfun starfsmanna og viðbragðsáætlanir. Leyfishafi skal sannreyna að verklagsreglur og viðbragðsáætlanir uppfylli markmið og gera nauðsynlegar úrbætur.
    Rekstrarleyfishafi skal sjá til þess að dýralæknir eða fisksjúkdómafræðingur komi í reglulegar dýraheilbrigðisheimsóknir á starfsstöðvar. Ráðherra setur í reglugerð lágmarkstíðni og kröfur um dýraheilbrigðisheimsóknir.
    Rekstrarleyfishafi skal, ótilkvaddur, senda Matvælastofnun skriflega staðfestingu á að farið sé að innri reglum í starfsemi rekstrarleyfishafa. Skulu slíkar staðfestingar sendar Matvælastofnun eigi sjaldnar en mánaðarlega á því formi sem Matvælastofnun ákveður. Matvælastofnun skal sannreyna reglulega að framkvæmd innra eftirlits með starfseminni sé í samræmi við lög og reglur.
    Ráðherra setur frekari ákvæði um innra eftirlit í reglugerð, þ.m.t. um viðbragðsáætlanir og skyldu rekstrarleyfishafa til að starfrækja gæðakerfi.

36. gr.

Eftirlit og skýrslugjöf.

    Matvælastofnun skal hafa eftirlit með sjókvíaeldi og sjókvíaeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga þessara. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi sjókvíaeldisstöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu uppfyllt. Eftirlit með heilbrigði og velferð fiska og heilnæmi eldisafurða skal einnig framkvæmt af Matvælastofnun í samræmi við lög þar að lútandi. Eftirlit Matvælastofnunar skal vera reglubundið en einnig áhættumiðað þannig að eftirlit skuli almennt vera í hlutfalli við áhættu í rekstri rekstrarleyfishafa, þ.m.t. þannig að stærri sjókvíaeldisstöðvar sæti meira eftirliti en minni sjókvíaeldisstöðvar, allt eftir nánari ákvörðun Matvælastofnunar.
    Til að Matvælastofnun geti framkvæmt eftirlit skv. 1. mgr. skal rekstrarleyfishafi mánaðarlega gefa Matvælastofnun skýrslu um starfsemi sína en stofnunin hefur jafnframt heimild til krefjast tímabundið tíðari skýrsluskila ef tilefni er til. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um framleiðslumagn stöðvar af slátruðum fiski, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski mældar í lífmassa og fjölda, uppruna fisks, sjúkdóma, sníkjudýr og önnur óhöpp í rekstri, svo og önnur þau atriði sem stofnuninni eru nauðsynleg til virks eftirlits samkvæmt lögum þessum. Halda skal atvikaskrá yfir öll frávik í starfsemi sjókvíaeldisstöðvar samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir frekari gögnum en hér greinir þegar tilefni er til. Matvælastofnun er heimilt að afla upplýsinga samkvæmt þessari grein rafrænt og skylda rekstrarleyfishafa til að skrá upplýsingarnar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til.
    Rekstrarleyfishafi skal vinna framleiðsluáætlun til 24 mánaða sem send skal Matvælastofnun til samþykktar eigi síðar en 1. mars ár hvert. Í framleiðsluáætlun skulu m.a. koma fram upplýsingar um útsetningu seiða og fiska á tímabilinu, smitvarnasvæði, eldissvæði og sjókvíaeldisstöðvar sem rekstrarleyfishafi hyggst nota á tímabilinu, fyrirhugað umfang starfsemi í hverri sjókvíaeldisstöð og fyrirhugaða slátrun og vinnslu á fiski á tímabilinu.
    Ráðherra skal í reglugerð mæla nánar fyrir um eftirlitshlutverk Matvælastofnunar. Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast framkvæmd eftirlitsins samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Um þagnarskylduna gilda ákvæði X. kafla stjórnsýslulaga og skal brot á þeim varða refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
    Matvælastofnun skal heimill óheftur aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til töku sýna og myndatöku, að atvikaskrá rekstrarleyfishafa og að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf. Þá skal rekstrarleyfishafi veita Matvælastofnun aðgang að upptökum úr eftirlitsmyndavélum og afrit af myndefni sé þess óskað.
    Matvælastofnun getur, með hæfilegum fyrirvara sem ákveða má í reglugerð, gert kröfu um að fá aðgang að myndavélum og öðrum eftirlitskerfum rekstrarleyfishafa til þess að fylgjast með eldi í rauntíma. Rekstrarleyfishafa er skylt að hafa yfir að ráða búnaði til þess að Matvælastofnun geti fengið nauðsynlegan aðgang samkvæmt þessari málsgrein.
    Vinnsla Matvælastofnunar á eftirlitsgögnum samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og reglur Persónuverndar um rafræna vöktun.
    Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu útbúa og birta sameiginlegar almennar starfsreglur varðandi samræmda framkvæmd eftirlits beggja stofnana með starfsemi rekstrarleyfishafa samkvæmt lögum þessum. Sé samræmd framkvæmd eftirlits ekki fýsileg skal gerð grein fyrir þeirri afstöðu og hún birt með sama hætti.
    Rekstrarleyfishafa er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara og ber að afhenda endurgjaldslaust sýni sem talin eru nauðsynleg til eftirlits. Rekstrarleyfishafa er skylt að veita Matvælastofnun endurgjaldslausan aðgang að tækjum og búnaði, þ.m.t. farartækjum til flutnings í sjókvíaeldisstöðvar, án fyrirvara til þess að framkvæma megi eftirlit með sjókvíum.

37. gr.

Búnaður sem ekki er í notkun.

    Þegar notkun búnaðar lýkur skal rekstrarleyfishafi fjarlægja allan slíkan búnað af eldissvæði að kröfu Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafi getur óskað eftir að Matvælastofnun veiti undanþágu frá skyldu til að fjarlægja búnað samkvæmt þessari grein enda verði búnaðurinn fyrirsjáanlega notaður til sjókvíaeldis á næstu 20 mánuðum frá þeim tíma talið þegar síðustu notkun lauk eða ef viðkomandi búnaður torveldar augljóslega ekki aðra nýtingu viðkomandi eldissvæðis.


VII. KAFLI

Laxahlutur.

38. gr.

Skráning laxahlutar o.fl.

    Matvælastofnun heldur skrá yfir laxahlut einstakra rekstrarleyfishafa sem og laxamagn rekstrarleyfishafa miðað við heildarlaxamagn hverju sinni. Laxamagn skal skráð á tiltekið smitvarnasvæði. Enginn má ala frjóan lax í sjókvíaeldi án skráningar í skrá Matvælastofnunar né ala meira magn frjós lax en þar kemur fram. Skráin skal birt opinberlega á vef Matvælastofnunar.
    Úthlutun og skráning laxahlutar samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildum til eldis á frjóum laxi.

39. gr.

Framsal og flutningur laxamagns milli smitvarnasvæða.

    Rekstrarleyfishöfum er heimilt að flytja laxamagn á milli smitvarnasvæða enda sé staðfestingar Matvælastofnunar á flutningnum aflað fyrir fram og skal slík staðfesting gefin út eigi síðar en viku eftir að Matvælastofnun hafa borist öll gögn til þess að staðfesta megi flutning milli smitvarnasvæða. Að teknu tillit til skiptihlutfalls áhættumats erfðablöndunar getur laxamagn viðkomandi rekstrarleyfishafa breyst við flutning milli smitvarnasvæða. Matvælastofnun skal í staðfestingu sinni skv. 1. málsl. tilgreina breytingu á laxamagni við flutning milli smitvarnasvæða. Laxamagn verður þó ekki flutt milli landshluta.
    Rekstrarleyfishöfum er heimilt að framselja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa með sömu skilyrðum og breytingum og greinir í 1. mgr. Í tilkynningu til Matvælastofnunar um flutning milli rekstrarleyfishafa skal greint frá kaupverði eða leiguverði laxahlutar. Rekstrarleyfishöfum skal með sama hætti heimilt að leigja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa, þó ekki til eldis meira en tveggja kynslóða í senn, sem leigutaki elur óslitið, að teknu tilliti til hvíldartíma. Að leigu lokinni skal leigusala skylt að selja viðkomandi laxahlut eða nýta hann til eigin eldis.
    Hafi rekstrarleyfishafi veðsett rekstrarleyfi sitt ásamt laxahlut skv. 120. gr. skal rekstrarleyfishafi afla samþykkis veðhafa áður en sótt er um framsal eða leigu laxahlutar til Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafi eða veðhafi geta óskað eftir því að veðsetningar rekstrarleyfis sé getið í skrá skv. 38. gr. Rétt skráning veðsetningar er á ábyrgð veðsala og veðhafa en ekki Matvælastofnunar.

40. gr.

Innköllun og útboð laxahlutar.

    Sé laxahlutur ekki nýttur að fullu a.m.k. einu sinni á þriggja ára tímabili, annaðhvort með eigin notum rétthafa eða útleigu skal innkalla þann laxahlut sem ekki var nýttur án endurgjalds og sá laxahlutur færður á nafn Matvælastofnunar í skráningu skv. 1. mgr. 38. gr. Sama gildir ef rétthafi laxahlutar hefur glatað öllum rekstrarleyfum til sjókvíaeldis. Innkallaður laxahlutur skv. 1. og 2. málsl. telst vera óráðstafaður laxahlutur. Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. skal rekstrarleyfishafa, sem keypt hefur laxahlut í útboði Matvælastofnunar skv. 2. mgr., heimilt að fresta nýtingu viðkomandi laxahlutar í fjögur ár í stað þriggja ára en gildir það einungis um fyrsta fjögurra ára tímabil að lokinni úthlutun. Einnig skal heimilt að fresta nýtingu laxahlutar í fjögur ár ef aukning hefur orðið á heildarlaxamagni.
    Óráðstöfuðum laxahlut skal úthlutað til umsækjanda með útboði og skulu bjóðendur tilgreina tilboðsfjárhæð í tilboði sínu. Einungis aðilar sem fengið hafa úthlutað smitvarnasvæði til sjókvíaeldis hafa rétt á að bjóða í laxahlut. Tilboðsfjárhæð rennur í ríkissjóð.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um innköllun og útboð samkvæmt þessari grein í reglugerð en heimilt er að kveða á um sömu skilyrði og viðmið og gilda við útboð smitvarnasvæða.

41. gr.

Aukning heildarlaxamagns vegna nýrra svæða.

    Aukist heildarlaxamagn vegna afmörkunar nýrra smitvarnasvæða skal sú viðbót ekki koma til aukningar á laxamagni þeirra rekstrarleyfishafa sem þegar hafa yfir að ráða laxahlut heldur skal sú viðbót við heildarlaxamagn sem þannig verður til mynda óráðstafaðan laxahlut sem skal boðinn út.
    Einungis aðilar sem fengið hafa úthlutað smitvarnasvæði í viðkomandi landshluta eða hafsvæði geta boðið í óráðstafaðan laxahlut skv. 1. mgr.

VIII. KAFLI

Strok.

42. gr.

Bann við stroki.

    Skylt er að halda eldisfisk innan sjókvía og skylt að nota búnað sem kemur í veg fyrir strok. Rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir strok, sem og viðhafa verkferla sem vakta strok og ástand sjókvía.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari skilyrði um þær kröfur sem gerðar eru til rekstrarleyfishafa samkvæmt þessari grein.

43. gr.

Tilkynning um strok og fyrstu viðbrögð.

    Rekstrarleyfishafi sem hefur ástæðu til að ætla að eldisfiskur geti strokið eða hafi strokið skal án tafar tilkynna slíkan atburð til Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafa ber að tilkynna um öll þau frávik sem leitt geta til stroks, þ.m.t. öll göt á netpokum. Rekstrarleyfishafi skal án tafar hefja leit að orsökum, meta umfang og koma í veg fyrir frekara strok. Þegar tilkynning berst Matvælastofnun, eða fyrir liggur rökstuddur grunur um strok, skal stofnunin að eigin frumkvæði kanna hvort strok hafi átt sér stað. Staðfesti Matvælastofnun strok eldisfisks skal stofnunin tryggja að brugðist sé við í samræmi við 44. og 45. gr.
    Ef fiskar með eldiseinkenni, eða sem grunur er um að séu af eldisuppruna, veiðast í ám eða veiðivötnum ber stjórn veiðifélags eða veiðiréttarhafa þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, að tilkynna um slíkt til Matvælastofnunar.

44. gr.

Veiði innan 200 metra frá strokstað.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að grípa til allra þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru og í hans valdi standa, til þess að varna því að slíkur atburður, sem greinir í 1. mgr. 43. gr., valdi vistfræðilegu tjóni. Er honum í því skyni m.a. skylt, þrátt fyrir friðun á villtum fiski á svæðinu og án tillits til réttar eigenda sjávarjarða í netlögum, að gera allt sem í hans valdi stendur til að slíkur fiskur verði veiddur á svæði innan 200 metra frá strokstað. Skal hver sjókvíaeldisstöð eiga og viðhalda nauðsynlegum búnaði í því skyni sem tekur mið af stærð eldisfisks á hverjum tíma. Veiðar þær sem hér um ræðir skulu ávallt fara fram í samráði við fulltrúa Matvælastofnunar.
    Skylda til veiða skv. 1. mgr. takmarkast við þrjá sólarhringa frá því að ljóst er að fiskur hafi sloppið út, ef slíkur atburður gerist á göngutíma innlendra stofna laxfiska, en veiðitíminn í öðrum tilvikum skal háður ákvörðun Matvælastofnunar, sem leita skal ráðgjafar hjá Hafrannsóknastofnun.
    Ef rekstrarleyfishafi hefur ekki hafið aðgerðir skv. 1. mgr. innan tólf klukkustunda frá því að ljóst er að eldisfiskur slapp út getur Matvælastofnun, ef þörf krefur, gefið út almenna heimild til veiða á svæðinu með sömu skilyrðum og fram koma í 1. mgr.
    Allan kostnað Matvælastofnunar og annarra stjórnvalda vegna nauðsynlegra aðgerða samkvæmt þessari grein skal rekstrarleyfishafi greiða.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um grein þessa, m.a. um hvernig staðið skuli að veiðum og um kröfur til nauðsynlegs búnaðar.

45. gr.

Veiði í veiðiám eða vötnum.

    Ef atburður verður sem greinir í 1. mgr. 43. gr. skal Matvælastofnun, í samráði við Fiskistofu og viðeigandi veiðifélög eða veiðiréttarhafa þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, ákvarða hvort leita skuli að strokufiski í veiðiám eða vötnum og hann fjarlægður.
    Sé talin nauðsyn á því að fara í aðgerðir skv. 1. mgr. skal Fiskistofa hafa samráð við stjórn veiðifélags, eða veiðiréttarhafa þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað, um aðgerðir skv. 1. mgr.
    Allan kostnað Matvælastofnunar og annarra stjórnvalda vegna nauðsynlegra aðgerða samkvæmt þessari grein skal rekstrarleyfishafi greiða.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um grein þessa, m.a. um hvernig staðið skuli að veiðum í veiðiám og vötnum.

46. gr.

Upprunagreining eldisfiska.

    Fiskur sem veiðist í aðgerðum skv. 2. mgr. 43. gr., 44. og 45. gr. skal afhentur Hafrannsóknastofnun til nauðsynlegrar sýnatöku til að greina uppruna.
    Rekstrarleyfishafi skal greiða allan kostnað Hafrannsóknastofnunar vegna nauðsynlegra aðgerða skv. 1. mgr. Ef niðurstöður sýnatöku vegna aðgerða skv. 2. mgr. 43. gr. leiða í ljós að rekja megi uppruna fisks til ákveðins rekstrarleyfishafa skal viðkomandi rekstrarleyfishafi greiða nauðsynlegan sýnatökukostnað en að öðrum kosti skal ríkissjóður greiða kostnað sýnatökunnar.

47. gr.

Upplýsingar um strok.

    Rekstrarleyfishafi skal innan tveggja daga frá tilkynningu, sbr. 43. gr., senda Matvælastofnun skýrslu þar sem að lágmarki skulu koma fram eftirfarandi atriði:
     a.      áætluð tímasetning og staðsetning stroks,
     b.      líkleg dagsetning stroks,
     c.      líklegur fjöldi fiska sem strauk,
     d.      líklegt hlutfall kynþroska fisks,
     e.      líkleg orsök stroks að mati rekstrarleyfishafa.
    Matvælastofnun skal birta skýrslu um árangur af veiðum skv. 44. og 45. gr.
    Matvælastofnun skal birta upplýsingar úr skýrslum skv. 1. og 2. mgr. opinberlega.

48. gr.

Þekkt strok.

    Fyrir hvern strokinn frjóan lax sem finnst í ám sem eru hluti af áhættumati erfðablöndunar og sem stafar frá rekstrarleyfishafa, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi greiða sekt til ríkissjóðs sem nemur 5.000.000 kr.
    Fyrir hvern strokinn frjóan lax sem finnst í ám sem ekki eru hluti af áhættumati erfðablöndunar og sem stafar frá rekstrarleyfishafa, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi greiða sekt til ríkissjóð sem nemur 1.000.000 kr.
    Ef strok verður þegar meðalþyngd frjórra laxa í viðkomandi sjókví er undir 1 kg skal reikna fjölda fiska vegna sektarákvörðunar sem margfeldi endurkomuhlutfalls og áætlaðs fjölda strokinna fiska. Rekstrarleyfishafi skal greiða sekt til ríkissjóðs vegna hvers fisks skv. 1. málsl. sem nemur 10.000 kr. Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð um endurkomuhlutfall að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Heimilt er að fresta sektarákvörðun samkvæmt þessari málsgrein þar til slátrað er eða talið upp úr þeirri sjókví þar sem strok átti sér stað.
    Stroknir frjóir laxar sem rekstrarleyfishafi veiðir skv. 44. gr. eða sem veiðast við vöktun í fiskiteljara skulu ekki teljast skv. ákvæðum 1. og 2. mgr.
    Matvælastofnun skal leggja á sektir samkvæmt ákvæði þessu. Ákvæði 5.–7. mgr. 133. gr. skulu að öðru leyti gilda um sektarákvörðun samkvæmt þessari grein. Hámarkssekt samkvæmt þessari grein vegna sama stroks er 750.000.000 kr. Hámarkssekt miðast við vísitölu neysluverðs í janúar 2024 og breytist í samræmi við breytingar á henni.

49. gr.

Óþekkt strok.

    Við lok eldis á hverri kynslóð skal telja alla fiska sem er slátrað og sá fjöldi borinn saman við fjölda útsettra fiska að frádregnum samanlögðum afföllum og þekktu stroki. Ef mismunur er annars vegar á milli fjölda fiska sem slátrað er við lok eldis á tiltekinni kynslóð og hins vegar fjölda útsettra fiska, að frádregnum samanlögðum afföllum og fjölda fiska sem vitað er að hafa strokið, þá skal sá mismunur teljast óþekkt strok. Þegar óþekkt strok er reiknað skal nota lægri óvissumörk í fjölda útsettra fiska. Við útsetningu fiska skal nota talningarbúnað sem fullnægir lágmarksskilyrðum um nákvæmni samkvæmt reglugerð.
    Óþekkt strok skal ekki fara yfir viðmiðunarmörk sem ákveðin skulu í reglugerð. Fari óþekkt strok yfir viðmiðunarmörk skal rekstrarleyfishafi skila Matvælastofnun skýrslu um líklegar orsakir og ástæður stroks sem Matvælastofnun skal birta opinberlega.

50. gr.

Óviðráðanleg ytri atvik sem leiða til stroks.

    Í undantekningartilfellum er Matvælastofnun heimilt að lækka eða fella niður sektir samkvæmt þessum kafla ef strok kemur til vegna óviðráðanlegra atvika utan stjórnunarsviðs rekstrarleyfishafa og sem ekki teljast hluti af fyrirsjáanlegri áhættu í rekstri sjókvíaeldis. Fárviðri, hafís og athafnir þriðja aðila, sem er ótengdur rekstrarleyfishafa, skulu m.a. teljast til slíkra óviðráðanlegra ytri atvika enda hafi rekstrarleyfishafi gripið til allra tiltækra ráðstafana og aðgerða til þess að varna stroki af völdum slíkra atburða. Atvik sem varða starfsmenn, verktaka og þjónustuaðila á vegum rekstrarleyfishafa skulu ekki teljast til óviðráðanlegra ytri atvika.

51. gr.

Aðrar skyldur rekstrarleyfishafa.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að nota talningarbúnað við útsetningu fiska sem fullnægir lágmarksskilyrðum um nákvæmni samkvæmt reglugerð.
    Í reglugerð má kveða á um lágmarksstærð útsettra fiska og skal þá miða við minnsta fisk í útsetningu en ekki meðalþyngd fiska.
    Frávik frá væntri fóðurnotkun skal tilkynna Matvælastofnun. Í reglugerð skal skilgreina hvað telst til frávika í fóðurnotkun.

IX. KAFLI

Afföll.

52. gr.

Reglulegt eftirlit með afföllum.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að halda afföllum á hverju smitvarnasvæði í lágmarki og huga að allri velferð fiska í sjókvíaeldi. Rekstrarleyfishafa er skylt að fjarlæga dauðan fisk og lífrænar leifar fiska reglulega úr sjókvíum. Sama gildir um fiska sem þarf að farga vegna sára eða sjúkdóma. Rekstrarleyfishafi skal skrá fjölda og þyngd fiska sem og þyngd lífrænna leifa sem eru fjarlægðar. Lífrænar leifar skulu umreiknaðar í fjölda fiska eftir fyrirmælum Matvælastofnunar.
    Ráðherra getur kveðið á um í reglugerð að fjarlæga skuli dauðan, særðan eða sjúkan fisk sem og lífrænar leifar fiska úr sjókvíum daglega eða sjaldnar. Í reglugerð má einnig kveða á um frestun skyldu til að fjarlægja dauðan, særðan eða sjúkan fisk sem og lífrænar leifar fiska, svo sem vegna veðurskilyrða. Þegar sérstaklega stendur á, eða ef þörf er á auknu eftirliti á tilteknu tímabili, getur Matvælastofnun mælt fyrir um að fjarlæga skuli dauðan, særðan eða sjúkan fisk sem og lífrænar leifar fiska oftar en daglega.
    Ráðherra er heimilt að setja ákvæði í reglugerð um að fyrstu kynslóðir ófrjós lax sem rekstrarleyfishafi elur séu undanþegnar ákvæðum þessa kafla. Sama gildir þegar eldi hefst fyrst í hálflokuðum búnaði eða lokuðum búnaði hjá tilteknum rekstraraðila.

53. gr.

Upplýsingar um afföll.

    Rekstrarleyfishafi skal senda Matvælastofnun skýrslu um afföll mánaðarlega en stofnunin hefur jafnframt heimild til krefjast tímabundið tíðari skýrsluskila ef tilefni er til.
    Upplýsingar í skýrslu um afföll skv. 1. mgr. skulu að lágmarki tilgreina eftirfarandi:
     a.      sjókví eða aðra staðsetningu þar sem afföll áttu sér stað,
     b.      dagsetningu þegar dauðir fiskar og lífrænar leifar fiska voru fjarlægðar,
     c.      fjölda fiska sem voru fjarlægðir,
     d.      þyngd fiska og lífrænna leifa fiska og vigtunaraðferð,
     e.      líklegar ástæður affalla að mati rekstrarleyfishafa.
    Matvælastofnun skal birta upplýsingar úr skýrslum skv. 1. mgr. opinberlega.


54. gr.

Breytingar á leyfilegum lífmassa vegna affalla.

    Matvælastofnun skal reikna afföll á smitvarnasvæði fyrir hverja kynslóð eldisfisks á smitvarnasvæði. Afföll skulu reiknuð í fjölda fiska. Afföll á hverju smitvarnasvæði skulu vera afföll alls sjókvíaeldis á viðkomandi smitvarnasvæði, óháð fjölda eldissvæða og sjókvíaeldisstöðva.
    Leyfilegur lífmassi á smitvarnasvæði skal vera 3% hærri en að öðrum kosti væri heimilt ef afföll síðustu kynslóðar á viðkomandi smitvarnasvæði voru 10% eða lægri.
    Leyfilegur lífmassi á smitvarnasvæði skal vera óbreyttur ef afföll síðustu kynslóðar á viðkomandi smitvarnasvæði voru hærri en 10% en lægri en 20%.
    Leyfilegur lífmassi á smitvarnasvæði skal vera 3% lægri en að öðrum kosti væri heimilt ef afföll síðustu kynslóðar á viðkomandi smitvarnasvæði voru 20% eða hærri.
    Leyfilegur lífmassi samkvæmt þessari grein verður aldrei meiri en hámarkslífmassi samkvæmt burðarþolsmati segir til um.
    Breytingar skv. 2.–4. mgr. eru ótímabundnar og verður aðeins breytt að nýju ef afföll breytast skv. 2.–4. mgr. eða ef nýr rekstrarleyfishafi hefur sjókvíaeldi á viðkomandi smitvarnasvæði.
    Breytingar á leyfilegum lífmassa samkvæmt þessari grein skulu miðast við leyfilegan lífmassa hverju sinni eins og hann hefur áður breyst en ekki hámarkslífmassa samkvæmt burðarþolsmati. Breytingar samkvæmt þessari grein skulu jafnframt miðast við hlutfall leyfilegs lífmassa sem nýttur er hverju sinni þegar breyting á sér stað. Takmarkanir eða aukning á heimildum á hverju smitvarnasvæði samkvæmt þessari grein eru til viðbótar við aðrar takmarkanir eða aukningu samkvæmt lögum þessum, m.a. vegna lúsasmits.
    Hafi ekki reynst mögulegt að hækka leyfilegan lífmassa skv. 1. mgr. vegna þess að hámarkslífmassa var þegar náð þegar hækkun hefði annars átt að koma til framkvæmda skal Matvælastofnun færa slíka hækkun á móti þeim lækkunum sem síðar kunna að koma til, þó þannig að ekki er hægt að færa slíka hækkun á móti lækkunum ef meira en fimm ár eru síðan heimild til hækkunar varð fyrst til.
    Komi til breytingar á hámarkslífmassa samkvæmt þessum kafla og X. kafla um lúsasmit á sama tíma skal skerðing samkvæmt þessum kafla nema 1,5% í stað 3%.

55. gr.

Óviðráðanleg ytri atvik sem leiða til affalla.

    Í undantekningartilfellum er Matvælastofnun heimilt við útreikning framleiðslutakmarkana samkvæmt þessum kafla að taka tillit til óviðráðanlegra atvika utan stjórnunarsviðs rekstrarleyfishafa og sem ekki teljast hluti af eðlilegri áhættu í rekstri sjókvíaeldis. Fárviðri, hafís og athafnir þriðja aðila sem er ótengdur rekstrarleyfishafa skulu m.a. teljast til slíkra óviðráðanlegra ytri atvika enda hafi rekstrarleyfishafi gripið til allra tiltækra ráðstafana og aðgerða til þess að verjast afföllum af völdum slíkra atburða. Atvik sem varða sjúkdóma, sníkjudýr, náttúru viðkomandi smitvarnasvæðis eða starfsmenn, verktaka og þjónustuaðila á vegum rekstrarleyfishafa skulu ekki teljast til óviðráðanlegra ytri atvika.

X. KAFLI

Lús.

56. gr.

Reglulegt eftirlit og viðbrögð við lús.

    Rekstrarleyfishafa er skylt að halda lús á hverju smitvarnasvæði í lágmarki og fylgjast með lúsasmiti. Rekstrarleyfishafi skal tilkynna niðurstöður lúsatalningar til Matvælastofnunar. Rekstrarleyfishafar skulu starfa eftir forvarna- og viðbragðsáætlun vegna lúsasmits sem samþykkt er af Matvælastofnun og skal forvarna- og viðbragðsáætlun fela í sér aðgerðir vegna viðkomu lúsa í sjókvíaeldi.
    Matvælastofnun er heimilt að krefjast lúsatalningar og fylgjast með lúsatalningu rekstrarleyfishafa, þ.m.t. við óboðað eftirlit. Þá er Matvælastofnun heimilt, á eigin vegum eða með aðkomu faggilds eftirlitsaðila, að framkvæma lúsatalningu á kostnað rekstrarleyfishafa.
    Setja skal með reglugerð hámark á fjölda lyfjameðferða og hámark meðferða með hverju einstöku lyfi. Rekstrarleyfishafi skal ávallt hafa aðgang að búnaði til þess að meðhöndla eða fjarlægja lús án lyfjameðhöndlunar á þeim árstíma þegar hitastig í sjó er til þess fallið að lús geti fjölgað sér.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um að rekstrarleyfishafar skuli grípa til sérstakra aðgerða ef rannsóknir Hafrannsóknastofnunar gefa tilefni til að ætla megi að mikil hætta sé á lúsasmiti.
    Í reglugerð er heimilt að kveða á um að undanskilja megi einstök smitvarnasvæði frá vöktun eða skyldu til að hafa tiltækan búnað skv. 3. mgr. ef málefnalegar ástæður sem snúa að velferð fiska eiga við og ef ekki hefur orðið vart við lúsasmit á tilteknu tímabili.

57. gr.

Upplýsingar um lús.

    Rekstrarleyfishafi skal senda Matvælastofnun upplýsingar um lúsatalningu, sbr. 1. mgr. 56. gr., eigi síðar en þremur dögum eftir talningu.
    Upplýsingar um lúsasmit skv. 1. mgr. skulu að lágmarki tilgreina eftirfarandi:
     a.      talningu lúsa í einstökum sjókvíum,
     b.      sjávarhita,
     c.      dagsetningu vöktunar,
     d.      aðgerðir sem rekstrarleyfishafi hefur ráðist í samkvæmt viðbragðsáætlun,
     e.      árangur í aðgerðum gegn lúsasmiti.
    Matvælastofnun skal birta upplýsingar úr skýrslum skv. 1. mgr. opinberlega.

58. gr.

Punktakerfi.

    Punktar skulu skráðir á smitvarnasvæði vegna fjölda lúsasmita sem fer yfir tiltekin mörk og vegna fjölda lyfjameðferða gegn lús. Matvælastofnun skal halda opinbera skrá yfir punkta sem skráðir eru fyrir hverja kynslóð fisks í sjókvíaeldi. Taki aðgerðir aðeins til hluta sjókvíaeldisstarfsemi á smitvarnasvæði, þá skal fjöldi punkta skerðast og skal þá miða við fjölda sjókvía sem sætir meðhöndlun.
    Ráðherra skal ákveða með reglugerð viðmið um fjölda og tegund lúsa á hverjum fiski vegna punktakerfis, tímasetningu talninga og fjölda lyfjameðferða gegn lús sem varða skráningu punkta á smitvarnasvæði, sem og þann fjölda punkta sem skráður skal í hverju tilfelli.

59. gr.

Breyting leyfilegs lífmassa vegna lúsasmits og meðhöndlunar.

    Leyfilegur lífmassi hvers smitvarnasvæðis skal vera 5% hærri en að öðrum kosti væri heimilt ef punktar skv. 58. gr. voru færri en fjórir vegna eldis undanfarandi kynslóðar.
    Leyfilegur lífmassi hvers smitvarnasvæðis skal vera óbreyttur frá næsta undanfarandi affallatímabili ef punktar skv. 58. gr. voru fjórir til átta vegna eldis undanfarandi kynslóðar.
    Leyfilegur lífmassi hvers smitvarnasvæðis skal vera 5% lægri en að öðrum kosti væri heimilt ef punktar skv. 58. gr. voru fleiri en átta vegna eldis undanfarandi kynslóðar.
    Leyfilegur lífmassi samkvæmt þessari grein getur aldrei orðið meira en hámarkslífmassi samkvæmt burðarþolsmati segir til um.
    Breytingar skv. 1.–3. mgr. eru ótímabundnar og verður aðeins breytt að nýju ef punktafjöldi breytist skv. 1.–3. mgr. eða ef nýr rekstrarleyfishafi hefur sjókvíaeldi á viðkomandi smitvarnasvæði.
    Breytingar á leyfilegum lífmassa samkvæmt þessara grein skulu miðast við leyfilegan lífmassa hverju sinni eins og hann hefur áður breyst en ekki upphaflegan hámarkslífmassa samkvæmt burðarþolsmati. Breytingar samkvæmt þessari grein skulu jafnframt miðast við hlutfall leyfilegs lífmassa sem nýttur er hverju sinni þegar breyting á sér stað. Takmarkanir eða aukning á heimildum á hverju smitvarnasvæði samkvæmt þessari grein eru til viðbótar við aðrar takmarkanir eða aukningu samkvæmt lögum þessum, m.a. vegna affalla.
    Hafi ekki reynst mögulegt að hækka leyfilegan lífmassa skv. 1. mgr. vegna þess að hámarkslífmassa var þegar náð þegar hækkun hefði annars átt að koma til framkvæmda skal Matvælastofnun færa slíka hækkun á móti þeim lækkunum sem síðar kunna að koma til, þó þannig að ekki er hægt að færa slíka hækkun á móti lækkunum ef meira en fimm ár eru síðan heimild til hækkunar varð fyrst til.

60. gr.

Fjarlæging lúsasmitaðs fisks.

    Rekstrarleyfishafa er óheimilt að ala eldisfisk í einstökum sjókvíum þegar fjöldi lúsa á fiski er yfir viðmiðunarmörkum þrátt fyrir að tilraunir til lyfjameðhöndlunar og meðhöndlunar með búnaði hafi verið gerðar. Fari fjöldi lúsa yfir viðmiðunarmörk þrátt fyrir meðhöndlun allir fiskar fjarlægðir úr sjókví. Sé fiskur kominn yfir viðmiðunarþyngd er Matvælastofnun heimilt að skylda rekstrarleyfishafa til að slátra öllum fiski yfir viðmiðunarþyngd án lyfjameðferðar eða annarrar meðferðar.
    Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð þar sem kveðið er á um hvernig skoðun fisks fer fram og hver viðmiðunarmörk lúsasmits skulu vera. Í reglugerð skal kveða á um skilyrði fyrir förgun fisks, samhæfingu milli rekstrarleyfishafa vegna lúsasmits ef við á, heimildir til að fyrirskipa slátrun og förgun sem og skyldu til frekari meðhöndlunar við lús. Í reglugerð má m.a. kveða á um að skoða skuli úrtak fiska og stærð úrtaks. Við ákvörðun viðmiðunarmarka lúsasmits í reglugerð skal kveðið á um tiltekinn hámarksfjölda lúsa sem finnst á fiski. Í reglugerð skal enn fremur tilgreind viðmiðunarþyngd fisks til slátrunar, sbr. 1. mgr.
    Rekstrarleyfishafi skal skila tillögu til Matvælastofnunar um förgun fisks sem er fjarlægður úr sjókvíum samkvæmt þessari grein og skal samþykki Matvælastofnunar á aðferð við förgun liggja fyrir áður en fiskur er fjarlægður úr sjókvíum.

XI. KAFLI

Kynþroska lax.

61. gr.

Eldi kynþroska eldislax.

    Rekstrarleyfishafi skal seinka kynþroska frjós eldislax svo lengi sem verða má. Óheimilt er að ala frjóan eldislax þannig að áætlað hlutfall kynþroska eldislax í tiltekinni kynslóð eldislax eða í tiltekinni sjókví sé yfir 1% af áætluðum heildarfjölda eldisfisks í viðkomandi kynslóð eða sjókví.
    Fari hlutfall kynþroska fisks í sjókví yfir 5% af áætluðum heildarfjölda eldisfisks í viðkomandi sjókví skulu allir kynþroska fiskar fjarlægðir úr sjókví. Fari hlutfall kynþroska fisks í sjókví yfir 3% af áætluðum heildarfjölda eldisfisks í viðkomandi sjókví á tímabilinu júní til nóvember skulu allir kynþroska fiskar fjarlægðir úr sjókví.
    Rekstrarleyfishafi skal skila tillögu til Matvælastofnunar um förgun eða slátrun fisks sem er fjarlægður úr sjókvíum samkvæmt þessari grein og skal samþykki Matvælastofnunar á aðferð við förgun eða slátrun liggja fyrir áður en fiskur er fjarlægður úr sjókvíum. Matvælastofnun er heimilt gera kröfu um förgun eða slátrun innan ákveðinna tímamarka.
    Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð þar sem kveðið er á um hvernig skoðun fisks fer fram, frest til slátrunar og hvernig heildarfjöldi kynþroska eldisfisks skal áætlaður. Í reglugerð má m.a. kveða á um að skoða skuli úrtak fiska og stærð úrtaks.

62. gr.

Aðgerðir til að seinka kynþroska.

    Rekstrarleyfishafi skal viðhafa áætlun til að koma í veg fyrir og seinka kynþroska eldislax. Skal áætlun rekstrarleyfishafa send Matvælastofnun til samþykktar.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um skyldu til ljósastýringar eða annarra aðgerða til að fresta eða koma í veg fyrir kynþroska.

63. gr.

Sérstakt eftirlit vegna kynþroska fisks.

    Við slátrun skal rekstrarleyfishafi hafa eftirlit með hlutfalli kynþroska lax af slátruðum laxi og skal rekstrarleyfishafi veita Matvælastofnun allar upplýsingar þar að lútandi. Matvælastofnun er jafnframt heimilt að hafa eftirlit með kynþroska laxa bæði í sjókvíum og í sláturhúsum. Kynþroska lax skal tekinn frá við slátrun og talinn sérstaklega.
    Sé ástæða til að ætla að hlutfall kynþroska eldislax sé orðið hærra en 0,5% í sjókví skal rekstrarleyfishafi grípa til sérstakra aðgerða til þess að koma í veg fyrir strok, m.a. með aukinni tíðni köfunar eða myndatöku til að kanna ástand sjókvía og eldisbúnaðar.


XII. KAFLI

Afturköllun rekstrarleyfis til sjókvíaeldis.

64. gr.

Forsendubrestur.

    Rekstrarleyfishafi skal innan fimm ára frá fyrstu útgáfu rekstrarleyfis nýta a.m.k. einu sinni 20% af hámarkslífmassa viðkomandi smitvarnasvæðis. Ef starfsemi rekstrarleyfishafa nær ekki viðmiði skv. 1. málsl. skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfið úr gildi. Matvælastofnun getur veitt undanþágu frá 1. málsl. ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töfinni, þó ekki lengur en 12 mánuði.
    Að loknu upphafstímabili skv. 1. mgr. skal Matvælastofnun fella úr gildi rekstrarleyfi ef starfsemi á smitvarnasvæði stöðvast í þrjú ár eða ef mesta nýting leyfilegs lífmassa á hverju ári er undir 35% að meðaltali á ári á sex ára tímabili.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. og 2. mgr. skal Matvælastofnun veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta.
    Hafi rekstrarleyfishafi glatað meira en 40% af upphaflegum leyfilegum lífmassa smitvarnasvæðis vegna skerðinga skv. IX. og X. kafla skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfi úr gildi.
    Fyrirgeri rekstrarleyfishafi rétti sínum til rekstrarleyfis samkvæmt þessari grein telst rekstrarleyfishafi hafa glatað rétti til að starfa á viðkomandi smitvarnasvæði, óháð því hvort starfsleyfi sé í gildi eða ekki samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, og má bjóða smitvarnasvæðið út að nýju. Skal úthlutun smitvarnasvæðis til viðkomandi aðila falla niður án bóta og endurgreiðslu.

65. gr.

Afturköllun rekstrarleyfis til sjókvíaeldis.

    Matvælastofnun getur afturkallað rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra. Einnig er heimilt að afturkalla leyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn skilyrðum rekstrarleyfis eða skilyrðum þess er að öðru leyti ekki fullnægt. Þá er og heimilt að afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi verður ófær um að stunda rekstur.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skal Matvælastofnun veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta nema um mjög alvarlegt brot sé að ræða.
    Fyrirgeri rekstrarleyfishafi rétti sínum til rekstrarleyfis samkvæmt þessari grein telst viðkomandi rekstrarleyfishafi hafa glatað rétti til að starfa á viðkomandi smitvarnasvæði, óháð því hvort starfsleyfi sé í gildi eða ekki samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, og má þá bjóða smitvarnasvæðið út að nýju.

XIII. KAFLI

Umhverfissjóður og menntasjóður sjókvíaeldis.

66. gr.

Umhverfissjóður sjókvíaeldis.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis er sjálfstæður sjóður sem heyrir undir ráðherra. Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Markmið sjóðsins er að lágmarka umhverfisáhrif sjókvíaeldis og efla menntun á sviði sjókvíaeldis. Með sjóðnum skal greiða kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður.

67. gr.

Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis lýtur fjögurra manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Einn stjórnarmaður skal skipaður samkvæmt tilnefningu Landssambands sjókvíaeldisstöðva, einn samkvæmt tilnefningu Landssambands veiðifélaga og einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með umhverfismál. Ráðherra skal skipa formann sjóðsins án tilnefningar og skal atkvæði hans ráða úrslitum ef atkvæði falla jafnt. Varamenn skal skipa með sama hætti.

68. gr.

Verkefni stjórnar.

    Stjórn Umhverfissjóðs sjókvíaeldis hefur yfirumsjón með starfsemi hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Verkefni stjórnar eru að:
     a.      skila ársreikningum og reglulegu yfirliti um starfsemi sjóðsins til ráðherra,
     b.      taka ákvarðanir um forgangsröðun verkefna og greiðslur úr sjóðnum,
     c.      taka ákvarðanir um ávöxtun eigin fjár,
     d.      tryggja að upplýsingar og gögn sem unnin eru á vegum sjóðsins séu aðgengileg almenningi.

69. gr.

Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Ráðstöfunarfé Umhverfissjóðs sjókvíaeldis er:
     a.      árleg fjárveiting á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum,
     b.      arður af eigin fé.

70. gr.

Árgjald Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.

    Rekstrarleyfishafi skal greiða árlegt gjald að upphæð 2.800 kr. fyrir hvert tonn leyfilegs lífmassa hvers smitvarnasvæðis sem hann hefur rekstrarleyfi fyrir. Gjaldið skal taka breytingum miðað við vísitölu neysluverðs og breytast í samræmi við breytingar á henni.

71. gr.

Álagning og innheimta árgjalds.

    Matvælastofnun annast álagningu og innheimtu árgjalds skv. 70 gr. Ráðherra er þó heimilt að fela innheimtumönnum ríkissjóðs eða öðrum aðilum innheimtu þess.
    Eigi síðar en 30. ágúst ár hvert skal Matvælastofnun hafa lokið álagningu á gjaldendur skv. 70. gr. og skal gjaldendum tilkynnt bréflega um hana.
    Gjöld skv. 70. gr. vegna yfirstandandi almanaksárs falla í gjalddaga 1. október ár hvert. Ef gjöld eru ekki greidd innan 30 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af þeim skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu. Álagning gjalds er aðfararhæf ákvörðun. Matvælastofnun getur krafist fullnustu með aðfarargerð þegar liðnir eru 30 dagar frá gjalddaga.

72. gr.

Skipting úthlutunarfjár.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis skal veita 80% af árlegu úthlutunarfé til Hafrannsóknastofnunar. Skal því úthlutunarfé varið til gerðar og endurskoðunar burðarþolsmats og áhættumats erfðablöndunar og tengdra rannsókna, allt samkvæmt nánari ákvörðun Hafrannsóknastofnunar.
    Umhverfissjóður sjókvíaeldis skal úthluta 20% af árlegu úthlutunarfé til rannsóknar- og menntaverkefna sem tengjast sjókvíaeldi á vegum annarra en Hafrannsóknastofnunar. Auglýsa skal eigi sjaldnar en árlega eftir umsóknum um styrki samkvæmt þessari málsgrein.

73. gr.

Skattaleg meðferð gjalds.

    Gjald skv. XIII. kafla telst rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

74. gr.

Reglugerðarheimild. Kostnaður af rekstri. Skattskylda.

    Ráðherra er heimilt að setja með reglugerð nánari ákvæði um starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, þ.m.t. um málsmeðferð og reglur um greiðslur úr sjóðnum.
    Allur kostnaður af starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis greiðist af sjóðnum.
    Umhverfissjóður sjókvíaeldis skal vera undanþeginn skattskyldu skv. 4. gr., sbr. og 5. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

XIV. KAFLI

Framleiðslugjald og samfélagssjóður.

75. gr.

Gjaldskylda.

    Skyldu til greiðslu sérstaks framleiðslugjalds vegna sjókvíaeldis ber rekstrarleyfishafi samkvæmt lögum þessum.

76. gr.

Fjárhæð gjalds.

    Rekstrarleyfishafi skal mánaðarlega greiða gjald skv. 75. gr. í ríkissjóð sem greiðist í íslenskum krónum. Matvælastofnun skal ákvarða og birta fjárhæð gjaldsins með auglýsingu eigi síðar en 15. dag hvers mánaðar til að öðlast gildi fyrir komandi almanaksmánuð.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm slátraðs lax skal miðast við nýjasta mánaðarmeðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á eldislaxi næsta almanaksmánuð fyrir ákvörðunardag skv. 1. mgr. Mánaðarmeðaltal alþjóðlegs markaðsverðs skv. 1. málsl. skal umreiknað í íslenskar krónur á meðaltali miðgengis Seðlabanka Íslands fyrir sama tímabil og skal gjaldið nema því hlutfalli af þeim stofni sem hér segir:
     1.      1% þegar verð er lægra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     2.      2% þegar verð er 15 kr. til 149,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     3.      4% þegar verð er 150 kr. til 299,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     4.      6,5% þegar verð er 300 kr. til 449,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     5.      8% þegar verð er 450 kr. til 599,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     6.      10% þegar verð er 600 kr. til 749,9 kr. hærra en áætlaður framleiðslukostnaður,
     7.      11% þegar verð er 750 kr. eða hærra, en áætlaður framleiðslukostnaður.
    Við gildistöku laga þessara skal áætlaður framleiðslukostnaður vera 1.026 kr. á kílógramm. Áætlaður framleiðslukostnaður skal taka breytingum í upphafi hvers árs í réttu hlutfalli við breytingu á fóðurkostnaði, þ.e. samkvæmt tollskrárnúmeri 23099004 Fiskafóður ót.a. í íslenskum krónum samkvæmt innflutningstölum frá Hagstofunni, auk vísitölu neysluverðs og launavísitölu Hagstofunnar frá upphafi til loka næstliðins 12 mánaða tímabils sem hefst 1. nóvember og lýkur 31. október. Við breytinguna skal fóðurkostnaður vigta 60%, vísitala neysluverðs 20% og launavísitala 20%. Ráðherra skal með auglýsingu birta breytingu á áætluðum framleiðslukostnaði í upphafi hvers árs.
    Fjárhæðir í 2. mgr. breytast hverju sinni til samræmis við gengi krónu á móti evru á sama gengi og greinir í 1. og 2. málsl. 2. mgr. og skal þá miða við að fjárhæðir sem fram koma í 2. mgr. séu á genginu 150 kr. á móti evru áður en þær fjárhæðir eru reiknaðar að nýju yfir í krónur.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem alinn er í sjó með lokuðum eldisbúnaði skal nema 25% af gjaldi skv. 2. mgr.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem alinn er í sjó með hálflokuðum eldisbúnaði skal nema 40% af gjaldi skv. 2. mgr.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem alinn var skemur en 12 mánuði í sjó skal nema 50% af gjaldi skv. 2. mgr.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem alinn er með búnaði, tækni eða aðferð sem líkleg er til að draga úr umhverfisáhrifum eða auka dýravelferð, samkvæmt fyrirframskilgreindum viðmiðum í reglugerð, skal nema 50% af gjaldi skv. 2. mgr. eða öðru hlutfalli sem sett er fram í reglugerð.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm af slátruðum laxi sem aðeins er alinn einn vetur í sjó, þannig að slátrun fari fram eigi síðar en 20. október ári eftir útsetningu fisks, skal nema 30% af gjaldi skv. 2. mgr.
    Eigi fleiri en ein framleiðsluaðferð við skv. 5.–9. mgr. skal lægsta gjaldahlutfall gilda. Fyrsta kynslóð fisks í starfsemi rekstrarleyfishafa sem alin er með þeim aðferðum sem um ræðir í 5.–9. mgr. skal þó vera undanþegin gjaldi.
    Með alþjóðlegu markaðsverði í 2. mgr. er átt við verð á slægðum eldislaxi með haus.
    Fjárhæð gjalds á hvert kílógramm slátraðs regnbogasilungs og ófrjós lax skal nema helmingi af gjaldi samkvæmt þessari grein og kemur sú lækkun til viðbótar við aðra lækkun gjalds skv. 5.–9. mgr.

77. gr.

Gjaldstofn, framtalsskylda og söfnun upplýsinga.

    Stofn til álagningar gjalds skv. XIV. kafla er þyngd afurða við slátrun, upp úr sjó, miðað við slægðan fisk með haus.
    Rekstrarleyfishafa er skylt að skila sérstakri greinargerð um alla slátrun eldisfisks frá sjókvíaeldisstöð á því formi og með þeim hætti sem Matvælastofnun ákveður. Skila skal greinargerðinni eigi síðar en 10. dag hvers mánaðar vegna slátrunar undanfarandi almanaksmánaðar. Heimilt er að ákveða að skil á greinargerð skuli vera rafræn og málsmeðferð rafræn eftir því sem við á.
    Sé upplýsingum ekki skilað eða ef upplýsingar sem látnar eru í té reynast ófullnægjandi eða ótrúverðugar skal skora á viðkomandi að bæta úr. Verði ekki brugðist við áskorun innan hæfilegs frests eða skýringar reynast ótrúverðugar skal áætla framleiðslumagn rekstrarleyfishafa og skal miða við að það skuli vera svo ríflegt að ekki sé hætta á því að það sé lægra en það er í raun og veru og ákvarða gjaldstofn í samræmi við þá áætlun.
    Í tengslum við eftirlit og athuganir einstakra mála er einstaklingum og lögaðilum skylt að láta Matvælastofnun í té allar upplýsingar og gögn sem talin eru nauðsynleg. Skiptir ekki máli í því sambandi hvort upplýsingarnar varða þann aðila sem beiðninni er beint til eða þau skipti annarra aðila við hann sem hann getur veitt upplýsingar um og varða athuganir og eftirlit Matvælastofnunar. Lagaákvæði um þagnarskyldu takmarka ekki skyldu til þess að veita upplýsingar og gögn sem hér um ræðir.
    Ráðherra skal í reglugerð kveða á um slægingarstuðul sem nota skal við útreikning gjaldstofns samkvæmt ákvæði þessu.

78. gr.

Álagning.

    Matvælastofnun leggur á gjald samkvæmt lögum þessum. Gjaldið skal lagt á 12 sinnum á ári, þ.e. 25. dag hvers mánaðar vegna slátrunar undanfarandi almanaksmánaðar. Gjalddagi skal vera 10 dögum eftir álagningardag.

79. gr.

Innheimta.

    Innheimtumenn ríkissjóðs innheimta gjald skv. XIV. kafla og fer ríkisskattstjóri með samræmingar- og eftirlitshlutverk við innheimtu þess, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.
    Eindagi er 14 dögum frá gjalddaga og skal greiða dráttarvexti af því sem gjaldfallið er frá þeim tíma skv. III. kafla laga um vexti og verðtryggingu.
    Kröfum um greiðslu gjalds samkvæmt lögum þessum fylgir lögveð ríkissjóðs í fasteignum og lausafé rekstrarleyfishafa í fjögur ár frá gjalddaga. Lögveðið nær einnig til dráttarvaxta og innheimtukostnaðar.
    Matvælastofnun skal birta opinberlega allar upplýsingar um álagðar fjárhæðir gjalds samkvæmt lögum þessum.

80. gr.

Skattaleg meðferð gjalds.

    Gjald skv. XIV. kafla telst sem rekstrarkostnaður skv. 1. tölul. 31. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

81. gr.

Samfélagssjóður sjókvíaeldis og skipting úthlutunarfjár.

    Samfélagssjóður sjókvíaeldis er opinber sjóður sem heyrir undir ráðherra. Sjóðurinn hefur það hlutverk að styrkja sjókvíaeldisbyggðir og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.
    Samfélagssjóður sjókvíaeldis lýtur yfirstjórn þriggja einstaklinga sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn, einn samkvæmt tilnefningu ráðherra sem fer með fjárreiður ríkisins og fjármál, einn úr hópi sveitarstjórnarfólks í sjókvíaeldisbyggðum samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga og einn án tilnefningar sem vera skal formaður.
    Stjórn Samfélagssjóðs sjókvíaeldis hefur yfirumsjón með rekstri hans í samræmi við lög þessi og reglugerð setta samkvæmt þeim. Stjórnin skilar ársreikningi og reglulegu yfirliti um störf sín til ráðherra og tekur ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld. Ákvarðanir stjórnar eru endanlegar á stjórnsýslustigi. Ráðherra ákveður þóknun stjórnarmanna. Kostnaður af rekstri sjóðsins greiðist af tekjum hans. Úthlutað skal úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis að lágmarki einu sinni á ári. Úthlutun úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis fer fram að frumkvæði stjórnar og án umsóknar frá sjókvíaeldisbyggðum.
    Úthlutanir úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis skulu skiptast annars vegar á milli landshluta og hins vegar sjókvíaeldisbyggða innan viðkomandi landshluta. Einungis sjókvíaeldisbyggðir eiga rétt til úthlutana úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis. Við útreikning á skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða skal fyrst reikna hlutdeild sjókvíaeldis innan hvers landshluta í heildargjaldstofni til álagningar gjalds skv. XIV. kafla, sbr. 77. og 78. gr., og skal miða við kjördæmaskipan þegar landshlutar eru ákvarðaðir. Þegar hlutfall hvers landshluta hefur verið reiknað út skal því næst reikna skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða í viðkomandi landshluta og skal skiptingin taka mið af umfangi sjókvíaeldis í hverri sjókvíaeldisbyggð.
    Ráðstöfunarfé sjóðsins er fjárveiting hverju sinni af fjárlögum.
    Ráðherra skal með reglugerð setja nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins, þ.m.t. um málsmeðferð, útreikning úthlutunarfjár og skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða. Ráðherra skal jafnframt kveða á um með reglugerð hvaða sveitarfélög teljist til sjókvíaeldisbyggða.
    Samfélagssjóður sjókvíaeldis skal vera undanþeginn skattskyldu skv. 4. gr., sbr. og 5. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

3. ÞÁTTUR

Landeldi

XV. KAFLI

Smitvarnir og dýraheilbrigði.

82. gr.

Flutningur og ferðir farartækja eða búnaðar milli landeldisstöðva.

    Flutningur hvers konar farartækja og/eða búnaðar, á vegum rekstrarleyfishafa eða annarra, milli landeldisstöðva er óheimill nema samkvæmt leyfi Matvælastofnunar. Leyfi Matvælastofnunar er ávallt bundið skilyrði um sótthreinsun farartækja og búnaðar nema stofnunin takið annað sérstaklega fram.
    Leyfi sem Matvælastofnun veitir skv. 1. mgr. má veita í einstök skipti eða sem ótímabundið leyfi vegna skipulagðra og endurtekinna ferða milli landeldisstöðva.
    Ákvæði þessarar greinar gilda einungis að því marki sem farartæki eða búnaður hefur verið í beinni snertingu við fisk.

83. gr.

Flutningur eldisfisks til og frá landeldisstöð.

    Allur flutningur á fiski til og frá landeldisstöð, hvort heldur sem er á vegum rekstrarleyfishafa eða annarra, er háður leyfi Matvælastofnunar. Matvælastofnun skal að jafnaði krefjast heilsufarsyfirlýsingar dýralæknis áður en heimild er veitt fyrir flutningi. Leyfi sem Matvælastofnun veitir samkvæmt þessari málsgrein má veita í einstök skipti eða sem ótímabundið leyfi vegna skipulagðs og endurtekins flutnings. Komi ekki annað fram í leyfi Matvælastofnunar skal sá sem afhendir fisk til flutnings bera ábyrgð á að flutningur til viðtakanda sé heimill og í samræmi við lög.
    Flutningur eldistegunda, sem ekki eru tilgreindar í rekstrarleyfi eða skráningu viðkomandi landeldisstöðvar, til landeldisstöðvar er óheimill.
    Rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili í landeldi sem afhendir fisk sem nýta skal í sjókvíaeldi ber almennt ábyrgð á að öllum lögum og reglum sé fylgt varðandi meðferð fisksins þar til hann er kominn í brunnbát en þá flyst ábyrgð yfir á rekstrarleyfishafa í sjókvíaeldi sem veitt hefur fisknum viðtöku.

84. gr.

Talning upp úr eldiseiningum.

    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að telja allan fisk upp úr eldiseiningum að kröfu Matvælastofnunar ef ríkt tilefni er til. Talning skal fara þannig fram að Matvælastofnun geti fylgst með talningu með áreiðanlegum hætti. Ráðherra er heimilt að setja ákvæði í reglugerð um skilyrði og aðferðir við talningu upp úr eldiseiningum.

85. gr.

Þéttleiki og fjöldi fiska í landeldi.

    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila ber að sjá til þess að fjöldi fiska og þéttleiki fisks í eldiseiningum sé ávallt í samræmi við ákvæði rekstrarleyfis og reglugerða settum samkvæmt lögum þessum. Ráðherra skal í reglugerð setja ákvæði um hámarksþéttleika fiska í eldiseiningum og útreikning á þéttleika. Við ákvörðun um hámarksþéttleika skal m.a. litið til vatnsgæða, eldistækni, tegundar eldisfisks og þroskastigs.

86. gr.

Skimun og bólusetning við sjúkdómum í landeldi.

    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að láta fara fram reglulega skimun fyrir tilkynningarskyldum sjúkdómum í fiski í landeldi, m.a. fyrir flutning. Rekstrarleyfishafa er óheimilt að afhenda eða taka við fiskum til eldis nema niðurstaða úr skimun fyrir flutning liggi fyrir og að sú niðurstaða staðfesti að fiskar séu ekki smitaðir af tilkynningarskyldum sjúkdómum.
    Ráðherra skal með reglugerð kveða á um fyrir hvaða sjúkdómum skuli bólusetja, sem og um framkvæmd skimunar og bólusetningar.

87. gr.

Meðhöndlun frárennslis frá landeldisstöð.

    Rekstrarleyfishafi skal fylgjast með efnainnihaldi í frárennsli landeldisstöðvar. Matvælastofnun getur skyldað rekstrarleyfishafa og skráningarskyldan aðila til þess að sía frárennsli sérstaklega eða beita öðrum viðurkenndum aðferðum við hreinsun frárennslisvatns til þess að takmarka skaðleg efni og smitefni í frárennsli. Áður en til kemur að beita þessu ákvæði skal Matvælastofnun hafa samráð við Umhverfisstofnun. Í reglugerð skal tilgreina þau efni sem fylgjast skal með í frárennsli og þær aðferðir sem beita skal við síun og aðra hreinsun frárennslisvatns.

88. gr.

Reglulegt eftirlit með afföllum í landeldi.

    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að halda afföllum í hverri eldiseiningu í lágmarki og huga að allri velferð fiska í landeldi. Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að fjarlægja dauðan fisk og lífrænar leifar fiska reglulega úr eldiseiningum. Rekstrarleyfishafi skal skrá fjölda og þyngd fiska sem og þyngd lífrænna leifa sem eru fjarlægðar. Lífrænar leifar skulu umreiknaðar í fjölda fiska eftir fyrirmælum Matvælastofnunar.
    Ráðherra getur kveðið á um í reglugerð að fjarlæga skuli dauðan fisk og lífrænar leifar fiska úr eldiseiningum daglega eða sjaldnar. Þegar sérstaklega stendur á, eða ef þörf er á auknu eftirliti á tilteknu tímabili, getur Matvælastofnun mælt fyrir um að fjarlæga skuli dauðan fisk og lífrænar leifar fiska oftar en daglega.

89. gr.

Upplýsingar um afföll í landeldi.

    Rekstrarleyfishafi skal senda Matvælastofnun skýrslu um afföll mánaðarlega en stofnunin hefur jafnframt heimild til að krefjast tímabundið tíðari skýrsluskila ef tilefni er til.
    Upplýsingar í skýrslu um afföll skv. 1. mgr. skulu að lágmarki tilgreina eftirfarandi:
     a.      aldur og þroskastig dauðra fiska,
     b.      eldiseiningu eða aðra staðsetningu þar sem afföll áttu sér stað,
     c.      dagsetningu þegar dauðir fiskar og lífrænar leifar fiska voru fjarlægðar,
     d.      fjölda fiska sem voru fjarlægðir,
     e.      þyngd fiska og lífrænna leifar fiska og vigtunaraðferð,
     f.      líklegar ástæður affalla að mati rekstrarleyfishafa.
    Matvælastofnun skal birta upplýsingar úr skýrslum skv. 1. mgr. opinberlega.

90. gr.

Innflutningur á notuðum eldisbúnaði og flutningstækjum.

    Innflutningur á notuðum eldisbúnaði til landeldis er óheimill. Til slíks búnaðar teljast m.a. eldisker, tankar, fóðrarar og fiskidælur. Þó er heimilt að flytja inn notuð vísindatæki og tæknibúnað, m.a. tæki til flutnings sem sannanlega er hægt að sótthreinsa að mati Matvælastofnunar. Einnig getur Matvælastofnun með sömu skilyrðum heimilað innflutning á öðrum eldisbúnaði enda telji Matvælastofnun ekki líklegt að smitefni sem valda dýrasjúkdómum berist með honum. Sækja skal um leyfi fyrir innflutningi á notuðum vísindatækjum, tæknibúnaði og eldisbúnaði til Matvælastofnunar sem getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar.
    Sækja skal um leyfi til Matvælastofnunar fyrir innflutningi tækja til flutnings á fiski. Matvælastofnun getur heimilað innflutning að fenginni jákvæðri umsögn fisksjúkdómanefndar. Matvælastofnun getur bannað innflutning á tækjum sem kunna að hafa verið notuð í tengslum við tilkynningarskylda sjúkdóma eða sníkjudýr.

91. gr.

Flutningstæki og sótthreinsun í landeldi.

    Tæki til flutnings á fiski skulu vera lokuð og yfirbyggð. Öll flutningstæki, farartæki og búnað skal vera hægt að sótthreinsa með fullnægjandi hætti.
    Ráðherra skal í reglugerð setja nánari fyrirmæli um notkun, eiginleika og sótthreinsun flutningstækja, farartækja og búnaðar sem notaður er í landeldi.

92. gr.

Hættusvæði vegna sjúkdóma eða sníkjudýra í landeldi.

    Komi upp tilkynningarskyldur atburður vegna sjúkdóma eða sníkjudýra samkvæmt lögum þessum, lögum um varnir gegn fisksjúkdómum eða öðrum reglum sem gilda um landeldi, skal Matvælastofnun heimilt að ákveða að viðkomandi landeldisstöð sé hættusvæði. Þá skal Matvælastofnun einnig heimilt að ákveða að allt svæði innan tiltekinnar fjarlægðar frá landeldisstöð sé áhættusvæði.
    Sé svæði skilgreint sem hættusvæði skal leita samþykkis Matvælastofnunar fyrir allri umferð rekstrarleyfishafa um svæðið, slátrun og förgun fisks sem og aðgerðum sem rekstrarleyfishafi hyggst grípa til vegna tilkynningarskylds atburðar. Heimilt er að setja í reglugerð nánari ákvæði um heimildir Matvælastofnunar til ráðstafana og takmarkana á hættusvæðum og áhættusvæðum.

93. gr.

Tilvísanir til almennra laga á sviði lagareldis.

    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum skulu lög um varnir gegn fisksjúkdómum gilda um varnir og viðbrögð gegn fisksjúkdómum og sníkjudýrum í landeldi.
    Að öðru leyti en greinir í lögum þessum skulu lög um velferð dýra gilda um velferð fiska í landeldi.

XVI. KAFLI

Rekstrarleyfi til landeldis.

94. gr.

Rekstrarleyfi fyrir landeldi.

    Til að starfrækja landeldi þarf rekstrarleyfi sem Matvælastofnun veitir og starfsleyfi sem Umhverfisstofnun veitir.
    Umsækjandi skal uppfylla kröfur sem gerðar eru um vernd vistkerfa og vatnshlota, heilbrigði fiska og afurða þeirra, um forvarnir og varnir gegn tilteknum sjúkdómum í fiskum, velferð fiska og varnir gegn stroki.

95. gr.

Skráningarskylda.

    Ráðherra er heimilt að kveða á um í reglugerð að starfræksla landeldisstöðva, þar sem hámarkslífmassi er allt að 20 tonnum á hverjum tíma og starfræksla er ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sé háð skráningarskyldu í stað útgáfu rekstrarleyfis.
    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð kröfur, skilyrði og skilmála sem gilda fyrir starfsemi og eru forsenda skráningar, þ.m.t. kröfur um strokvarnir, innra eftirlit, úttektir þegar nauðsyn ber til, skýrslugjöf til Matvælastofnunar og að stofnuninni sé heimilt að afla upplýsinga rafrænt og skylda skráningaraðila til að skrá upplýsingar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til. Aðili sem er skráningarskyldur skv. 1. mgr. skal skrá starfsemi sína hjá Matvælastofnun. Matvælastofnun skal staðfesta skráningu rekstraraðila og leiðbeina honum um hvaða reglur gilda um starfsemina.
    Óheimilt er að flytja fisk í skráningarskylda landeldisstöð áður en staðfesting Matvælastofnunar á skráningu hefur verið gefin út.

96. gr.

Móttaka og afgreiðsla umsókna.

    Áður en sótt er um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar og starfsleyfi til Umhverfisstofnunar skal umsækjandi afla staðfestingar frá Skipulagsstofnun um hvort gera þurfi umhverfismat vegna framkvæmda og starfsemi sem gert er ráð fyrir samkvæmt umsóknum um rekstrarleyfi og starfsleyfi.
    Þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir skal umsækjandi afhenda Matvælastofnun umsóknir um leyfi skv. 94. gr. og skulu þær afgreiddar samhliða, sbr. þó 11. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021.
    Matvælastofnun skal framsenda umsókn um starfsleyfi til landeldis til Umhverfisstofnunar til meðferðar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998. Hvor stofnun um sig skal tilkynna umsækjanda hvort umsókn telst fullnægjandi, innan mánaðar frá því að umsókn berst. Þegar Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi skal það sent Matvælastofnun. Matvælastofnun afhendir umsækjanda útgefin starfs- og rekstrarleyfi samtímis. Sé starfsleyfi sem útgefið er af Umhverfisstofnun endurútgefið eða endurskoðað skal Umhverfisstofnun afhenda umsækjanda starfsleyfið.

97. gr.

Umsókn um rekstrarleyfi fyrir landeldi.

    Umsókn um rekstrarleyfi til landeldis skal vera skrifleg. Í henni skulu m.a. koma fram upplýsingar um eignaraðild að landeldisstöð, sem og raunverulega eigendur umsækjanda sem eiga meira en 10% í honum ef hann er lögaðili, að umsækjandi hafi fullnægjandi fagþekkingu á viðkomandi sviði, að innra eftirlit landeldisstöðvar og eldisbúnaður standist kröfur sem nánar er kveðið á um í lögum þessum eða reglugerðum um landeldi, um stærð og framleiðslumagn mælt í lífmassa, eldistegundir, eldisstofna, og eldisaðferðir. Einnig skal fylgja umsókn afrit af ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Umsókn skv. 1. mgr. skulu fylgja gögn um heimild til afnota af landi eða vatni. Umsókn skal einnig fylgja eldisáætlun og rekstraráætlun sem sýnir m.a. uppbyggingarferil eldis og öflun fiska, svo og önnur gögn sem Matvælastofnun telur nauðsynleg til að meta hvort skilyrði til útgáfu rekstrarleyfis séu fyrir hendi, svo sem nýtingarleyfi vegna vatns og jarðsjávar. Sé frekara eldi á fiski úr landeldi fyrirhugað í sjókvíaeldi eða hafeldi skal enn fremur tilgreina mögulega viðtakendur fisks frá landeldisstöð. Þá skal tilgreina hvernig rekstrarleyfishafi hyggst losa úrgang frá landeldisstöð og hvaða heimilda hefur verið aflað í því skyni.

98. gr.

Afstaða Matvælastofnunar.

    Sé fyrirhuguð starfsemi háð mati á umhverfisáhrifum skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér umhverfismatsskýrslu framkvæmdaraðila og leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar við afgreiðslu rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal taka saman greinargerð um afgreiðslu rekstrarleyfis þar sem gerð er grein fyrir samræmi milli rekstrarleyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum. Hafi Skipulagsstofnun sett skilyrði um mótvægisaðgerðir eða vöktun, sbr. 24. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021, skal það koma fram í leyfinu. Matvælastofnun skal í greinargerðinni einnig taka tillit til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni er til ef um það er fjallað í áliti Skipulagsstofnunar, svo sem til nýtingarleyfa vegna vatns og jarðsjávar. Sé framkvæmd ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar skal Matvælastofnun fyrir útgáfu rekstrarleyfis kynna sér tilkynningu framkvæmdaraðila og ákvörðun um matsskyldu og kanna hvort framkvæmdin sé í samræmi við tilkynnta framkvæmd.
    Matvælastofnun skal taka rökstudda afstöðu til sjúkdómstengdra þátta sem kunna að fylgja starfsemi landeldis.

99. gr.

Auglýsing tillögu að rekstrarleyfi. Birting rekstrarleyfis.

    Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum fyrir landeldi og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu auglýsa tillögu að rekstrarleyfi og starfsleyfi á sama tíma. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan fjögurra vikna frá auglýsingu.
    Matvælastofnun skal innan tveggja mánaða frá því að frestur rann út til að gera athugasemdir við tillögur að rekstrarleyfi taka ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfis. Matvælastofnun skal tilkynna Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrarleyfi og þeim sem hafa gert athugasemdir við tillöguna um afgreiðslu rekstrarleyfis.
    Matvælastofnun skal auglýsa á vef sínum útgáfu og gildistöku rekstrarleyfa. Birting á vef Matvælastofnunar telst vera opinber birting. Matvælastofnun skal birta ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest.

100. gr.

Efni og útgáfa rekstrarleyfis.

    Telji Matvælastofnun að umsókn um rekstrarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara, og eftir auglýsingu tillögu að rekstrarleyfi skv. 99. gr., skal stofnunin gefa út rekstrarleyfi.
    Í rekstrarleyfi skulu vera ákvæði um umfang landeldis mælt í leyfilegum lífmassa. Þá skal í rekstrarleyfi kveðið á um leyfilegar tegundir í eldi og leyfilega eldisstofna. Ráðherra skal setja nánari ákvæði í reglugerð um þær aðferðir sem skylt er að nota til að rekja uppruna eldislaxa til ákveðinna landeldisstöðva og um framkvæmd þeirra.
    Skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis er að fyrirhuguð starfsemi samræmist skipulagi á svæðinu samkvæmt skipulagslögum.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að mæla fyrir um nánari skilyrði sem setja má í rekstrarleyfi.
    Matvælastofnun skal hafna umsókn ef umsækjandi leggur ekki fram þau gögn sem kveðið er á um í 97. gr., enda hafi umsækjanda verið gefinn hæfilegur frestur til að leggja fram þau gögn sem vantar.

101. gr.

Ótímabundin rekstrarleyfi.

    Uppfylli rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili öll skilyrði laga þessara og reglna settra með stoð í þeim skulu rekstrarleyfi til landeldis og skráning vegna landeldis vera ótímabundin. Rekstrarleyfi og skráning skulu sæta breytingum samkvæmt lögum og reglum á hverjum tíma sem og afturköllun og afskráning skv. XVIII. kafla.

XVII. KAFLI
Starfræksla landeldisstöðva og eftirlit.

102. gr.

Upphaf starfsemi.

    Óheimilt er að hefja rekstur landeldis samkvæmt rekstrarleyfi fyrr en Matvælastofnun hefur gert úttekt á landeldisstöð sem starfrækt verður samkvæmt leyfinu og m.a. staðfest að fyrirhuguð framkvæmd og eldisbúnaður standist ströngustu staðla sem settir eru samkvæmt reglugerðum. Markmið úttektar er að staðreyna eftir föngum að rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili sé fær um að fullnægja skilyrðum laga þessara og skilmálum rekstrarleyfis.
    Óheimilt er að flytja fisk í landeldisstöð fyrr en rekstrarleyfi er fengið og úttekt hefur farið fram.
    Landeldisstöðvar skulu hafa stöðvarskírteini útgefið af faggiltri skoðunarstofu og skal skírteinið aðeins gilda fyrir eina landeldisstöð á tilteknum stað. Í stöðvarskírteini skulu koma fram upplýsingar um hönnun, ástand og samsetningu búnaðar landeldisstöðvar og vottun um að búnaður uppfylli kröfur laga og gildandi staðla samkvæmt reglugerðum.
    Ráðherra skal setja nánari reglur um upphaf starfsemi, m.a. um staðarúttekt, meginíhluti og stöðvarskírteini með reglugerð. Kveða má í reglugerð um undanþágu smærri landeldisstöðva frá kröfu um stöðvarskírteini.

103. gr.

Bann við stroki úr landeldi.

    Skylt er að halda eldisfisk innan eldiseininga og skylt er að nota búnað sem kemur í veg fyrir strok. Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að viðhafa verkferla sem vakta strok og ástand eldiseininga sem og lagna sem liggja að og frá eldiseiningum.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að setja nánari skilyrði um þær kröfur sem gerðar eru til rekstraraðila og skráningarskyldra aðila samkvæmt þessari grein.

104. gr.

Innra eftirlit með landeldi.

    Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á því að sett sé á fót og starfrækt innra eftirlit með starfseminni, þ.m.t. fiskum og heilbrigði þeirra, mannvirkjum og búnaði. Innra eftirlit skal tryggja að starfsemin sé í samræmi við ákvæði laga og stjórnvaldsfyrirmæla eða rekstrarleyfi sem eru veitt samkvæmt þeim. Rekstrarleyfishafi skal sannprófa að eftirlit og úrbætur séu í samræmi við reglur um innra eftirlit.
    Rekstrarleyfishafi landeldisstöðvar skal, sem hluta af innra eftirliti, starfrækja gæðakerfi þar sem fram koma verklagsreglur, m.a. um þjálfun starfsmanna og viðbragðsáætlanir. Leyfishafi skal sannreyna að verklagsreglur og viðbragðsáætlanir uppfylli markmið og gera nauðsynlegar úrbætur.
    Rekstrarleyfishafi skal, ótilkvaddur, senda Matvælastofnun skriflega staðfestingu um að farið sé að innri reglum í starfsemi rekstrarleyfishafa. Skulu slíkar staðfestingar sendar Matvælastofnun eigi sjaldnar en hálfsárslega. Matvælastofnun skal reglulega sannreyna að framkvæmd innra eftirlits með starfseminni sé í samræmi við lög og reglur.
    Ráðherra setur frekari ákvæði um innra eftirlit í reglugerð, þ.m.t. um viðbragðsáætlanir og skyldu rekstrarleyfishafa til að starfrækja gæðakerfi.

105. gr.

Eftirlit og skýrslugjöf í landeldi.

    Matvælastofnun skal hafa eftirlit með landeldi og landeldisstöðvum í samræmi við fyrirmæli laga þessara. Eftirlitið skal ná til rekstrar- og fiskeldisþátta í starfsemi landeldisstöðvanna og þess að skilyrði í rekstrarleyfi séu uppfyllt. Eftirlit með heilbrigði og velferð fiska og heilnæmi eldisafurða skal einnig framkvæmt af Matvælastofnun í samræmi við lög þar að lútandi. Eftirlit Matvælastofnunar skal vera reglubundið en einnig áhættumiðað þannig að eftirlit skuli almennt vera í hlutfalli við áhættu í rekstri rekstrarleyfishafa, þ.m.t. þannig að stærri landeldisstöðvar sæti meira eftirliti en minni landeldisstöðvar, allt eftir nánari ákvörðun Matvælastofnunar.
    Til að Matvælastofnun geti framkvæmt eftirlit skv. 1. mgr. skal rekstrarleyfishafi mánaðarlega gefa Matvælastofnun skýrslu um starfsemi sína en stofnunin hefur jafnframt heimild til að krefjast tímabundið tíðari skýrsluskila ef tilefni er til. Þar skulu m.a. koma fram upplýsingar um framleiðslumagn stöðvar af slátruðum fiski, eldisrými, fóðurnotkun, birgðir af fiski mældar í lífmassa og fjölda, uppruna fisks, sjúkdóma, óhöpp í rekstri, svo og önnur þau atriði sem stofnuninni eru nauðsynleg til virks eftirlits samkvæmt lögum þessum. Þá skal færð dagbók um starfsemina í landeldisstöðvum samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur. Matvælastofnun er heimilt að kalla eftir frekari gögnum en hér greinir þegar tilefni er til. Matvælastofnun er heimilt að afla upplýsinga rafrænt og skylda rekstrarleyfishafa til að skrá upplýsingarnar í gagnagrunn sem stofnunin leggur til. Matvælastofnun er heimilt að draga úr tíðni og umfangi upplýsingagjafar hjá rekstrarleyfishöfum sem framleiða minna en 100 tonn á ári.
    Ráðherra skal í reglugerð mæla nánar fyrir um eftirlitshlutverk Matvælastofnunar. Matvælastofnun er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum um faggildingu o.fl. að annast framkvæmd eftirlitsins samkvæmt sérstökum samningi. Þeir skulu bundnir þagnarskyldu um það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd eftirlitsins og leynt á að fara. Um þagnarskylduna gilda ákvæði X. kafla stjórnsýslulaga og skal brot á þeim varða refsingu skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga.
    Matvælastofnun skal heimill óheftur aðgangur til skoðunar og eftirlits, þar á meðal til töku sýna og myndatöku, að dagbók rekstrarleyfishafa og að öllum þeim stöðum sem lög þessi og stjórnvaldsreglur ná yfir og er stofnuninni heimilt að leita aðstoðar lögreglu ef með þarf.
    Vinnsla Matvælastofnunar á eftirlitsgögnum samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi ákvæði laga um persónuvernd og reglur Persónuverndar um rafræna vöktun.
    Matvælastofnun og Umhverfisstofnun skulu útbúa og birta sameiginlegar almennar starfsreglur varðandi samræmda framkvæmd eftirlits beggja stofnana með starfsemi rekstrarleyfishafa samkvæmt lögum þessum.
    Rekstrarleyfishafa og skráningarskyldum aðila er skylt að veita aðstoð við framkvæmd eftirlitsins og veita allar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna eftirlits með framkvæmd laga þessara og ber að afhenda endurgjaldslaust sýni sem talin eru nauðsynleg til eftirlits. Rekstrarleyfishafa er skylt að veita Matvælastofnun endurgjaldslausan aðgang að tækjum og búnaði án fyrirvara til þess að framkvæma megi eftirlit.

XVIII. KAFLI

Afturköllun rekstrarleyfis til landeldis.

106. gr.

Afturköllun rekstrarleyfis til landeldis.

    Matvælastofnun getur afturkallað rekstrarleyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn ákvæðum laga þessara eða stjórnvaldsfyrirmælum sem sett eru á grundvelli þeirra. Einnig er heimilt að afturkalla leyfi ef leyfishafi eða starfsmenn hans brjóta gegn skilyrðum rekstrarleyfis eða skilyrðum þess er að öðru leyti ekki fullnægt. Þá er og heimilt að afturkalla rekstrarleyfi ef leyfishafi verður ófær um að stunda rekstur.
    Áður en gripið er til afturköllunar leyfis skv. 1. mgr. skal Matvælastofnun veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta nema um mjög alvarlegt eða ítrekað brot sé að ræða.

107. gr.

Afskráning landeldistöðva.

    Matvælastofnun er heimilt að afskrá skráða starfsemi verði aðili uppvís að því að vanrækja þær kröfur sem gilda um skráningu skráðra aðila eða brjóta að öðru leyti gegn skilyrðum og skilmálum skráningarinnar. Matvælastofnun ber að senda skráningaraðila tilkynningu um tilefni afskráningar.

4. ÞÁTTUR

Hafeldi

XIX. KAFLI

Almennt um hafeldi.

108. gr.

Upphaf hafeldis.

    Ákvæði 2. þáttar um sjókvíaeldi, sem og sameiginleg ákvæði 5. þáttar sem vísa til sjókvíaeldis, skulu gilda um hafeldi með þeim breytingum sem leiðir af ákvæðum 4. þáttar.
    Engin rekstrarleyfi eða tilraunaleyfi til hafeldis skulu gefin út fyrr en að loknum grunnrannsóknum samkvæmt XX. kafla. Engin rekstrarleyfi til hafeldis með frjóan lax má gefa út fyrr en burðarþolsmat skv. 109. gr. og áhættumat skv. 110. gr. liggur fyrir. Tilraunaleyfi má gefa út án þess að burðarþolsmat skv. 109. gr. og áhættumat erfðablöndunar skv. 110. gr. liggi fyrir. Með umsókn um rekstrarleyfi eða tilraunaleyfi til hafeldis skal fylgja staðfesting á grunnrannsóknum fyrir viðkomandi smitvarnasvæði skv. XX. kafla.

109. gr.

Burðarþolsmat og afmörkun smitvarnasvæða.

    Um burðarþolsmat vatnshlota og annarra afmarkaðra hafsvæða vegna hafeldis fer skv. 5. gr. Heimilt er að burðarþolsmeta smitvarnasvæði til hafeldis utan skilgreindra vatnshlota.
    Afmarka skal tiltekin smitvarnasvæði þar sem stunda má hafeldi og um slíka afmörkun fer að öðru leyti skv. 11. gr. Heimilt er að skipta vatnshloti í fleiri en eitt smitvarnasvæði.

110. gr.

Áhættumat erfðablöndunar.

    Eftir að grunnrannsóknum skv. XX. kafla er lokið fyrir eitt eða fleiri smitvarnasvæði í hafeldi skal Hafrannsóknastofnun endurskoða áhættumat erfðablöndunar skv. 6. gr. og, ef við á, gefa út nýtt áhættumat erfðablöndunar sem tekur tillit til mögulegs hafeldis á viðkomandi smitvarnasvæðum.
    Aukist heildarlaxamagn vegna endurskoðunar skv. 1. mgr. skal sú viðbót ekki koma til aukningar á laxamagni þeirra rekstrarleyfishafa sem þegar hafa yfir að ráða laxahlut heldur skal sú viðbót við heildarlaxamagn mynda óráðstafaðan laxahlut sem skal boðinn út.
    Óráðstafaður laxahlutur skv. 2. mgr. verður aðeins nýttur til hafeldis. Ráðherra getur kveðið á um nánari skilyrði fyrir þátttöku í útboði laxahlutar sem nýtast á við hafeldi.

111. gr.

Tilraunaleyfi í hafeldi.

    Eftir að grunnrannsóknum skv. XX. kafla er lokið, og óháð því hvort burðarþolsmat eða áhættumat erfðablöndunar hafi farið fram skv. 109. gr. og 110. gr., er Matvælastofnun heimilt að veita tilraunaleyfi vegna afturkræfra tilrauna með búnað sem ætlaður er til hafeldis. Áður en tilraunaleyfi er gefið út skal Matvælastofnun leita umsagna Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar og er Matvælastofnun óheimilt að gefa út tilraunaleyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn því. Matvælastofnun skal þó heimilt að gefa út tilraunaleyfi með breytingum og skilyrðum sem taka tillit til athugasemda umsagnaraðila.
    Áður en tilraunaleyfi er gefið út skv. 1. mgr. skal umsækjandi afla staðfestingar frá Skipulagsstofnun um hvort gera þurfi umhverfismat vegna framkvæmda og starfsemi sem gert er ráð fyrir samkvæmt umsókn um tilraunaleyfi. Þegar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd sé ekki matsskyld, eða álit stofnunarinnar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar liggur fyrir, skal Matvælastofnun taka afstöðu til útgáfu tilraunaleyfis.
    Við tilraunir á notkun búnaðar skv. 1. mgr. er heimilt að nýta fisk, m.a. frjóan lax, enda sé í öllum tilfellum um takmarkaðan fjölda fiska að ræða.
    Skilyrði fyrir tilraunaleyfi er að umsækjandi hafi keypt vátryggingu með þeim skilmálum sem koma fram í 127. gr.
    Að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar skal ráðherra setja nánari reglur um tilraunaleyfi í reglugerð, m.a. um kröfur til búnaðar, skyldur tilraunaleyfishafa til að fjarlægja búnað að lokinni notkun, fjölda fiska sem nýta má við tilraunir á búnaði og vátryggingu tilraunaleyfishafa.

112. gr.

Tímabundin undanþága frá greiðslu gjalda.

    Ákvæði XIII. kafla um greiðslu gjalds til ríkissjóðs vegna Umhverfissjóðs sjókvíaeldis og ákvæði XIV. kafla um greiðslu gjalds til ríkissjóðs vegna Samfélagssjóðs sjókvíaeldis gilda einnig um hafeldi, þó þannig að greiðsluskylda rekstrarleyfishafa í hafeldi hefst fyrst að loknu eldi þriggja kynslóða fisks en í síðasta lagi sex árum frá fyrstu útsetningu fisks í hafeldi hjá viðkomandi rekstrarleyfishafa.

XX. KAFLI

Rannsóknir vegna hafeldis.

113. gr.

Rannsóknir á mögulegum svæðum til hafeldis

    Hafrannsóknastofnun getur, sjálf eða í samvinnu við aðra, stundað grunnrannsóknir í fiskveiðilandhelgi Íslands á mögulegum svæðum til hafeldis og áhrifum hafeldis á vistkerfi og villta stofna auk rannsókna á öðrum atriðum sem varða hafeldi. Til þess að rannsóknir geti talist grunnrannsóknir sem skila má sem fylgigögnum með umsókn til rekstrarleyfis í hafeldi, þá þurfa slíkar rannsóknir að hafa verið unnar af Hafrannsóknastofnun eða í samvinnu við Hafrannsóknastofnun.
    Ráðherra veitir leyfi til rannsókna skv. 1. mgr. samkvæmt umsókn þar sem fram koma m.a. upplýsingar um markmið og framkvæmd rannsóknarinnar.
    Ráðherra getur beint því til Hafrannsóknastofnunar að stofnunin hefji rannsóknir sem miði að því að finna hentug svæði til hafeldis í íslenskri efnahagslögsögu með ákvörðun þar að lútandi.

114. gr.

Markmið rannsókna.

    Markmið með rannsóknum skv. 1. mgr. 113. gr. er að mögulegum svæðum til hafeldis sé valin staðsetning þar sem ræktunarskilyrði fisks eru sem best og þar sem minnst áhrif verða af hafeldi á vistkerfi, villta stofna og sjávarbotn. Jafnframt skulu umhverfisþættir sem lúta að rekstraröryggi, svo sem straumar og ölduhæð, rannsakaðir sem og atriði sem lúta að velferð fiska, svo sem álag vegna sníkjudýra og sjúkdóma.
    Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um aðra þætti sem skulu rannsakaðir í grunnrannsóknum skv. 1. mgr.

115. gr.

Afmörkun og lok rannsókna.

    Hafrannsóknastofnun skal afmarka rannsókn hverju sinni, bæði með tilliti til landfræðilegrar afmörkunar rannsókna, tímasetningar og tímalengdar rannsókna sem og annarra atriða sem máli skipta við rannsókn á svæðum til hafeldis.
    Hafrannsóknastofnun metur hvenær rannsóknum er lokið og hvenær þær hafa náð markmiðum sínum, sbr. 114. gr.

116. gr.

Samvinna við Hafrannsóknastofnun, meðferð kostnaðar og forgangsréttur.

    Einkaaðili eða opinber aðili sem óskar eftir samvinnu við Hafrannsóknastofnun við gerð grunnrannsókna samkvæmt þessum kafla skal sækja um heimild til slíkrar samvinnu til ráðherra. Með umsókn skv. 1. málsl. skulu fylgja gögn um reynslu umsækjanda, fjármögnun rannsókna, búnað sem ætlaður er til rannsókna, markmið með rannsóknunum og annað sem máli skiptir.
    Ráðherra aflar bindandi umsagnar Hafrannsóknastofnunar um umsókn um samvinnu áður en ákvörðun er tekin um hvort af samvinnu verður.
    Ákveði ráðherra að skilyrði séu fyrir samvinnu Hafrannsóknastofnunar við einkaaðila skal ráðherra tilkynna umsækjanda og Hafrannsóknastofnun um þá niðurstöðu. Skulu umsækjandi og Hafrannsóknastofnun gera með sér samning um samvinnu við þær rannsóknir sem um ræðir, m.a. um greiðslu umsækjanda á kostnaði við rannsóknir og tryggingu fyrir greiðslu slíks kostnaðar. Samningur milli einkaaðila og Hafrannsóknastofnunar getur m.a. tekið til þess að aðrir rannsóknaraðilar verði ráðnir til þess að framkvæma rannsóknir í samvinnu við viðkomandi einkaaðila og Hafrannsóknastofnun.
    Kostnaður sem umsækjandi hefur lagt út með greiðslum til Hafrannsóknastofnunar samkvæmt þessari grein skal koma til frádráttar tilboðsfjárhæð ef umsækjandi býður í smitvarnasvæði við úthlutun þeirra skv. 24. gr. Frádráttur skv. 1. málsl. miðast enn fremur við að kostnaður umsækjanda sé fimmfaldaður þegar frádráttur er reiknaður, þó að hámarki jafnhár tilboðsfjárhæð hverju sinni. Kostnað samkvæmt þessari grein má aðeins nýta einu sinni til tilboðs í smitvarnasvæði en kostnað sem ekki nýtist til frádráttar við fyrsta tilboð má nýta við síðari tilboð. Umsækjandi getur sótt um það til ráðherra að til viðbótar við greiðslur til Hafrannsóknastofnunar geti annar sannanlegur kostnaður umsækjanda við grunnrannsóknir nýst til frádráttar samkvæmt þessari grein. Sækja má um slíkan frádrátt við upphaf grunnrannsókna vegna kostnaðar sem enn hefur ekki fallið til. Ráðherra skal setja reglugerð um hvaða annar kostnaður umsækjanda getur komið til frádráttar samkvæmt þessari grein og hvernig umsækjandi skal færa sönnur á greiðslu slíks kostnaðar.
    Sé smitvarnasvæði, sem umsækjandi hefur stundað grunnrannsóknir á í samvinnu við Hafrannsóknastofnun, úthlutað skv. 24. gr. skal umsækjanda heimilt með forgangsrétti að ganga inn í hæsta tilboð við slíka úthlutun enda séu önnur skilyrði um úthlutun til umsækjanda uppfyllt. Það er skilyrði fyrir nýtingu slíks forgangsréttar að ekki séu meira en fimm ár liðin frá því að viðkomandi grunnrannsóknum hafi lokið. Við inngöngu í hæsta tilboð má umsækjandi nýta kostnað með sama hætti og greinir í 4. mgr. Hafi fleiri en einn umsækjandi stundað grunnrannsóknir á viðkomandi smitvarnasvæða skulu báðir hafa forgangsrétt til þess að ganga inn í hæsta tilboð, þó fyrst sá sem síðast stundaði grunnrannsóknir á viðkomandi smitvarnasvæði.

5. ÞÁTTUR

Sameiginleg ákvæði

XXI. KAFLI

Ýmis sameiginleg ákvæði.

117. gr.

Engin bótaskylda vegna aðgerða í þágu dýravelferðar og vistkerfis.

    Ákvarðanir Matvælastofnunar á grundvelli laga þessara um förgun, slátrun eða aðra meðferð fiska sem miða að því að tryggja dýravelferð eða vernda vistkerfi skapa að jafnaði hvorki Matvælastofnun, íslenska ríkinu né öðrum stjórnvöldum bótaskyldu og verða rekstrarleyfishafar og aðrir að þola slíkar aðgerðir bótalaust.

118. gr.

Myndupptökur og persónuupplýsingar.

    Eftirlitsmönnum Matvælastofnunar er heimilt að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum sem eru búin myndavélum til upptöku eða annan fjarstýrðan búnað sem getur safnað upplýsingum. Matvælastofnun er heimilt að vinna upplýsingar sem þannig er aflað í eftirlitstilgangi eða til söfnunar, úrvinnslu og útgáfu upplýsinga í samræmi við hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum þessum. Skal gæta þess að einungis séu gerðar upptökur á þeim stöðum sem nauðsynlegt er talið vegna almannahagsmuna og til þess að eftirlitsmenn Matvælastofnunar geti uppfyllt eftirlitsskyldu sína. Matvælastofnun skal tilkynna með almennum og opinberum hætti um fyrirhugað eftirlit með fjarstýrðum loftförum.
    Persónuupplýsingum sem safnast við upptökur skal eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita þær en í síðasta lagi þegar heimild til að beita viðurlögum við háttsemi fellur niður. Verði eftirlitsmenn Matvælastofnunar varir við ætlað brot gegn lögum þessum í upplýsingum sem verða til samkvæmt framangreindu er stofnuninni heimilt að varðveita upplýsingarnar þar til máli telst lokið. Hafi máli lokið með beitingu stjórnsýsluviðurlaga telst því lokið þegar frestur til að höfða dómsmál er runninn út eða endanlegur dómur hefur fallið um það.
    Matvælastofnun er ekki heimilt að láta í té upplýsingar sem verða til við upptökur nema til lögreglu vegna rannsóknar á ætluðu broti.

119. gr.

Þjónustuaðilar.

    Rekstrarleyfishafa er aðeins heimilt að skipta við verktaka eða þjónustuaðila sem uppfylla kröfur sem gerðar eru til slíkra aðila varðandi öryggi, hreinlæti, hollustuhætti, mengunarvarnir, strokvarnir, smitvarnir og dýravelferð samkvæmt þeim stöðlum, lögum og reglum sem gilda um starfsemi viðkomandi verktaka eða þjónustuaðila. Áður en rekstrarleyfishafi þiggur þjónustu verktaka eða þjónustuaðila skal rekstrarleyfishafi afla skriflegrar staðfestingar frá slíkum verktaka eða þjónustuaðila um að viðeigandi kröfur séu uppfylltar. Slíkar staðfestingar skulu endurnýjaðar eigi sjaldnar en á 12 mánaða fresti.
    Rekstrarleyfishafa er óheimilt að skipta við þjónustuaðila eða verktaka nema viðkomandi uppfylli að lágmarki sömu kröfur og gerðar væru til rekstrarleyfishafa ef hann annaðist sömu þjónustu eða verk sjálfur. Rekstrarleyfishafi ber beina ábyrgð á vinnu og háttsemi þjónustuaðila og verktaka. Rekstrarleyfishafi ber ábyrgð á að þjónustuaðilar og verktakar fari eftir ákvæðum laga þessara með sama hætti og rekstrarleyfishafi sjálfur. Allar athafnir slíkra aðila í þágu rekstrarleyfishafa skulu skoðast sem athafnir rekstrarleyfishafa sjálfs. Brjóti þjónustuaðilar eða verktakar gegn ákvæðum laga þessara hefur það sömu afleiðingar fyrir rekstrarleyfishafa og ef rekstrarleyfishafi sjálfur hefði gerst brotlegur.
    Ráðherra er í reglugerð heimilt að setja nánari skilyrði um þær kröfur sem gerðar eru til þjónustuaðila samkvæmt þessari grein. Í reglugerð má kveða á um skyldu þjónustuaðila og verktaka til þess að fá fyrirframskráningu hjá Matvælastofnun áður en viðkomandi aðilar taka að sér þjónustu í þágu rekstrarleyfishafa.

120. gr.

Framsal og veðsetning rekstrarleyfis.

    Framsal og leiga á rekstrarleyfi, án skriflegs samþykkis Matvælastofnunar, er óheimil. Veiti Matvælastofnun skriflegt samþykki skv. 1. málsl. þá skal framsalshafi eða leigutaki uppfylla öll sömu skilyrði og framseljandi eða leigusali gera samkvæmt lögum þessum. Veðsetning á rekstrarleyfi er heimil án samþykkis Matvælastofnunar. Sama gildir um veðsetningu laxahlutar. Við fullnustu veðréttar skal veðhafi, eða annar framsalshafi eftir því sem við á ef fullnusta fer fram með framsali, uppfylla öll skilyrði sem gerð eru til rekstrarleyfishafa samkvæmt lögum þessum. Veðhafi sem gengur að rekstrarleyfi eða laxahlut, eða framsalshafi ef fullnusta fer fram með sölu, skal innan þriggja mánaða frá fullnustu uppfylla kröfur til rekstrarleyfishafa samkvæmt lögum þessum. Matvælastofnun getur veitt allt að 12 mánaða viðbótarfrest í þessu tilliti ef tilefni er til. Uppfylli veðhafi eða framsalshafi ekki kröfur til rekstrarleyfishafa að þeim fresti liðnum skal Matvælastofnun afturkalla viðkomandi rekstrarleyfi og innkalla viðkomandi laxahlut eftir því sem við á.
    Matvælastofnun er heimilt að birta opinberlega upplýsingar um framsöl, leigu og veðsetningar rekstrarleyfa.

XXII. KAFLI

Skil og birting upplýsinga.

121. gr.

Skil á gögnum og upplýsingum.

    Matvælastofnun skal starfrækja miðlægt gagnakerfi sem móttekur öll gögn og upplýsingar frá rekstrarleyfishöfum vegna skráningar samkvæmt lögum þessum, þ.m.t. gögn vegna umsókna, eftirlits, skýrsluskila og annarra tilkynninga.
    Aðgang að miðlægu gagnakerfi hafa Hafrannsóknastofnun, Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun, Fiskistofa og önnur þau stjórnvöld og stofnanir sem rekstrarleyfishafa er skylt að skila gögnum til lögum samkvæmt.

122. gr.

Birting upplýsinga úr eftirliti og um framleiðslu.

    Heimilt er að birta opinberlega upplýsingar úr eftirliti Matvælastofnunar og upplýsingar úr rekstrarleyfum og framleiðsluskýrslum einstakra rekstrarleyfishafa og skráningarskyldra aðila skv. 2. mgr. 36. gr.
    Upplýsingar um strok, tilkynningarskylda sjúkdóma og sníkjudýr, svo sem um lús, mikil afföll eldisfiska eða slæma meðferð á eldisfiski, skal Matvælastofnun birta opinberlega ef slíks verður vart.
    Matvælastofnun skal á vef sínum birta með samandregnum hætti tölfræði og aðrar upplýsingar sem byggjast á upplýsingum og skýrsluskilum rekstrarleyfishafa. Skulu slíkar upplýsingar uppfærðar reglulega á vef Matvælastofnunar.
    Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð um opinbera birtingu upplýsinga samkvæmt þessari grein. Slíkar reglur skulu kveða nánar á um framsetningu og inntak birtingarinnar, m.a. að birtingin sé rafræn og innan hvaða tímamarka skuli birta slíkar upplýsingar.

123. gr.

Önnur birting upplýsinga.

    Matvælastofnun er heimilt, m.a. með fréttatilkynningu, að greina opinberlega frá niðurstöðum eftirlits og ákvörðunum sem fela í sér:
     a.      afturköllun eða niðurfellingu rekstrarleyfis sem og ákvörðun Matvælastofnunar um afskráningu,
     b.      ákvörðun um úrbætur sem unnar eru á kostnað rekstrarleyfishafa eða skráningarskylds aðila,
     c.      álagningu dagsekta,
     d.      ákvörðun um álagningu stjórnvaldssekta.

XXIII. KAFLI

Gjaldtaka og vátrygging.

124. gr.

Gjaldtaka vegna umsókna og úttektar og eftirlits með skráningarskyldri starfsemi.

    Umsækjendur um rekstrarleyfi, tilraunaleyfi og rekstrarleyfi til bráðabirgða skulu greiða Matvælastofnun þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem fellur til við afgreiðslu umsóknar samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Skráningarskyldur aðili skal greiða Matvælastofnun þjónustugjald vegna þess kostnaðar sem fellur til við afgreiðslu skráningar samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Fyrir úttekt Matvælastofnunar á starfsemi skráningarskylds aðila og framkvæmd eftirlits skal greitt þjónustugjald samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Umsóknir um leyfi samkvæmt grein þessari skulu ekki afgreiddar fyrr en þjónustugjald hefur verið greitt.
    Ráðherra staðfestir, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, gjaldskrá fyrir veitta þjónustu samkvæmt grein þessari.

125. gr.

Gjaldtaka vegna eftirlits og þjónustuverkefna samkvæmt lögum þessum.

    Fyrir eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun Matvælastofnunar eða faggiltra eftirlitsaðila á hennar vegum skal greiða gjald sem ekki er hærra en raunkostnaður til að standa straum af eftirtöldum kostnaðarþáttum:
     a.      launum starfsfólks sem sinnir störfum vegna eftirlits, umsýslu og skjalaskoðunar,
     b.      öðrum kostnaði vegna starfsfólks, þ.m.t. kostnaði af aðstöðu, áhöldum, búnaði, þjálfun og ferðalögum, svo og tengdum kostnaði,
     c.      kostnaði vegna sýnatöku opinberra eftirlitsaðila og kostnaði sem opinberar rannsóknastofur innheimta vegna sýnatöku, greiningar, prófunar og sjúkdómsgreininga sem framkvæmdar eru á opinberum rannsóknastofum.
    Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um eftirlit, umsýslu og skjalaskoðun Matvælastofnunar og skal hann gefa út gjaldskrá fyrir eftirlit Matvælastofnunar að fengnum tillögum stofnunarinnar.
    Við gerð reglugerðar og gjaldskrár opinberra eftirlitsaðila er heimilt að taka tillit til eftirfarandi atriða:
     a.      hvers konar fyrirtæki um er að ræða og viðkomandi áhættuþátta,
     b.      hagsmuna fyrirtækja með litla framleiðslu,
     c.      hefðbundinna aðferða við framleiðslu, vinnslu og dreifingu,
     d.      þarfa fyrirtækja með aðsetur á svæðum sem líða fyrir landfræðilegar takmarkanir.
    Matvælastofnun skal afla umsagnar hlutaðeigandi hagsmunasamtaka og kynna þeim efni og forsendur reglugerðar og/eða gjaldskrár stofnunarinnar með a.m.k. eins mánaðar fyrirvara. Hafi umsagnir þeirra ekki borist Matvælastofnun að mánuði liðnum er ráðherra þó heimilt að setja reglugerð og gjaldskrá án umsagna þeirra.
    Eftirlitsgjald skal greiða samkvæmt framlögðum reikningi opinbers eftirlitsaðila.
    Innheimta má eftirlitsgjaldið með fjárnámi án undangengins dóms eða sáttar. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast dráttarvaxta af ógreiddri fjárkröfu vegna eftirlits frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi.

126. gr.

Kostnaður vegna þvingunarúrræða.

    Opinber eftirlitsaðili getur ákveðið að rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili skuli greiða allan kostnað vegna þvingunarúrræða sem framkvæmd eru samkvæmt lögum þessum. Opinberum eftirlitsaðilum er heimilt að krefjast dráttarvaxta af kostnaði vegna þvingunarúrræða frá og með þeim degi þegar kostnaður féll til og fram að greiðsludegi. Innheimta má slíkan kostnað með fjárnámi án dóms eða sáttar.

127. gr.

Vátrygging.

    Fyrir útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis skal umsækjandi leggja fram sönnun þess að hann hafi keypt ábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi. Ábyrgðartrygging takmarkast við að greiða þann kostnað sem til fellur við að fjarlægja búnað rekstrarleyfishafa sem hætt hefur starfsemi, búnað sem ekki er lengur í notkun, sbr. 37. gr., viðgerð á búnaði, hreinsun eldissvæðis og nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu. Ábyrgðartrygging skal vera í gildi á gildistíma rekstrarleyfis og í tvö ár eftir að rekstrarleyfi er afturkallað eða fellur niður af öðrum orsökum. Ráðherra getur sett nánari ákvæði um trygginguna í reglugerð.

XXIV. KAFLI

Reglugerðarheimild, refsiákvæði o.fl.

128. gr.

Reglugerðarheimild o.fl.

    Ráðherra setur nánari reglur um framkvæmd laga þessara með reglugerð. Þar skal m.a. kveðið á um útgáfu rekstrarleyfa, merkingar á fiskum, fóðurnotkun, endurnýjun eldisbúnaðar, úttekt á sjókvíaeldisstöðvum og landeldisstöðvum, eftirlit með starfsemi sjókvíaeldisstöðva og landeldisstöðva, flutning eldistegunda milli sjókvíaeldisstöðva og landeldisstöðva o.fl.
    Matvælastofnun er, eftir því sem þörf krefur, heimilt að setja svæðis- eða tímabundnar reglur á grundvelli slíkra reglugerða.
    Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð á um skyldu til notkunar ófrjós fisks í sjókvíaeldi, þ.m.t. ófrjós lax.

129. gr.

Skaðabætur til veiðiréttarhafa.

    Ef sannað þykir að missir eldisfisks úr sjókvíaeldisstöð eða landeldisstöð valdi tjóni á hagsmunum veiðiréttarhafa, sem verndar njóta samkvæmt lax- og silungsveiðilögum, skal viðkomandi rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili bæta tjónið á grundvelli mats skv. VII. kafla laga um lax- og silungsveiði. Hið sama á við um tjón annarra þeirra sem hafbeit, fiskeldi eða fiskrækt stunda.
    Ef sannað þykir að starfsemi samkvæmt lögum þessum valdi tjóni í veiðivatni samkvæmt lax- og silungsveiðilögum í öðrum tilvikum en þeim sem greinir í 2. mgr. skal það tjón bætt eftir mati skv. VII. kafla þeirra laga, ef ekki semst.

130. gr.

Dagsektir.

    Fari rekstrarleyfishafi eða skráningarskyldur aðili ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi innan tiltekins frests getur stofnunin ákveðið að viðkomandi greiði dagsektir þar til úr verður bætt. Ákvörðun um dagsektir skal tilkynnt viðkomandi aðila.
    Dagsektir mega nema allt að 1.000.000 kr. á sólarhring. Við ákvörðun um fjárhæð dagsekta skal m.a. taka tillit til þess hve aðkallandi úrbæturnar eru og hversu stór og umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er með tilliti til veltu.
    Dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu.
    Aðila er heimilt að kæra ákvörðun Matvælastofnunar um beitingu dagsekta til ráðuneytisins innan fjórtán daga frá því að honum er tilkynnt ákvörðunin. Ráðuneytið skal kveða upp úrskurð eins fljótt og unnt er og að jafnaði innan mánaðar frá því að kæra berst.
    Ákvarðanir Matvælastofnunar um dagsektir eru aðfararhæfar. Málskot til ráðuneytisins frestar aðför.

131. gr.

Úrbætur á kostnað rekstrarleyfishafa.

    Matvælastofnun er heimilt á kostnað rekstrarleyfishafa að láta fjarlægja búnað sjókvíaeldisstöðvar sem hætt hefur starfsemi, gera við búnað og hreinsa eldissvæði og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir vegna sjúkdómahættu fari hann ekki að fyrirmælum Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum, reglugerðum settum samkvæmt þeim eða skilyrðum í rekstrarleyfi. Með sama hætti getur Matvælastofnun látið slátra eldisfiski og hreinsað eldissvæði á kostnað rekstrarleyfishafa þegar hann hefur ekki farið að ákvæðum laga og reglugerða um leyfilegan fjölda frjórra laxa eða lífmassa fisks samkvæmt rekstrarleyfi. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmdina með reglugerð. Skal kostnaður þá greiddur til bráðabirgða af Matvælastofnun en innheimtast síðar hjá rekstrarleyfishafa eða úr ábyrgðartryggingu hans. Kostnað má innheimta með fjárnámi.

132. gr.

Starfsemi án rekstrarleyfis eða staðfestrar skráningar.

    Ef lagareldi er stundað eða landeldisstöð eða sjókvíaeldisstöð er rekin án þess að rekstrarleyfi eða skráning sé í gildi skal Matvælastofnun stöðva starfsemina. Eftir þörfum ber lögreglu að veita Matvælastofnun liðsinni í því skyni. Matvælastofnun er heimilt að slátra eða farga fiski, fjarlægja búnað sem notaður hefur verið til starfseminnar og gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir á kostnað þess aðila sem rekið hefur rekstrarleyfisskylda eða skráningarskylda starfsemi án leyfis eða skráningar. Fiskar sem hæfir eru til manneldis skulu seldir og andvirðið, að frádregnum kostnaði Matvælastofnunar við söluna og kostnaði við aðrar ráðstafanir við stöðvun rekstursins, skal renna í ríkissjóð hafi aðili hafið starfsemi án rekstrarleyfis eða skráningar en ella til fyrrverandi rekstrarleyfishafa.
    Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi getur Matvælastofnun í sérstökum undantekningartilvikum, enda mæli ríkar ástæður með því, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að eins árs berist umsókn þess efnis frá handhafa þess leyfis sem var fellt úr gildi innan þriggja vikna frá því að leyfi var fellt úr gildi. Umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal afgreidd eins fljótt og mögulegt er og eigi síðar en fjórum vikum eftir að umsókn berst. Í umsókn skal tilgreina með skýrum hætti tilgang rekstrarleyfis til bráðabirgða, ástæður þess og fyrirhugaðar aðgerðir á gildistíma bráðabirgðaleyfisins. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal Matvælastofnun ekki stöðva rekstur fyrr en fyrir liggur hvort sótt verði um rekstrarleyfi til bráðabirgða. Berist umsókn um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal ekki stöðva rekstur meðan umsókn er til meðferðar.
    Rekstrarleyfi til bráðabirgða skal vera efnislega innan marka þess leyfis sem áður var í gildi. Ákvörðun um rekstrarleyfi til bráðabirgða skal byggja á gögnum sem aflað hefur verið við undirbúning þess rekstrarleyfis sem fellt var úr gildi. Þá getur Matvælastofnun sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo að tilgangur leyfisins náist, svo sem um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um fresti vegna úrbóta eða um tímamörk málshöfðunar eða annarra athafna fyrir dómi sem eru á forræði aðila. Sé rekstrarleyfi fellt úr gildi vegna annmarka á umhverfismati samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana skal Matvælastofnun auk framangreindra skilyrða tryggja að rekstrarleyfi til bráðabirgða sé bundið þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 2. mgr. 25. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, nr. 111/2021. Rekstrarleyfi til bráðabirgða samkvæmt þessari grein er heimilt að endurútgefa einu sinni.
    Matvælastofnun skal vinna tillögur að rekstrarleyfum til bráðabirgða og auglýsa opinberlega hvers efnis þær eru og hvar megi nálgast þær. Heimilt er að gera skriflegar athugasemdir við tillögur Matvælastofnunar innan viku frá auglýsingu. Matvælastofnun skal tilkynna Umhverfisstofnun, umsækjanda um rekstrarleyfi til bráðabirgða og þeim sem hafa gert athugasemdir við tillögu um afgreiðslu rekstrarleyfis til bráðabirgða. Matvælastofnun skal auglýsa á vef sínum útgáfu og gildistöku rekstrarleyfis til bráðabirgða. Birting á vef Matvælastofnunar telst vera opinber birting. Í auglýsingunni skal tilgreina hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis er aðgengileg og tilgreina um kæruheimild og kærufrest.
    Ákvörðun Matvælastofnunar um veitingu rekstrarleyfis til bráðabirgða er kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála innan mánaðar frá því að ákvörðun var birt opinberlega. Ráðherra er heimilt að kveða í reglugerð nánar á um umsókn, málsmeðferð og skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi fyrir veitingu rekstrarleyfis til bráðabirgða samkvæmt þessari grein.

133. gr.

Stjórnvaldssektir.

    Matvælastofnun getur lagt stjórnvaldssektir á aðila sem brýtur gegn einhverju eftirtalinna ákvæða laga þessara um:
     1.      lífmassa í eldi á hverjum tíma skv. 3. mgr. 5. gr og 2. mgr. 100. gr.,
     2.      lífmassa fiska í eldi á hverjum tíma skv. 5. mgr. 6. gr. og 38. gr.,
     3.      eldi í sjókvíum á friðunarsvæðum skv. 7. gr.,
     4.      bann við sleppingum kynbætts eldisfisks í fiskrækt eða hafbeit skv. 9. gr.,
     5.      bann við sjókvíaeldi fleiri en eins aðila á smitvarnasvæði skv. 2. mgr. 12. gr.,
     6.      hvíld smitvarnasvæða skv. 1. mgr. 13. gr.,
     7.      bann við eldi fleiri en einnar kynslóðar í senn á smitvarnasvæði skv. 1. mgr. 13. gr.,
     8.      bann við flutningi farartækja og/eða búnaðar milli svæða skv. 14. gr. og 82. gr.,
     9.      bann við flutningi og sleppingum fisks skv. 2. og 3. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 83. gr.,
     10.      bann við móttöku eða afhendingu fiska án skimunar með niðurstöðu um smitleysi skv. 1. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 86. gr.,
     11.      bann við innflutningi á notuðum eldisbúnaði án leyfis Matvælastofnunar skv. 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 90. gr.,
     12.      bann við eldi fisks ef lúsasmit er yfir viðmiðunarmörkum skv. 1. mgr. 60. gr.,
     13.      bann við eldi kynþroska fisks skv. 1. mgr. 61. gr.,
     14.      bann við flutningi fisks í sjókvíaeldisstöð eða landeldisstöð án rekstrarleyfis skv. 2. mgr. 34. gr. og 2. mgr. 102. gr.,
     15.      skyldu til að tilkynna um strok á fiski og beita sér fyrir veiðum á strokufiski skv. 1. mgr. 43. gr. og 1. mgr. 44. gr.,
     16.      viðmiðunarmörk um óþekkt strok skv. 2. mgr. 49 gr.,
     17.      bann við framsali og leigu á rekstrarleyfi án skriflegs samþykkis Matvælastofnunar skv. 1. mgr. 120. gr.,
     18.      skyldu til að viðhafa búnað og verkferla í landeldi sem vakta strok og ástand eldiseininga sem og lagna sem liggja að og frá eldiseiningum skv. 103. gr.,
     19.      bann við viðskiptum við þjónustuaðila eða verktaka sem ekki uppfylla sömu kröfur og rekstrarleyfishafi skv. 2. mgr. 119. gr.
    Sektir samkvæmt grein þessari geta numið frá 100.000 kr. til 500.000.000 kr. Við ákvörðun sekta skal m.a. taka tillit til eðlis, umfangs og alvarleika brots, hvað það hefur staðið lengi, samstarfsvilja hins brotlega aðila og hvort um ítrekað brot er að ræða. Jafnframt skal líta til þess hvort ætla megi að brotið hafi verið framið í þágu hagsmuna fyrirtækisins. Matvælastofnun er heimilt að ákveða hærri sektir hafi aðili hagnast á broti.
    Sekt fyrir hvern kynþroska fisk úr sjókvíaeldi sem finnst við slátrun, og sem ekki hefur verið fargað eða slátrað að tilmælum Matvælastofnunar, skal nema 50 kr. á hvern kynþroska fisk. Frá sektarfjárhæð sem reiknuð er skv. 1. málsl. skal draga frá fjölda fiska sem er heildarfjöldi slátraðra fiska í viðkomandi skipti, margfaldaður með 0,5%.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að ákveða viðmið um fjárhæð stjórnvaldssekta vegna brota á einstökum ákvæðum laga þessara og reglugerðum settum samkvæmt þeim innan þess ramma sem ákveðinn er í 2. mgr.
    Unnt er að lækka sektir ef einstaklingur eða lögaðili hefur haft frumkvæði að því að láta Matvælastofnun í té upplýsingar eða gögn sem að mati stofnunarinnar eru mikilvæg til að upplýsa brotið og að uppfylltum nánari skilyrðum sem Matvælastofnun mælir fyrir um í reglum.
    Gjalddagi stjórnvaldssektar er 30 dögum eftir að ákvörðun um sektina var tekin. Hafi stjórnvaldssekt ekki verið greidd innan 15 daga frá gjalddaga skal greiða dráttarvexti af fjárhæð sektarinnar frá gjalddaga. Ákvörðun Matvælastofnun um stjórnvaldssekt er aðfararhæf og renna sektir í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við álagningu og innheimtu. Um ákvörðun og útreikning dráttarvaxta fer eftir lögum um vexti og verðtryggingu.
    Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi.
    Ákvörðun Matvælastofnun er endanleg á stjórnsýslustigi. Aðili máls getur skotið ákvörðun um stjórnvaldssekt til dómstóla og er málshöfðunarfrestur þrír mánuðir frá því að tilkynnt var um ákvörðun. Málskot frestar aðför.

134. gr.

Sátt.

    Hafi aðili brotið gegn ákvæðum laga þessara eða ákvörðunum Matvælastofnunar á grundvelli þeirra er Matvælastofnun heimilt að ljúka málinu með sátt gangist hinn brotlegi aðili við broti og óski eftir því að ljúka málinu með þeim hætti, enda sé ekki um að ræða meiri háttar brot. Slík sátt getur eftir atvikum falið í sér að hinn brotlegi greiði stjórnvaldssekt. Sátt er bindandi fyrir málsaðila þegar hann hefur samþykkt og staðfest efni hennar með undirskrift sinni. Matvælastofnun er heimilt að setja reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.

135. gr.

Réttur einstaklinga til að fella ekki á sig sök.

    Í máli sem beinist að einstaklingi og lokið getur með álagningu stjórnvaldssektar eða kæru til lögreglu hefur maður, sem rökstuddur grunur leikur á að hafi gerst sekur um lögbrot, rétt til að neita að svara spurningum eða afhenda gögn eða muni nema hægt sé að útiloka að það geti haft þýðingu fyrir ákvörðun um brot hans. Matvælastofnun skal leiðbeina hinum grunaða um þennan rétt.

136. gr.

Um refsingar.

    Það varðar stjórnarmenn og framkvæmdastjóra rekstrarleyfishafa eða skráningarskyldan aðila sektum eða fangelsi allt að tveimur árum, ef sakir eru miklar:
     a.      ef eldisfiskur sleppur úr sjókvíaeldisstöð þar sem umbúnaði við sjókvíaeldið hefur verið áfátt vegna athafna eða athafnaleysis þeirra sem framið hefur verið af ásetningi eða gáleysi,
     b.      ef þeir brjóta gegn ákvæðum 1. mgr. 43. gr. og 44. gr. af ásetningi eða gáleysi,
     c.      ef sjókvíaeldisstöðvar gefa ekki lögboðnar skýrslur um starfsemi sína eða veita eftirlitsmönnum rangar upplýsingar.

137. gr.

Valdmörk stofnana.

    Umhverfisstofnun hefur ekki heimild til að beita þvingunar- og refsiúrræðum samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir vegna sömu atvika og kynnu að varða þvingunar- og refsiúrræðum af hálfu Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum. Umhverfisstofnun er þó rétt og skylt að koma gögnum, upplýsingum og ábendingum á framfæri við Matvælastofnun sem kynnu að verða þess valdandi að Matvælastofnun beiti þvingunar- og refsiúrræðum.

138. gr.

Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2024.
    Jafnframt falla úr gildi frá sama tíma lög um fiskeldi, nr. 71/2008, og lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019.
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu eftirfarandi ákvæði taka gildi 1. janúar 2025:
     1.      Viðmiðunartímabil vegna innköllunar laxahlutar skv. 1. málsl. 1. mgr. 40. gr.,
     2.      IX. kafli um afföll og skal kaflinn þá gilda um þá kynslóð fiska sem sett er út í sjó árið 2025 og síðar, en ekki eldri kynslóðir fiska,
     3.      58. gr. um punktakerfi vegna lúsar og 59. gr. um breytingar á leyfilegum lífmassa og skal kaflinn þá gilda um þá kynslóð fiska sem sett er út í sjó árið 2025 og síðar, en ekki eldri kynslóðir fiska,
     4.      64. gr. um forsendubrest.

139. gr.

Breytingar á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006: Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Fiskiteljarar.

                  Hverjum þeim sem starfrækir búnað með fastri staðsetningu til talningar, myndunar eða flokkunar fisks í ám skal skylt að láta Fiskistofu í té gögn úr viðkomandi búnaði.
                  Að fengnu leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. getur Hafrannsóknastofnun í samráði við landeigendur og veiðiréttarhafa látið setja upp búnað skv. 1. mgr. Ákvæði 34. gr. og 35. gr. skulu gilda um uppsetningu slíks búnaðar eftir því sem við á.
                  Ráðherra er heimilt með reglugerð að kveða á um kröfur sem gerðar eru til búnaðar skv. 1. mgr. og hvernig farið skuli með fisk og annað sem flokkað er með búnaðinum. Hafrannsóknastofnun skal árlega birta niðurstöður úr upplýsingasöfnun samkvæmt þessari grein.
     2.      Lög um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006:
                  a.      2. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
                     Matvælastofnun til ráðgjafar við framkvæmd laga þessara er fisksjúkdómanefnd. Ráðherra skipar þriggja manna fisksjúkdómanefnd: einn samkvæmt tilnefningu Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar og einn samkvæmt tilnefningu Fiskistofu. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Matvælastofnun skal hafa forgöngu um að stundaðar séu fisksjúkdómarannsóknir og gera tillögur til ráðherra um aðferðir til varnar gegn útbreiðslu fisksjúkdóma, sem getur um í lögum þessum, og annað er að fisksjúkdómum lýtur.
                  b.      10. gr. laganna, ásamt fyrirsögn, orðast svo:

Viðbrögð vegna sjúkdóma í veiðivatni eða fiskeldisstöð.

                     Ef upp kemur smitandi sjúkdómur í veiðivatni eða fiskeldisstöð er Matvælastofnun heimilt, að höfðu samráði við fisksjúkdómanefnd og með hliðsjón af lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu sjúkdómsins. Við framkvæmd slíkra ráðstafana skal þar að auki og eftir föngum haft samráð við viðkomandi veiðifélag, veiðiréttarhafa, hafi veiðifélag ekki verið stofnað, eða rekstrarleyfishafa fiskeldis- eða hafbeitarstöðvar. Sé um að ræða ráðstafanir vegna sjúkdóma í sjókvíaeldi skal leita samráðs um ráðstafanir við Hafrannsóknastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.
                  c.      Við 2. mgr. 11. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá skal í reglugerð mælt fyrir um heimild Matvælastofnunar til útgáfu heilbrigðisvottorðs vegna útflutnings á lagardýrum.
     3.      Lög um Rannsóknadeild fisksjúkdóma, nr. 50/1986:
                  a.      Orðin „útgáfu heilbrigðisvottorða“ í 1. mgr. 2. gr. laganna falla brott.
                  b.      2. mgr. 2. gr. laganna fellur brott.
                  c.      5. tölul. 5. gr. laganna fellur brott.
                  d.      10. gr. laganna fellur brott.
                  e.      3. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna fellur brott.
                  f.      14. gr. laganna fellur brott.
                  g.      3. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna fellur brott.
                  h.      2. mgr. 16. gr. laganna fellur brott.
     4.      Lög um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991:
                  a.      Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Heimiluð lögsaga: Ísland, aðildarríki samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og Færeyjar.
                  b.      3. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Matvælastofnun og Umhverfisstofnun er einungis heimilt að gefa út rekstrarleyfi, tilraunaleyfi og starfsleyfi til lagareldis til eftirtalinna aðila:
                    a.      Ríkisborgara í heimilaðri lögsögu og annarra aðila í heimilaðri lögsögu.
                   b.      Lögaðila í heimilaðri lögsögu sem að öllu leyti eru í eigu aðila í heimilaðri lögsögu eða lögaðila í heimilaðri lögsögu sem uppfylla eftirfarandi skilyrði:
                              i.      Eru undir yfirráðum aðila í heimilaðri lögsögu.
                              ii.      Eru ekki í eigu aðila utan heimilaðrar lögsögu að meira leyti en 25% sé miðað við hlutafé eða stofnfé.
                              iii.      Eru að öðru leyti í eigu ríkisborgara í heimilaðri lögsögu eða lögaðila í heimilaðri lögsögu sem eru undir yfirráðum aðila í heimilaðri lögsögu.
                   Með aðila í heimilaðri lögsögu er í þessari grein átt við:
                    a.      Ríkissjóð og sveitarfélög, svo og stofnanir, fyrirtæki og sjóði í heimilaðri lögsögu í fullri eigu þeirra.
                   b.      Ríkisborgara í heimilaðri lögsögu sem eiga lögheimili í heimilaðri lögsögu.
                   c.      Lögaðila sem eiga heimili í heimilaðri lögsögu og eru að öllu leyti í eigu:
                              i.      Opinberra aðila í heimilaðri lögsögu.
                              ii.      Ríkisborgara í heimilaðri lögsögu sem eiga lögheimili í heimilaðri lögsögu.
                              iii.      Annarra lögaðila sem eiga heimili í heimilaðri lögsögu og eru að öllu leyti í eigu ríkisborgara í heimilaðri lögsögu sem eiga lögheimili í heimilaðri lögsögu.
                Lúti rekstrarleyfishafi yfirráðum annarra aðila en sem greinir í þessari grein skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfi eða tilraunaleyfi úr gildi að gefnum 12 mánaða fresti til úrbóta. Sama gildir eftir því sem við á um starfsleyfi Umhverfisstofnunar.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Þrátt fyrir ákvæði 12. gr. skal tveimur eða fleiri rekstrarleyfishöfum vera heimilt að starfrækja sjókvíaeldi á sama smitvarnasvæði til 1. júlí 2028. Slíkt er háð því skilyrði að rekstrarleyfishafar viðhafi samræmda útsetningu fiska og seiða og hvíld eldissvæða innan smitvarnasvæðis. Jafnframt er það skilyrði að rekstrarleyfishafar vinni sameiginlega að smitvörnum, viðbrögðum við sjúkdómum og vöktun laxalúsar, allt í samræmi við ákvæði laga þessara. Öll rekstrarleyfi og starfsleyfi sem hafa að geyma heimildir sem myndu leiða til þess að fleiri en einn rekstrarleyfishafi hafi heimild til sjókvíaeldis á einu og sama smitvarnasvæðinu skulu felld úr gildi af Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hinn 1. júlí 2028.
    Starfræki tveir eða fleiri rekstrarleyfishafar sjókvíaeldi á sama smitvarnasvæðinu eftir gildistöku laga þessara þá skulu reglur IX. kafla um afföll og X. kafla um lús gilda sameiginlega um slíka rekstrarleyfishafa þannig að afföll og lúsasmit verði metin sameiginlega á öllu smitvarnasvæðinu. Skerðing eða aukning leyfilegs lífmassa skal skiptast milli viðkomandi rekstrarleyfishafa í hlutfalli við leyfilegan lífmassa hvors um sig á viðkomandi smitvarnasvæði.

II.

    Tilkynni rekstrarleyfishafi Matvælastofnun fyrir 1. júlí 2028 að hann hafi komist að samkomulagi við aðra rekstrarleyfishafa um að einn eða fleiri samkomulagsaðili hætti sjókvíaeldi á tilteknu smitvarnasvæði gegn því að fá að hefja sjókvíaeldi á öðru smitvarnasvæði þá skulu Matvælastofnun og Umhverfisstofnun gefa út ný rekstrarleyfi og starfsleyfi til samkomulagsaðila sem endurspeglar samkomulag þeirra, enda sé samkomulagið og það fyrirkomulag rekstrarleyfa og sjókvíaeldis sem þar er gert ráð fyrir í samræmi við þau lög og reglur sem um starfsemina gilda. Ný rekstrar- og starfsleyfi sem gefin er út samkvæmt þessari grein skulu auglýst með hefðbundum hætti en úthlutun smitvarnasvæða er engu að síður undanþegin útboðsskyldu skv. 24. gr. Ný rekstrar- og starfsleyfi sem gefin eru út samkvæmt þessari grein skulu ekki háð umhverfismati framkvæmda enda rúmist framleiðsla og önnur starfsemi samkvæmt nýjum rekstrar- og starfsleyfum innan eldri rekstrar- og starfsleyfa á viðkomandi smitvarnasvæðum auk þess að vera í samræmi við viðkomandi framkvæmdir sem hlutu málsmeðferð samkvæmt lögum um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Þá skulu slík ný leyfi einnig vera í samræmi við strandsvæðaskipulag.
    Þrátt fyrir ákvæði laga þessara getur ráðherra, án aðkomu eða umsagna Hafrannsóknastofnunar eða Matvælastofnunar, ákveðið skiptingu hafsvæða í smitvarnasvæði. með reglugerð og gildir sú heimild til 1. júní 2029.

III.

    Ef aðeins einn rekstrarleyfishafi er með starfsemi á tilteknu smitvarnasvæði við gildistöku laga þessara, þá skal miða við að lífmassi samkvæmt rekstrarleyfi sem þá er í gildi sé leyfilegur lífmassi samkvæmt lögum þessum en að rekstrarleyfishafa sé heimilt að sækja um hækkun á leyfilegum lífmassa skv. 32. gr.
    Ef fleiri en einn aðili starfa á smitvarnasvæði við gildistöku laga þessara þá skal miða við að lífmassi samkvæmt rekstrarleyfi sem þá er í gildi sé leyfilegur lífmassi samkvæmt lögum þessum. Ekki er heimilt að hækka leyfilegan lífmassa rekstrarleyfishafa þegar fleiri en einn rekstrarleyfishafi starfa á smitvarnasvæði.
    Ef aðeins einn rekstrarleyfishafi er með starfsemi á tilteknu smitvarnasvæði við gildistöku laga þessara þá ber viðkomandi rekstrarleyfishafa engu að síður að fara að ákvæðum laga þessara varðandi afmörkun eldissvæða, samræmi við strandsvæðaskipulag og umhverfismat eftir því sem við á.
    Ef fleiri en einn aðili starfar á smitvarnasvæði við gildistöku laga þessara þá skulu þeir greiða árlegt gjald til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis sem miðast við leyfilegan lífmassa viðkomandi smitvarnasvæðis deilt með fjölda rekstrarleyfishafa á því smitvarnasvæði.

IV.

    Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi, sem borist hafa Matvælastofnun fyrir 1. júlí 2023 og sem ekki hafa verið endanlega afgreiddar fyrir gildistöku laga þessara, skal fara samkvæmt eldri lögum sem halda gildi sínu að því marki sem nauðsynlegt er til að leysa megi úr umsókn. Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi, sem borist hafa Matvælastofnun 1. júlí 2023 og síðar og sem ekki hafa verið endanlega afgreiddar fyrir gildistöku laga þessara, skal fara samkvæmt lögum þessum.

V.

    Þegar fyrsta reglugerð um heildarlaxamagn liggur fyrir samkvæmt lögum þessum skal laxahlutur einstakra rekstrarleyfishafa reiknaður á grundvelli lífmassa frjós lax samkvæmt rekstrarleyfi sem hlutfall af heildarlífmassa áhættumats erfðablöndunar sem birt var hinn 3. mars 2022.


VI.

    Öll rekstrarleyfi samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, sem eru í gildi við gildistöku laga þessara skulu breytast í ótímabundin leyfi við gildistöku laganna. Frá og með gildistöku laga þessara skal allt eldi í sjókvíum verða kynslóðaskipt með hvíldartíma milli kynslóða án þess að slíks sé sérstaklega getið í rekstrarleyfi.
    Ákvæði 1. mgr. 64. gr. skulu gilda þegar metið er hvort rekstrarleyfishafi, sem öðlast hefur ótímabundið leyfi skv. 1. mgr., uppfylli nýtingarskilyrði fyrir rekstrarleyfi og skal fimm ára frestur 1. mgr. 64. gr. talinn frá 1. janúar 2025. Að loknu 5 ára tímabili skv. 1. mgr. 64. gr. skal 2. mgr. 64. gr. gilda um ótímabundin leyfi skv. 1. mgr.


VII.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 76. gr. skal fjárhæð gjalds fyrir hvert kílógramm slátraðs lax og regnbogasilungs nema því hlutfalli reiknistofnsins sem hér segir: 4/ 7 árið 2025, 5/ 7 árið 2026 og 6/ 7 árið 2027.


VIII.

    Lög þessi skal endurskoða eigi síðar en 1. júní 2029. Við endurskoðun laganna skal m.a. skoða árangur af hvatakerfum tengdum lús, afföllum og stroki. Þá skal endurmeta stöðu laganna með tilliti til landeldis og hafeldis að fenginni reynslu af rannsóknum, framkvæmdum og rekstri, eftir því sem við á. Einnig skal endurskoða þrepaskiptingu gjalds skv. 2. mgr. 76. gr. og skal þá m.a. litið til þróunar heimsmarkaðsverðs á eldislaxi og rekstrarafkomu rekstrarleyfishafa.

IX.

    Umhverfissjóður sjókvíaeldis samkvæmt lögum þessum er sami lögaðili og Umhverfissjóður sjókvíaeldis samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008. Um umsóknir um styrki úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis, sem ekki hafa verið endanlega afgreiddar við gildistöku laga þessara, fer samkvæmt lögum þessum. Þrátt fyrir ákvæði laga þessara um úthlutanir úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis skal stjórn sjóðsins heimilt að ljúka greiðslum vegna umsókna um styrki sem hafa verið samþykktar fyrir gildistöku laga þessara.
    Samfélagssjóður sjókvíaeldis er sami lögaðili og Fiskeldissjóður samkvæmt lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019, sem felld eru úr gildi með lögum þessum. Þrátt fyrir ákvæði laga þessara um úthlutanir úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis skal stjórn sjóðsins heimilt að ljúka greiðslum vegna umsókna um styrki sem hafa verið samþykktar af Fiskeldissjóði fyrir gildistöku laga þessara.

Greinargerð.

Efnisskipan.
     1.      Inngangur.
     2.      Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
             2.1    Sjókvíaeldi.
             2.2    Landeldi og hafeldi.
             2.3    Sjálfbær þróun.
     3.      Meginefni frumvarpsins.
             3.1.    Sjókvíaeldi
            3.1.1.    Áhættumat erfðablöndunar.
            3.1.2.    Skýrara hlutverk Hafrannsóknastofnunar.
            3.1.3.    Lögfesting gildandi friðunarsvæða og friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar.
            3.1.4.    Áhættustýrt skipulag með innleiðingu smitvarnasvæða.
            3.1.5    Breytt fyrirkomulag úthlutunar.
            3.1.6    Fyrirkomulag á útfærslu og framkvæmd áhættumats erfðablöndunar.
            3.1.7    Aukið eftirlit Matvælastofnunar.
            3.1.8.    Sektir vegna stroks.
            3.1.9.    Breytingar á leyfilegum lífmassa vegna affalla og lúsasmits.
            3.1.10.    Hertar reglur um kynþroska fisks.
            3.1.11.    Breyttar úthlutunarreglur og álagning vegna Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
            3.1.12.    Breytt álagning framleiðslugjalds.
            3.1.13.    Breytt fyrirkomulag Fiskeldissjóðs.
            3.1.14.    Skýrara hlutverk fisksjúkdómanefndar.
            3.1.15.    Samræmd hugtakanotkun.
             3.2.    Landeldi.
             3.3.    Hafeldi.
     4.      Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
             4.1.    Almennt.
             4.2.    Ákvæði VII. kafla um laxahlut.
             4.3.    Ákvæði VIII. kafla um strok.
             4.4.    Ákvæði IX. kafla um afföll.
             4.5.    Ákvæði X. kafla um lúsasmit.
             4.6.    Ákvæði XI. kafla um kynþroska lax.
             4.7.    Ákvæði XII. kafla um afturköllun rekstrarleyfis.
     5.      Samráð.
     6.      Mat á áhrifum.
             6.1.    Áhrif á sjálfbæra þróun.
            6.1.1.    Umhverfi.
            6.1.2.    Efnahagur.
            6.1.3.    Samfélag.
             6.2.    Áhrif á stjórnsýslu ríkis.
             6.3.    Mat á fjárhagsáhrifum.
            6.3.1.    Útgjaldabreytingar.
            6.3.2.    Tekjubreytingar.
            6.3.3.    Áhrif á fjárhag sveitarfélaga.
             6.4.    Mat á jafnréttisáhrifum.
             6.5.    Mat á áhrifum á persónuvernd.
    Skýringar við einstakar greinar frumvarpsins.

1. Inngangur.
    Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs frá nóvember 2021 segir að á kjörtímabilinu verði mótuð heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku í fiskeldi. Í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um að við vinnuna verði lögð áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að greinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndar villtra laxastofna.
    Þar sem talin var þörf á að móta stefnu sem myndi ekki aðeins ná til fiskeldis í sjó var við upphaf stefnumótunarinnar tekin ákvörðun að mótuð yrði stefna fyrir eftirfarandi greinar lagareldis; sjókvíaeldi, landeldi, hafeldi og þörungarækt. Lagareldi er nýlegt hugtak en um er að ræða regnhlífarhugtak yfir ræktun lífvera í vatni, hvort sem um ræðir í sjó eða ferskvatni.
    Til undirbúnings við mótun heildstæðrar stefnu í greinum lagareldis voru stigin þrjú meginskref. Í fyrsta lagi lagði matvælaráðherra í febrúar 2022 fram drög að áherslum og verklagi við stefnumótun á sviði matvæla. Hinn 31. mars 2023 var þingsályktunartillaga matvælaráðherra um matvælastefnu til ársins 2040 samþykkt en þeirri stefnu er ætlað að vera leiðarstef fyrir matvælaframleiðslu hér á landi, þar með talið þá stefnumótun sem undir hana fellur. Í öðru lagi óskaði matvælaráðherra eftir því að Ríkisendurskoðun myndi gera sérstaka stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi þar sem fljótlega varð ljóst við stefnumótunarvinnu í ráðuneytinu að annmarkar væru á umgjörð greinarinnar, svo sem varðandi löggjöf og getu stjórnvalda til að fylgja eftir vexti greinarinnar. Úttekt Ríkisendurskoðunar, sem var viðamikil og náði til lagaframkvæmdar, stjórnsýslu og eftirlits, var skilað í janúar 2023 (sjá nánari umfjöllun í kafla 2). Í þriðja og síðasta lagi fól matvælaráðherra ráðgjafafyrirtækinu Boston Consulting Group, að undangengnu útboði, að vinna ítarlega skýrslu um greiningu á framtíðartækifærum og áskorunum í lagareldi á Íslandi. Skýrslan kom út í febrúar 2023 og ber titilinn „Staða og framtíð lagareldis á Íslandi“. Skýrslan felur í sér ítarlega úttekt á stöðu lagareldis á Íslandi sem og samanburð við önnur lönd og fjallar m.a. um umhverfismál, verðmætasköpun og regluverk.
    Við mótun lagareldisstefnunnar var horft til þeirra niðurstaðna sem fram komu í úttektum Ríkisendurskoðunar og Boston Consulting Group. Vinna við stefnumótunina var í höndum sérfræðinga matvælaráðuneytisins en haft var náið samráð við skilgreinda hagaðila (sjá nánar í kafla 5). Drög að stefnumótun lagareldis til ársins 2040 voru birt í samráðsgátt stjórnvalda 4. október 2023 (mál nr. S-182/2023). Í skjalinu er sett fram sameiginleg framtíðarsýn til ársins 2040 fyrir undirgreinar lagareldis (sjókvíaeldi, landeldi, hafeldi og þörungarækt) og fjallað um markmið hverrar greinar til að framtíðarsýnin geti orðið að veruleika. Megináherslur stefnunnar eru að lagareldi verði stjórnað á grundvelli skilgreindra mælikvarða sem komi í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfi sitt, svo sem á vistkerfi eða villta stofna. Í skjalinu er einnig að finna aðgerðaáætlun til ársins 2028 sem ætlað er að hrinda stefnunni í framkvæmd. Sú aðgerðaáætlun verður uppfærð árlega á meðan stefnan er í gildi.
    Í samræmi við aðgerðaáætlun til ársins 2028 er í bráðabirgðaákvæði við frumvarpið gert ráð fyrir að lögin, verði frumvarpið óbreytt að lögum, verði endurskoðuð árið 2029 þegar reynsla verður komin á framkvæmd laganna og áhrif þeirra. Þeir þættir sem helst hafa áhrif til endurskoðunar hvað varðar sjókvíaeldi eru ástand sjávarbotns, afföll, strok og umfang lúsasmits á tímabilinu frá gildistöku laganna til ársins 2029. Markmið frumvarpsins er að skapa hvata og aðhald sem stýrir starfsemi sjókvíaeldis í átt að þeirri framkvæmd sem best er í heiminum varðandi þessa rekstrarþætti. Hafi ástand sjávarbotns, afföll, strok eða lúsasmit staðið í stað eða færst til verra horfs en var fyrir gildistöku laganna er óhjákvæmilegt að ákvæðum þeirra verði breytt til þess að stuðla að því að markmiðum stefnu lagareldis til 2040 verði náð.

2. Tilefni og nauðsyn lagasetningar.
    Markmið þessa frumvarps er að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Lagt er til að innleiddar verði aðgerðir í stefnumótunardrögum fyrir lagareldi sem hafa m.a. það að markmiði að lagareldi verði stjórnað á grundvelli skilgreindra mælikvarða sem koma í veg fyrir að greinin hafi neikvæð áhrif á umhverfi sitt, hvort heldur er á vistkerfi eða villta stofna, og sem tryggja að dýravelferð sé með besta hætti á heimsvísu. Til að ná þessu fram eru m.a. settir fram hagrænir hvatar sem ætlað er að stuðla að því að rekstraraðilar fjárfesti í besta fáanlega búnaði, rekstraraðferðum og hæfu starfsfólki. Jafnframt hafi framkvæmd og frammistaða einstakra rekstraraðila áhrif á leyfi þeirra til rekstrar, til aukinnar eða minni framleiðslu samkvæmt fylgni við einstaka mælikvarða.
    Þær greinar sem stefnumótunardrög lagareldis til ársins 2040 tók til voru sem fyrr segir sjókvíaeldi, landeldi, hafeldi og þörungarækt. Í frumvarpi þessu er fjallað um þrjár fyrstnefndu greinarnar en nauðsyn fyrir lagasetningu er afar mismunandi milli greinanna þriggja, líkt og fjallað er um í köflum 2.1. og 2.2. Ástæða þess að þörungarækt er ekki hluti frumvarpsins er einkum sú að illgerlegt er að láta eitt og sama regluverkið gilda um starfsemi þörungaræktar og fiskeldis vegna þess eðlismunar sem er á greinunum. Þannig eru til að mynda bæði tilgangur framleiðslunnar og framleiðsluaðferðirnar ólíkar milli greina þörungaræktar og fiskeldis.
    Svo markmið frumvarpsins nái fram að ganga er nauðsynlegt að gera breytingar á lögum um lax og silungsveiði, nr. 61/2006, lögum um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006, lögum um Rannsóknadeild fisksjúkdóma, nr. 50/1986, og lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991.

2.1. Sjókvíaeldi.
    Af þeim greinum lagareldis sem frumvarp þetta nær til er sjókvíaeldi sú grein sem komin er lengst á veg með tilliti til framleiðslu og verðmætasköpunar. Greinin á sér meira en fimm áratuga sögu, en segja má að fyrir rúmlega áratug hafi fyrst orðið verulegur vöxtur í sjókvíaeldi. Nú hafa verið gefin út leyfi fyrir eldi á samtals 103 þúsund tonnum í sjó, þar af fyrir um 90 þúsund tonna eldi á frjóum laxi. Gefin hafa verið út leyfi á Vestfjörðum og Austfjörðum en miklar takmarkanir eru á staðsetningu sjókvíaeldis utan þeirra svæða vegna mögulegra umhverfisáhrifa, einkum vegna hættu á blöndun við villta laxastofna og útbreiðslu sjúkdóma og sníkjudýra.
    Vöxtur sjókvíaeldis síðastliðin ár hefur leitt til þess að atvinnugreinin er orðin mikilvæg stoð í efnahag landsins en í dag eru útflutningsverðmæti hennar um 40 milljarðar árlega og starfa um 650 manns í greininni. Ársframleiðsla í sjókvíaeldi hefur farið úr tæpum 4 þúsund tonnum í um 50 þúsund á tímabilinu 2014–2021. Aftur á móti dróst framleiðsla saman árið 2022 og reikna má með að framleiðsla verði enn minni árin 2023 og 2024. Framleiðslusamdrátturinn á sér ekki skýringar í ónægu rými atvinnugreinarinnar til framleiðslu miðað við útgefin leyfi, heldur í frávikum í starfsemi. Þau frávik eru til að mynda vegna sjúkdóma og sníkjudýra.
    Árið 2008 samþykkti Alþingi lög um fiskeldi, nr. 71/2008, sem sameinuðu í einn lagabálk ákvæði laga um eldi vatnafiska og eldi nytjastofna sjávar. Um var að ræða fyrstu heildarlöggjöf um fiskeldi og var markmið hennar að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu. Lögin endurspegluðu jafnframt það markmið að vöxtur atvinnugreinarinnar mætti ekki eiga sér stað á kostnað viðgangs og nýtingar villtra fiskistofna.
    Tvær viðamiklar breytingar hafa verið gerðar á lögunum, annars vegar með lögum nr. 49/2014 og hins vegar með lögum nr. 101/2019 en með þeim voru innleiddar ýmsar mikilvægar breytingar á lagaramma sjókvíaeldis, svo sem burðarþol fjarða og áhættumat erfðablöndunar. Tilgangur breytinganna frá árinu 2019 var að styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu sjókvíaeldis og ýta undir að sjókvíaeldi yrði sterk og öflug atvinnugrein þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis yrði höfð að leiðarljósi. Með breytingunum var leitast við að ná aukinni sátt um uppbyggingu greinarinnar til framtíðar. Með breytingalögunum frá 2019 var enn fremur innleitt bráðabirgðaákvæði þess efnis að lög um fiskeldi skyldu endurskoðuð eigi síðar en 1. maí 2024.
    Þrátt fyrir að framangreind löggjöf hafi verið til bóta hefur tíminn leitt í ljós að lögin hafa ekki að fullu náð markmiðum sínum. Þessa sér stað í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar þar sem segir:
    „Stjórnsýsla og eftirlit með sjókvíaeldi hafa reynst veikburða og brotakennd og vart í stakk búin til að takast á við aukin umsvif greinarinnar á síðustu árum. Breytingum á lögum um fiskeldi sem var ætlað að stuðla að vexti og viðgangi greinarinnar í sátt við bæði samfélag og umhverfi var ekki fylgt eftir með því að styrkja stjórnsýslu og eftirlit þeirra stofnana sem mæðir mest á. Þær breytingar sem gerðar voru á lögum um fiskeldi árin 2014 og 2019 hafa að takmörkuðu leyti náð markmiðum sínum. Hvorki hefur skapast aukin sátt um greinina né hafa eldissvæði eða heimildir til að nýta þann lífmassa sem talið er óhætt að ala á tilteknum hafsvæðum verið úthlutað með útboði af hálfu matvælaráðherra. Við úttekt Ríkisendurskoðunar kom raunar í ljós að hvorki hagsmunaaðilar, viðkomandi ráðuneyti né þær stofnanir sem koma að stjórnsýslu sjókvíaeldis eru fyllilega sátt við stöðu mála og þann ramma sem stjórnsýslu og skipulagi sjókvíaeldis hefur verið markaður.
    Samþjöppun eignarhalds, stefnulaus uppbygging og rekstur sjókvía á svæðum sem vinna gegn því að auðlindin skili hámarks ávinningi fyrir ríkissjóð hefur fest sig í sessi án mikillar umræðu eða atbeina stjórnvalda. Verðmætum í formi eldissvæða og lífmassa hefur verið úthlutað til lengri tíma án endurgjalds og dæmi eru um að uppbygging sjókvíaeldis skarist á við aðra mikilvæga nýtingu strandsvæða, svo sem siglingaleiðir, helgunarsvæði fjarskipta- og raforkustrengja og við hvíta ljósgeira siglingavita.“
    Stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar var viðamikil og komu fram 23 ábendingar sem beindust að þeim stofnunum sem hafa aðkomu að sjókvíaeldi, þ.e. matvælaráðuneytinu, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun, Fiskistofu og Skipulagsstofnun.
    Til þess að bregðast við mörgum ábendingum Ríkisendurskoðunar er nauðsynlegt að breyta gildandi lögum um fiskeldi. Nauðsyn þess að breyta umræddum lögum byggist einnig á áðurnefndri stefnumótun lagareldis til ársins 2040. Í þeirri stefnumótun er sett fram metnaðarfull framtíðarsýn til ársins 2040 sem og markmið og aðgerðir sem nauðsynlegt er að fara í til þess að hún verði að veruleika. Við mótun á markmiðum stefnumótunarinnar var m.a. litið til stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar, greiningarvinnu Boston Consulting Group, niðurstaðna starfshópa á vegum matvælaráðuneytisins um smitvarnir og strok, og athugasemda frá hagaðilum.

2.2. Landeldi og hafeldi.
    Eðli máls samkvæmt er nauðsyn og tilefni frumvarpsins talsvert annars eðlis þegar kemur að greinum landeldis og hafeldis. Landeldi er grein þar sem stór áform eru uppi en greinin er enn smá í sniðum samanborið við sjókvíaeldi. Regluverk greinarinnar byggist í dag að mestu leyti á lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, sem og samnefndri reglugerð nr. 540/2020. Gildandi lagaákvæði um fiskeldi eru hins vegar einkum skrifuð með þarfir sjókvíaeldis í huga og ná illa utan um sérstöðu landeldis, svo sem varðandi leyfisveitingar, eftirlit og dýravelferð.
    Hafeldi er grein sem enn er á hugmyndastigi hér á landi en aukinn áhugi hefur verið á slíkri starfsemi síðastliðin ár. Til að komast að því hvort og hvar hafeldi sé vænlegt í íslenskri lögsögu þarf að ráðast í fjölmargar og ítarlegar rannsóknir. Sníða þarf ramma utan um þær rannsóknir og utan um leyfisveitingaferlið en miklu máli skiptir að fyrirsjáanleiki og skýr löggjöf sé fyrir hendi til að styðja við fyrstu skref greinarinnar.

2.3. Sjálfbær þróun.
    Við samningu frumvarpsins var sérstaklega litið til þriggja stoða sjálfbærrar þróunar, þ.e. umhverfislegrar, samfélagslegrar og efnahagslegrar þróunar. Hugtakið sjálfbær þróun hefur verið skilgreint sem þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Í sinni einföldustu mynd felst sjálfbærni í því að fyrirtæki, stofnanir og hvers kyns skipulagsheildir axli ábyrgð og hafi uppbyggileg áhrif á umhverfi, stjórnarhætti og samfélag. Í uppbyggingu og stefnumótun er hugað að öllum þeim hagaðilum sem koma að rekstri skipulagsheilda á einn eða annað hátt. Sjálfbærni og samfélagsábyrgð eru þannig innleidd í kjarnastarfsemi rekstrareininga. Sjálfbærnihugsun verður því aflgjafi og uppspretta nýrra viðskiptatækifæra sem veita fyrirtækjum og stofnunum innblástur og kraft til að bæta árangur sinn og vera samkeppnishæfari á innlendum og erlendum mörkuðum. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015. Markmiðin, sem gilda á tímabilinu 2016–2030, eru 17 talsins með 169 undirmarkmið og taka bæði til innanlandsmála og alþjóðasamstarfs á gildistímanum. Aðalsmerki heimsmarkmiðanna er að þau eru algild og því hafa aðildarríkin skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra. Heimsmarkmiðin eru samþætt og órjúfanleg og mynda jafnvægi milli þriggja stoða sjálfbærrar þróunar. Þá fela þau einnig í sér fimm meginþemu sem eru mannkynið, jörðin, hagsæld, friður og samstarf. Aðalinntak markmiðanna er jafnframt að engir einstaklingar eða hópar verði skildir eftir. Því er mikilvægt að ríki horfi ekki eingöngu til meðaltala við mælingar á árangri sínum heldur nálgist innleiðingu markmiðanna á heildstæðan hátt. Heimsmarkmiðin eru margþætt og metnaðarfull og krefjast skipulagðrar vinnu af hálfu stjórnvalda en einnig þátttöku og samstarfs ólíkra hagsmunaaðila. Þá eru innri tengsl og samþætt eðli markmiðanna afar þýðingarmikil fyrir framkvæmd þeirra. Sjálfbær nýting auðlindar vísar til þess að auðlind sé nýtt með þeim hætti að hún leiði ekki til langtíma hnignunar og viðhaldi þannig getu auðlindar eða vistkerfis til að mæta þörfum komandi kynslóða. Stjórn nýtingar auðlinda sem byggist á vistkerfisnálgun felur í sér samþættingu á stjórnun lands, vatns, hafs og lífríkis, sem ýtir undir verndun og sjálfbæra nýtingu. Taka þarf tillit til allra þátta vistkerfis og mögulegra áhrifa nýtingar á einstaka þætti þess. Sem dæmi má nefna búsvæðaskerðingu, erfðablöndun, rýrnun stofna og virkni vistgerða. Einnig skipta samfélagslegir þættir og sjónarmið máli þar sem auðlindir eru sameign allra. Það þarf að vera skýrt hvar ábyrgð á nýtingu liggur og hvernig hægt er að styðja betur við að nýtingin sé sjálfbær, þar með talið að viðhalda líffræðilegri fjölbreytni, á öllum stigum nýtingar og stjórnunar.

3. Meginefni frumvarpsins.
    Með frumvarpinu eru lögð til ný heildarlög um greinar lagareldis á Íslandi. Frumvarpið skiptist í fimm þætti:
1.      Gildissvið, stjórnsýsla o.fl.
2.      Sjókvíaeldi.
3.      Landeldi.
4.      Hafeldi.
5.      Sameiginleg ákvæði.
    Meginþættir frumvarpsins eru eðli máls samkvæmt þeir kaflar sem lúta að sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi.

3.1. Sjókvíaeldi.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til ýmsar breytingar frá gildandi lögum um fiskeldi. Stefna stjórnvalda er að tryggja megi betur en áður að greinin hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfi og dýravelferð. Skilgreindir mælikvarðar um framangreint og árangur rekstraraðila samkvæmt þeim munu ráða miklu um heimild rekstrarleyfishafa til nýtingar á hámarkslífmassa á hverju svæði.
    Meginefnisbreytingar eða nýmæli frumvarpsins frá gildandi lögum um fiskeldi varða eftirfarandi:
          Áhættumat erfðablöndunar.
          Skýrara hlutverk Hafrannsóknastofnunar.
          Lögfesting gildandi friðunarsvæða og friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar. 
          Áhættustýrt skipulag með innleiðingu smitvarnasvæða. 
          Breytt fyrirkomulag úthlutunar.
          Breytt fyrirkomulag á útfærslu og framkvæmd áhættumats erfðablöndunar.
          Aukið eftirlit Matvælastofnunar.
          Sektir vegna stroks.
          Breytingar á leyfilegum lífmassa vegna affalla og lúsasmits.
          Hertar reglur um kynþroska fisks.
          Breyttar úthlutunarreglur og álagning vegna Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
          Breytt álagning framleiðslugjalds.
          Breytt fyrirkomulag Fiskeldissjóðs.
          Skýrara hlutverk fisksjúkdómanefndar.
          Samræmd hugtakanotkun.
    Ýmsum ákvæðum úr gildandi lögum er haldið óbreyttum eða breytt lítillega. Ákvæði í gildandi lögum sem ekki eru talin þjóna tilgangi sínum lengur, ýmist vegna breyttra áherslna eða breytts fyrirkomulag, eru ekki tekin upp í frumvarp þetta. Sé breyting eða niðurfelling ákvæðis þess eðlis að nauðsynlegt þykir að gera grein fyrir því er slíkt gert í skýringum við einstakar greinar frumvarpsins.

3.1.1. Áhættumat erfðablöndunar.
    Samkvæmt gildandi lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, er áhættumat erfðablöndunar gefið út í magni frjórra laxa, mælt í lífmassa. Áhættumatið byggist á líkani sem hefur það að markmiði að geta spáð fyrir um dreifingu eldislaxa sem strjúka frá hverjum stökum eldisstað og áætlað hve mikið af þeim fiski mun ganga í hverja á.
    Við vinnslu frumvarpsins var sá möguleiki kannaður í samstarfi við Hafrannsóknastofnun að áhættumat erfðablöndunar yrði gefið út í fjölda fiska í stað lífmassa. Við þá skoðun kom sá annmarki í ljós að slíkur umreikningur er erfiður vegna þess að núgildandi áhættumat byggist á framleiðslu á hverju ári. Með því að nota það viðmið og byggja á fjölda fiska var ljóst að ýmis markmið frumvarpsins næðust ekki og að slíkt viðmið kynni jafnframt að leiða til neikvæðra umhverfishvata við framleiðslu. Til framtíðar er engu að síður talið mikilvægt að viðmiðinu í áhættumati erfðablöndunar verði breytt og miðað verði við fjölda fiska í sjó í stað lífmassa enda er það fjöldi fiska í sjó sem ræður hættu á stroki. Ekki eru því lagðar til breytingar á gildandi lögum með frumvarpinu að þessu leyti heldur er lagt til að Hafrannsóknastofnun verði falið að endurmeta forsendur og nálgun áhættumats erfðablöndunar út frá fjölda fiska í stað lífmassa.

3.1.2. Skýrara hlutverk Hafrannsóknastofnunar.
    Í frumvarpinu er lögð áhersla á að verkefni Hafrannsóknastofnunar er lúta að sjókvíaeldi séu í ríkara mæli í formi rannsókna og ráðgjafar í samræmi við lög um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, nr. 112/2015.
    Hlutverk Hafrannsóknastofnunar samkvæmt gildandi lögum hefur verið gagnrýnt nokkuð þar sem hlutverki stofnunarinnar er í mörgum tilvikum talið svipa til stjórnsýsluhlutverks en mikilvægt er að ekki leiki vafi á stjórnsýslulegri stöðu stofnunarinnar. Þessi gagnrýni kom til að mynda fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar sem benti á að úthlutun og skipting á hámarkslífmassa á milli fjarða sé ákvörðun um skiptingu verðmæta milli svæða og í sumum tilfellum fyrirtækja sem hljóti að teljast stjórnvaldsákvörðun. Það sama eigi einnig við um skiptingu eldissvæða.
    Til að bregðast við framangreindu er í frumvarpi þessu lagt til að verkefni Hafrannsóknastofnunar er lúta að burðarþolsmati séu í formi ráðgjafar. Hin endanlega stjórnvaldsákvörðun mun eftir atvikum verða í höndum stjórnvalda eða ráðherra.

3.1.3. Lögfesting friðunarsvæða og friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar.
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði þau friðunarsvæði þar sem eldi laxfiska er nú óheimilt samkvæmt auglýsingu nr. 460/2004. Sú auglýsing var sett samkvæmt heimild í þágildandi lögum um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, sem kvað á um að landbúnaðarráðherra gæti að fenginni umsögn dýralæknis fisksjúkdóma, veiðimálanefndar, veiðimálastjóra og Veiðimálastofnunar takmarkað eða bannað fiskeldi, hafbeit eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða landsvæðum sem teldust sérlega viðkvæm gagnvart slíkri starfsemi. Nær bannið til eldis á öllum laxfiskum, þ.e. til eldis á Atlantshafslaxi, regnbogasilungi, bleikju og urriða. Auglýsingin var birt af Veiðimálastofnun og var breyting á auglýsingu nr. 226/2001 en sú auglýsing takmarkaði aðeins eldi á frjóum laxi. Með breytingunni 2004 lagði veiðimálastjóri til að ákvæðið yrði útvíkkað og styrkt og næði til eldis á öllum laxfiskum, þ.e. til eldis á Atlantshafslaxi, regnbogasilungi, bleikju og urriða. Varð þetta til þess að auglýsingin frá 2004 takmarkaði eldi allra laxfiska innan umræddra fimm svæða. Umræddri aðgerð var þannig ætlað að draga úr áhættu af völdum mögulegs stroks úr sjókvíaeldi, lágmarka hættu sem kynni að stafa af dreifingu sjúkdóma og sníkjudýra og vernda stofna sjógenginnar bleikju og urriða fyrir áhrifum af völdum sjókvíaeldis.
    Þar sem friðunarsvæði auglýsingar nr. 460/2004 eru afar mikilvæg til að lágmarka áhrif sjókvíaeldis á umhverfi sitt og villta stofna, þykir rétt að þau verði lögfest. Þannig hvíli friðunarsvæðin á sterkari réttarheimild en auglýsing veitir. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að friðunarsvæðin verði útvíkkuð með þeim hætti að undir þau falli einnig Eyjafjörður og Öxarfjörður.
    Áður hefur farið fram athugun á því innan matvælaráðuneytisins (þá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið) hvort friða ætti Eyjafjörð. Sú athugun var gerð árið 2020 í kjölfar þess að ráðuneytinu hafði borist erindi sem laut að því að ekki yrði hafið sjókvíaeldi i Eyjafirði. Á grundvelli 1. mgr. 6. gr. gildandi laga um fiskeldi leitaði ráðuneytið umsagnar sveitarfélaga í nágrenni Eyjafjarðar um hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði. Umsagnir bárust frá átta sveitarfélögum:
          Í umsögn Akureyjarbæjar var lagt til að Eyjafjörður yrði friðaður fyrir sjókvíaeldi líkt og gert hefur verið með Húnaflóa, Skagafjörð, Skjálfanda, Þistilfjörð, Bakkaflóa, Vopnafjörð og Héraðsflóa.
          Í umsögn Dalvíkurbyggðar var óskað eftir því við ráðherra að hann gæfi sveitarfélögum við Eyjafjörð það svigrúm sem þurfi til að vinna málið áfram. Þannig yrði ákvörðun um þetta stóra málefni ekki tekin undir tímapressu heldur að undangenginni málefnalegri umræðu.
          Í umsögn Eyjafjarðarsveitar var því hafnað að svara spurningu ráðherra um hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði fyrr en allar nauðsynlegar upplýsingar lægju fyrir og málefnalegar umræður hefðu átt sér stað.
          Í umsögn Fjallabyggðar kom fram að ekki væri hægt að taka ákvörðun um að takmarka og/eða banna fiskeldi eða eldisaðferðir á ákveðnum svæðum, til að mynda í Eyjafirði, sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart neikvæðum vistfræðilegum áhrifum, nema fyrir liggi rannsóknir sem styðji slíka ákvörðun.
          Í umsögn Grýtubakkahrepps sagði að ekki væru forsendur til að taka endanlega ákvörðun af eða á um friðun Eyjafjarðar á þessu stigi.
          Í umsögn Hörgársveitar var bent á að í Eyjafirði væru friðlýstar náttúruminjar sem væru einstakar á heimsmælikvarða. Þá skoraði sveitarstjórnin á stjórnvöld að unnið yrði strandsvæðaskipulag fyrir allan fjörðinn með aðkomu allra sveitarfélaga.
          Í umsögn Svalbarðsstrandarhrepps var greint frá því að sveitarstjórnin taki undir bókun bæjarstjórnar Akureyrarbæjar þar sem lýst var yfir stuðningi við friðun Eyjafjarðar.
          Í umsögn Þingeyjarsveitar var lagt til að Eyjafjörður yrði friðaður fyrir sjókvíaeldi.
    Á sama tíma óskaði ráðuneytið jafnframt umsagnar Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu og Matvælastofnunar um hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði:
          Í umsögn Hafrannsóknastofnunar kom fram það álit stofnunarinnar að tilefni væri til þess að banna fiskeldi í sjókvíum í Eyjafirði m.a. vegna stöðu villtra stofna laxfiska, þá sérstaklega bleikju, og hugsanlegra neikvæðra vistfræðilegra áhrifa á lífríki fjarðarins. Í svari stofnunarinnar var jafnframt tiltekið að líkt og með aðra ráðgjöf stofnunarinnar væri um varúðarnálgun að ræða þar sem náttúran nyti vafans í því skyni að nýting auðlinda væri sjálfbær.
          Í umsögn Fiskistofu kom fram að tilefni væri til að takmarka eða banna eldi á frjóum laxi af norskum uppruna í opnum sjókvíum í Eyjafirði til þess að tryggja verndun náttúrulegra laxfiskastofna og veiðihagsmuni, í samræmi við markmið laga um fiskeldi, nr. 71/2008, og markmið laga um lax og silungsveiði, nr. 61/2006.
          Í umsögn Matvælastofnunar kom fram að stofnunin teldi ekki rétt að taka beina afstöðu til þess hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði, enda gætu þar komið til önnur sjónarmið sem ekki væru á verksviði stofnunarinnar.
    Eftir að framangreind athugun ráðuneytisins fór fram hefur það tvisvar sinnum gerst að mikill fjöldi laxa hafa strokið úr sjókvíum hér á landi. Annar þeirra uppgötvaðist í ágúst 2023 þegar talið er að yfir þrjú þúsund laxar í sláturstærð hafi strokið úr sjókvíum Arctic Fish í Kvígindisdal í Patreksfirði. Fljótlega fór að bera á eldislaxi í ám og hefur eldislax fundist á stóru svæði frá Kálfá í suðri að Fnjóská í norðri. Hin víðtæka dreifing þessara strokulaxa nær því inn á friðunarsvæði beggja vegna Vestfjarða þar sem eldi er heimilað. Í ljósi þess hvernig afleiðingar stroksins hafa komið fram í víðtækri dreifingu um landið, þykir rétt að bæta Eyjafirði og Öxarfirði við þau svæði sem eru þegar friðuð með umræddri auglýsingu. Ef viðlíka atburður ætti sér stað í Eyjafirði eða Öxarfirði með sambærilegri dreifingu strokulaxa til vesturs og austurs frá strokstað, þá er á því svæði að finna margar af mikilvægustu laxveiðiám landsins, í Skagafirði, við Húnaflóa og í Vopnafirði.
    Þegar stefnumótunardrög lagareldis voru kynnt til samráðs var lýst yfir að fyrirhugað væri að lögfesta friðunarsvæði auglýsingar nr. 460/2004. Við stefnumótunardrögin bárust alls 86 umsagnir og þar af voru átta frá aðilum sem kölluðu eftir því að lögfestingin yrði einnig látin ná til Eyjafjarðar.
    Þegar frumvarpsdrögin voru kynnt til samráðs var lagt til að lögfestingin myndi ekki aðeins ná til umræddrar auglýsingar nr. 460/2004 heldur einnig Eyjafjarðar og Öxarfjarðar. Við frumvarpsdrögin bárust rúmlega 80 umsagnir frá einstaklingum þar sem lýst var yfir stuðningi við tillögu frumvarpsins um að friða Eyjafjörð og Öxarfjörð (sjá mál nr. S-253/2023 í samráðsgátt stjórnvalda). Sami hópur fagnaði jafnframt þeirri tillögu frumvarpsins að friðunarsvæði yrðu framvegis ákveðin með lagasetningu í stað reglugerðar ráðherra. Rétt er að geta einnig eftirtalinna umsagna:
          Í umsögn Eyjafjarðarsveitar kom fram að sveitarstjórn telur ekki mögulegt að taka upplýsta og vel rökstudda ákvörðun um hvort rétt sé að friða Eyjafjörð fyrir fiskeldi í sjókvíum fyrir komandi kynslóðir fyrr en allar nauðsynlegar upplýsingar til slíkrar ákvarðanatöku liggja fyrir, svo sem um burðarþolsmat.
          Í umsögn Hafrannsóknastofnunar var fjallað um að það væri til bóta að lagt væri til að ákveðin svæði yrðu friðuð gegn sjókvíaeldi. Það væri ekki síst mikilvægt til þess að staðinn væri vörður um líffræðilegan fjölbreytileika.
          Í umsögn Norðurþings var gerð athugasemd við að ekkert samráð hafi verið haft við sveitarfélögin við Eyjafjörð og Öxarfjörð.
          Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kom fram að íbúar við Eyjafjörð og Öxarfjörð eigi ríkra hagsmuna að gæta bæði af umhverfisvernd og uppbyggingu fiskeldis á svæðinu og því sé sérstaklega mikilvægt að ákvörðun um framtíðarnýtingu svæðanna verði ekki tekin í flýti heldur að undangenginni ítarlegri vistfræðilegri skoðun og samráði við hagaðila.
          Í umsögn Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga er ekki tekin bein afstaða til áforma í frumvarpsdrögunum um friðun en bent er á mikilvægi þess að umrædd friðunaráform verði rædd beint við hlutaðeigandi sveitarfélög áður en frumvarpið verði að lögum.
          Í umsögn Þingeyjarsveitar kemur fram að sveitarstjórn fagni lögfestingu friðunar og bent á mikilvægi þess að Eyjafjörður og Öxarfjörður verði verndaðir fyrir sjókvíaeldi enda er mikil nálægð við viðkvæm vistkerfi í sveitarfélaginu.
    Ljóst er að með lögfestingu gildandi friðunarsvæða samkvæmt fyrrgreindri auglýsingu, ásamt þeirri útvíkkun sem felst í friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar, er verið að takmarka tækifæri til starfsemi sjókvíaeldis verulega. Vöxtur í greininni verður því að miklu leyti bundinn við þau svæði sem eru í dag utan gildandi friðunarsvæðis og starfsemi hefur þegar verið hafin á. Tilgangurinn með friðunarsvæðunum er að draga úr hættu á erfðablöndun við villta laxastofna, vernda vistkerfi þeirra fjarða sem friðunarinnar njóta, lágmarka útbreiðslu á sjúkdómum og sníkjudýrum auk þess að vernda stofna sjógenginnar bleikju og urriða fyrir áhrifum fiskeldis í opnum sjókvíum.
    Með þessu frumvarpi er jafnframt lagt til að felld sé úr gildi heimild ráðherra til að takmarka eða banna fiskeldi á ákveðnum svæðum, sbr. 6. gr. gildandi laga um fiskeldi, nr. 71/2008. Slík ákvarðanataka yrði þess í stað í höndum löggjafarvaldsins enda um stóra og mikilvæga ákvörðun að ræða sem snertir ólíka hagsmunahópa í þjóðfélaginu.

3.1.4. Áhættustýrt skipulag með innleiðingu smitvarnasvæða.
    Reynsla annarra þjóða af sjókvíaeldi hefur sýnt að skipulag rekstrarleyfa getur ráðið miklu um rekstraröryggi, smitvarnir, dýravelferð og framleiðslugæði afurða. Að öllum líkindum er faraldur blóðþorra í Færeyjum, sem kom fyrst upp árið 2000, skýrasta dæmið um hvaða áhrif skipulag rekstrarleyfa getur haft. Á þeim tíma störfuðu margir rekstraraðilar innan sama svæðis en fáum árum eftir að faraldurinn kom upp dróst framleiðsla Færeyja á eldislaxi saman um 90%. Eftir þessa miklu röskun á rekstri sjókvíaeldis, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á dýravelferð og samfélag, voru rekstrarleyfi í Færeyjum endurskipulögð svo nú starfar aðeins einn aðili á hverju skilgreindu svæði. Hefur þetta skilað þeim árangri að blóðþorri hefur ekki komið upp í verulegum mæli eftir þá endurskipulagningu. Með sama hætti eru sterkar vísbendingar frá Noregi um að dýraheilbrigði og framleiðslugæði séu lakari þar sem fleiri aðilar starfa á sama svæði líkt og kemur fram í nýlegri skýrslu frá Ríkisendurskoðun Noregs (Myndighetenes arbeid med fiskehelse og fiskevelferd i havbruksnæringen). Á þeim svæðum eru til að mynda meiri afföll, meiri útbreiðsla sjúkdóma og meiri lús.
    Blóðþorri var í fyrsta sinn staðfestur í laxeldi á Íslandi í nóvember 2021 en fram að því hafði almenn staða heilbrigðis verið góð. Þetta var í fyrsta sinn sem alvarlegur veirusjúkdómur kom upp og þurfti að tæma öll smituð svæði í Reyðarfirði og Berufirði og setja í hvíld. Faraldsfræðilegar rannsóknir leiddu í ljós að veiran hafði tekið sér far með eldisbúnaði sem hafði farið á milli fjarða vikurnar áður en veirusmitið uppgötvaðist. Í kjölfar smitsins skipaði matvælaráðherra starfshóp sem falið var að rýna gildandi regluverk um smitvarnir í sjókvíaeldi og vega og meta hvort þörf væri á breyttri nálgun á Íslandi. Í hópnum voru fulltrúar frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum og Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi ásamt tveimur fulltrúum frá matvælaráðuneytinu. Hópurinn skilaði tillögum sínum til matvælaráðherra í janúar 2023 í formi minnisblaðs en þær sneru að breytingum á regluverki, viðbragðsáætlunum, eftirliti, vöktun og skipulagningu á starfsemi sjókvíaeldis.
    Meðal mikilvægustu tillagna hópsins er innleiðing smitvarnasvæða. Í gildandi lögum er að finna hugtakið „sjókvíaeldissvæði“ sem er skilgreint sem fjörður eða afmarkað hafsvæði fyrir sjókvíaeldi þar sem aðeins er gert ráð fyrir einum árgangi eldisfisks hverju sinni. Samkvæmt skilgreiningu á hugtakinu er jafnframt gert ráð fyrir þeim möguleika að fleiri en einn rekstrarleyfishafi geti starfrækt sjókvíaeldi á sama sjókvíaeldissvæði með skilyrtri samræmingu í útsetningu seiða og hvíld svæðisins.
    Áðurnefndur starfshópur taldi brýnt að breyta hugtakinu „sjókvíaeldissvæði“ í „smitvarnasvæði“ til þess að leggja áherslu á tilgang þess og bæta við skilgreininguna að fjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva á mismunandi smitvarnasvæðum verði að lágmarki 5 km. Starfshópurinn lagði til skiptingu fjarða í ákveðinn fjölda smitvarnasvæða en í ljósi flókins samspils leyfisveitinga og fjölda umsókna um rekstrarleyfi í Ísafjarðardjúpi náðist ekki samstaða innan hópsins um að leggja fram þá tillögu að aðeins einn rekstraraðili fái starfað innan hvers smitvarnasvæðis. Því ályktaði starfshópurinn í þá veru að mögulega geti fleiri en einn aðili starfað innan smitvarnasvæðis með því skilyrði að leyfishafar viðhafi samræmda útsetningu seiða og hvíld eldissvæða innan smitvarnasvæðis. Jafnframt að skilyrt sé að leyfishafar vinni sameiginlega að smitvörnum, viðbrögðum við sjúkdómum og vöktun laxalúsar.
    Eftir að niðurstöður smitvarnahópsins komu út kom upp lúsafaraldur í Tálknafirði og Patreksfirði haustið 2023. Alls drápust 1.350.313 fiskar og 317.541 fiskur var að auki aflífaður og fargað. Ef þessum fjölda hefði verið slátrað með eðlilegum hætti sem 5 kg fiski, þá má áætla sláturþyngdina um 8.000 tonn, sem samsvarar um 20% af ársframleiðslu síðastliðinna ára. Ljóst er að um mikið tap er að ræða fyrir rekstraraðila en ekki síður fyrir nærsamfélögin og þjóðarbúið í heild. Lengi vel var talið að lús yrði ekki vandamál í íslensku laxeldi en með vaxandi umfangi sjókvíaeldis hefur viðvera laxalúsar aukist. Fyrst var meðhöndlað með lyfjum á árinu 2017 og á árabilinu 2017–2022 var lyfjum beitt í 32 skipti. Þetta gildir fyrir Vestfirði en lúsar hefur varla orðið vart á Austfjörðum. Það kann að skýrast af lægri sjávarhita en mögulega líka af þeirri einföldu ástæðu að ekki hefur enn náðst upp þéttleiki í laxeldi á Austfjörðum. Matvælastofnun hefur sett fram skýrslu þar sem atburðarás lúsafaraldursins á Vestfjörðum var greind. Þar kemur m.a. fram að stofnunin telur að rekstraraðilar hefðu mátt bregðast við af meiri fyrirhyggju, að lyfjaval hafi verið rangt, meðhöndlun hafi dregist og verið takmörkuð og slátrun fisks hafi dregist vegna tafa við byggingu sláturhúss. Matvælastofnun telur að hægt hefði verið að koma í veg fyrir þessa atburði ef viðbrögð rekstraraðila hefðu verið samræmd og ítarleg. Stofnunin telur nauðsynlegt að breyta lagaumhverfi á þann hátt að settur verði heildstæður rammi fyrir varnir gegn sjúkdómum og sníkjudýrum í fiskeldi, með það að leiðarljósi að áhersla verði sett á fyrirbyggjandi aðgerðir og skjót viðbrögð, sem stuðla að sjálfbæru og ábyrgu fiskeldi.
    Í ljósi framangreindra atburða, þ.e. blóðþorrafaraldursins og lúsafaraldursins, er talið nauðsynlegt að bregðast við með afgerandi hætti og innleiða smitvarnarsvæði þar sem einungis einn aðili starfar. Í stefnumótun matvælaráðuneytisins og í frumvarpi þessu er því gengið lengra en tillögur starfshópsins um smitvarnir gerðu ráð fyrir með því að aðeins einum rekstrarleyfishafa verði heimilt að starfrækja sjókvíaeldi á hverju smitvarnasvæði. Þetta fyrirkomulag minnkar áhættu og frávik eins rekstraraðila hafa ekki endilega áhrif á aðra rekstraraðila. Í bráðabirgðaákvæði I er þó gert ráð fyrir því að tveimur eða fleiri rekstraraðilum verði heimilt að starfrækja sjókvíaeldi á sama smitvarnasvæði til 1. júlí 2028 með þeim skilyrðum að allt skipulag og framkvæmd reksturs, smitvarna og vöktun laxalúsar sé samræmd. Rétt er að taka fram að samvinna samkeppnisaðila sem hér er lýst felur í sér kerfisbundna áhættu og að óbreyttu gerir frumvarpið því ráð fyrir að öll leyfi sem svo háttar um, verði felld úr gildi 1. júlí 2028.
    Ef aðeins einn aðili er á hverju smitvarnasvæði er auðveldara að finna upptök frávika í rekstri. Þannig er auðveldara að ákvarða nauðsynlegar úrbætur og viðurlög vegna slíkra frávika. Með sama hætti yrði auðveldara að mæla jákvæðan árangur og umbuna rekstraraðilum eftir því sem við á. Einnig má halda því fram að það sé aukin hvatning fyrir rekstraraðila til að stunda starfsemi sína á ábyrgan hátt þar sem lífrænt álag er undir hverjum og einum rekstraraðila komið. Áætlanir um að aðeins einn rekstraraðili sé á hverju smitvarnasvæði ríma vel við þær ábendingar og tillögur sem komu fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar og skýrslu Boston Consulting Group. Þannig sagði í úttekt Ríkisendurskoðunar að marka þyrfti skýra stefnu um mögulega endurskipulagningu fyrirliggjandi eldissvæða og endurskoðun þeirra rekstrarleyfa sem þeim fylgja með tilliti til þess að ná fram bestu heildarnýtingu auðlindarinnar. Í skýrslu Boston Consulting Group er bent á flækjustig og takmarkanir sem það hefur í för með sér að fleiri en einn rekstraraðili séu með starfsemi í sama firði, m.a. þar sem erfiðara er að hafa sveigjanleika í tilfærslu leyfilegs lífmassa.
    Áðurnefndur starfshópur um smitvarnir lagði til að Reyðarfirði yrði skipt upp í tvö smitvarnasvæði en í Fáskrúðsfirði, Berufirði, Stöðvarfirði, Patreksfirði, Tálknafirði og Dýrafirði verði hver fjörður eitt smitvarnasvæði. Þá lagði starfshópurinn til að Arnarfirði yrði skipt upp í þrjú smitvarnasvæði og Önundarfirði í tvö svæði. Starfshópurinn lagði jafnframt til að hafin yrði vinna á vegum Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar við að skilgreina smitvarnasvæði í Ísafjarðardjúpi og taldi æskilegt að ljúka því fyrir árslok 2023 en fram að því verði að tryggja að lágmarki 5 km fjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva.
    Á Austfjörðum er aðeins einn rekstraraðili starfandi og hefur farið fram endurskipulagning af hálfu rekstraraðila með tilliti til sérstakra smitvarnasvæða. Því er ólíklegt að innleiðing smitvarnasvæða samkvæmt frumvarpinu hafi áhrif á sjókvíaeldisstarfsemi á Austfjörðum. Á Vestfjörðum er hins vegar önnur staða uppi þar sem tveir rekstraraðilar eru í Patreksfjarðarflóa (Patreks- og Tálknafjörður), tveir aðilar eru í Önundarfirði og þrír aðilar í Ísfjarðardjúpi og umsókn eins rekstraraðila til viðbótar bíður afgreiðslu. Er því ljóst að áhrifa af tillögum frumvarpsins um smitvarnasvæði mun fyrst og fremst gæta á Vestfjörðum.
    Til þess að gefa hugmynd um hvernig smitvarnasvæðin gætu litið út á Vestfjörðum hefur ráðuneytið unnið frumathugun á því hvernig skiptingu þeirra gæti verið háttað. Tók sú athugun m.a. tillit til framangreindra niðurstaðna smitvarnarhópsins.
          Patreksfjarðarflói: Eitt smitvarnasvæði eða tvö smitvarnasvæði, skipting fer á milli fjarðakerfis Patreks- og Tálknafjarðar.
          Arnarfjörður: Tvö smitvarnasvæði sem skiptast þvert frá norðri til suðurs. Tvö smitvarnasvæði sem skiptast frá austri til vesturs. Þrjú smitvarnasvæði, skipt frá norðri til suðurs sem og eitt smitvarnasvæði í innri Arnarfirði.
          Önundarfjörður: Eitt smitvarnasvæði.
          Ísafjarðardjúp: Tvö smitvarnasvæði sem skiptast frá norðri til suðurs. Tvö smitvarnasvæði, skipt frá austri til vesturs. Þrjú smitvarnasvæði, skipt frá norðri til suðurs sem og eitt smitvarnasvæði í innanverðu Ísafjarðardjúpi.
    Rétt er að taka allan vafa um það að fyrrgreindar tillögur lýsa aðeins hvernig möguleg smitvarnasvæði gætu litið út en eru ekki endanleg niðurstaða. Slík niðurstaða yrði að byggjast á ítarlegri skoðun í samráði við Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum.

3.1.5. Breytt fyrirkomulag úthlutunar.
    Með frumvarpinu er lagt til nýtt fyrirkomulag úthlutunar. Samkvæmt gildandi lögum getur ráðherra úthlutað eldissvæðum þegar burðarþolsmat, áhættumat um erfðablöndun og svæðaskipting Hafrannsóknastofnunar liggur fyrir. Til að ná fram markmiðum frumvarps þessa, m.a. um að aðeins einn rekstrarleyfishafi sé á hverju smitvarnasvæði, er nauðsynlegt að heimild ráðherra til úthlutunar nái til smitvarnasvæðis en ekki eldissvæðis.
    Ef fyrirætlun þess aðila sem fær smitvarnasvæðinu úthlutað er að ala frjóan lax er honum nauðsynlegt að hafa yfir að ráða laxahlut. Í frumvarpinu er kveðið á um að ef heildarlaxamagn eykst vegna afmörkunar nýrra smitvarnasvæða þá skuli sú viðbót ekki koma til aukningar á laxamagni þeirra rekstrarleyfishafa sem þegar hafa yfir að ráða laxahlut heldur skuli sú viðbót mynda óráðstafaðan laxahlut sem boðin skal út. Einungis aðilar sem hafa fengið úthlutað smitvarnasvæði í hinum nýja landshluta eða smitvarnasvæði geta boðið í óráðstafaðan laxahlut. Með þessu móti er hinum nýja eða tilvonandi rekstarleyfishafa smitvarnasvæðisins gert kleift að kaupa laxahlut sem þarf til að ala frjóan lax á smitvarnasvæði.
    Um fyrirkomulag úthlutunar vísast að öðru leyti til skýringa við V. kafla sem og skýringa við einstaka ákvæði þess kafla.

3.1.6. Fyrirkomulag á útfærslu og framkvæmd áhættumats erfðablöndunar.
    Í frumvarpinu er lagt til að áfram verði byggt á áhættumati erfðablöndunar frá Hafrannsóknastofnun við stjórn eldis á frjóum laxi en með nokkrum breytingum.
    Í fyrsta lagi er lagt til að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar taki áfram mið af lífmassa. Lífmassi er margfeldi af fjölda fiska og meðalþyngd þeirra en áhættumati erfðablöndunar er einkum ætlað að meta líkur á stroki og afleiðingum þess. Líkt og fram kemur í kafla 3.1.1 kom til skoðunar við gerð frumvarpsins að miða við fjölda fiska frekar en margfeldi af meðalþyngd þeirra þar sem meiri hætta væri af stroki margra fiska heldur en fárra þungra fiska. Hugsa má sér dæmi þar sem 10 tonn af fiski eru í sjókví. Annars vegar geta þetta t.d. verið 2.000 fiskar sem hver vegur 5 kg en hins vegar 2.500 fiskar sem hver vegur 4 kg. Líklegt má telja að verra værri að 2.500 fiskar strykju heldur en 2.000 fiskar þó að lífmassinn í þessu dæmi væri sá sami, eða 10 tonn. Sökum þeirra ástæðna sem raktar eru í kafla 3.1.1 eru aftur á móti ekki lagðar til til breytingar á gildandi lögum með frumvarpinu að þessu leyti heldur er lagt til að Hafrannsóknastofnun verði falið að endurmeta forsendur og nálgun áhættumats erfðablöndunar út frá fjölda fiska í stað lífmassa. Því skal þó haldið til haga að lífmassi getur einnig verið gagnleg nálgun þar sem líkur á því að lax sé kynþroska aukast almennt með þyngd. Þannig gæti orðið meiri umhverfisskaði af stroki fárra stórra laxa heldur en margra smárra enda þeir stóru almennt líklegri til þess að leita upp í ár þar sem villta nytjastofna er að finna.
    Í öðru lagi er lagt til að Hafrannsóknastofnun leggi ekki til skiptingu á hámarksmagni laxa milli einstakra fjarða eins og nú er gert, sbr. auglýsingu nr. 268/2022. Ein breytan í útreikningum Hafrannsóknastofnunar er fjarlægð frá veiðiám líkt og fram kemur í fylgiskjali með auglýsingu nr. 268/2022. Af því leiðir að fleiri laxa má ala í fjörðum sem fjær eru laxveiðiám heldur en fjörðum sem eru nær laxveiðiám. Með öðrum orðum væri hámark lífmassa sem leyfilegt er að ala í sjókvíaeldi, hærra eftir því sem eldi er fjær ám þar sem villta nytjastofna er að finna. Af þessu leiðir jafnframt að lífmassi fiska er ekki föst stærð heldur breytileg tala sem tekur mið af staðsetningu eldis hverju sinni. Því er lagt til í frumvarpinu að ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, sem sett er fram í áhættumati erfðablöndunar, setji annars vegar fram hámarksmagn laxa sem ala má við gefnar forsendur, sem og skiptihlutfall sem felur í sér fastan umreikningstuðul milli annars vegar hámarksmagns laxa og hins vegar einstakra fjarða eða smitvarnasvæða. Þannig mætti hugsa sér t.d. að hámarksmagn laxa samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar væri 100.000 tonn. Tiltekinn rekstrarleyfishafi hefði heimild til þess að ala 10% af þeirri tölu, eða 10.000 tonn. Ef viðkomandi rekstrarleyfishafi myndi setja allan þann fisk út í sjó í t.d. Patreksfirði, þá væri stuðullinn 1, þ.e. hann fengi að setja öll 10.000 tonnin þar út. Ef sami rekstrarleyfishafi ætlaði þess í stað að setja 10.000 tonn út í sjó í Ísafjarðardjúpi, þá yrði stuðullinn að öllum líkindum lægri en 1 og því mætti setja minna en 10.000 tonn út. Ástæðan væri sú að Ísafjarðardjúp er nær ám með villtum nytjastofnum heldur en Patreksfjörður. Við undirbúning og gerð frumvarpsins óskaði matvælaráðuneytið eftir því að Hafrannsóknastofnun útbyggi stuðla milli fjarða miðað við núverandi áhættumat erfðablöndunar þ.e. stuðla sem ákvörðuðu hvernig hægt væri að flytja heimildir milli fjarða eins og lagt er upp með í þessu frumvarpi. Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar eru eftirfarandi:

     Um er að ræða skiptingu á milli fjarða á Vestfjörðum annars vegar og Austfjörðum hins vegar.
    Á Vestfjörðum er um að ræða skipti frá Suðurfjörðum og í Ísafjarðardjúp og er hér reiknað skiptihlutfall á grunni síðasta útgefins áhættumats (2020):
    Vestfirðir:
Frá: Í:
Stuðull
Patreksfirði/Tálknafirði/Patreksfjarðarflóa Ísafjarðardjúp
0,6
Arnarfirði Ísafjarðardjúp
0,7
Dýrafirði Ísafjarðardjúp
0,8
Önundarfirði Ísafjarðardjúp
0,8

    Á Austfjörðum er stuðull skipta frá Berufirði í eftirfarandi vatnshlot reiknuð á grunni áhættumats 2020:
    Austfirðir:
Frá: Í:  
Berufirði Stöðvarfjörð
0,8
Berufirði Fáskrúðsfjörð
2
Berufirði Reyðarfjörð
2
Berufirði Norðfjarðarbotn
2
Berufirði Seyðisfjörð
2

Frá: Í:  
Stöðvarfirði Berufjörð
1,25
Stöðvarfirði Fáskrúðsfjörð
2,5
Stöðvarfirði Reyðarfjörð
2,5
Stöðvarfirði Norðfjarðarbotn
2,5
Stöðvarfirði Seyðisfjörð
2,5
    Skiptihlutfall milli Fáskrúðsfjarðar, Reyðarfjarðar, Norðfjarðarbotns og Seyðisfjarðar er 1.

    Í þriðja lagi er rétt að hafa í huga að tímasetningar og frestir geta leitt til þess að lífmassi laxa í sjó getur tímabundið farið yfir heildarlaxamagn hverju sinni. Gerist það einkum vegna þess að rekstrarleyfishafar fengju að ljúka eldi á tiltekinni kynslóð laxa áður en lækkun á laxamagni kæmi til framkvæmda vegna lækkunar á heildarlaxamagni samkvæmt reglugerð ráðherra. Samkvæmt gildandi lögum skyldi „gefinn hæfilegur frestur til aðlögunar“ þegar áhættumati erfðablöndunar var breytt svo segja má að efnislega sé ekki um breytingu að ræða þótt orðalagi sé breytt.
    Í fjórða lagi eru með breytingum frumvarpsins skapaðar forsendur til skilvirkari nýtingar á eldisheimildum en nú er samkvæmt gildandi lögum. Einkum gerist það með því að rekstrarleyfishafa er nú gert kleift að flytja heimildir sínar til eldis á laxi milli smitvarnasvæða og eldissvæða sem hann hefur yfir að ráða. Þá er jafnframt búinn til grundvöllur fyrir framsali og leigu laxahlutar milli rekstrarleyfishafa. Þannig gætu rekstrarleyfishafar t.d. samið um að flytja laxahlut tímabundið milli smitvarnasvæða með leigu ef einstakir rekstrarleyfishafar búa tímabundið við takmarkanir, svo sem vegna hvíldar smitvarnasvæða, skorts á seiðum eða því um líkt. Þá er hægt að semja um varanlegt framsal á laxahlut ef rekstrarleyfishafi hyggur t.d. á breytingar á sínum rekstri til frambúðar. Í öllu falli þurfa rekstrarleyfishafar að hafa í gildi rekstrarleyfi og starfsleyfi sem heimila eldi á laxi á viðkomandi svæðum og þurfa að fara að ákvæðum laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
    Í fimmta lagi, og í framhaldi af því sem segir hér að framan um skilvirka nýtingu laxahlutar, er gert ráð fyrir að ráðherra geti með reglugerð skilgreint tiltekna landshluta og að flutningur heimilda frá þeim landshluta sé óheimill þó að flutningur laxamagns innan landshlutans sé frjáls. Með vísan til ákvæðis 39. gr. frumvarpsins er flutningur laxamagns t.d. bannaður milli Austfjarða og Vestfjarða.
    Í sjötta lagi er gert ráð fyrir að ónýttur laxahlutur verði innkallaður ef laxahlutur er ekki nýttur af viðkomandi rekstrarleyfishafa eða leigutaka eða ef rekstrarleyfishafi hefur misst öll rekstrarleyfi sín til sjókvíaeldis. Er því nauðsynlegt að rekstrarleyfishafar skipuleggi rekstur sinn vel, bæði með tímanlegri eigin nýtingu og skipulagningu leigu vel fram í tímann. Hér verður að hafa í huga að frumvarpið gerir ráð fyrir að rekstrarleyfishafar útbúi tveggja ára framleiðsluáætlanir og er nýting laxahlutar án efa eitt af þeim atriðum sem rekstrarleyfishafar þurfa að hafa í huga. Þá er lagt til að Matvælastofnun bjóði út óráðstafaðan laxahlut samkvæmt nánari fyrirmælum í reglugerð.
    Í sjöunda lagi er lagt til að skapist meira svigrúm til eldis á frjóum laxi, með afmörkun nýrra smitvarnasvæða utan þeirra svæða sem þegar hefur verið úthlutað laxahlut, verði slík aukning í laxahlut boðin út í stað þess að hún renni til þeirra rekstrarleyfishafa sem fyrir eru. Almenna reglan verði að sú aukning í laxahlut sem verður til við afmörkun nýrra svæða verði einungis nýtt á þeim svæðum.

3.1.7 Aukið eftirlit Matvælastofnunar.
    Ýmsar ábendingar hafa borist frá Ríkisendurskoðun, rekstraraðilum og viðkomandi stofnunum um hvað megi betur fara í núverandi stjórnsýslukerfi. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá janúar 2023 kom m.a. fram að auka þurfi eftirlitsheimildir Matvælastofnunar og samhæfa þurfi eftirlit Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Viðbrögð Matvælastofnunar við skýrslu Ríkisendurskoðunar fólust m.a. í því að fiskeldisdeild stofnunarinnar lagði fram fimm ára stefnumarkmið þar sem gerð er grein fyrir verkefnum sem stuðla að eflingu eftirlits en um leið var bent á þá staðreynd að aukið eftirlit kallar á aukin fjárframlög þannig að sinna megi öllum verkefnum með skilvirkum hætti. Loks er vert að benda á að í minnisblaði sem starfshópur um smitvarnir í sjókvíaeldi sendi matvælaráðherra í janúar 2023 er að finna ábendingar um bætt eftirlit í sjókvíaeldi sem miða að því að efla smitvarnir og viðbrögð við sjúkdómum en flestar ábendingar hópsins um innleiðingu þeirra beinast að Matvælastofnun.
    Með þetta að leiðarljósi, og sér í lagi ábendingar Ríkisendurskoðunar, lagði matvælaráðuneytið fram tillögur við gerð fjármálaáætlunar fyrir árin 2024–2028 um eflingu fiskeldissviðs Matvælastofnunar. Bent var á að fiskeldi hefur verið í gríðarlegum vexti undanfarin ár en stjórnsýsla málaflokksins hefur ekki eflst til samræmis við það. Því væri nauðsynlegt að verja auknum fjármunum til m.a. eftirlits, leyfisveitinga og rannsókna til að skapa grundvöll fyrir frekari vöxt og jafnframt forða tjóni sem getur orðið vegna ónógrar umhverfisvöktunar og skorti á rannsóknum og eftirliti.
    Í samþykkri fjármálaáætlun 2024–2028 er gert ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðs sjávarútvegs og fiskeldis aukist um 1.224 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2023 til fjárlaga fyrir árið 2028. Gert er ráð fyrir því að með þessu aukist framlag til Matvælastofnunar vegna verkefna á sviði fiskeldis um 140 millj. kr. 2024, 190 millj. kr. 2025 og 240 millj. kr. 2026 og haldist þannig í útgjaldaramma til ársins 2028. Hefur Matvælastofnun þegar sett fram áætlun um nýtingu þessa fjármagns og eflingu starfseminnar. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að ráðnir verði 12 starfsmenn og er það ferli þegar hafið.
    Í frumvarpinu er að finna fjölmörg ákvæði sem miða að því að efla eftirlit Matvælastofnunar og er stofnuninni ætlað stórt hlutverk. Í 14. gr. eru settar takmarkanir á flutning farartækja og búnaðar á milli smitvarnasvæða sem er óheimill án leyfis Matvælastofnunar. Í 15. gr. er tiltekið að Matvælastofnun verði að heimila útsetningu fiska í eldiskvíar og að allur flutningur á fiski á milli sjókvíaeldisstöðva innan smitvarnasvæðis sé háður leyfi Matvælastofnunar. Í 16. gr. er gert ráð fyrir heimild Matvælastofnunar til að krefjast talningar fisks upp úr sjókví í tilviki stroks. Í 20. gr. er heimild Matvælastofnunar að banna innflutning á bátum og búnaði sem hefur verið notaður í tengslum við tilkynningarskylda sjúkdóma eða sníkjudýr. Í 22. gr. er kveðið á um hættusvæði í kringum sjókvíar, komi upp tilkynningarskyldur atburður, og að öll umferð og aðgerðir rekstraraðila á svæðinu séu háðar samþykki frá Matvælastofnun. Í 36. gr. er kveðið á um eftirlit og skýrslugjöf til Matvælastofnunar. Þar er áskilið að rekstraraðili sendi árlega inn framleiðsluáætlun sína sem nær til 24 mánaða en þetta gefur Matvælastofnun yfirsýn varðandi fyrirhugaða starfsemi hans og tækifæri til að skipuleggja eftirlit. Í greininni er einnig talað um skýrslugjöf rekstraraðila sem lýsir starfsemi hans og að Matvælastofnun sé heimilað að kalla eftir frekari gögnum ef ástæða þykir til. Greinin veitir Matvælastofnun óheftan aðgang til skoðunar, eftirlits, sýnatöku og myndatöku og aðgang að atvikaskrá ásamt aðgangi að upptökum úr eftirlitsmyndavélum. Greinin skyldar jafnframt rekstraraðila til að veita fyrirvaralausan og endurgjaldslausan aðgang að farartækjum til flutnings í sjókvíaeldisstöðvar svo hafa megi eftirlit með sjókvíum. Í 43.–44. gr. er ábyrgð og umsjón með stroki færð frá Fiskistofu til Matvælastofnunar og rekstrarleyfishafar tilkynna nú grunsemdir um strok til Matvælastofnunar sem stýrir aðgerðum vegna tilrauna til endurveiði í sjó. Í 45. gr. er kveðið á um samráð Matvælastofnunar og Fiskistofu, veiðifélaga og veiðiréttarhafa um hvort leit að strokufiski færist upp í ár og vatnasvæði á landi. Í 56. og 57. gr. er að finna auknar heimildir Matvælastofnunar hvað varðar eftirlit með lús og lúsatalningum, þ.m.t. óboðað eftirlit. Í 60. gr. er að finna heimildir Matvælastofnunar til að fyrirskipa frekari meðhöndlun vegna lúsar en jafnframt slátrun og förgun, reynist árangur af meðhöndlun ekki fullnægjandi. Í 61.–63. gr. er fjallað um kynþroska lax í eldi og er Matvælastofnun ætlað að hafa eftirlit með áætlun rekstrarleyfishafa og framgangi hennar í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir og seinka kynþroska. Í reglugerð verður kveðið á um þetta eftirlit þar sem hægt verður að fyrirskipa slátrun á kynþroska fiski en Matvælastofnun fær heimildir til eftirlits með hlutfalli kynþroska fiska í eldiskvíum og í sláturhúsum.

3.1.8. Sektir vegna stroks.
    Samkvæmt gildandi lögum um fiskeldi koma þrenns konar viðurlög til greina fyrir rekstrarleyfishafa þegar eldisfiskur sleppur. Um er að ræða mögulegar stjórnvaldssektir, afturköllun rekstrarleyfis og beitingu refsinga. Framangreind viðurlög koma einkum til skoðunar vegna umfangsmikils og alvarlegs stroks. Segir sem dæmi í 3. mgr. 21. gr. d gildandi laga um fiskeldi að Matvælastofnun sé heimilt í tilviki stjórnvaldssekta að fella mál niður í stað þess að leggja á stjórnvaldssekt ef brot eru smávægileg. Að sama skapi kemur afturköllun rekstrarleyfis aðeins til skoðunar í tilviki þess sem eldisfiskur strýkur ítrekað frá fiskeldisstöð.
    Strok frjórra laxa getur haft verulega alvarlegar afleiðingar á sjálfbærni villtra stofna. Á það ekki aðeins við þegar mikill fjöldi fiska strýkur heldur geta minni atburðir jafnframt haft alvarlegar afleiðingar. Fer það t.d. eftir því hvenær árs laxarnir strjúka og hver stærð þeirra er við strok. Þegar kemur að stroki eldisfiska er því brýnt að engin frávik séu án afleiðinga. Í samræmi við það er með frumvarpi þessu lagt til að fyrir hvern strokinn frjóan lax sem finnst í ám skuli viðkomandi rekstrarleyfishafi, sem rekja má laxinn til, greiða ákveðna sektarfjárhæð. Sú fjárhæð verður mismunandi eftir því hvort um er að ræða ár sem eru hluti af áhættumati erfðablöndunar eða ekki, þ.e.a.s. eftir því hvort áin hafi að geyma villtan nytjastofn lax eða ekki.
    Til að hvetja rekstraraðila til skjótra viðbragða verða í framangreindu kerfi ekki taldir með þeir eldislaxar sem fangaðir eru í árvökum eða í veiðiaðgerðum innan 200 metra frá strokstað.

3.1.9. Breytingar á leyfilegum lífmassa vegna affalla og lúsasmits.
    Hér á landi, sem og í öðrum löndum þar sem sjókvíaeldi er stundað, hafa afföll og sjávarlýs verið með stærri áskorunum greinarinnar. Eftir því sem sjókvíaeldi hefur vaxið hér á landi hafa hækkandi afföll og lúsatölur sýnt að nauðsynlegt er að gripið sé til ráðstafana til að tryggja aukna dýravelferð svo að greinin geti vaxið á sjálfbæran hátt.

Lúsasmit.
    Lúsasmit hefur ágerst hér á landi eftir því sem framleiðslan hefur vaxið. Laxa- og fiskilúsasmit, líkt og aðrir sjúkdómsvaldar, veikir ónæmiskerfi fiska og gerir þá móttækilega fyrir hvers kyns smitsjúkdómum, svo sem veirusjúkdómum en einnig tækifærissýklum á borð við bakteríur sem berast í sár fiska og auka verulega umfang þeirra. Álag vegna lúsasmits getur enn fremur valdið lystarleysi hjá fiskum, sem hefur áhrif á vöxt og almennt heilsufar þeirra.
    Hér á landi var fyrst meðhöndlað gegn lúsasmiti árið 2017 en síðan þá hefur það verið gert nokkuð reglulega, þótt umtalsverður munur sé milli ára. Nokkrar aðferðir eru til að meðhöndla lús. Hægt er að nýta tæknilegar aðferðir til að fjarlægja lýs en það eru aðferðir eins og t.d. ferskvatnsmeðhöndlun og hitameðferð. Einnig er hægt að beita lyfjameðferð gegn lús, bæði með lyfjafóðri og lyfjaböðun. Lyfjameðhöndlun er minna streituvaldandi fyrir fiskinn en tæknilegar aðferðir en hætta er á að lúsin myndi ónæmi gegn lyfjum. Þá getur lyfjameðhöndlun haft í för með sér neikvæð umhverfisáhrif. Tæknilegum aðferðum er eingöngu hægt að beita þegar sjávarhiti er hagstæður. Til lengri tíma litið er mikilvægt að halda lyfjameðhöndlun í lágmarki svo að ekki komi upp sú staða að ónæmi gegn lúsalyfjum verði það mikið að ekki verði hægt að beita lyfjum, líkt og reynsla annarra landa hefur sýnt.
    Með hliðsjón af framangreindu er með frumvarpi þessu lagt til að tekið verði upp kerfi sambærilegt og er í gildi í Færeyjum. Um er að ræða kerfi þar sem gefnir eru punktar þegar annars vegar fjöldi lúsa í hverri kynslóð fer fram úr tilteknu viðmiði og hins vegar þegar lyfjameðhöndlun er beitt. Heildarpunktafjöldi kynslóðarinnar ákvarðar síðan hvort breyting verði á heimild rekstrarleyfishafa til nýtingar á hámarkslífmassa smitvarnasvæðis þegar næsta kynslóð er sett út í sjó. Markmiðið með innleiðingu kerfisins er að efla snemmtækar aðgerðir og að halda lúsafjölda og meðhöndlun í lágmarki til þess að hægja á þróun lyfjaónæmis hjá lúsum.

Afföll.
    Eðli máls samkvæmt gefa afföll í sjókvíaeldi sterka vísbendingu um dýravelferð. Afföll á eldisfiski í sjókvíum á Íslandi hafa hingað til aðallega stafað frá ólífvænlegum seiðum sem sett eru út í kvíar, t.d. þegar sigling frá seiðaeldisstöð að eldissvæði er löng eða aðlögun seiða að lífi í sjó er ábótavant, en einnig geta sjúkdómar, laxalúsameðferðir og lök umhverfisskilyrði leitt af sér afföll.
    Afföll eldisfiska og vandamál tengd þeim eru ekki einskorðuð við sjókvíaeldi hér á landi. Í nýlegri úttekt Ríkisendurskoðunar Noregs um velferð eldisfiska var m.a. fjallað um afföll í sjókvíaeldi þar í landi (Myndighetenes arbeid med fiskehelse og fiskevelferd i havbruksnæringen). Meðal niðurstaðna úttektarinnar var að lagaramminn í Noregi tryggði velferð eldisfiska ekki með nægilega vel.
    Í gildandi regluverki hér á landi hafa ekki verið sett fyrir fram skilgreind viðmið vegna affalla eldisdýra. Eðli máls samkvæmt er það hagur rekstrarleyfishafa að halda afföllum í lágmarki enda geta mikil afföll haft veruleg áhrif á rekstrarafkomu. Þrátt fyrir að ábyrgð á afföllum verði þannig fyrst og síðast hjá rekstraraðilum er eðlilegt að stjórnvöld grípi inn í framleiðslumöguleika rekstrarleyfishafa þegar afföll fara yfir ákveðin mörk. Þannig myndast enn frekari hvati hjá rekstrarleyfishöfum til að tryggja að afföllum sé haldið í lágmarki. Með frumvarpi þessu er því lagt til að innleitt verði hvatakerfi sem tekur mið af afföllum hverrar kynslóðar sem sett er út á einstaka smitvarnasvæði. Séu afföll kynslóðarinnar yfir tilteknum viðmiðum þá skerðist heimild rekstrarleyfishafa til nýtingar á hámarkslífmassa svæðisins. Að sama skapi getur leyfilegur lífmassi svæðisins aukist séu afföll undir tilteknum viðmiðum, en þó þannig að hann verði aldrei meiri en hámarkslífmassi samkvæmt burðarþolsmati segir til um. Leyfilegur lífmassi getur þó einnig staðið í stað milli kynslóða séu afföll á ákveðnu bili.

3.1.10. Hertar reglur um kynþroska fisks.
    Í ágúst 2023 uppgötvaðist að mikill fjöldi laxa hafði strokið úr sjókvíum Arctic Fish í Kvígindisdal í Patreksfirði og er talið að yfir þrjú þúsund laxar í sláturstærð hafi strokið. Fljótlega fór að bera á eldislaxi í ám og hefur eldislax fundist á stóru svæði frá Kálfá í suðri að Fnjóská í norðri. Í gang fóru umfangsmiklar aðgerðir, reynt var að veiða strokufiska og þeir síðan færðir Hafrannsóknastofnun til erfðagreiningar sem gerir kleift að rekja einstaka fiska til kvía rekstraraðila. Í ljós kom að stór hluti þessara strokufiska reyndist vera kynþroska sem þótti skýra víðtæka útbreiðslu þeirra. Hátt hlutfall kynþroska fiska þótti vera vísbending um að ljósastýringu, sem er mótvægisaðgerð sem miðar að því að halda kynþroska í lágmarki og hefur verið bundin í rekstrarleyfi fyrirtækja, hafi verið ábótavant. Nánari skoðun á laxi hjá mismunandi rekstraraðilum, bæði í kvíum á svæðinu og í sláturhúsum, þykir styðja við þessa kenningu. Í gildandi lögum er ekkert fjallað um kynþroska en þar sem lágt kynþroskastig er enn fremur mikilvæg breyta við útreikninga Hafrannsóknastofnunar á áhættumati erfðablöndunar, hefur nú verið settur fram sérstakur kafli um kynþroska lax (XI. kafli) með þremur greinum, 61.–64. gr. Í þeim er tiltekið að rekstrarleyfishafa verður skylt að viðhafa áætlun til að koma í veg fyrir og seinka kynþroska eldislax en fari hlutfall hans yfir ákveðin mörk skuli allir kynþroska fiskar fjarlægðir úr eldiskvíum. Þá er lagt til að Matvælastofnun hafi heimild til að hafa eftirlit með hlutfalli kynþroska fiska við slátrun þar sem hlutfallssýni verður tekið úr slátruðum fisk á eldissvæði og hlutfall kynþroska fisks athugað. Í frumvarpinu er jafnframt að finna sektarákvæði í 3. mgr. 133. gr. þar sem heimilt verður að sekta fyrir hvern kynþroska fisk sem finnst í sláturhúsum.

3.1.11. Breyttar úthlutunarreglur og álagning vegna Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
    Ein af ábendingum Ríkisendurskoðunar í stjórnsýsluúttekt á sjókvíaeldi var að taka þyrfti til skoðunar starfsemi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis og fjármögnun lögbundinna verkefna. Ríkisendurskoðun taldi að skýra þyrfti hvaða verkefni Umhverfissjóður sjókvíaeldis ætti að fjármagna, með tilliti til vöktunar og rannsókna á lífrænu álagi vegna sjókvíaeldis. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar kom fram að eðlilegt væri að greinarmunur væri gerður á lögbundnum verkefnum Hafrannsóknastofnunar og öðrum verkefnum. Í því tilliti þyrfti að taka til skoðunar hvort fjármögnun lögbundinna verkefna Hafrannsóknastofnunar þurfi að vera tryggari en nú er en mat Ríkisendurskoðunar var að nauðsynlegt væri að Hafrannsóknastofnun fengi fasta fjármögnun vegna burðarþolsrannsókna og vöktunar.
    Til að bregðast við ábendingum Ríkisendurskoðunar er með frumvarpi þessu lagt til að úthlutun úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis verði breytt. Lagt er til að ákveðið hlutfall af úthlutunarfé sjóðsins skuli ávallt veitt til tiltekinna verkefna Hafrannsóknastofnunar og tengdra rannsókna vegna þeirra. Með þessu móti þurfi Hafrannsóknastofnun ekki að sækja um styrk í sjóðinn.
    Með núverandi fyrirkomulagi er óljóst hversu hátt hlutfall af úthlutunarfé sjóðsins rennur til lögbundinna verkefna Hafrannsóknastofnunar. Þetta gerir að verkum að fyrirsjáanleiki í úthlutun fjárveitinga er lítill og því erfitt fyrir Hafrannsóknastofnun að skipuleggja verkefni fram í tímann. Að sama skapi er núgildandi fyrirkomulag óheppilegt fyrir aðra umsækjendur þar sem óljóst er hvort verkefni Hafrannsóknastofnunar muni hljóta styrk og því erfitt að vita hvaða fjárhæð standi þeim í reynd til boða.
    Með frumvarpi þessu er einnig lagt til að eitt markmiða sjóðsins verði að efla menntun á sviði sjókvíaeldis en ljóst er að á komandi árum mun þörf fyrir hæft starfsfólk og aukið menntunarstig í greininni aukast verulega. Er því lagt til að stjórn sjóðsins sé heimilt að úthluta styrkjum til menntaverkefna sem tengjast sjókvíaeldi.
    Með frumvarpinu er einnig lögð til sú breyting að rekstrarleyfishafi skuli greiða gjald fyrir hvert tonn leyfilegslífmassa hvers smitvarnasvæðis sem hann hefur rekstrarleyfi fyrir. Fjárhæð gjaldsins verður því óháð eldistegundum og eldisaðferðum líkt og í gildandi lögum þar sem gjaldtakan er mismunandi eftir því hvort um sé að ræða eldi á ófrjóum eða frjóum laxi, regnbogasilungi eða hvort eldið fari fram í lokuðum búnaði. Er þessi breyting nauðsynleg þar sem í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að rekstrarleyfishafi geti t.d. alið regnbogasilung og frjóan lax á sama smitvarnasvæði, svo lengi sem það er innan marka leyfilegs lífmassa og að öðrum skilyrðum uppfylltum.
    Eftir sem áður mun ráðstöfunarfé sjóðsins ráðast af árlegri fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum. Til þess að markmið frumvarpsins nái fram að ganga er afar brýnt að ráðstöfunarfé sjóðsins hverju sinni sé í samræmi við innheimt gjöld enda eru þær rannsóknir sem sjóðnum er ætlað að styrkja ein af grunnforsendum sjálfbærar uppbyggingar greinarinnar. Grundvöllur og rökstuðningur gjaldtökunnar er enda fjármögnun sjóðsins. Sem dæmi má nefna að árið 2023 hafði sjóðurinn 188 millj. kr. til úthlutunar þó að innheimt gjöld hefðu numið um 335 millj. kr. árið á undan. Stafar þetta af því að ráðstöfunarfé sjóðsins byggist á árlegri fjárveitingu á grundvelli fjárheimildar í fjárlögum.

3.1.12. Breytt álagning framleiðslugjalds.
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði tvær meginbreytingar á aðferðafræði við álagningu framleiðslugjalds. Í fyrsta lagi verði þrepum og þar með gjaldaflokkum fjölgað úr þremur í sjö. Í öðru lagi taki þrepin breytingum árlega miðað við breytingar á áætluðum framleiðslukostnaði í sjókvíaeldi. Í frumvarpinu er þannig sett fram hver áætlaður framleiðslukostnaður ársins 2024 er og tekur lægsta þrep gjaldtökunnar mið af honum. Áætlaður kostnaður skal síðan taka breytingum á grunni viðmiða um helstu kostnaðarliði í sjókvíaeldi. Lagt er til að gjaldtakan sem er nú sett fram í lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóðs, nr. 89/2019, falli úr gildi. Aðferðafræðin á bak við hana byggist á því að innheimt er stigvaxandi og magnbundið verðmætagjald og að gjaldið verði greitt fyrir hvert framleitt kíló af slægðum laxi miðað við heimsmarkaðsverð. Tafla 1 sýnir hvernig gjaldið (á verðlagi hvers árs) hefur þróast síðan það kom til framkvæmda en núverandi gjald er innleitt í áföngum og verður að fullu komið til framkvæmda sjö árum eftir gildstöku þess.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Tafla 1 – Framleiðslugjald og framleiðsla af lax (HOG – e. head on and gutted) í tonnum. Heimild: Matvælastofnun, Fiskistofa og spá matvælaráðuneytisins.
    Lagt er upp með að lægsta þrepið miðist við áætlaðan framleiðslukostnað á hvert kíló í sjókvíaeldi og er áætlaður framleiðslukostnaður fyrir árið 2024 1.026 kr. á kg. Er þannig gert ráð fyrir að gjaldtakan sé í lágmarki ef heimsmarkaðsverð er lægra en áætlaður framleiðslukostnaður. Lægsta þrepið mun síðan taka árlegum breytingum á grundvelli útreiknings áætlaðs framleiðslukostnaðar og önnur þrep taka breytingum sem miða við breytingu á lægsta þrepinu. Áætlaður framleiðslukostnaður skal breytast í samræmi við þróun á fóðurkostnaði samkvæmt tollskrárnúmeri 23099004-Fiskafóður ót.a. samkvæmt innflutningstölum frá Hagstofunni auk vísitölu neysluverðs án húsnæðis og launavísitölu Hagstofunnar. Vigta skal verðbreytingar á fóðri 60%, vísitölu neysluverðs 20% og launavísitölu 20%. Hér er um að ræða vísitölur og hlutföll sem endurspegla meginkostnaðarliði í sjókvíaeldi. Með því er verið að nálgast kostnaðarbreytingar á milli ára (kostnaðarvísitala sjókvíaeldis). Tafla 2 sýnir hvernig verð á innfluttu fóðri, vísitölu neysluverðs og launavísitala hefur þróast og hvernig áætlaður framleiðslukostnaður hefði breyst á undanförnum árum miðað við þessa aðferðafræði.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tafla 2 – Kostnaðarvísitala sjókvíaeldis: Verð á fóðri miðað við innflutning á fóðri (tollskrárnúmer 23099004-Fiskafóður ót.a.), verðvísitölu án húsnæðis og launavísitölu frá Hagstofu Íslands.

    Miða skal við meðalverð á kg á fóðri á síðasta 12 mánaða tímabili. Innflutningstölur Hagstofunnar eru með tveggja mánaða töf og er því miðað við tímabilið frá nóvember til október þannig að mögulegt sé að birta þrepin fyrir 31. desember ár hvert. Eins skal miða við breytingar á 12 mánaða tímabili á vísitölu neysluverðs og launavísitölu frá október ár hvert.

Ár

Dæmi 1 (3%) Dæmi 2 (6%)

2024

1.026

1.026

2025

1.057

1.088

2026

1.088

1.153

2027

1.121

1.222

2028

1.155

1.295

    Tafla 3 – Lægsta þrep gjaldsins og mögulega þróun, dæmi 1 gerir ráð fyrir 3% árlegri hækkun á kostnaðarvísitölu sjókvíaeldis, dæmi 2 gerir ráð fyrir 6% árlegri hækkun.

    Miða skal við að framleiðslukostnaður fyrir árið 2024 sé um 1.026 kr. (slægður fiskur með haus, HOG), en þar er tekið mið af framleiðslukostnaði í Norður-Noregi fyrir árið 2022 sem birt er af Fiskistofu Noregs ár hvert og þróun á kostnaðarvísitölu sjókvíaeldis sem lýst er hér að framan.
    Í töflu 3 má sjá hvernig lægsta þrepið gæti þróast miðað við gefnar forsendur. Í dæmi 1 er gert ráð fyrir að kostnaðarvísitala sjókvíaeldis hreyfist um 3% á ári, en í dæmi 2 er gert ráð fyrir að kostnaðarvísitala sjókvíaeldis hreyfist um 6% á ári. Töflu 3 er einungis ætlað að sýna dæmi um mögulega þróun.
    Miðað við áætlaðan framleiðslukostnað ársins 2024 eins og hann er settur fram í frumvarpinu þá er gjaldhlutfallið 1% þegar heimsmarkaðsverð er lægra en 1.026 kr. á kg. Í þessu samhengi er rétt að nefna að í Noregi er fast framleiðslugjald sem nemur um 1% af heimsmarkaðsverði með öllu óháð verði og kostnaði. Það rímar einnig við það markmið gjaldtökunnar hérlendis að hluta af gjaldinu sé ætlað að standa straum af kostnaði við stjórnsýslu, rannsóknir og vöktun sem tengjast sjókvíaeldi auk þess að styrkja uppbyggingu sveitarfélaga þar sem sjókvíaeldi er stundað.
    Þá er lagt til að fyrstu gjaldþrepin verði með minni jaðarhækkun þannig að rekstraraðilar haldi eftir hærra hlutfalli þegar lítil munur er á milli framleiðslukostnaðar og heimsmarkaðsverðs. Aftur á móti hækki gjaldið hraðar þegar munur milli framleiðslukostnaðar og heimsmarkaðsverð eykst og afkoma rekstraraðila batnar. Fyrrgreindar breytingar leiða til þess að rekstraraðilar greiða ávallt fast gjald sem tryggir ríkissjóði stöðugar tekjur. Ef lítill munur er á milli framleiðslukostnaðar og heimsmarkaðsverðs er gjaldhlutfallið lægra en í núverandi fyrirkomulagi, en þegar mikill munur er á framleiðslukostnaði og heimsmarkaðsverði verður gjaldtakan meiri en samkvæmt núverandi fyrirkomulagi.
    Markmiðið með framangreindum breytingum er að betur verði tekið tillit til verðsveiflna og breytinga á kostnaðarliðum sjókvíaeldis og þannig færist gjaldtakan nær því að endurspegla tekjumyndun rekstraraðila á hverjum tíma.
    Samkvæmt gildandi löggjöf er markmið gjaldtökunnar einkum tvíþætt. Í fyrsta lagi að tryggja ríkissjóði beint endurgjald vegna nýtingar hafsvæða í íslenskri lögsögu sem geti jafnframt komið til móts við kostnað ríkisins við stjórnsýslu og í öðru lagi að styrkja innviðauppbyggingu sveitarfélaga þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað. Með frumvarpi þessu er lagt til að markmið gjaldtökunnar felist jafnframt í því að lágmarka umhverfisáhrif og auka dýravelferð enda feli gjaldtakan í sér ríka fjárhagslega hvata þess efnis.
    Með frumvarpinu er því lagt til að framleiðslugjald innifeli hvata til taka upp framleiðsluaðferðir sem draga úr þeirri kerfislegu áhættu sem fólgin er í að ala fisk í opnum sjókvíum. Í því sambandi má m.a. benda á hvata til að innleiða lokaðan eldisbúnað, eldi á ófrjóum laxi, útsetningu stærri seiða, hvata til að stytta eldistíma í sjókvíum og hvata til nýtingar annarra tæknilausna sem ekki eru sérstaklega útlistaðar í frumvarpinu en hafa sama tilgang. Með þessu móti er tekið tillit til nýjunga sem ekki eru endilega augljósar en kunna að skila bættri umgengni og aukinni dýravelferð.
    Umhverfishvatarnir fela í sér hagræna hvata til fjárfestinga í búnaði, þekkingu og þróun lausna sem flýta fyrir notkun á framleiðsluaðferðum sem stuðla að bættri umgengni um umhverfi og aukinni dýravelferð. Þar má nefna minna lífrænt álag og minni hættu á stroki ásamt minni afföllum. Markmiðið er þannig að veita rekstraraðilum fjárhagslegt svigrúm til að standa undir fjárfestingum og þróunarkostnaði sem þarf til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og dýravelferð. Þeir rekstraraðilar sem ekki sjá hag sinn í að stunda starfsemi sína með bættum framleiðsluaðferðum þurfa aftur á móti að greiða hærri gjöld og eru jafnframt líklegri til að verða fyrir skerðingu á leyfilegum lífmassaheimildum, sbr. umfjöllun í IX.–X. kafla frumvarpsins.
    Þeir umhverfishvatar sem lagðir eru til með frumvarpinu krefjast viðbótarfjárfestingar af hálfu rekstraraðila auk þess sem þeim getur fylgt rekstrarleg áhætta. Sumar þeirra leiða sem nefndar eru hafa ekki verið fullreyndar sem skapar óvissu um fjárfestinguna sem slíka. Þá er líklegt að rekstraraðilar hafi minni þekkingu á notkun nýrra eldisaðferða sem mögulega orsakar tímabundið verri rekstrarniðurstöðu. Því er ákveðin áhætta fyrir rekstraraðila að fara út í aðrar eldisaðferðir sem eru minna útbreiddar, svo sem lokaðan búnað, hálf-lokaðan búnað eða ófrjóan lax. Fjárhagslegir hvatar auka hins vegar líkur á að rekstraraðilar nýti eldisaðferðir sem draga úr mögulegum umhverfisáhrifum og auka dýravelferð. Er því lagt upp með að rekstraraðilar séu undanþegnir gjaldinu við eldi fyrstu kynslóðar fisks þar sem notaður er sá búnaður eða rekstraraðferðir sem hafa verið nefndar. Að sama skapi er lagt upp með að rekstraraðilar sem nota tilteknar eldisaðferðir eða tiltekinn búnað séu, við eldi fyrstu kynslóðar, undanþegnir skerðingu á lífmassa vegna affalla.

Samkeppnishæfni með tilliti til breyttrar álagningar.
    Við gerð þessa frumvarps var sérstaklega horft til samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar í víðu samhengi. Var einkum litið til tveggja þátta. Annars vegar rekstrarumhverfis atvinnugreinarinnar og hins vegar gjaldtöku á sjókvíaeldi í Noregi og Færeyjum. KPMG ehf. var fengið til aðstoðar við afmarkaða hluta þessa frumvarps. Fólst aðstoð KPMG í að reikna út sértæk gjöld á félög í sjókvíaeldi í Noregi, Færeyjum og Íslandi.

Noregur.
    Í Noregi hefur bein tekjuöflun stjórnvalda af laxeldi fyrst og fremst verið tvíþætt. Annars vegar gjaldtaka sem byggist á útboðum og hins vegar framleiðslugjald sem byrjað var að innheimta þegar framleiðsla var orðin rúmlega milljón tonn. Þrisvar sinnum hafa Norðmenn farið í virk útboð á aukningu á lífmassa; árin 2018, 2020 og 2022. Einnig var farið í viðbótarútboð 2023 vegna þess lífmassa sem ekki seldist á uppboði 2022.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Tafla 4: Útboð á lífmassa í Noregi, tonn, verð ISK og meðalverð á tonn ISK. Heimild: Fiskistofa Noregs

    Hið magnbundna framleiðslugjald sem numið hefur 6 kr. á hvert kg (0,4 NOK) hefur verið innheimt frá árinu 2020 en það var hækkað í 12 kr. á hvert kg (0,9 NOK) árið 2023 (Skatteetaten 2023). Nýlega var kynntur til sögunnar sérstakur auðlindarentuskattur sem nemur um 25% af hagnaði sem myndast í þeim hluta framleiðsluferlisins sem á sér stað úti á sjó. Markmiðið með breytingunum er að nálgast beinan hagnað af auðlindanýtingu. Þessi aðferðafræði er nokkuð flókin og henni fylgir talsverð óvissa þar sem verið er að reyna að nálgast kostnað, fjárfestingar og tekjur milli mismunandi framleiðslueininga innan sama fyrirtækis. Síðan auðlindarentuskatturinn var kynntur hefur skapast mikil óvissa um raunverulegt umfang hans, sem gerir rekstraraðilum erfitt að gera langtímaáætlanir.

Færeyjar.
    Í Færeyjum byrjaði sérstök gjaldtaka á sjókvíaeldisstarfsemi árið 2014, en það ár var framleiðsla tæplega 90 þúsund tonn. Gjaldtakan byggðist í upphafi á stigvaxandi magnbundnu verðmætagjaldi og var hún fyrirmynd gjaldtökunnar hér á landi. Í Færeyjum hafa þó nýlega verið gerðar breytingar á gjaldinu sem felast í því að horft er til mismunar á framleiðslukostnaði og heimsmarkaðsverði (Løgtingslóg nr. 64 frá 15. mai 2014 um loyvisgjald á alivinnu). Framleiðslukostnaðurinn er fenginn frá rekstraraðilum og stjórnvöldum svo falið að reikna út nálgun fyrir þann hluta framleiðslukostnaðarins sem kemur til vegna eldisstarfseminnar úti á sjó. Áfram er stuðst við þrepaskiptingu eftir heimsmarkaðsverði en núna er hlutfallið á bilinu 0,5%–20% af söluverðmæti slægðs lax, allt eftir því hversu mikill munur er á milli nálgaðs framleiðslukostnaðar samkvæmt útreikningi stjórnvalda og heimsmarkaðsverðs. Í frumvarpi því sem lagt var fyrir færeyska þingið er aðferðafræðin útskýrð á þann veg að ef það er mikill munur á framleiðslukostnaði og heimsmarkaðsverði, þá séu breytingarnar til verulegrar hækkunar, en ef munurinn er lítill séu þær til lækkunar (Uppskot til løgtingslóg um broyting í løgtingslóg um loyvisgjald á alivinnu, LM-093/2022, 28. mars 2023). Í frumvarpinu eru settar fram sviðsmyndir fyrir árin 2020, 2021, 2022 og áætlun fyrir 2023 og 2024. Þar kemur fram að breyting hefði leitt til lægri gjalda árin 2020 og 2021 en þau gjöld sem voru innheimt samkvæmt eldra fyrirkomulagi í Færeyjum. Breytt gjaldtaka hefði þó leitt til hærri gjalda árið 2022 og mun gera það miðað við áætlanir fyrir árin 2023 og 2024.

Samanburður.
    Við gerð þessa frumvarps var horft til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í Færeyjum og Noregi. Segja má að þær breytingar sem gerðar hafa verið í báðum löndum feli í sér meiri óvissu fyrir framleiðendur þar sem í báðum tilvikum er gerð tilraun til að fá yfirlit yfir nálgaðan hagnað og framleiðslukostnað á aðeins einu stigi framleiðsluferilsins. Fyrirtæki í sjókvíaeldi eru með a.m.k. þrjá framleiðsluferla þ.e. seiðaframleiðslu, eldi í sjó og að því loknu slátrun og sölu. Með því að einangra hluta þessa ferlis kann að skapast óvissa og ónákvæmni um hvar kostnaður og tekjur verða til innan mismunandi framleiðslueininga einstakra fyrirtækja. Slíkt skapar ákveðið ógagnsæi og kallar á mikinn eftirlitskostnað af hálfu stjórnvalda. Í Noregi hefur t.d. verið sett upp sérstök verðlagsnefnd. Þá getur skapast óvissa varðandi lögmæti álagningar hverju sinni ef illa tekst til við nálgun að framleiðslukostnaði. Stjórnvöld eru ekki endilega best til þess fallin að meta nálgaða milliverðlagningu og kostnað milli mismunandi eininga í starfsemi sjókvíaeldis. Var það metið svo við gerð þessa frumvarps að betra væri að halda í sömu gagnsæju aðferðafræði og áður en fjölga þrepum og bæta inn kostnaðarvísitölu sjókvíaeldis eins og er lýst hér að framan í töflu 2. Með þessum breytingum er verið að færa gjaldtökuna í þá átt sem er í Færeyjum og Noregi, þar sem tekið er tillit til áætlaðra kostnaðarbreytinga. Þannig verður gjaldtakan hærri þegar afkoma greinarinnar er betri en lægri þegar lítill munur er á milli framleiðslukostnaðar og heimsmarkaðsverðs.
    Vert er þó að taka fram að horfa þarf til skatta og gjaldaumhverfis á milli landanna í víðara samhengi en lagt er upp með hér að ofan. Í Færeyjum er til að mynda 18% tekjuskattur á fyrirtæki, 22% í Noregi en 20% á Íslandi. Þá eru engin sambærileg gjöld vegna þjónustu við hafnir í Noregi og Færeyjum líkt og á Íslandi.
    Þróun sjókvíaeldis er skemmra á veg komin á Íslandi en í þeim löndum sem hér hafa verið notuð til samanburðar. Samkvæmt ársreikningum fyrirtækjanna var rekstrarniðurstaða (EBIT) árið 2022 aðeins jákvæð hjá tveimur af sex fyrirtækjum sem störfuðu í sjókvíaeldi. Mikið yfirfæranlegt tap er til staðar hjá fyrirtækjum í atvinnugreininni. Afleiðingin af þessu er sú að aðeins eitt fyrirtæki af sex sem eru með rekstrarleyfi í sjókvíaeldi skilaði rekstrarafkomu umfram gjöld, þ.e. greiddi tekjuskatt. Ef framleiðsluspár ganga eftir mun greinin á næstu árum hins vegar skila jákvæðum rekstrarniðurstöðum. Eftirspurn eftir leyfum fyrir sjókvíaeldi á Íslandi er enn til staðar og hafa bæði nýir erlendir aðilar og íslenskir fjárfestar komið inn á síðustu árum.
    Sjókvíaeldi er fjármagnsfrek atvinnugrein, mikill stofnkostnaður er í seiðaframleiðslu, búnaði á sjó og fyrir slátrun og vinnslu. Miklar fjárfestingar hafa verið í atvinnugreininni hingað til, en samkvæmt ársreikningum sjókvíaeldisfyrirtækja hér á landi má áætla að fjárfestingar hafi numið um 35–40 milljörðum kr. á tímabilinu 2018–2022. Samkvæmt áætlunum rekstraraðila er gert ráð fyrir að fjárfestingar í atvinnugreininni á árunum 2023–2030 verði um 137 milljarðar kr. Áætlanirnar gera ráð fyrir fjárfestingum í starfsemi úti á sjó (kvíar, kvíafestingar, akkeri, þjónustubátar, fóðurkerfi, myndavélakerfi og ýmis annar tækjabúnaður), í uppbyggingu seiðaframleiðslu og slátur- og vinnsluhúsum en einnig er gert ráð fyrir fóðurframleiðslu síðar á tímabilinu. Ljóst er því að enn er mikil fjárfestingarþörf til frekari uppbyggingar.
    Við gerð þessa frumvarp var horft til þess að gjaldtakan megi ekki vera svo íþyngjandi að rekstraraðilar hafi ekki fjárhagslegt svigrúm og hvata til að standa undir þeim fjárfestingum og þróunarkostnaði sem þarf til að byggja upp sjálfbæran rekstur. Eins og áður segir er það eitt markmiða frumvarpsins að rekstraraðilar tileinki sér umhverfisvænni aðferðir eins og kostur er. Í ljósi þess sem hér hefur verið reifað er lagt upp með að breytingarnar á gjaldtökunni komi inn í skrefum til ársins 2028, þ.e. að gjaldið komi til framkvæmda 2025 en reiknistofn gjaldsins nemi það ár 4/ 7, 5/ 7 árið 2026 og 6/ 7 árið 2027, sbr. bráðbirgðaákvæði VII. í frumvarpi þessu. Einnig er lagt upp með að endurskoða eigi gjaldið eigi síðar en 1. júní 2029, sbr. bráðabirgðaákvæði VIII. Skal þá m.a. litið til þróunar á heimsmarkaðsverði og framleiðslukostnaðar.

3.1.13. Breytt fyrirkomulag Fiskeldissjóðs.
    Með frumvarpinu er lagt til breytt fyrirkomulag Fiskeldissjóðs. Markmið sjóðsins samkvæmt gildandi lögum er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og þar með styrkja samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum. Sveitarfélög þar sem sjókvíaeldi er stundað hafa gagnrýnt fyrirkomulag úthlutunar úr sjóðnum og hefur gagnrýnin að meginefninu til varðað eftirfarandi:
     1.      Sveitarfélög þurfa að sækja um í samkeppnissjóð, þ.e. sveitarfélög þurfa að keppa um takmarkaða fjármuni. Tími og fjármunir fara í gerð umsókna um fjárfestingarverkefni en sveitarfélög eru misjöfn að stærð og hafa því mismunandi burði fyrir slíkt ferli.
     2.      Sveitarfélög hafa lítinn fyrirsjáanleika varðandi úthlutun, t.d. þegar kemur að umsóknum um styrki til stórra fjárfestingarverkefna. Slík verkefni eru oftast unnin yfir lengra tímabil, þ.e.a.s. taka meira en ár, en fjármunum sjóðsins er úthlutað árlega og engin trygging er fyrir því að verkefni fái aftur úthlutun að ári. Við framkvæmd slíkra fjárfestingarverkefna getur fjöldi atriða, sem ekki eru á valdi sveitarfélaga, orðið þess valdandi að töf verði á styrktum verkefnum, svo sem veður, vinnuaflsskortur, töf í skipulagsmálum og fleiri atriði.
     3.      Sveitarfélög telja mörg hver að núverandi fyrirkomulag sé of miðstýrt að því leyti að það sé ekki endilega heppilegasta fyrirkomulagið að stjórn þriggja aðila meti innviða- og fjárfestingarþörf einstakra sveitarfélaga.
    Framangreind gagnrýni rímar einnig við ábendingar sem fram komu í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á málefnum sjókvíaeldis sem og skýrslu Boston Consulting Group um stöðu og framtíð lagareldis á Ísland. Matvælaráðuneytið tekur undir þær ábendingar sem fram hafa komið en benda má á að aðeins fjórum af fjórtán verkefnum sem fengu úthlutað úr sjóðnum 2021 og 2022 er formlega lokið, þ.e. hafa skilað lokaskýrslu og þar með fengið fullan styrk. Þar af leiðandi er fjöldi verkefna sem enn hefur ekki fengið að fullu greitt úr sjóðnum, t.d. vegna tafa á verkefnum. Yfirsýn og umsýsla er jafnframt óljós í þessum efnum, t.d. ákvarðanir um það hvenær verkefni er formlega lokið. Eins er töluverður kostnaður við að starfrækja sjóðinn.
    Með hliðsjón af framangreindu þykir því rétt að hverfa frá núverandi úthlutunarfyrirkomulagi sjóðsins. Með nýju fyrirkomulagi verði úthlutað í samræmi við fyrirframskilgreinda mælikvarða og sveitarfélögum síðan í sjálfsvald sett hvernig þau verja fjármunum sem þau fá úthlutað. Við útreikning á skiptingunni verði í fyrsta lagi litið til hlutdeildar sjókvíaeldis innan hvers landshluta í heildargjaldstofni til álagningar gjalds. Þegar hlutfall hvers landshluta hefur verið reiknað út skal því næst reikna skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða samkvæmt nánari fyrirmælum sem sett verða í reglugerð. Gengið verður út frá því við setningu fyrstu reglugerðar að skiptingin milli sjókvíaeldisbyggða muni grundvallast á fjölda starfsmanna sem vinna með beinum hætti við sjókvíaeldi í hverri sjókvíaeldisbyggð.
    Áfram er gert ráð fyrir að sjóðurinn muni njóta framlaga af fjárlögum sem svari til þriðjungs tekna af gjaldi því sem ráðgert er að heimtist í ríkissjóð.
    Með frumvarpi þessu er jafnframt lagt til að heiti sjóðsins verði breytt úr Fiskeldissjóði í Samfélagssjóð sjókvíaeldis þar sem það heiti þykir ná betur utan um hlutverk sjóðsins.

3.1.14. Skýrara hlutverk fisksjúkdómanefndar.
    Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar er ábending þess efnis að skýra þurfi betur hlutverk og stöðu fisksjúkdómanefndar gagnvart Matvælastofnun svo hún geti sem best þjónað tilgangi sínum og haldi sjálfstæði sínu gagnvart stofnuninni. Í úttektinni er bent á að samskipti nefndarinnar við Matvælastofnun séu mikil og að ráðgjöfin sé að hluta til byggð á upplýsingum frá stofnuninni sjálfri. Með frumvarpi þessu er því lagt til að skipun í nefndina verði breytt svo aukin fjarlægð sé milli Matvælastofnunar og nefndarinnar. Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra skipi þriggja manna nefnd, einn samkvæmt tilnefningu Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum, sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar, einn samkvæmt tilnefningu Hafrannsóknastofnunar og einn samkvæmt tilnefningu Fiskistofu.
    Enn fremur gerir frumvarpið ráð fyrir að hlutverki nefndarinnar verði breytt þegar kemur að ráðstöfunum rekstraraðila gagnvart sníkjudýrum. Samkvæmt gildandi lögum um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006, er Matvælastofnun heimilt, að höfðu samráði við fisksjúkdómanefnd og með hliðsjón af lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að hefta útbreiðslu sníkjudýra. Í dag er framkvæmdin sú að það er á herðum rekstraraðila að viðhafa innra eftirlit sem felur m.a. í sér vöktun á viðkomu sníkjudýra. Í þessari skyldu felst m.a. að rekstrarleyfishafa ber að hafa í gildi viðbragðsáætlun sem feli m.a. í sér aðgerðir vegna viðkomu sníkjudýra í eldinu. Fari fjöldi lúsa yfir ákveðið viðmið skal viðbragðsáætlunin virkjuð og tillögur að aðgerðum sendar Matvælastofnun. Geta viðbrögð rekstrarleyfishafa til að mynda falist í ósk um lyfjameðhöndlun.
    Þegar tekin er afstaða til tillagna rekstrarleyfishafa skal Matvælastofnun samkvæmt gildandi lögum um varnir gegn fisksjúkdómum hafa samráð við fisksjúkdómanefnd. Tekur fisksjúkdómanefnd málið fyrir og veitir Matvælastofnun ráðgjöf, með tilliti til aðstæðna hverju sinni, um hvort veita beri heimild til lyfjameðhöndlunar. Sömuleiðis skal Matvælastofnun samkvæmt gildandi lögum um fiskeldi leita umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en ákvörðun er tekin.
    Til þess að tryggja velferð eldisfiska og lágmarka áhrif á göngufiska er nauðsynlegt þegar upp kemur sníkjudýrafaraldur að hægt sé að grípa tímanlega inn í ferlið svo lágmarka megi útbreiðslu. Það ferli sem lýst var hér að framan getur tekið langan tíma. Með frumvarpi þessu er því lögð til sú breyting að Matvælastofnun hafi þrjá daga til að taka afstöðu til þeirra aðgerða sem rekstrarleyfishafi leggur til og getur innan þess frests synjað um beitingu fyrirhugaðra aðgerða. Enn fremur er sú breyting lögð til að Matvælastofnun sé heimilt en ekki skylt að leita umsagnar fisksjúkdómanefndar og Hafrannsóknastofnunar áður en afstaða er tekin.

3.1.15. Samræmd hugtakanotkun.
    Í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar er bent á að brýnt sé að samræma notkun á hugtökunum „burðarþolsmat“ og „sjókvíaeldissvæði“. Samkvæmt gildandi lögum er hugtakið burðarþolsmat skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið og viðkomandi vatnshlot. Í tilteknum ákvæðum laga nr. 49/2014, sem breyttu lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, er aftur á móti gjarnan vísað til burðarþolsmats fyrir viðkomandi sjókvíaeldissvæði. Vísa til að mynda bæði 10. og 15. gr. gildandi laga nr. 71/2008 til burðarþols sjókvíaeldissvæða.
    Með frumvarpi þessu er lagt til að burðarþolsmat Hafrannsóknastofnunar nái til vatnshlota eða annarra afmarkaðra hafsvæða. Hugtakið vatnshlot er í frumvarpi þessu skilgreint með sama hætti og hugtakið er skilgreint í lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, þ.e. eining vatns, svo sem allt það vatn sem er finna í stöðuvatni, á eða strandsjó. Með því að vísa til annarra afmarkaðra hafsvæða er tryggt að burðarþolsmat geti farið fram fyrir svæði sem ekki hafa verið skilgreind sem vatnshlot. Þá er lagt til að hugtakið sjókvíaeldissvæði verði fellt úr lögunum og þess í stað notað hugtakið smitvarnasvæði þar sem það þykir ná betur fram tilgangi ákvæðisins. Ekki er þó einungis um breytt heiti að ræða heldur er með frumvarpinu jafnframt lögð til sú breyting að aðeins einum rekstrarleyfishafa er heimilt að starfrækja sjókvíaeldi á hverju smitvarnasvæði en hugtakið sjókvíaeldissvæði heimilar fleiri en einum rekstrarleyfishafa að starfa á svæðinu sé útsetning og hvíld svæðisins samræmd.
    Líkt og kemur fram í 11. gr. frumvarpsins skal almennt miða við að hvert einstakt vatnshlot sé eitt smitvarnasvæði en þó er heimilt að skipta vatnshloti í fleiri en eitt smitvarnasvæði ef slíkt er mögulegt með tilliti til rekstraröryggis og smitvarna. Með sama hætti má ákveða að smitvarnasvæði nái yfir fleiri en eitt vatnshlot, eða hluta vatnshlota.

3.2. Landeldi.
    Með þessu frumvarpi er í fyrsta sinn fjallað sérstaklega um landeldi og er það gert í þriðja þætti frumvarpsins sem skiptist í fjóra kafla. Viðamesti hluti umfjöllunarinnar varðar smitvarnir og dýraheilbrigði og er að finna í XV. kafla eða alls tíu greinar en að öðru leyti gilda áfram ákvæði laga um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006, og ákvæði laga um velferð dýra, nr. 50/2013. Um starfrækslu og eftirlit landeldisstöðva er fjallað í XVII. kafla. Um útgáfu rekstrarleyfis til landeldis og afturköllun þess er fjallað um í köflum XVI. og XVIII. Hér er reynt að draga fram þau sérkenni sem skilja landeldi frá sjókvíaeldi sem helgast af ólíku eldisumhverfi og ólíkum áskorunum, jafnt fyrir rekstraraðila og Matvælastofnun sem annast eftirlit með framkvæmd laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

3.3. Hafeldi.
    Í fjórða þætti frumvarpsins er fjallað um hafeldi sem skiptist í tvo kafla; XIX. kafla (Almennt um hafeldi) og XX. kafla (Rannsóknir vegna hafeldis).
    Í fyrrnefnda kaflanum er almennt fjallað um skilyrði þess að hafeldi geti hafist hér á landi. Grunnforsendur hafeldis, líkt og sjókvíaeldis, eru að fyrir hendi sé burðarþolsmetið vatnshlot eða annað afmarkað hafsvæði, afmarkað smitvarnasvæði og áhættumat erfðablöndunar. Í kaflanum er jafnframt tekið fram að ákvæði annars þáttar frumvarpsins, sem lýtur að sjókvíaeldi, skuli gilda um hafeldi. Þannig lýtur til að mynda úthlutun smitvarnasvæðis og umsókn um rekstrarleyfi til hafeldis sömu skilyrðum og fjallað er um þar. Þá er í kaflanum kveðið á um tilraunaleyfi í hafeldi.
    Í XIX. kafla er einnig að finna ákvæði um hvernig gjaldtöku fyrir hafeldi skuli háttað. Ljóst er að hafeldi krefst verulegra fjárfestinga og því mikilvægt að fyrirsjáanleiki sé fyrir hendi um mögulega gjaldtöku í greininni. Í ákvæðinu er kveðið á um að greiða skuli annars vegar gjald til ríkissjóðs samkvæmt ákvæðum XIII. kafla sem fjallar um Umhverfissjóð sjókvíaeldis sem og samkvæmt ákvæðum XIV. kafla sem fjallar um Samfélagssjóð sjókvíaeldis. Greiðsluskylda rekstrarleyfishafa hafeldis hefst þó ekki fyrr en að loknu eldi þriggja kynslóða fisks en í síðasta lagi sex árum frá fyrstu útsetningu.
    Í XX. kafla er fjallað um rannsóknir vegna hafeldis. Til að komast að því hvort og hvar hafeldi sé vænlegt í íslenskri lögsögu þarf að ráðast í fjölmargar og ítarlegar rannsóknir. Í kaflanum er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun geti sjálf, eða í samvinnu við aðra, stundað grunnrannsóknir á mögulegum svæðum til hafeldis. Óski einkaaðili eða opinber aðili eftir samvinnu við Hafrannsóknastofnun við gerð slíkra rannsókna skal hann sækja um heimild til slíkrar samvinnu til ráðherra. Sé það mat ráðherra að skilyrði séu fyrir samvinnu skulu umsækjandi og Hafrannsóknastofnun gera með sér samning um samvinnuna þar sem m.a. er fjallað um greiðslu umsækjanda á kostnaði.
    Sem hvati fyrir aðila til að leggja í slíkan kostnað er í kaflanum kveðið á um að kostnaður af grunnrannsóknum skuli koma til frádráttar tilboðsfjárhæð aðilans ef hann býður í smitvarnasvæðið við úthlutun. Miðað verður við að kostnaður umsækjanda verði fimmfaldaður þegar frádráttur er reiknaður.

4. Samræmi við stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar.
4.1. Almennt.
    Við samningu frumvarpsins hefur þess verið gætt að efni þess samrýmist stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins.
    Með frumvarpinu er lögð til heildarumgjörð um lagareldi. Frumvarpið hefur að geyma reglur m.a. um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að stunda atvinnurekstur á þessu sviði og reglur sem leyfishafar í greininni þurfa að fylgja í starfsemi sinni. Slíkar reglur fela eðli máls samkvæmt í sér takmarkanir á atvinnufrelsi og þurfa sem slíkar að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til takmarkana á atvinnufrelsi skv. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Eftir atvikum verða atvinnuréttindi jafnframt metin til fjárhagslegra gæða og geta þá einnig notið verndar eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar þótt almennt sé talið að vernd atvinnuréttinda sé takmarkaðri en vernd hefðbundinna eignarréttinda. Undir slíka vernd kunna m.a. að geta fallið réttmætar væntingar leyfishafa til að hann haldi áfram leyfi til atvinnustarfseminnar meðan hann uppfyllir þau skilyrði sem því eru sett.
    Efni frumvarpsins tekur mið af framangreindum reglum stjórnarskrárinnar og er í samræmi við þær. Í frumvarpinu er skýrt kveðið á um þau skilyrði sem þarf að uppfylla til að geta hlotið leyfi til að stunda lagareldi. Efni þessara skilyrða tekur mið af þeim almannahagsmunum sem búa þeim að baki. Þessir hagsmunir tengjast einkum dýravelferð, umhverfisvernd og sjálfbærni og því eftirliti sem nauðsynlegt er að viðhafa til að tryggja þá. Hið sama gildir um þær reglur sem gilda um starfsemi leyfishafa eftir að leyfi er gefið út, þ.m.t. um breytingar leyfa og afturköllun þeirra.
    Í frumvarpinu er lagt til nýtt fyrirkomulag um framkvæmd áhættumats erfðablöndunar og nýtingu einstakra rekstrarleyfishafa á lífmassa smitvarnasvæða. Samkvæmt framangreindu getur leyfileg nýting rekstrarleyfishafa á lífmassa tekið breytingum með tilliti til affalla og lúsasmits. Reglur frumvarpsins um þetta efni eru í fullu samræmi við framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar þar sem þær gera ráð fyrir því að leyfishafi haldi leyfi til atvinnustarfsemi á meðan og að því marki sem hann uppfyllir þau skilyrði sem því eru sett. Í slíkum reglum felst því ekki að atvinnufrelsi eða eignarréttur leyfishafa sé takmarkaður umfram það sem heimilt er samkvæmt stjórnarskrá. Þvert á móti felst í slíkum reglum að sett eru skýr skilyrði með lögum fyrir því að leyfishafi haldi leyfi sínu sem um leið fela í sér afmörkun á inntaki þess. Tekið skal fram í því sambandi að leyfishafi getur að jafnaði ekki haft réttmætar væntingar til að halda leyfi sínu umfram það sem lög kváðu á um við útgáfu þess.
    Þótt atvinnuréttindi falli undir vernd 72. gr. stjórnarskrárinnar að því marki sem þau verða metin til fjárhagslegra gæða er mikilvægt að taka fram að hvorki í gildandi lögum né í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að leyfi útgefin á grundvelli þeirra myndi eign umfram það sem leiðir af þessari almennu vernd. Sérstaklega ber að taka fram að frumvarpinu er ekki ætlað að stofna til nýrra eignarréttinda fyrir þá aðila sem hafa eða öðlast leyfi til að stunda atvinnustarfsemi sem fellur undir þau. Réttindi aðila á grundvelli frumvarpsins ráðast af efni þeirra leyfa sem útgefin eru hverju sinni og þeim reglum sem um þau gilda á hverjum tíma. Leyfi samkvæmt frumvarpinu fela í sér rétt til að stunda þá atvinnustarfsemi sem frumvarpið tekur til í samræmi við reglur þess en fela ekki í sér sjálfstæðan framleiðslu- eða nýtingarrétt sem aðskilinn verður frá þeirri starfsemi sem leyfishafi stundar. Sem dæmi má nefna að leyfi á grundvelli frumvarpsins felur í sér rétt til að stunda starfsemi en ekki rétt til tiltekins ávinnings af henni. Það ræðst af árangri starfseminnar hvort og að hvaða marki leyfishafi hefur af henni ávinning og engin afstaða er tekin til þess með útgáfu leyfis. Það er leyfishafa að meta áður en sótt er um leyfi eða starfsemi hafin hvort hann telur sig hafa hag af því að stunda leyfisskylda starfsemi að uppfylltum þeim skilyrðum og reglum sem mælt er fyrir um í frumvarpinu.
    Við setningu reglna af því tagi sem hér eru lagðar til er verkefni löggjafans að tryggja að þær séu skýrar og fyrirsjáanlegar og að með þeim sé ekki gengið lengra en nauðsynlegt er til að tryggja þá almannahagsmuni sem reglunum er ætlað að þjóna. Í samræmi við það eru með frumvarpinu settar skýrar og fyrirsjáanlegar reglur um þau skilyrði sem uppfylla þarf í lagareldi til þess að það fái samrýmst undirliggjandi markmiðum frumvarpsins um dýravelferð, umhverfisvernd og sjálfbærni.

4.2. Ákvæði VII. kafla um laxahlut.
    Nokkur álitaefni vakna varðandi samspil ákvæða VII. kafla við 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í fyrsta lagi er um framleiðsluheimild, eða framleiðslutakmörkun, að ræða. Jafnvel mætti líta á laxahlut sem nokkurs konar mengunarheimild, þ.e. samanlögð mengunaráhætta vegna eldis á frjóum laxi í formi erfðablöndunar við villta nytjastofna má ekki fara yfir þau viðmið sem sett eru með áhættumati erfðablöndunar. Hvernig sem litið er á þær heimildir sem felast í laxahlut, þá er ljóst að um takmörkuð verðmæt gæði er að ræða. Þegar takmörkuðum verðmætum gæðum er úthlutað felst í því skerðing atvinnuréttinda þeirra sem ekki fá slíkum gæðum úthlutað. Frumvarpið byggist m.a. á þeirri forsendu að nauðsynlegt sé að takmarka erfðablöndun við villta nytjastofna, sbr. einkum 6. gr. frumvarpsins. Fjöldi villtra laxa við Ísland verður mögulega ekki talinn nema í tugum þúsunda á meðan fjöldi eldislaxa er talinn í mörgum milljónum á hverju svæði og jafnvel tugum milljóna í heild, allt eftir árstíma. Vega verður hættuna á því að eldislaxar sleppi og valdi tjóni með erfðablöndun við villta nytjastofna á móti þeirri almennu takmörkun sem felst í úthlutun laxahlutar til tiltekinna rekstrarleyfishafa. Hér verður talið, þegar á heildina er litið, að sú almenna skerðing atvinnuréttinda, sem felst í úthlutun laxahlutar til tiltekinna og jafnvel fárra rekstrarleyfishafa, réttlætist af þeim umhverfishagsmunum sem frumvarpið leitast við að vernda.
    Í öðru lagi vaknar sú spurning hvort úthlutun laxahlutar feli í sér eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildum til eldis á frjóum laxi. Í 2. mgr. 38. gr. er tekinn af allur vafi um að svo sé ekki. Líkt og greinir að ofan, þá er allt eins hægt að líta á laxahlut sem framleiðslutakmörkun eða mengunarheimild og er illmögulegt að líta á slíkt sem eignarréttindi.
    Í þriðja lagi er það álitaefni hvort úthlutun laxahlutar njóti, þrátt fyrir það sem ofan segir um eignarrétt og óafturkallanlegt forræði, svo ríkrar verndar 75. gr. stjórnarskrárinnar að 72. gr. stjórnarskrárinnar virkjist með sama hætti, einkum ef um umfangsmiklar fjárfestingar rekstrarleyfishafa er að ræða sem miða að nýtingu laxahlutar og sem kynnu að glatast við innköllun laxahlutar eða aðrar meiri háttar breytingar. Ímynda má sér dæmi, sem þó eiga sér ekki stoð í þessu frumvarpi, þar sem stjórnvöld eða löggjafinn gætu sett reglur sem skertu svo heimildir til eldis á frjóum laxi að slíkt teldist ólögmætt samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár eða gæti varðað bótaskyldu. Hér verður talið að þær skerðingar sem mögulegar eru samkvæmt t.d. 40. gr. frumvarpsins geti trauðla valdið bótaskyldu ríkisins. Skiptir þar miklu máli að gefinn er rúmur frestur til nýtingar og að ríki, sveitarfélög og samfélög á sjókvíaeldissvæðum hafa hagsmuni af því að laxahlutur sé nýttur. Leið rekstrarleyfishafa til þess að halda á laxahlut er einfaldlega að nýta hann.
    Að teknu tilliti til ofangreindrar umfjöllunar er talið að úthlutun og möguleg innköllun laxahlutar miði að málefnalegum markmiðum á grundvelli almennra og fyrirsjáanlegra reglna.

4.3. Ákvæði VIII. kafla um strok.
    Álitaefni um samspil strokkafla frumvarpsins við stjórnarskrá lýtur einkum að sjónarmiðum um meðalhóf við ákvörðun löggjafans á sektarfjárhæð skv. 48. gr. frumvarpsins. Víst er að 5.000.000 kr. er há fjárhæð í sektargreiðslu fyrir hvern lax. Veiðist margir strokulaxar verður sú fjárhæð enn hærri og getur, samkvæmt frumvarpsgreininni, náð að hámarki 750.000.000 kr.
    Sem fyrr segir er um háar fjárhæðir að ræða. Hér verður hins vegar að horfa til þess að einungis fáir eldisfiskar nást að jafnaði af þeim sem líklegt er að hafi sloppið. Er því litið til þess að fyrir hvern eldislax sem næst, séu líkur á einhverjum fjölda sem hefur sloppið en næst ekki. Má segja að gert sé ráð fyrir gjaldi fyrir þá laxa sem ekki finnast í sektarfjárhæð ákvæðisins. Þá verður einnig að skoða sektarfjárhæðina með hliðsjón af markmiði frumvarpsins um umhverfishvata. Frumvarpinu er að þessu leyti ætlað að koma í veg fyrir að rekstrarleyfishafar geri einfaldlega ráð fyrir stroki í rekstraráætlunum sínum í stað þess að beita sér fyrir strokvörnum og eftirliti. Í þessu samhengi verður að benda á að rekstrarleyfishafar geta gripið til ýmissa úrræða, svo sem fjárfestinga í búnaði eða eftirliti, sem dregur úr líkum á stroki.
    Þegar allt framangreint er vegið saman verður hér talið að hin íþyngjandi ákvæði frumvarpsins varðandi sektir fyrir strok standist ákvæði stjórnarskrár um vernd atvinnufrelsis skv. 75. gr. sem og óskráðar reglur um stjórnskipulegt meðalhóf. Frumvarpsgreinin um sektarfjárhæðir sé bæði markhæf þegar kemur að markmiði sínu og illsjáanlegt að lægri sektir eða önnur viðurlög myndu ná markmiði ákvæðisins enda myndu rekstraraðilar einfaldlega freistast til þess að gera ráð fyrir stroki og greiðslu sekta í rekstri sínum í stað þess að grípa til aðgerða til þess að verjast stroki. Líta verður enn fremur til þess að ákvæði 48. gr. er ekki fortakslaust að því leytinu til að mat getur farið fram við beitingu þess, sbr. 50. gr. frumvarpsins.

4.4. Ákvæði IX. kafla um afföll.
    Ákvæði IX. kafla um afföll eru nýmæli sem miða að því að tryggja dýravelferð í sjókvíaeldi. Því er fyrst að halda til haga að afföll eru óumflýjanlegur þáttur í sjókvíaeldi og raunar öllu skepnuhaldi. Eins og sjókvíaeldi er nú stundað gefur það augaleið að eldisfiskur er háður aðstæðum í náttúrunni, bæði hvað varðar sjúkdóma, sníkjudýr, veður og jafnvel rándýr. Markmið laganna er ekki að útrýma afföllum heldur að halda meðaltalsafföllum í lágmarki þegar horft er til meðaltalsaffalla á smitvarnasvæði hjá einni kynslóð eldisfisks. Afleiðingar þess að afföll eru yfir tilteknum þröskuldi eru að eldisheimildir, mældar í leyfilegum lífmassa smitvarnasvæðis, lækka. Náist góður árangur með lægri afföllum, þá hækka sömu heimildir.
    Í samræmi við ofangreint er markmið frumvarpsins að samþætta dýravelferð og eldisheimildir, mældar í leyfilegum lífmassa. Þeir aðilar og þau svæði, sem koma vel út með tilliti til affalla, fá frekari eldisheimildir. Þeir aðilar og þau svæði, sem koma illa út með tilliti til affalla, sæta skerðingu. Hér er á engan hallað varðandi ákvæði 72. eða 75. gr. stjórnarskrárinnar enda geta allir sem á annað borð hafa heimildir til sjókvíaeldis aukið við eldisheimildir sínar þótt þær heimildir lækki einnig þegar illa gengur. Hér verður talið að þær aukningar og skerðingar sem 54. gr. miðar við séu málefnalegar og hófstilltar. Birtist þetta m.a. í því að ef skerðingar koma til vegna bæði affalla- og lúsakerfis þá skulu affallaskerðingar nema 1,5% í stað 3%, sbr. 7. mgr. 54. gr. frumvarpsins.
    Hvað varðar 20% þröskuld til skerðinga, þá miðar sú tala við meðaltalsafföll bæði hérlendis og í Noregi, sem þó eru vissulega mismunandi eftir tíma og stað. Þá verður að ítreka að þótt afföll séu óumflýjanleg að einhverju marki, þá hvílir sú skylda á rekstraraðila að halda þeim í lágmarki. Í öllu falli verður að vega dýravelferð á móti atvinnufrelsi og vernd eignarréttar og er hér talið að það hagsmunamat birtist í málefnalegum ákvæðum IX. kafla

4.5. Ákvæði X. kafla um lúsasmit.
    Ákvæði X. kafla um lúsasmit eru nýmæli sem, líkt og ákvæði IX. kafla um afföll, miða að því að tryggja dýravelferð í sjókvíaeldi þótt með sértækari hætti sé. Lýs, þ.e. fiskilús og laxalús, hrjá ýmsa fiska í sjókvíaeldi, ekki síst eldislax. Lúsin er sníkjudýr sem er hluti af náttúrunni og verður ekki útrýmt heldur verður hún viðvarandi viðfangsefni þar sem hún á annað borð kemur upp. Markmið frumvarpsins er að halda lús í lágmarki og knýja rekstrarleyfishafa til viðbragða þegar lúsasmit kemur upp. Afleiðingar þess að lúsasmit eru yfir tilteknum þröskuldi leiðir til þess að eldisheimildir, mældar í leyfilegum lífmassa smitvarnasvæðis, lækka. Náist góður árangur með lægri afföllum, þá hækka sömu heimildir.
    Í samræmi við ofangreint er markmið frumvarpsins að samþætta dýravelferð og eldisheimildir, mældar í leyfilegum leyfilegum lífmassa. Þeir aðilar og þau svæði, sem koma vel út með tilliti til lúsasmits, fá frekari eldisheimildir. Þeir aðilar og þau svæði, sem koma illa út með tilliti lúsasmits, sæta skerðingu. Hér er á engan hallað varðandi ákvæði 72. eða 75. gr. stjórnarskrárinnar enda geta allir sem á annað borð hafa heimildir til sjókvíaeldis aukið við eldisheimildir sínar þótt þær heimildir lækki einnig þegar illa gengur. Hér verður talið að þær aukningar og skerðingar sem 59. gr. miðar við séu málefnalegar og hófstilltar.
    Hvað varðar þröskuld til skerðinga, þá verður að útfæra punktakerfi og afleiðingar af því að einhverju leyti í reglugerð, m.a. að fenginni reynslu. Þá verður að ítreka að þótt lúsasmit séu óumflýjanleg að einhverju marki, þá hvílir sú skylda á rekstraraðila að halda þeim í lágmarki. Í öllu falli verður að vega dýravelferð á móti atvinnufrelsi og vernd eignarréttar og er hér talið að það hagsmunamat birtist í málefnalegum ákvæðum X. kafla.
    Hér skal einnig vikið að íþyngjandi ákvæðum 60. gr. frumvarpsins sem fjallar um fjarlægingu á lúsasmituðum fiski. Í því tilliti verður að líta til þess að atvinnustarfsemi, sem ber með sér hættu á smitsjúkdómum og sníkjudýrum í eldisdýrum, verður að þola aðgerðir sem miða að því að binda enda á þjáningar sýktra og smitaðra dýra. Hér verður talið að 75. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar sæti málefnalegum takmörkunum þegar kemur að dýravelferð og að ákvæði frumvarpsins hvað varðar lúsasmit séu vel innan þeirra almennu takmarkana sem rekstrarleyfishafar verða að þola bótalaust.

4.6. Ákvæði XI. kafla um kynþroska lax.
    Kynþroski eldislax er a.m.k. tvíþætt vandamál. Annars vegar mun kynþroski lax draga úr verðmæti afurða og hins vegar er meiri hætta á því að kynþroska lax blandist við villta laxastofna ef kynþroska lax á annað borð sleppur. Það er því allra hagur að fylgjast með og koma í veg fyrir kynþroska.
    Í ljósi þeirrar áhættu sem felst í stroki kynþroska laxa er lögð skylda á rekstrarleyfishafa að fjarlægja kynþroska lax úr sjókví. Oft myndi slík skylda leiða til þess að öllum fiski úr kví yrði slátrað. Hér er þó til þess að líta að stærð eða þyngd lax annars vegar og kynþroski hins vegar eru nátengd atriði enda eru stærri laxar almennt líklegri til að vera kynþroska. Hér er talið að í ljósi þeirra umhverfishagsmuna sem felast í því að koma í veg fyrir strok kynþroska eldislaxa, þá séu ákvæði 61. gr. frumvarpsins málefnaleg og rúmist innan meðalhófsreglu og þeirra almennu takmarkana sem rekstrarleyfishafar verða að þola bótalaust.

4.7. Ákvæði XII. kafla um afturköllun rekstrarleyfis.
    Í XII. kafla eru ákvæði sem lúta að afturköllun rekstrarleyfis til sjókvíaeldis, annars vegar á grundvelli forsendubrests og hins vegar á grundvelli brota gegn ákvæðum frumvarpsins.
    Rekstrarleyfishafar sem fengið hafa rekstrarleyfi á grundvelli frumvarpsins hafa að nokkru marki væntingar til þess að geta stundað starfsemi sína áfram. Framangreindar væntingar takmarkast aftur á móti af því að starfsemin verður að fara að lögum og reglum hverju sinni. Verði frumvarpið að lögum munu rekstrarleyfishafar öðlast ótímabundin leyfi og fara með einkarétt á tilteknum smitvarnasvæðum. Á sama tíma eru gerðar auknar kröfur, jafnt til allra rekstrarleyfishafa, um að nýta leyfi sín með ábyrgum hætti m.a. með tilliti til dýravelferðar, umhverfisverndar og sjálfbærni. Eru þessar kröfur settar fram til þess að koma í veg fyrir skaðleg áhrif af völdum starfseminnar og til þess að markmið frumvarpsins um að greinin byggist upp á sjálfbæran hátt náist. Af þessum sökum verður að telja að afturköllunarheimildir frumvarpsins séu bæði nauðsynlegar og hóflegar og fari ekki í bága við ákvæði 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.
    Þá verður jafnframt að telja að ákvæði frumvarpsins um afturköllun á grundvelli forsendubrests standist framangreind ákvæði stjórnarskrárinnar enda er þeim ætlað að tryggja að aðili sem fengið hefur einkarétt á smitvarnasvæði nýti þau gæði sem honum hafa verið úthlutuð. Með því að veita einum aðila rétt til að starfa á smitvarnasvæði eru aðrir aðilar útilokaðir frá starfsemi þar. Nýti aðili ekki þau gæði sem honum hafa verið veitt munu markmið löggjafarinnar um að skapa lagareldi skilyrði til sjálfbærar uppbyggingar og að efla þannig m.a. verðmætasköpun og atvinnulíf, ekki nást. Með þau sjónarmið í huga verður að telja ákvæði frumvarpsins sem lúta að afturköllun vegna forsendubrests bæði hófleg og réttlætanleg.

5. Samráð.
    Við mótun stefnu lagareldis til ársins 2040 var haft samráð við hagsmunaaðila en líkt og áður segir byggist frumvarp þetta að miklu leyti á niðurstöðum þeirrar vinnu.
    Í júní 2023 var skilgreindum hagaðilum boðið á kynningarfundi á vegum matvælaráðuneytisins þar sem fyrstu hugmyndir að áherslum stefnunnar voru kynntar. Í hópi hagaðila voru 77 einstaklingar frá 44 lögaðilum, sveitarfélögum, opinberum stofnunum og hagsmunasamtökum. Þeim hugmyndum sem þar voru kynntar var ætlað að vera útgangspunktur fyrir opna umræðu um hvaða leiðir skyldu valdar við mótun stefnunnar. Í kjölfar fundarins gafst hagsmunaaðilum kostur á að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri og bárust 32 umsagnir. Óskað var eftir frekari umsögnum vegna Fiskeldissjóðs frá sveitarfélögum með erindi dags. 1. september 2023. Bárust umsagnir frá sex sveitarfélögum. Hagaðilar fengu kynningu á helstu atriðum stefnumótunarinnar hinn 29. september 2023.
    Drög að stefnumótun lagareldis til ársins 2040 voru birt 4. október 2023 í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Ísland.is (mál nr. S-182/2023) þar sem hagsmunaaðilum og öðrum gafst kostur á að koma athugasemdum á framfæri. Alls bárust 84 umsagnir við stefnuna sem nýttust vel við samningu frumvarpsins. Fleiri gögn sem nýttust við stefnumótunarvinnu lagareldis fóru í gegnum opið samráðsferli stjórnvalda. Má þar nefna skýrslu Boston Consulting Group sem birt var í samráðsgátt stjórnvalda 28. febrúar 2023 (mál nr. S-49/2023) og skýrsla starfshóps um strok úr sjókvíaeldi sem birt var 22. júní 2023 (mál nr. S-117/2023). Við fyrrnefnda skjalið bárust 22 umsagnir en sex við hið síðarnefnda.
    Áform um lagasetningu ásamt frummati á áhrifum voru birt 22. október 2023 í samráðsgátt stjórnvalda (mál nr. S-202/2023). Hagsmunaaðilum var gert viðvart um áform um lagasetninguna og samtals bárust tíu umsagnir sem litið var til við samningu frumvarpsins.
    Drög að frumvarpi til laga um lagareldi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda hinn 6. desember 2023 og var veittur frestur til og með 12. janúar 2024 til að senda inn umsagnir (sjá mál S-253/2023). Alls bárust 294 umsagnir frá einstaklingum, fyrirtækjum, hagsmunaaðilum, stjórnvöldum og sveitarfélögum. Umsagnir sem bárust voru margar hverjar afar umfangsmiklar og skiptar skoðanir uppi um efni frumvarpsins. Hér að neðan er getið helstu atriði innsendra umsagna:
          Afföll: Í innsendum umsögnum var ýmist talið að refsiákvæði vegna affalla gangi of langt eða of skammt. Einnig voru skiptar skoðanir á því hvað teljist óviðráðanleg ytri atvik en þannig var bent á að þörungablómi og marglyttur séu óviðráðanlegir þættir en einnig að veðurofsi og hafís geti vart talist ófyrirséð eða óviðráðanleg atvik.
          Áhættumat erfðablöndunar: Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að Hafrannsóknastofnun vinni áhættumat erfðablöndunar sem hafi þá sömu stöðu og önnur ráðgjöf sem stofnunin vinnur fyrir stjórnvöld og sé ekki bindandi fyrir ráðherra. Í umsögnum kom fram gagnrýni við að fela ráðherra mat um hvort fylgja eigi ráðgjöf stofnunarinnar. Var í því sambandi rætt um mikilvægi þess að áhættumat sé vísindaleg niðurstaða en ekki pólitísk ákvörðun.
          Lögfesting núgildandi friðunarsvæða og friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar: Í yfirgnæfandi fjölda umsagna var tekið undir friðun þessara fjarða og það sjónarmið að friðunarsvæði verði framvegis ákveðin með lagasetningu í stað reglugerðar ráðherra. Gagnstæð sjónarmið komu fram af hálfu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og bent á að ekki hafi farið fram sértækt vistfræðilegt mat á afmörkun friðunarsvæða og engar forsendur til að taka afstöðu til þessara tillagna á grundvelli sömu formerkja og auglýsingin frá 2004 byggist á. Samtök sjávarútvegssveitarfélaga taka ekki beina afstöðu til friðunaráformanna en telja mikilvægt að þau verði rædd við hlutaðeigandi sveitarfélög. Nánari umfjöllun um athugasemdir er vörðuðu lögfestingu friðunarsvæða og friðun Eyjafjarðar og Öxarfjarðar má finna í kafla 3.1.3.
          Framleiðslugjald: Fram komu athugasemdir um að fyrirkomulag frumvarpsdraganna taki ekki nægt tillit til þróunar á framleiðslukostnaði og þar af leiðandi kunni gjaldtakan að verða of íþyngjandi þegar lítill munur er á milli framleiðslukostnaðar og heimsmarkaðsverðs.
          Eftirlit: Í mörgum umsögnum er varað við því að treyst sé um of á innra eftirlit rekstrarleyfishafa og bent á nýleg tilvik þar sem alvarlegar brotalamir þessa kerfis hafa komið fram og dæmin sanni að rekstrarleyfishöfum sé ekki treystandi fyrir þessari ábyrgð. Því þurfi að efla opinbert og óháð eftirlit. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telja mikilvægt að rekstraraðilar sem standa sig vel og reka öflugt innra eftirlit fái að njóta þess með því að dregið verði úr eftirliti og kröfum um skýrslugjöf. Samtökin telja frumvarpið þvert á yfirlýsta stefnu um áhættumiðað eftirlit.
          Lús: Fundið var að því að í frumvarpinu væri ekki að finna tilgreind töluleg markmið fyrir ásættanleg gildi/aðgerðarmörk fyrir lús. Þá var skorað á stjórnvöld að taka upp staðla Norður-Atlantshafs laxverndunarstofnunarinnar (NASCO)fyrir lús. Einnig er gagnrýnt að rekstraraðila sé falið að annast lúsatalningu þar sem eina leiðin til að fá raunsannar upplýsingar um stöðu mála á hverjum tíma sé að Matvælastofnun eða óháðir aðilar annist þá framkvæmd. Að mati Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi er fátt sem bendir til þess að alfarið megi rekja aukinn ágang laxalúsar til aðgerða eða aðgerðaleysis rekstraraðila og ekki sé þörf á jafn ströngum viðurlögum og ráðgert er með frumvarpinu. Óljóst sé hvernig boðað punktakerfi vegna lúsa verði útfært í boðaðri reglugerð.
          Kynþroski: Bent var á margvíslegar áskoranir við sýnatöku vegna kynþroska og nauðsyn þess að gerð verði betur grein fyrir ljósastýringu í greinargerð þar sem fyrirætlunum löggjafans verði lýst með skýrari hætti. Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi kom fram að skylda til að fjarlægja alla kynþroska fiska úr sjókví, verði hlutfall kynþroska of hátt, séu stjórnsýsluviðurlög sem feli í sér öfga og beri að varast og hið sama gildi fyrir sektir fyrir hvern kynþroska fisk sem greinist við slátrun. Hafrannsóknastofnun fagnar framkomnum drögum og telur þau mikilvæga breytingu frá gildandi lögum og með sterkari ramma megi draga úr líkum á neikvæðum áhrifum mögulegrar erfðablöndunar
          Markmiðsákvæði: Mikil gagnrýni kom fram á markmiðsgrein frumvarpsins og lýst yfir þungum áhyggjum vegna orðalagsbreytinga sem þykja færa athyglina frá verndun villtra laxastofna og tryggi ekki afdráttarlaust að þeir njóti vafans. Þá gjalda Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi varhug við notkun á hugtökunum „vistkerfis- og varúðarnálgun“ við framkvæmd laganna og segja að ekki hafi mótast skýr viðmið um beitingu þessara viðmiða og reglna hér á landi og telja þannig óvíst að greinin fái staðist gagnvart óskráðri lögmætisreglu íslensks réttar og lagaáskilnaðarreglu stjórnarskrárinnar.
          Samfélagssjóður: Í umsögnum sveitarfélaga kom fram að þau telji réttmætt að þeirra hlutur af innheimtu framleiðslugjaldi verði hærri en .. Þá töldu þau mörg hver óvissu ríkja um úthlutunarreglur þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir því að þær verði ákvarðaðar í reglugerð.
          Stjórnvaldssektir: Í umsögn Landssambands veiðifélaga kemur fram að afnema ætti hámark á stjórnvaldssektir þar sem brot hjá smærri fyrirtækjum með takmarkaða veltu geti haft jafn alvarlegar afleiðingar fyrir villta stofna og brot hjá stærri fyrirtækjum. Í umsögn Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi segir að sú tillaga sem sett var fram í frumvarpsdrögunum um að sektir geti numið allt að 10% af heildarveltu geti haft í för með sér gríðarlega hækkun frá gildandi lögum.
          Strok og viðurlög: Í mjög mörgum umsögnum kemur fram að viðurlög við stroki þurfi að vera margfalt hærri en frumvarpið boðar og strok eigi undantekningalaust að leiða til mikilla og varanlegra skerðinga á framleiðsluheimildum. Þá kom jafnframt fram að ákvæði um strok og lækkun laxahlutar væru óskýr. Einn aðili bendir á að einfaldari aðgerð felist í því að beita háum fésektum fyrir hvern eldislax sem fjarlægður er úr veiðiám. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi leggjast gegn innleiðingu stjórnsýsluviðurlaga sem fela í sér skerðingar við ákveðnar aðstæður og telja slík ákvæði fela í sér skerðingu á eignarréttindum og atvinnuréttindum sem njóta verndar stjórnarskrárinnar.
          Umhverfis- og menntasjóður sjókvíaeldis: Almennt voru innsendar athugasemdir um breytingar á Umhverfissjóði sjókvíaeldis jákvæðar. Í einni umsögn var lagt til að verkefni orkuskipta falli undir sjóðinn og í annarri var bent á að styrkir til menntaverkefna ættu að renna til framhaldsskóla í þeim landshlutum þar sem sjókvíaeldi fer fram.
          Villtir nytjastofnar: Verndarsjóður villtra laxastofna (NASF) telur varasamt að skilgreina suma stofna sem nytjastofna en aðra ekki og það gefi ekki stjórnvöldum rétt til að fórna þeim. Landssamband veiðifélaga hafnar því að ráðherra geti tekið ákvörðun um hvaða stofnar teljist til nytjastofna Í umsögn Íslenska náttúruverndarsjóðsins (IWF) er lagt til að skipt verði út orðalaginu „villtir nytjastofnar“ fyrir „villtir laxastofnar“. Að mati Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi þarf að setja fram nánari skýringar á hugtakinu villtir nytjastofnar, en að mati samtakanna er framsetning hugtaksins í frumvarpinu mjög víðtæk og virðist opna á það að allir stofnar, óháð uppruna, sjálfbærni, fiskrækt o.s.frv. skuli jafngildir gagnvart áhættumati erfðablöndunar.
    Helstu breytingar sem gerðar voru á frumvarpinu að loknu samráði voru eftirfarandi:
          Við 1. gr. hefur verið bætt að markmið laganna sé að stuðla að ábyrgu lagareldi og tryggja verndun villtra nytjastofna.
          Við 3. gr. hefur verið bætt við skilgreiningu á hugtakinu villtir nytjastofnar lax. Hugtakið er notað í skilgreiningu á hugtakinu áhættumat erfðablöndunar og í 6. gr. frumvarpsins. Að loknu samráði var talið nauðsynlegt að bæta skilgreiningunni við til aukins skýrleika og til þess að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem bjuggu að baki skilgreiningu hugtaksins villtir laxastofnar í gildandi lögum nr. 71/2008. Gerð hefur verið sú breyting frá gildandi lögum að til villtra stofna geta einnig talist stofnar í veiðiám þar sem samþykkt hefur verið fiskræktaráætlun. Þá hefur verið gerð breyting á skilgreiningu hugtaksins burðarþolsmat sem er nú bundið við álag af völdum sjókvíaeldis en ekki aðeins „lífrænt álag“.
          Í 3. gr. hefur skilgreiningu á hugtakinu sjókví verið breytt til þess að taka af vafa um að akkeri og festingar séu hlutar sjókvía.
          Skýringum við 5. gr. hefur verið breytt til þess að skýra hugtakið hafsvæði í skilningi ákvæðisins.
          Við 5. og 6. gr. hefur verið bætt við ákvæðum sem snúa að skyldu til gerðar umhverfismats áætlana vegna áhættumats erfðablöndunar og burðarþolsmats.
          6. gr. frumvarpsins hefur verið breytt þannig að í 1. mgr. segir að tillaga Hafrannsóknastofnunar um áhættumat erfðablöndunar verður bindandi fyrir ráðherra, líkt og í gildandi löggjöf. Þá hefur verið gerð sú breyting að áhættumat erfðablöndunar miðast við lífmassa í stað fjölda fiska.
          Skýringum við 6. gr. hefur verið breytt til þess að skýra hugtakið hafsvæði í skilningi ákvæðisins.
          Í skýringum við 11. gr. hefur verið áréttað að líklegt sé að stærri firðir, svo sem Ísafjarðardjúp, skiptist í fleiri en eitt smitvarnasvæði.
          Skýringum við 12. gr. hefur verið breytt til þess að skýra hugtakið hafsvæði í skilningi ákvæðisins
          Gerðar hafa verið breytingar á skýringum við 19. gr. frumvarpsins til aukins skýrleika.
          Við 1. mgr. 21. gr. hefur verið bætt nýjum ákvæðum um að brunnbátar skuli vera með búnað sem dauðhreinsar fráveitu og að tæmingu brunnbáta skuli haga þannig að tryggt sé að smitefni og lúsalirfur berist ekki á smitvarnasvæði.
          Ný 2. mgr. 25. gr. tekur af allan vafa um að akkeri og festingar sjókvía skuli vera innan marka eldissvæða.
          Í 31. gr. hefur verið gerð sú breyting að ákvæðið taki til allra breytinga á rekstrarleyfum, ekki bara breytinga á eldissvæðum.
          Sett hefur verið inn ný 3. mgr. í 35. gr um innra eftirlit þar sem kveðið er á um ábyrgð rekstraraðila þess efnis að dýralæknar eða fisksjúkdómafræðingar komi í reglubundnar dýraheilbrigðisheimsóknir á starfsstöðvar. Er þetta gert með vísan til 25. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/429 um smitandi dýrasjúkdóma og um breytingu og niðurfellingu á tilteknum gerðum á sviði dýraheilbrigðis og tillögur starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi
          Gerðar hafa verið breytingar á 36. gr. þess efnis að vinnsla Matvælastofnunar samkvæmt ákvæðinu skuli vera í samræmi ákvæði laga um persónuvernd, nr. 90/2018, einkum 14. gr. um rafræna vöktun, og vinnslu persónuupplýsinga og reglna Persónuverndar um rafræna vöktun nr. 50/2023. Þá hefur orðalagi og skýringum við 9. mgr. ákvæðisins verið breytt á þann veg að skylda til að veita Matvælastofnun aðgang að tækjum og búnaði nái aðeins til eftirlits við sjókvíar. Þá hefur 2. mgr. 36. gr. hefur verið breytt á þann veg að rekstrarleyfishöfum er skylt að gefa Matvælastofnun mánaðarlega skýrslu um starfsemi sína en stofnunin hefur þó heimild til að krefjast tíðari skýrsluskila ef tilefni er til.
          Við 39. gr. hefur verið bætt við breytingu sem lýtur að banni á tilfærslu á laxamagni milli landshluta. Landshluti skal skilgreindur í reglugerð, sbr. 5. gr. frumvarpsins.
          Í 40. gr. er bætt við málslið um að rekstrarleyfishafa sé heimilt að fresta nýtingu laxahlutar í fjögur ár ef aukning hefur orðið á heildarlaxamagni. Þá er gerð sú breyting að ef laxahlutur er ekki nýttur að fullu a.m.k. einu sinni á þriggja ára tímabili, þá skal hann færður á nafn Matvælastofnunar.
          Í 41. gr. hefur verið gerð sú breyting að aðeins þeir sem hafa fengið úthlutað smitvarnasvæðum í nýjum landshluta eða hafsvæði geta boðið í óráðstafaðan laxahlut skv. 1. mgr. greinarinnar.
          Í 47. gr. er frestur fyrir rekstrarleyfishafa til að senda Matvælastofnun skýrslu um strokatburð styttur úr viku í tvo daga.
          Gerð er nokkur breyting á 48. gr. um þekkt strok og refsingar vegna þess. Í stað þess að laxahlutur rekstrarleyfishafa sé skertur er lagt til að lagðar verði á sektir en á þeim er hámarksfjárhæð.
          Í 49. gr. er gerð breyting á afleiðingum óþekkts stroks. Gert er ráð fyrir að hægt sé að leggja á stjórnvaldssektir skv. 133. gr. fari óþekkt strok yfir viðmiðunarmörk sem ákveðin verða í reglugerð.
          Við 50. gr. hefur verið bætt að atvik skulu aðeins teljast óviðráðanleg hafi rekstrarleyfishafi gripið til allra tiltækra ráðstafana og aðgerða til þess að varna stroki af völdum þeirra.
          1. mgr. 53. gr. hefur verið breytt á þann veg að rekstrarleyfishöfum er skylt að gefa Matvælastofnun mánaðarlega skýrslu um afföll en stofnunin hefur þó heimild til að krefjast tíðari skýrsluskila ef tilefni er til.
          Við 55. gr. hefur verið bætt að atvik skulu aðeins teljast óviðráðanleg hafi rekstrarleyfishafi gripið til allra tiltækra ráðstafana og aðgerða til þess að verjast afföllum af völdum þeirra. Þá hefur einnig verið bætt við frekari skýringum við ákvæðið í greinargerð.
          Í skýringum við 58. gr. hefur verið bætt við frekari skýringum um hvernig lúsapunktakerfi gæti verið sett fram í reglugerð.
          Í 64. gr. hefur verið gerð breyting á viðmiðum um nýtingu á leyfilegum lífmassa.
          Gerð er sú breyting á 2. mgr. 65. gr. að Matvælastofnun hefur nú aðeins heimild til þess að sleppa því að veita rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta ef um mjög alvarlegt brot sé að ræða.
          Gerð hefur verið sú breyting á 73. gr. að gjöld skv. XIII. kafla teljist til rekstrarkostnaðar.
          Í 76. gr. hefur verið gerð sú breyting að lægsta þrep skattlagningarinnar miðar við áætlaðan framleiðslukostnað í sjókvíaeldi á hverjum tíma og tekur sá kostnaður breytingum á grundvelli breytinga á fóðurverði, vísitölu neysluverðs og launavísitölu. Þá er gerð sú breyting að álagningin er lægri þegar munur á áætluðum framleiðslukostnaði og heimsmarkaðsverði er lítill en hækkar þegar sá munur eykst í takt við ætlaða afkomu rekstraraðila í greininni.
          Gerð hefur verið breyting á 85. gr. sem fjallar um hámarksþéttleika í landeldi. Er nú gerð krafa um ákveðna þætti sem ráðherra ber að líta til þegar hámarksþéttleiki er ákvarðaður í reglugerð.
          89. gr. hefur verið breytt á þann veg að rekstrarleyfishöfum í landeldi er skylt að senda Matvælastofnun skýrslu um afföll mánaðarlega.
          Við 111. gr. hefur verið bætt ákvæði sem tekur til mögulegs umhverfismats tilraunaleyfa.
          Við 116. gr. hefur verið bætt heimild fyrir einkaaðila, sem hefur unnið að grunnrannsóknum, til að ganga inn í hæsta tilboð í smitvarnasvæði og gert ráð fyrir þeim möguleika að frekari kostnaður geti komið til frádráttar tilboðum í smitvarnasvæði.
          Við 120. gr. hefur verið bætt orðalagi sem tekur af vafa um að samþykki Matvælastofnunar þurfi ekki til fullnustu veðréttar og enn fremur að nýr rekstrarleyfishafi fái aðlögunartíma til að fullnægja kröfum frumvarpsins um hæfi eftir að fullnusta hefur farið fram.
          Í skýringum við 128. gr. var bætt við umfjöllum um reglugerðarheimildir frumvarpsins og hlutverk almennrar reglugerðarheimildar í 128. gr.
          Í 133. gr. er felld brott heimild um að sektir geti numið allt að 10% af heildarveltu síðasta rekstrarárs. Þess í stað er lagt til að sektir geti numið frá 100.000. kr. til 500.000.000 kr.
          Úr 1. tölul. 139. gr. er felld brott heimild um að heimilt sé að taka á úr áhættumati erfðablöndunar ef veiðiréttarhafi veiti ekki heimild til uppsetningar fiskiteljara.
          B-liður 2. tölul. 139. gr. breytist þannig að Matvælastofnun skal einnig leita samráðs við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum um ráðstafanir vegna sjúkdóma í sjókvíaeldi.
          4. tölul. 139. gr. breytist þannig að felld er brott heimild til útgáfu rekstrarleyfis til lögaðila í dreifðri eignaraðild aðila utan heimilaðra lögsagna.
          Við bráðabirgðaákvæði III hefur verið bætt við málsgrein um að ef fleiri einn aðili starfar á smitvarnasvæði eftir gildistöku laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, þá skuli þeir greiða árlegt gjald til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis sem miðast við leyfilegan lífmassa viðkomandi smitvarnasvæðis deilt með fjölda rekstrarleyfishafa á því smitvarnasvæði. Í kafla um meginefni frumvarpsins um breytt fyrirkomulag á Fiskeldissjóði (kafli 3.1.13) hefur verið bætt við umfjöllun um að gengið verði út frá því við setningu fyrstu reglugerðar um sjóðinn að skiptingin milli sjókvíaeldisbyggða muni grundvallast á fjölda starfsmanna sem vinna með beinum hætti við sjókvíaeldi í hverri sjókvíaeldisbyggð.

6. Mat á áhrifum.
6.1. Áhrif á sjálfbæra þróun.
    Í samræmi við bæði matvælastefnu og stefnu lagareldis til ársins 2040 er það leiðarstef frumvarpsins að framleiðsla afurða lagareldis standist öll viðmið um sjálfbærni nýtingar og hafi vísindi vistkerfisnálgunar og varúðar að leiðarljósi. Er með frumvarpinu jafnframt lögð rík áhersla á að velferð dýra sé tryggð eins og fremst er kostur. Frammistaða hvers og eins rekstrarleyfishafa samkvæmt framangreindum mælikvörðum mun svo segja til um hvert umfang lagareldis verður hér á landi. Nánar er fjallað um sjálfbæra þróun í kafla 2.3.

6.1.1. Umhverfi.
    Frumvarp þetta og framkvæmd nýrra laga, verði frumvarpið óbreytt að lögum, byggist á vistkerfis- og varúðarnálgun. Með því er leitast við að tryggja að starfsemi lagareldis valdi sem minnstum áhrifum á vistkerfi. Lagareldi hefur áhrif á umhverfi sitt líkt og önnur matvælaframleiðsla en þau áhrif má milda eftir því hvaða aðferðum er beitt í rekstri. Í stefnumótun stjórnvalda í málaflokknum var ekki lagt upp með töluleg áform um aukna framleiðslu afurða á ákveðnu árabili heldur að umfang atvinnugreinarinnar taki mið af umhverfinu og að ekki verði neikvæð áhrif á eldisdýrin. Markmið frumvarpsins er þannig að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar innan ramma sjálfbærrar nýtingar og með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Lagt er til að innleiddar verði þær aðgerðir sem fram koma í drögum að stefnu fyrir lagareldi sem hafa m.a. það að markmiði að lagareldi verði stjórnað á grundvelli skilgreindra mælikvarða sem stuðla þar með að því að greinin hafi sem minnst áhrif á umhverfi sitt, vistkerfi eða villta stofna, og sem tryggja að dýravelferð og heilbrigði séu með besta hætti á heimsvísu. Í 1. gr. segir enn fremur að til að fyrirbyggja hugsanleg neikvæð áhrif á villta nytjastofna og vistkerfi þeirra skuli tryggt að eldisbúnaður og framkvæmd laganna standist ströngustu staðla og kröfur sem gerðar eru til lagareldis.
    Með frumvarpinu er enn fremur áformuð lögfesting þeirra friðunarsvæða sem ákveðin voru árið 2004 með auglýsingu en að auki verði áhrifasvæði hennar víkkað út og nái yfir Eyjafjörð og Öxarfjörð. Þetta skýtur styrkari stoðum undir þau umhverfismarkmið sem auglýsingunni var ætlað að hafa og styður við skuldbindingar Íslands hvað varðar líffræðilega fjölbreytni og verndun villtra laxastofna. Lögfesting friðunarsvæðanna tryggir að allar framtíðarbreytingar á þeim verða aðeins fyrir tilstilli Alþingis.

6.1.2. Efnahagur.
    Lagareldi, þá aðallega laxeldi í sjó, hefur vaxið hratt síðustu ár. Árið 2022 voru útflutnings-verðmæti tæplega 49 milljarðar (þar sem lax er meginuppistaðan), í samanburði við um 5 milljarða árið 2013. Útflutningsverðmæti hafa því tífaldast á stuttum tíma og var fiskeldi um 5% af heildarútflutningsverðmætum Íslands árið 2022. Fjöldi þeirra sem starfar í fiskeldi hefur aukist samhliða aukinni framleiðslu en árið 2022 voru starfsmenn í fiskeldi samtals um 650. Starfsstöðvar í fiskeldi eru að langstærstum hluta staðsettar utan höfuðborgarsvæðisins, en rúmlega 83% starfa í fiskeldi eru á landsbyggðinni. Skilvirkt regluverk og eftirlit eru forsenda þess að lagareldi geti vaxið í sátt við umhverfið og orðið fjórða efnahagsstoðin á Íslandi. Lagareldi hefur alla burði til að verða sambærilega stórt og t.d. sjávarútvegur. Markmið með þessu frumvarpi er að skýra rammann svo greinin geti vaxið til framtíðar. Ef ekki er skilvirkt regluverk er hætta á að illa geti farið vegna umhverfissjónarmiða og dýravelferðar, til að mynda vegna sjúkdóma eða sníkjudýra. Í bæði t.d. Síle og Færeyjum þurfti að gjörbreyta og endurskipuleggja allt regluverk eftir að mörg frávik komu upp svo sem vegna sjúkdóma og sníkjudýra. Markmið þessa frumvarps er að styrkja regluverk, rannsóknir og eftirlit þannig að skilyrði séu fyrir sjálfbærum vexti lagareldis.

6.1.3. Samfélag.
    Lagareldi er atvinnugrein sem er stunduð á landsbyggðinni og sjókvíaeldi hefur þegar haft mikil áhrif á sveitarfélög á Vestfjörðum og Austfjörðum sem sum hver hafa búið við einhæft og ótryggt atvinnulíf. Það er samfélagslega mikilvægt að greinin byggist upp með sjálfbærum hætti og efli um leið efnahagslegan og samfélagslegan viðnámsþrótt byggðanna. Það er einnig samfélagslega mikilvægt að rekstraraðilar í sjókvíaeldi nái árangri í að bæta framkvæmd þannig að skilyrði skapist fyrir aukinni samfélagslegri sátt. Með skýrum ramma og hvatakerfum er talið að stuðlað sé að slíkum skilyrðum.
    Í frumvarpinu er lögð til stofnun Samfélagssjóðs sjókvíaeldis sem yrði sjálfstæður opinber sjóður og hefði það hlutverk að efla sjókvíaeldisbyggðir og þar með skjóta stoðum undir þau samfélög og efla atvinnulíf þar sem sjókvíaeldi er stundað.
    Eins mun aukið landeldi hafa áhrif á þeim svæðum þar sem það verður umsvifamest. Því er mikilvægt að greinin búi við skýrt regluverk, nái að vaxa með sjálfbærum hætti og verða samfélagslega mikilvæg.

6.2. Áhrif á stjórnsýslu ríkis.
    Verði frumvarpið að lögum má gera ráð fyrir að verkefni stjórnsýslunnar muni aukast talsvert. Að sama skapi munu eftirlitsheimildir þeirra stofnana sem einkum hafa með stjórnsýslu lagareldis að gera aukast. Gerðar verða ríkari kröfur um tíðni endurskoðunar burðarþolsmats af hálfu Hafrannsóknastofnunar. Samkvæmt gildandi lögum ber stofnuninni að endurskoða matið eins oft og þurfa þykir en verði frumvarpið samþykkt skal það gert eigi sjaldnar en á sex ára fresti. Þá eru Hafrannsóknastofnun falin ýmis ný vöktunar- og rannsóknaverkefni og aukið ráðgjafahlutverk með frumvarpinu, svo sem um skiptingu hámarkslífmassa vatnshlots sé því skipt upp í fleiri en eitt smitvarnasvæði, kortlagningu á dreifingu sjávarlúsa og grunnrannsóknir vegna hafeldis. Eftirlitsverkefni Matvælastofnunar munu sömuleiðis aukast umtalsvert frá því sem er í dag líkt og fjallað er um í kafla 3.1.7. Verkefni annarra stjórnsýslustofnana sem koma að lagareldi munu að mestu haldast óbreytt frá gildandi lögum.
    Í samþykktri fjármálaáætlun 2024–2028 er gert ráð fyrir að útgjaldarammi málefnasviðs sjávarútvegs og fiskeldis muni vaxa um 1.224 millj. kr. frá fjárlögum fyrir árið 2023 til fjárlaga fyrir árið 2028. Gert er ráð fyrir því að með þessu aukist framlag til stjórnsýslu, vöktunar og rannsókna á sviði fiskeldis um 400 millj. kr. 2025, 500 millj. kr. 2026 og haldist þannig í útgjaldaramma til ársins 2028. Þau verkefni sem framangreindum stofnunum eru falin með frumvarpi þessu taka mið af þessum vaxandi útgjaldaramma sem er afar mikilvægur liður í því að markmið frumvarpsins náist.

6.3. Mat á fjárhagsáhrifum.
    Áætluð fjárhagsáhrif fyrir ríkið varða annars vegar lægri tekjur vegna áformaðra breytinga á sólarlagsákvæði framleiðslugjalds á árunum 2025 og 2026 og hins vegar hærri tekna árin 2027 og 2028 vegna breyttrar aðferðafræði við útreikning á framleiðslugjaldi. Gert er ráð fyrir hærri útgjöldum vegna aukinna verkefna ríkisstofnana.

6.3.1. Útgjaldabreytingar.
    Vænta má þess að verði frumvarpið að lögum muni það kalla á aukið eftirlit Matvælastofnunar sem og auknar rannsóknir hjá Hafrannsóknastofnun. Útgjöld þessara stofnana munu því aukast, svo sem vegna aukinna verkefna, tækjakaupa og ráðninga starfsmanna. Í fjármálaáætlun 2024–2028 er gert ráð fyrir að verja um 2,2 milljörðum. kr. í að efla stjórnsýslu, rannsóknir og eftirlit með fiskeldi á tímabili áætlunarinnar. Aukin útgjöld munu jafnframt koma til hjá matvælaráðuneytinu vegna innleiðingar laganna, svo sem vegna reglugerðarbreytinga og aukinna verkefna. Er jafnframt gert ráð fyrir þeim kostnaði í fjármálaáætlun 2024–2028. Í fjárlögum fyrir árið 2024 er í samræmi við þetta gert ráð fyrir að veita samtals 252 millj. kr. framlag til fyrrgreindra verkefna til eflingar stjórnsýslu, rannsókna og eftirlits með fiskeldi. Þá ber að nefna að fyrirhugað er að breyta fyrirkomulagi Umhverfissjóðs sjókvíaeldis á þann veg að skýrara verði með hvaða hætti lögbundin verkefni Hafrannsóknastofnunar fái úthlutað úr sjóðnum. Ekki er gert ráð fyrir útgjaldaáhrifum vegna þessarar breytingar frá núverandi fyrirkomulagi.

6.3.2. Tekjubreytingar.
    Í töflu 5 má sjá möguleg tekjuáhrif frumvarpsins fyrir ríkissjóð í samanburði við núverandi lagaumgjörð til ársins 2028 og spá um framleiðslumagn. Gert er ráð fyrir jöfnu framleiðslumagni yfir árið þ.e. að framleiðslumagn dreifast jafnt á milli mánaða. Í töflunni eru sett fram tvö dæmi, þau sömu og sett eru fram í töflu 3 sem sýna þróun á kostnaðarvísitölu sjókvíaeldis. Í dæmi 1 er línuleg hækkun þ.e. bæði mánaðarlegt heimsmarkaðsverð og kostnaðarvísistala sjókvíaeldis hækka um 3%. Þar má sjá að sú aðferðafræði sem lögð er til í frumvarpinu yrði til hækkunar miðað við núverandi fyrirkomulag. Ef dæmi 2 er notað, þar sem heimsmarkaðsverð hækkar árlega um 3%, en kostnaðarvísitala sjókvíaeldis hækkar árlega um 6%, þ.e. kostnaðarvísitala sjókvíaeldis hækkar umfram heimsmarkaðsverð, verða gjöldin lægri. Í frumvarpinu er lagt upp með að sólarlagsákvæði gjaldsins verði framlengt til ársins 2028, en núverandi lagaumgjörð gerir ráð fyrir að núverandi gjöld verði að fullu innheimt árið 2026. Í töflu 5 má sjá samanburð á tekjuáhrifum á ríkissjóð annars vegar miðað við tillögur í frumvarpinu og hins vegar miðað við núverandi lagaumgjörð að teknu tilliti til sólarlagsákvæðis og þeirra forsenda sem settar eru fram um mögulega þróun á heimsmarkaðsverði, kostnaðarvísitölu sjókvíaeldis og áætlað framleiðslumagn.
    Ef litið er til dæmis 1 þá er gert ráð fyrir að tekjur verði í kringum 400 millj. kr. lægri á árunum 2025 og 2026 en þær yrðu á grunni núverandi fyrirkomulags. Sú lækkun er tilkomin vegna lengra sólarlagsákvæðis. Gert er ráð fyrir hærri tekjum 2027 og 2028 miðað við núverandi löggjöf. Ef miðað er við dæmi 2 þar sem kostnaðarvísitala sjókvíaeldis hækkar umfram heimsmarkaðsverð má gera ráð fyrir lægri tekjum af gjaldinu á tímabilinu.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Tafla 5 – Tvö dæmi miðað við mismunandi breytingar á heimsmarkaðsverði og framleiðslukostnaði og samanburður á tekjuáhrifum gildandi laga og frumvarpsins. Heimild: Fishpool price og áætlanir matvælaráðuneytis.

    Þess ber að geta að mikil óvissa er í spám um framleitt magn og þróun á heimsmarkaðsverði. Einnig er óvissa um að hve miklu leyti rekstraraðilar muni nýta sér þá umhverfishvata sem lagt er upp með í þessu frumvarpi.
    Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á gjaldi skv. XIII. kafla (Umhverfissjóður sjókvíaeldis) hafa í för með sér óverulegar breytingar fyrir ríkissjóð.

6.3.3. Áhrif á fjárhag sveitarfélaga.
    Stærstur hluti lagareldisstarfsemi fer fram utan höfuðborgarsvæðisins og ljóst er að vöxtur og uppgangur lagareldis, sérstaklega sjókvíaeldis hefur jákvæð áhrif á afkomu sveitarfélaga með tilliti til íbúaþróunar og þar með útsvarstekna. Eins fylgir atvinnugreinunum ýmiss konar hafnsækin starfsemi. Með örri íbúaþróun fylgir einnig þó óhjákvæmilega ýmiss konar aukinn þrýstingur á innviði sveitarfélaga.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrirsjáanlegra verði hvernig úthlutun úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis verði háttað ár hvert. Með þessu móti geta sveitarfélögin því gert betri tekjuáætlanir. Að sama skapi er með frumvarpinu lagt til að sveitarfélög fái meira frelsi til að ráðstafa þeim fjármunum sem þeim er úthlutað úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis hverju sinni en þau hafa í gegnum Fiskeldissjóð. Sveitarfélög eru betur til þess fallin að meta hvernig fjármunum er varið en miðlæg sjóðsstjórn í Reykjavík. Því er þessi breyting jákvæð fyrir fjárhag sveitarfélaga.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     Tafla 6: Tekjuáhrif frumvarps á Samfélagssjóð sjókvíaeldis. Heimild: Útreikningar matvælaráðuneytisins.

    Tafla 6 sýnir áætluð tekjuáhrif á Samfélagssjóð sjókvíaeldis. Gert er ráð fyrir að . af fjármunum gjaldsins frá fyrra ári renni inn í sjóðinn. Gert er ráð fyrir að tekjur sjóðsins verði lægri árið 2026 og 2027, en hærri en árið 2028 miðað við núverandi fyrirkomulag samkvæmt sviðsmynd 1 í kafla 6.3.2

6.4. Mat á jafnréttisáhrifum.
    Erfitt er að nálgast vinnumarkaðsgögn um hlut kynjanna í störfum sem tengjast lagareldi en ráðuneytið hefur óskað eftir því að Hagstofan aðskilji tölfræði sem snýr að fiskeldi frá tölfræði sem snýr að sjávarútvegi. Fiskeldisfyrirtækin hafa sjálf í einhverjum tilvikum tekið saman upplýsingar um hlutfall kvenna sem starfa hjá viðkomandi fyrirtæki en samkvæmt þeim gögnum er augljóst að þónokkur kynjahalli er hjá þeim sem starfa í greininni, þ.e. umtalsvert fleiri karlar starfa í greininni.
    Með frumvarpinu er m.a. lögð til hækkun framlaga í Samfélagssjóð sjókvíaeldis (nú Fiskeldissjóður) og Umhverfissjóð sjókvíaeldis en samkvæmt kyngreindum gögnum sem safnað er í ráðuneytinu er hlutfall þeirra sem sækja í sjóðina nokkuð jafnt á milli karla og kvenna. Með uppbyggingu og styrkari umgjörð greinarinnar má einnig ætla að fjölbreytt störf geti skapast fyrir öll kyn en fjölbreyttari atvinnutækifæri styðja við jafnrétti kynjanna.
    Þá er með frumvarpinu verið að styrkja stjórnsýslu og eftirlit með fiskeldi en kynjahlutfall þeirra sérfræðinga sem sinna stjórnsýslu og eftirliti í greininni er nokkuð jafnt.
    Ekki er talið að frumvarpið muni hafa teljandi áhrif á stöðu kynjanna en þó talið að ákveðnir þættir innan frumvarpsins muni stuðla að auknu jafnrétti þeirra.

6.5. Mat á áhrifum á persónuvernd.
    Í frumvarpinu er kveðið á um auknar eftirlitsheimildir Matvælastofnunar sem fela m.a. í sér söfnun upplýsinga með myndavélabúnaði. Ljóst er að sú vöktun er í eðli sínu rafræn vöktun og rafræn vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og þarf þar með að uppfylla skilyrði þeirra laga. Við samningu frumvarpsins var litið til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga en í 14. gr. þeirra laga er fjallað um rafrænt eftirlit og skilyrði þess. Um rafrænt eftirlit gilda reglur nr. 50/2023, um rafræna vöktun. Þær heimildir sem kveðið er á um í frumvarpinu leiða af sér jákvæð áhrif, svo sem aukið eftirlit með dýravelferð og umhverfi. Verður því að telja að jákvæð áhrif lagabreytinganna sem lagðar eru til vegi mun þyngra en neikvæð. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal þó ávallt gengið úr skugga um hvort markmiðinu með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum. Við eftirlitið þarf ávallt að hafa í huga lög um persónuvernd og gæta þess að eftirlit sé í samræmi við tilgang heimildarinnar.


Um einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. þátt.

    Í fyrsta þætti laganna er að finna tvo kafla sem taka til allra þeirra greina lagareldis sem frumvarpið tekur til. Fjallar þátturinn m.a. um sameiginlegar reglur um markmið, gildissvið, orðskýringar og stjórnsýslu lagareldis.


Um I. kafla.

    Í I. kafla er að finna ákvæði um markmið og gildissvið frumvarpsins, sbr. 1. og 2. gr. Þá eru í 3. gr. ítarlegar orðskýringar.

Um 1. gr.

    Markmið frumvarpsins eru sett fram í 1. gr. og byggjast þau að mestu leyti á markmiðum sem sett eru fram í 1. gr. gildandi laga. Í ákvæðinu er leitast við að telja upp þá þætti sem máli skipta við beitingu og túlkun laganna verði frumvarpið óbreytt að lögum. Þannig er allt í senn lögð áhersla á markmið um uppbyggingu atvinnulífs og byggðar sem og að leitast skuli við að tryggja gæði framleiðslu, líffræðilega fjölbreytni og velferð dýra auk verndunar vistkerfa og villtra stofna. Enda þótt þessi markmið kunni að skarast í ýmsum tilfellum til skemmri tíma, þá er ljóst að til lengri tíma hljóta öll þessi atriði að haldast í hendur, enda verður langvarandi og traustur iðnaður ekki byggður upp nema á forsendum sjálfbærni, samfélagi og náttúru til heilla.
    Hugtakið vistkerfisnálgun vísar til þess að umfang atvinnugreinarinnar skal takmarkast af þeim áhrifum sem hún kann að hafa á vistkerfið. Þær skorður sem burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar setja varðandi framleiðslu rekstrarleyfishafa eru dæmi um vistkerfisnálgun. Vistkerfisnálgun er alþjóðlegt áherslumál og Ísland er aðili að mörgum alþjóðasamningum þar sem aðferðafræði og innleiðing vistkerfisnálgunar er lykilmál. Eitt stærsta dæmi um það er aðild Íslands að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni, en á COP-15 fundi í desember 2022 voru samþykkt metnaðarfull markmið, Global Biodiversity Framework, um verndun, sjálfbæra nýtingu og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni þar sem aðferðafræði vistkerfisnálgunar er lögð til grundvallar. Þar eru skilgreind annars vegar fjögur meginmarkmið til ársins 2050 og hins vegar 23 aðgerða- og málefnamarkmið til ársins 2030. Miklar áskoranir blasa við í innleiðingu þessara markmiða t.d. um verndun 30% land- og hafsvæða þjóða fyrir árið 2030. Vistkerfisnálgun er aðferð til að ná fram samþættri stjórn á nýtingu náttúruauðlinda sem miðar að vernd og sjálfbærri nýtingu með sanngirni að leiðarljósi. Aðferðin grundvallast á vísindalegri þekkingu á hinum ólíku vistkerfum og starfsemi þeirra og tekur tillit til ólíkra hagsmuna við nýtingu náttúruauðlinda. Hún gerir kröfu til þess að fylgst sé með lykilþáttum vistkerfisins og að brugðist sé án tafar við breytingum á þeim. Þetta felur í sér að leggja þarf rækt við rannsóknir, sem og skráningu og flokkun lífríkisins, gera áætlanir um skipulega vernd þess, t.d. með neti verndarsvæða, og koma á árangursríkri vöktun lykilþátta lífríkisins. Vistkerfisnálgun felur jafnframt í sér að víðtækt samráð sé haft við alla hagsmunaaðila og almenning á öllum stigum ferilsins og við ákvarðanatöku um nýtingu og stjórnun auðlindanýtingar.
    Með varúðarnálgun er átt við að þegar vafi er uppi um áhrif starfsemi á umhverfi, þá verði hagsmunir rekstrarleyfishafa að víkja fyrir hagsmunum vistkerfis og náttúru. Varúðarreglan var sett fram sem 15. meginregla Ríó-yfirlýsingarinnar. Vísað er til hennar í inngangsorðum samningsins um líffræðilega fjölbreytni og í aðfaraorðum EES-samningsins og hún hefur verið útfærð t.d. í 2. mgr. 2. gr. OSPAR-samningsins. Hún kemur fyrst og fremst til skoðunar þegar óvissa er til staðar eða þekkingarskortur um afleiðingar ákvarðana sem áhrif kunna að hafa á náttúruna. Varúðarregla er skilgreind í 9. gr. laga um náttúruvernd. Samkvæmt þeirri skilgreiningu felur varúðarnálgun í sér að þegar tekin er ákvörðun á grundvelli þeirra laga, án þess að fyrir liggi með nægilegri vissu hvaða áhrif hún hefur á náttúruna, skuli leitast við að koma í veg fyrir mögulegt og verulegt tjón á náttúruverðmætum. Ef hætta er á alvarlegum eða óafturkræfum náttúruspjöllum skal skorti á vísindalegri þekkingu ekki beitt sem rökum til að fresta eða láta hjá líða að grípa til skilvirkra aðgerða sem geta komið í veg fyrir spjöllin eða dregið úr þeim
    Í 2. mgr. frumvarpsgreinarinnar er lögð sérstök áhersla á verndun villtra nytjastofna. Í framkvæmd er hér einkum átt við villta nytjastofna lax sem helst er talin stafa ógn af stroki fisks úr eldi. Endurspeglast þetta ákvæði m.a. í sérstökum kafla frumvarpsins um strok sem og ákvæðum frumvarpsins um áhættumat erfðablöndunar og þeim takmörkunum sem af því leiða.

Um 2. gr.

    Gildissvið frumvarpsins tekur skv. 1. mgr. greinarinnar til sjókvíaeldis, landeldis og hafeldis á fiski, sbr. einnig 3. gr. varðandi orðskýringar. Frumvarpið tekur ekki til ræktunar og nýtingar sjávargróðurs, skelfiskræktar eða fiskræktar samkvæmt lögum um fiskrækt, nr. 58/2006. Við samningu frumvarpsins vógust á tvö sjónarmið, annars vegar sjónarmið um að frumvarpið yrði grundvöllur nýrra heildarlaga um alla ræktun og eldi lagardýra og annarra vatnalífvera og hins vegar sjónarmið um að slík almenn heildarlög yrðu of þung í vöfum og myndu illa ná til sérstakra aðstæðna í einstökum undirgreinum lagareldis. Hefur reynsla af gildandi lögum sýnt að mikil þörf hefur verið á að aðlaga almennar reglur þeirra laga að einstökum atvinnugreinum, einkum hvað varðar sjókvíaeldi. Lög um fiskrækt eru sérlög sem lúta einkum að fiskrækt í veiðivötnum og eiga ákvæði þeirra laga um margt meiri samleið með lögum um lax- og silungsveiði heldur en lögum um lagareldi. Ekki eru lagðar til breytingar á lögum um fiskrækt með frumvarpi þessu. Þá eru ekki lagðar til neinar breytingar á lögum um skeldýrarækt, nr. 90/2011, en í undanfarandi samráðsferli komu fram ábendingar um að skeldýrarækt ætti samleið með almennum lögum um lagareldi. Niðurstaðan var þó sú að hrófla ekki við lögum um skeldýrarækt og gilda þau áfram óbreytt.
    Hvað varðar þörungarækt þá er reglur um ræktun smáþörunga og stórþörunga ekki að finna í frumvarpinu þrátt fyrir að stefnumótunarvinna hafi verið unnin fyrir báðar greinar eins og fram kemur í 1. kafla greinargerðar. Ástæðan fyrir því að frumvarpið tekur ekki til þörungaræktar er einkum tvíþætt. Í fyrsta lagi hefðu ný lög um lagareldi orðið þyngri í vöfum en æskilegt væri ef þau hefðu einnig tekið til þörungaræktar. Í öðru lagi virðast vaxtarmöguleikar í þörungarækt til framtíðar svo miklir að rétt sé að sérstök lög gildi um atvinnugreinina. Í öllu falli stóð aldrei til að settar yrðu sérstakar reglur um smáþörungarækt enda umhverfisáhrif smáþörungaræktar, eins og hún er nú stunduð, hverfandi samanborið við ýmsar aðrar greinar lagareldis. Þá eru einnig rök sem mæla með því að reglur um ræktun stórþörunga fari saman með vinnslu villtra stórþörunga.

Um 3. gr.

    Orðskýringar byggjast að miklu leyti á eldri lögum. Nýjar orðskýringar og breytingar á einstökum orðskýringum skýra sig sjálfar og miða aðallega að því að ná fram aðgreiningu milli einstakra greina lagareldis sem frumvarpið tekur til.

Um II. kafla.

    Í II. kafla er finna sameiginlegar reglur um stjórnsýslu samkvæmt frumvarpinu.

Um 4. gr.

    Ákvæði 4. gr. er að mestu leyti óbreytt frá gildandi lögum um fiskeldi, nr. 71/2008, með einni meginbreytingu þó. Sú breyting lýtur að því að lagt er til að samráðsnefnd um fiskeldi verði lögð niður. Ástæða þessa er sú að samráðsnefndin hefur ekki verið talin skila tilætluðum árangri sem raunverulegur og skilvirkur vettvangur til ráðgjafar í málefnum fiskeldis. Nefndina skipa til að mynda aðilar sem að jafnaði eru á öndverðum meiði um hvaðeina sem lýtur að sjókvíaeldi en málefni sjókvíaeldis hafa verið það sem helst hefur verið fjallað um í nefndinni. Hafa allir þeir aðilar sem tilnefna fulltrúa í nefndina tækifæri á að koma skoðunum sínum á framfæri á öðrum vettvangi, m.a. með samskiptum við viðeigandi stjórnvöld.
    Þá er gerð sú breyting að tekið er fram að Hafrannsóknastofnun skuli vera til ráðgjafar um framkvæmd laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Um 2. þátt.

    Annar þáttur frumvarpsins tekur til sjókvíaeldis. Sjókvíaeldi er sú grein lagareldis sem, eins og sakir standa, er hvað mest umdeild en greinin er einnig umfangsmesta undirgrein lagareldis. Í umræðu um sjókvíaeldi vegast annars vegar á sjónarmið um umhverfisáhrif greinarinnar en hins vegar samfélagsleg áhrif hennar. Í ljósi þess að atvinnugreinin er í senn mikilvæg og umdeild er nauðsynlegt að skýrar og framkvæmanlegar reglur gildi um hana. Ákvæði fyrsta og fimmta þáttar laganna gilda einnig um sjókvíaeldi.

Um III. kafla.

    Í III. kafla er að finna ákvæði um umhverfisvernd og rannsóknir. Kaflinn byggist að miklu leyti á ákvæðum gildandi laga um burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar. Þá er einnig að finna í kaflanum nýmæli, svo sem um friðunarsvæði. Ekki er fjallað um strok í kaflanum heldur er fjallað um það í sérstökum kafla síðar í frumvarpinu.

Um 5. gr.

    Í 5. gr. er fjallað um burðarþolsmat. Ákvæðið byggist að miklu leyti á 6. gr. b í gildandi lögum nr. 71/2008, með nokkrum breytingum þó.
    Líkt og í gildandi lögum er lagt til að ráðherra eigi frumkvæði að upphaflegu burðarþolsmati en burðarþolsmatið er framkvæmt af Hafrannsóknastofnun. Samkvæmt gildandi lögum skal burðarþolsmeta „firði eða hafsvæði“ en samkvæmt frumvarpinu er lagt til að horft verði til vatnshlota við burðarþolsmat eða annarra hafsvæða ef hafsvæði hefur ekki verið skilgreint sem vatnshlot. Vatnshlot er skilgreint í 3. gr. með sama hætti og hugtakið er skilgreint í lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, en ákvæði þeirra laga innleiða hina svokölluðu vatnatilskipun, þ.e. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/60/EB um aðgerðaramma Bandalagsins um stefnu í vatnamálum. Er hér um að ræða breytingu til samræmingar en framkvæmd Hafrannsóknastofnunar mun eftir sem áður miða við lög um stjórn vatnamála. Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir að burðarþolsmat sé ekki bundið við „lífrænt álag“ líkt og í gildandi lögum. Er þessi breyting gerð þar sem þörf þykir á að horfa til umhverfisálags í víðum skilningi til framtíðar og tryggja að hægt sé að taka tillit til ólíks álags við burðarþolsmat.
    Samkvæmt tillögu frumvarpsins skal endurskoða burðarþolsmat á a.m.k. sex ára fresti. Setja má það í samhengi við endurskoðun vöktunaráætlana fyrir vatnshlot skv. 1. mgr. 22. gr. laga um stjórn vatnamála, nr. 36/2011. Þó er heimilt að endurskoða matið oftar ef niðurstöður vöktunar gefa tilefni til. Samkvæmt gildandi lögum skyldi einungis endurskoða burðarþol „svo oft sem þurfa þykir“ og var það m.a. eitt af þeim atriðum sem Ríkisendurskoðun gerði athugasemdir við í skýrslu sinni.
    Í lokamálslið 2. mgr. er nýmæli sem lýtur að því að taka af allan vafa um það að Hafrannsóknastofnun er ekki eftirlitsaðili með staðbundinni mengum frá sjókvíaeldisstöðvum. Burðarþolsmat og annað mat Hafrannsóknastofnunar á vistfræðilegu ástandi vatnshlota er heildstætt mat sem skapar Hafrannsóknastofnun ekki eftirlitshlutverk með tilteknum rekstrareiningum. Eftirlit með nærumhverfi er á verksviði Umhverfisstofnunar og ekki síst á ábyrgð rekstrarleyfishafa sjálfs.
    Hámarkslífmassi samkvæmt burðarþolsmati setur skorður því magni fisks, mælt í lífmassa, sem rekstrarleyfishafi getur alið í sjó á hverjum tíma. Burðarþolsmat getur hins vegar breyst við endurskoðun Hafrannsóknastofnunar og verður rekstrarleyfishafi að sæta því að Matvælastofnun endurskoði heimildir rekstrarleyfishafa. Ólíkar reglur gilda hins vegar um afleiðingar annars vegar lækkunar burðarþolsmats og hins vegar hækkunar burðarþolsmats, sbr. nánar umfjöllun um 32. gr.
    Þá eru í 3. og 4. mgr. að finna nýmæli sem lúta að því að Matvælastofnun haldi skrá um leyfilegan lífmassa sem og hámarkslífmassa smitvarnasvæða eins og hámarkslífmassa burðarþolsmats hefur verið skipt niður á smitvarnasvæði. Það er því ekki nauðsynlegt að breyta rekstrarleyfi vegna breytinga á hámarkslífmassa eða leyfilegum lífmassa tiltekins smitvarnasvæðis.
    Í 5. mgr. er tekinn af vafi um að burðarþolsmat og endurskoðun þess teljist áætlun í skilningi laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. m.a. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 119/2020. Ákvæðið gerir ráð fyrir að ráðherra sé leystur undan skyldu til gerðar umhverfismats ef jákvætt álit Skipulagsstofnunar fæst um að líta megi á endurskoðun burðarþolsmats sem óbreytta áætlun í öllum veigamiklum atriðum.     Með hugtakinu hafsvæði í skilningi ákvæða 5. gr. er gert ráð fyrir þeim möguleika að burðarþolsmat verði gert á svæðum þar sem einstök vatnshlot hafa ekki verið skilgreind eða þá að mörk burðarþolsmetinna svæða séu ekki endilega þau sömu og mörk vatnshlota. Hugtakið hafsvæði er notað í sama skilningi í 5., 24., 32. og 109. gr. en í öðrum skilningi í 6. gr.

Um 6. gr.

    Í 6. gr. er fjallað um áhættumat erfðablöndunar. Samkvæmt ákvæðinu tekur áhættumat erfðablöndunar aðeins til frjós lax. Er ástæðan fyrir því tvíþætt, annars vegar er lax fyrirferðarmestur eldistegunda í núverandi sjókvíaeldi og hins vegar eru aðrar núverandi eldistegundir ólíklegri en lax til þess að hafa áhrif til erfðablöndunar við villta stofna. Áhættumat erfðablöndunar felur í sér aðferðafræði sem miðar að því finna það hámark frjós lax sem óhætt er að ala í sjó án þess að líkur séu á óásættanlegri erfðablöndun. Með hugtakinu hafsvæði í skilningi ákvæða 6. gr. er átt við stærri hafsvæði, svo sem Austfirði, Vestfirði eða tiltekin hafeldissvæði.
    Greinin byggist m.a. á nýrri orðskýringu á villtum nytjastofni lax, sbr. 42. tölul. 3. gr. frumvarpsins. Með orðskýringunni er leitast við samþætta þau skilyrði sem laxastofn þarf að uppfylla til þess að verða hluti af áhættumati erfðablöndunar, þ.e. að stofninn þurfi að vera villtur, stofninn þurfi að vera nytjaður og ræktun stofnsins þurfi að vera í samræmi við samþykkta fiskræktaráætlun ef veiðifélög eða veiðiréttarhafar á annað borð stunda ræktun á viðkomandi laxastofni. Sé ræktun, þ.m.t. seiðasleppingar, stunduð án samþykktrar fiskræktaráætlunar er ekki hægt að réttlæta að laxastofn sé hluti af áhættumati erfðablöndunar enda þá ótryggt að seiði sem notuð eru til ræktunar séu í reynd af þeim stofni sem til stendur að rækta eða varðveita.
    Ákvæðið er lítillega breytt frá gildandi lögum nr. 71/2008. Í fyrsta lagi er lagt til að lífmassi frjórra laxa sem leiðir af áhættumati erfðablöndunar skuli nefnast „heildarlaxamagn“. Sú tala verður um leið grunnur að skipulagi framleiðsluheimilda í eldi á frjóum laxi. Í öðru lagi er lagt til að breytingar á heimildum til eldis á frjóum laxi, þ.e. breyting á laxamagni, skuli taka gildi með þeim hætti að rekstrarleyfishöfum verði leyft að ljúka eldi á þeim kynslóðum eldisfisks sem þegar eru í sjó en við næstu útsetningu fiska skuli taka mið af heildarlaxamagni samkvæmt reglugerð. Samkvæmt gildandi lögum skyldi „gefinn hæfilegur frestur til aðlögunar“ þegar áhættumati erfðablöndunar var breytt svo segja má að efnislega sé ekki um breytingu að ræða þótt að orðalagi sé breytt. Þá er nýmæli í frumvarpinu sem lýtur að því að Hafrannsóknastofnun veiti einnig ráðgjöf um skiptihlutfall við flutning laxahluta milli smitvarnasvæða.
    Undirliggjandi þáttum áhættumats erfðablöndunar er lýst í 2. mgr. og byggist ákvæðið á 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. a gildandi laga. Í 3. mgr. er fjallað um mótvægisaðgerðir og byggist ákvæðið á 1. málsl. 2. mgr. 6. gr. a gildandi laga nr. 71/2008. Í núverandi framkvæmd hefur þótt óljóst hvernig mótvægisaðgerðir eigi að hafa áhrif á áhættumat erfðablöndunar, þ.e. í þeim tilfellum þegar einungis sumir rekstrarleyfishafar grípa til mótvægisaðgerða. Í frumvarpinu er reynt að bæta úr þessu með því að gera mótvægisaðgerðir að skyldu hjá öllum rekstrarleyfishöfum á sama hafsvæði, t.d. Austfjörðum, svo að taka megi tillit til þeirra í áhættumati erfðablöndunar. Þannig gæti Hafrannsóknastofnun t.d. gert tillögu til ráðherra um tvær tölur fyrir heildarlaxamagn, þ.e. annars vegar tölu sem miðar við óbreytt ástand og svo hins vegar tölu sem byggist á því að allir rekstrarleyfishafar hafi gripið til mótvægisaðgerða. Oft kynni það að vera rekstrarleyfishöfum í hag að grípa til mótvægisaðgerða ef slíkt þýddi hækkun á heildarlaxamagni sem ráðherra ákvæði með reglugerð.
    Í 7. mgr. er tekinn af vafi um að áhættumat erfðablöndunar og endurskoðun þess teljist áætlun í skilningi laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. m.a. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 119/2020. Ákvæðið gerir ráð fyrir ráðherra sé leystur undan skyldu til að gera umhverfismat ef jákvætt álit Skipulagsstofnunar fæst um að líta megi á endurskoðun áhættumats erfðablöndunar sem óbreytta áætlun í öllum veigamiklum atriðum.

Um 7. gr.

    Lagt er til að lögfest verði auglýsing nr. 460/2004 frá 27. maí 2004 en sú auglýsing leysti af hólmi eldri auglýsingu nr. 226/2001 sem var að mörgu leyti sambærileg gildandi auglýsingu. Efnislega bannar auglýsingin eldi á laxfiskum (m.a. laxi, bleikju, urriða og regnbogasilungi) á tilteknum svæðum við landið, þ.e. Faxaflóa, Breiðafirði, Húnaflóa, Skagafirði, Skjálfanda, Þistilfirði, Bakkaflóa, Vopnafirði og Héraðsflóa. Auk þessara fjarða og flóa gerir frumvarpið ráð fyrir því að Eyjafjörður og Öxarfjörður verði flokkaðir sem friðunarsvæði og er það útvíkkun frá gildissviði auglýsingarinnar. Markmið auglýsingarinnar er að vernda villta laxastofna fyrir erfðablöndun við eldislax sem og að vernda villta stofna fyrir sjúkdómum og sníkjudýrum sem kynnu að fylgja eldi á laxi og öðrum eldisfiskum.
    Líkt og fram kom við gerð fyrrgreindrar stefnumótunar um lagareldi (sjá mál S-182/2023 í samráðsgátt) er talið rétt að lögfesta efni auglýsingar 460/2004, einkum af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi er friðun hafsvæða gagnvart sjókvíaeldi mikilvægt málefni sem rétt er að fái þá vönduðu og lýðræðislegu umfjöllun sem felst í setningu laga á Alþingi. Verði ákveðið að breyta friðunarsvæðum í framtíðinni, hvort sem er til fjölgunar eða fækkunar, þá þyrfti slík breyting einnig að hljóta þinglega meðferð. Í öðru lagi felur bann við sjókvíaeldi á tilteknum svæðum í sér takmörkun á atvinnu- og athafnafrelsi sem rétt er að sé takmarkað með lögum fremur en auglýsingu, sbr. m.a. atvinnufrelsisákvæði 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar.
    Eins og berlega kom fram í umsagnarferli vegna stefnumótunar í lagareldi þá er lögfesting friðunarsvæða á grundvelli auglýsingar nr. 460/2004 umdeild. Þannig hafa ýmsir aðilar talið að lengra eigi að ganga í friðun samkvæmt frumvarpinu, t.d. með því að friða Eyjafjörð og önnur svæði fyrir sjókvíaeldi. Þá hafa aðrir talið að ganga eigi skemmra, t.d. með því að fækka friðunarsvæðum eða með því að heimila eldi á t.d. regnbogasilungi á friðunarsvæðum eða eldi í lokuðum eldisbúnaði.
    Í frumvarpi þessu er lagt til að orðalagi og efni auglýsingar nr. 460/2004 verði haldið óbreyttu nema að því leyti að Eyjafirði og Öxarfirði er bætt við þau svæði þar sem eldi laxfiska er óheimilt og að því marki sem leiðir af samræmingu við orðskýringar í 3. gr. frumvarpsins.
    Áður hefur farið fram athugun á því innan matvælaráðuneytisins (þá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið) hvort friða ætti fleiri svæði en tilgreind eru í áðurnefndri auglýsingu. Sú athugun fór fram á árinu 2021 og var þá m.a. aflað umsagnar frá Hafrannsóknastofnun um hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði innan línu sem dregin yrði frá Siglunesi í vestri að Bjarnarfjalli handan fjarðar. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar kom fram það álit stofnunarinnar að tilefni væri til þess að banna fiskeldi í sjókvíum í Eyjafirði m.a. vegna stöðu villtra stofna laxfiska, þá sérstaklega bleikju og hugsanlegra neikvæðra vistfræðilegra áhrifa á lífríki fjarðarins. Í svari stofnunarinnar var jafnframt tiltekið að líkt og með aðra ráðgjöf stofnunarinnar væri um varúðarnálgun að ræða þar sem náttúran nyti vafans í því skyni að nýting auðlinda væri með sjálfbærum hætti.
    Eftir að fyrrnefnd athugun ráðuneytisins fór fram hefur það tvisvar sinnum gerst að mikill fjöldi laxa hefur strokið úr sjókvíum. Í ágúst 2023 er talið að yfir þrjú þúsund laxar í sláturstærð hafi strokið úr sjókvíum Arctic Fish í Kvígindisdal í Patreksfirði. Fljótlega fór að bera á eldislaxi í ám og hefur eldislax fundist á stóru svæði frá Kálfá í suðri að Fnjóská í norðri. Hin víðtæka dreifing þessara strokulaxa nær því inn á friðunarsvæði beggja vegna Vestfjarða þar sem eldi er heimilað. Í ljósi þess hvernig afleiðingar þessa atburðar hafa komið fram í víðtækri dreifingu um landið, þykir rétt að bæta Eyjafirði og Öxarfirði við þau svæði sem eru þegar friðuð með umræddri auglýsingu. Ef viðlíka atburður ætti sér stað í Eyjafirði eða Öxarfirði með sambærilegri dreifingu strokulaxa til vesturs og austurs frá strokstað, þá er þar að finna margar af mikilvægustu laxveiðiám landsins, í Skagafirði, við Húnaflóa og í Vopnafirði.

Um 8. gr.

    Í 8. gr. er að finna ákvæði sem byggist á ákvæði 2. mgr. 10. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ákvæðið ekki sérstakra skýringa.

Um 9. gr.

    Í 9. gr. kemur fram bann við sleppingum eldisfisks í fiskrækt eða hafbeit. Ákvæðið er efnislega sambærilegt við 1. mgr. 19. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Þá á ákvæðið sér einnig vissa samsvörun í ákvæðum 8., 9. og 10. gr. laga um fiskrækt nr. 58/2006. Tilgangur ákvæðisins er að taka af allan vafa um að eldisfisk sem ætlaður er til nota í sjókvíaeldi eigi ekki að nota í fiskrækt eða hafbeit.

Um 10. gr.

    Ákvæði 10. gr. eru að mestu samhljóða 19. gr. a gildandi laga og þarfnast greinin ekki skýringa.

Um IV. kafla.

    Í IV. kafla eru reglur um smitvarnir og dýravelferð. Kaflinn sameinar ýmis ákvæði eldri laga í einn kafla auk þess að innihalda ýmis nýmæli.

Um 11. gr.

    11. gr. er nýmæli sem byggist þó að vissu leyti á 4. gr. a í gildandi lögum nr. 71/2008. Í greininni er tenging smitvarnasvæða við vatnshlot skýrð. Þá kemur fram að ráðherra ákveði afmörkun smitvarnasvæða með reglugerð að fenginni tillögu Matvælastofnunar. Ef vatnshlot skiptist í fleiri en eitt smitvarnasvæði þarf einnig ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Með sama hætti má ákveða að smitvarnasvæði nái yfir fleiri en eitt vatnshlot, eða hluta vatnshlota. Telja má líklegt að stærri firðir, svo sem Ísafjarðardjúp, skiptist í fleiri en eitt smitvarnasvæði.
    Eins og fram kom í stefnumótun í málefnum lagareldis var eitt af markmiðum hennar að koma á skýrri ábyrgð viðkomandi rekstrarleyfishafa. Þannig myndi einungis einn rekstrarleyfishafi starfa á hverju smitvarnasvæði og bera þannig ábyrgð á vörnum og viðbrögðum gegn sníkjudýrum og sjúkdómum á því svæði. Sama myndi einnig gilda um ábyrgð á ástandi vistkerfa, en ólíkt sjúkdómum og sníkjudýrum þá er ástand vistkerfa metið á grundvelli vatnshlota eða annarra afmarkaðra hafsvæða en ekki smitvarnasvæða. Smitvarnasvæði er ein helsta grunneining í stjórnsýslu sjókvíaeldis samkvæmt frumvarpinu, sbr. ákvæði IV. og V. kafla. Sé litið til núverandi skipulags rekstrarleyfa, sem og fjölda rekstrarleyfishafa, er ekki talið raunhæft að koma á einstaklingsbundinni ábyrgð á ástandi vistkerfa í öllum einstökum vatnshlotum. Með öðrum orðum má búast við því að í einhverjum fjörðum verði fleiri en einn aðili með starfsemi og beri þeir þannig í reynd sameiginlega ábyrgð á ástandi vistkerfa viðkomandi fjarðar eða vatnshlots með tilliti til áhrifa af sjókvíaeldi enda þótt viðkomandi rekstrarleyfishafar stundi starfsemi á ólíkum smitvarnasvæðum.

Um 12. gr.

    12. gr. er nýmæli. Í ákvæðinu er gerð grein fyrir tilgangi smitvarnasvæða og þeim reglum sem um þau gilda. Með hugtakinu hafsvæði í ákvæðinu er einkum átt við einstaka firði eða svæði innan einstakra fjarða. Líkt og rakið er að ofan í umfjöllun um 11. gr. þá er eitt af markmiðum frumvarpsins að aðgreina ábyrgð einstakra rekstrarleyfishafa með því að heimila aðeins einum aðila að starfa á hverju smitvarnasvæði. Með því er gengið lengra en kveðið var á um í skilgreiningu á „sjókvíaeldissvæðum“ samkvæmt gildandi lögum og einnig gengið lengra en starfshópur um varnir gegn sjúkdómum lagði til í minnisblaði í janúar 2023 en hvort tveggja gerði ráð fyrir að fleiri en einn aðili gæti starfað á „sjókvíaeldissvæðum“. Við gerð frumvarps þessa þótti réttlætanlegt að ganga lengra en áður í að koma á einstaklingsbundinni ábyrgð á smitvarnasvæðum, áður sjókvíaeldissvæðum, þar sem einstaklingsábyrgð styður við dýravelferð og vernd vistkerfa með því að gera eftirlit og eftirfylgni skilvirkari.
    Í 3. mgr. er tekið fram að sömu reglur og gilda um flutning fiska og tækja milli smitvarnasvæða sem eru í rekstri hjá ólíkum rekstrarleyfishöfum skuli einnig gilda í þeim tilfellum þegar einn og sami rekstrarleyfishafi er með rekstur á fleiri en einu smitvarnasvæði. Tilgangur smitvarnasvæða næst ekki nema sambærilegar skorður væru settar við starfsemi rekstrarleyfishafa í þeim tilfellum.
    Í 4. mgr. er ráðherra veitt heimild til að kveða á um lágmarksfjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva og einstakra sjókvía í reglugerð. Slík reglusetning myndi einkum vera sett til að takmarka útbreiðslu sjúkdóma. Að öðru leyti skýrir ákvæðið sig sjálft.

Um 13. gr.

    Í 13. gr. er nýmæli en ákvæði um hvíld sjókvíaeldissvæða er að finna í 46. gr. gildandi reglugerðar um fiskeldi, nr. 540/2020. Í 2. mgr. 46. gr. reglugerðarinnar segir að „þegar eldi og slátrun hverrar kynslóðar lýkur skal sjókvíaeldissvæði vera í hvíld í a.m.k. 90 daga“. Lagt er til í frumvarpinu að hvíldartími skuli áfram vera ákveðinn í reglugerð.
    Þrátt fyrir að hvíldartími sé í frumvarpinu einkum skilgreindur út frá vörnum gegn sjúkdómum og sníkjudýrum, þá mun hvíldartími einnig nýtast til að gera hlé á álagi frá sjókvíum og er því líka til þess fallinn að viðhalda góðu ástandi vistkerfa sjávarbotns.

Um 14. gr.

    Ákvæði 14. gr. tekur til flutnings farartækja og búnaðar á milli smitvarnasvæða. Eins og hugtakið ber með sér þá er hlutverk smitvarnasvæða að takmarka smit sjúkdóma og sníkjudýra á milli tiltekinna svæða. Ein möguleg smitleið er smit með búnaði og farartækjum. Sem nærtækt dæmi má nefna kenningu fisksjúkdómanefndar, sem vísað er til í fundargerð nefndarinnar frá 13. júní 2022, um að blóðþorrasmit á Austfjörðum árið 2021 hefði dreifst á milli svæða með tækjabúnaði. Greinin er í samræmi við tillögur starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi sem settar voru fram í minnisblaði í janúar 2023.
    Í greininni er lagt til að leyfi Matvælastofnunar þurfi til flutnings búnaðar og farartækja milli smitvarnasvæða en að slíkt leyfi megi veita ótímabundið ef Matvælastofnun telur skilyrði til slíks.

Um 15. gr.

    Í 15. gr. er fjallað um útsetningu fisks í sjó og flutning fisks milli smitvarnasvæða. Ákvæði 1. mgr. er efnislega samhljóða 1. mgr. 46. gr. reglugerðar um fiskeldi nr. 540/2020 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    2. mgr. er efnislega samhljóða 2. mgr. 19. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    Efni 3. mgr. er nýmæli sem byggist á tillögum starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi sem settar voru fram í minnisblaði til matvælaráðuneytisins í janúar 2023 og byggist á nauðsyn þess að Matvælastofnun hafi yfirsýn yfir flutning á fiski milli sjókvía.

Um 16. gr.

    Lagt er til að veita Matvælastofnun heimild til að krefjast talningar upp úr sjókví. Ákvæðið er nýmæli. Tekið er fram að ríkt tilefni þurfi til enda getur rask við talningu haft neikvæð áhrif á velferð fiska. Meðal þess sem réttlætt gæti talningu væri rökstuddur grunur um verulegt strok, alvarlegir sjúkdómar eða fjöldadauði.

Um 17. gr.

    Ákvæðið er nýmæli og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 18. gr.

    Ákvæðið er nýmæli. Skimun fyrir sjúkdómum er ein leið til þess að greina smitleiðir og koma í veg fyrir smit. Smitvarnir eru mikilvægar bæði til að tryggja dýravelferð og rekstraröryggi.
    Heimild til bólusetningar með samþykki Matvælastofnunar er nú að finna í reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi. Talin var þörf á að í lögum væri heimild til þess að krefjast bólusetningar. Frumvarpsgreinin byggist enn fremur á tillögum starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi sem settar voru fram í minnisblaði í janúar 2023. Starfshópurinn var skipaður í kjölfar blóðþorrafaraldurs á Austfjörðum árið 2021 en bólusetning er ein þeirra aðferða sem kunna að nýtast í baráttu við blóðþorra og aðra tilkynningarskylda sjúkdóma.

Um 19. gr.

    Ákvæðið er nýmæli. Tilgangur þess er að veita lagagrundvöll fyrir mögulegu banni á eldi tiltekinna fisktegunda eða eldi fisks með tiltekna eiginleika. Þessu ákvæði yrði að öllum líkindum aðeins beitt í undantekningartilfellum og að fenginni ráðgjöf eða reynslu, innanlands eða utan. Ekki er gert ráð fyrir að ráðherra nýti þessa heimild til þess að banna eldi þeirra tegunda sem nú eru aldar við Ísland, t.d. frjós lax eða regnbogasilungs, heldur að heimildinni yrði beitt til þess að banna, ef ástæða væri til, eldi á framandi tegundum eða ef til stæði að ala erfðabreyttan eða kynbættan fisk með eiginleika sem væru viðsjárverðir vegna dýravelferðar- eða umhverfissjónarmiða.

Um 20. gr.

    Greinin byggist á 20. gr. gildandi laga nr. 71/2008 sem og tillögum starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi sem settar voru fram í minnisblaði í janúar 2023.

Um 21. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og byggist á tillögum starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi sem settar voru fram í minnisblaði í janúar 2023. Ákvæðið felur í sér tilteknar kröfur til brunnbáta og sótthreinsunar, allt í þeim tilgangi að fækka smitleiðum.

Um 22. gr.

    Greinin byggist á tillögum starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi sem settar voru fram í minnisblaði í janúar 2023. Ákvæðið gerir ráð fyrir að Matvælastofnun geti ákveðið að tiltekið smitvarnasvæði sé hættusvæði ef upp kemur tilkynningarskyldur sjúkdómur á svæðinu eða atburður tengdur sníkjudýrum. Þá er einnig gert ráð fyrir að ákveða megi að nærliggjandi smitvarnasvæði sé áhættusvæði eða jafnvel að svæði í tiltekinni fjarlægð frá hættusvæði sé áhættusvæði. Með sama hætti gilda meiri takmarkanir á flutningum og umferð á hættusvæðum og áhættusvæðum en myndu almennt gilda. Aðrar reglur sem kynnu að verða settar í reglugerð lúta t.d. að sóttvörnum.

Um 23. gr.

    Í greininni kemur fram að þrátt fyrir ýmis ákvæði um smitvarnir og dýravelferð í frumvarpinu, þá gilda enn fremur almenn lög um sama efni sem eru hinum sértæku ákvæðum frumvarpsins til fyllingar og stuðnings.


Um V. kafla.

    Í V. kafla hefst umfjöllun um skipulag og lagalegt ferli í leyfisveitingum sjókvíaeldis. Eins og nánar er rakið í skýringum við einstök ákvæði þá byggist stjórnsýsla í sjókvíaeldi mikið á hugtökunum vatnshlot, lífmassi, smitvarnasvæði og eldissvæði. Samantekið má lýsa skipulagi sjókvíaeldis sem hér segir samkvæmt frumvarpinu:
     1.      Fyrst gerir Hafrannsóknastofnun burðarþolsmat fyrir tiltekið vatnshlot, t.d. fjörð, sem ákvarðar hámarkslífmassa fisks sem þar má ala.
     2.      Næst skiptir ráðherra vatnshloti í smitvarnasvæði sem eiga að setja ramma utan um starfsemi rekstrarleyfishafa með tilliti til sjúkdóma- og sníkjudýrahættu.
     3.      Því næst úthlutar ráðherra smitvarnasvæðum með útboði til mögulegra rekstrarleyfishafa.
     4.      Næst óskar rekstrarleyfishafi eftir afstöðu Skipulagsstofnunar til þess hvort fyrirhugaður rekstur sé umhverfismatsskyldur og, eftir atvikum, ræðst í umhverfismat.
     5.      Eftir að ákvörðun Skipulagsstofnunar um umhverfismatsskyldu liggur fyrir, og eftir atvikum álit Skipulagsstofnunar á umhverfismatsskýrslu, getur rekstrarleyfishafi sótt um rekstrarleyfi og starfsleyfi til Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar fyrir rekstri á eldissvæðum.
     6.      Heimilt er að sækja um rekstrarleyfi þrátt fyrir að umsókn samræmist ekki gildandi strandsvæðaskipulagi en Matvælastofnun er óheimilt að auglýsa tillögu að rekstrarleyfi fyrr en nauðsynlegar breytingar hafa verið gerðar á strandsvæðaskipulagi.
     7.      Að lokinni umfjöllun Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar, auk tillögu- og auglýsingaferlis, er gefið út rekstrarleyfi annars vegar og starfsleyfi hins vegar.

Um 24. gr.

    Greinin fjallar um úthlutun smitvarnasvæða. Ákvæðið byggist m.a. á 2.–5. mgr. 4. gr. a gildandi laga nr. 71/2008 en er þó mikið breytt. 1. mgr. frumvarpsgreinarinnar þarfnast ekki sérstakra skýringa og má vísa til 5. og. 11. gr. frumvarpsins um burðarþol og smitvarnasvæði.
    Í 2. mgr. er kveðið á um útboð smitvarnasvæða. Í reynd hefur flestum svæðum, sem skilgreind yrðu sem smitvarnasvæði ef frumvarpið verður samþykkt, þegar verið úthlutað á grundvelli eldri laga og er útboðsskyldan því að nokkru fræðileg nema fleira komi til, svo sem burðarþolsmat fleiri hafsvæða, að áform um hafeldi verði að veruleika o.s.frv.
    Í 3. mgr. er fjallað um hina ýmsu þætti sem koma til við mat á tilboðum sem kunna að berast. Heimilt er að víkja frá hæsta boði enda mæli aðrir þættir með því, svo sem umhverfissjónarmið og rekstrarsaga viðkomandi tilboðsgjafa.
    4. mgr. þarfnast ekki sérstakra skýringa.
    5. mgr. tekur af allan vafa að úthlutun smitvarnasvæða skapar ekki eignarrétt eða önnur óafturkræf réttindi yfir smitvarnasvæðum enda tilgangur smitvarnasvæða eingöngu að skapa ramma um varnir gegn sjúkdómum og sníkjudýrum sem og, eftir atvikum, sambærilegan ramma utan um hvíld vatnshlots og sjávarbotns. Nýti aðili ekki smitvarnasvæði, eða ef hann glatar rekstrarleyfi sínu, þá glatar viðkomandi aðili einnig rétti til starfsemi á viðkomandi smitvarnasvæði sem er þá laust til úthlutunar að nýju.
    6. mgr. þarfnast ekki skýringa.

Um 25. gr.

    Greinin byggist á 1. mgr. 4. gr. b og 1. mgr. 7. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Ákvæðið staðfestir að aðeins þeir sem hafa fengið starfsleyfi Umhverfisstofnunar og rekstrarleyfi frá Matvælastofnun megi starfrækja sjókvíaeldi.
    Í 2. mgr. er tekinn af vafi um að sjókvíar skuli vera að öllu leyti innan eldissvæða og er þá einnig miðað við að akkeri og festingar séu innan eldissvæðis, m.a. vegna siglingaöryggis. Þá er einnig kveðið á um að sjókvíaeldi verði aðeins stundað á eldissvæðum.

Um 26. gr.

    Kveðið er á um að áður en sótt er um rekstrarleyfi og starfsleyfi skuli ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu eða, ef við á, álit á matsskýrslu, liggja fyrir. Í umhverfismati framkvæmda er m.a. fjallað um möguleg áhrif framkvæmdar á siglingar. Við gerð matsins er aflað umsagna frá aðilum sem hafa stjórnsýsluhlutverki að gegna þegar kemur að öryggi siglingamála, svo sem Samgöngustofu, Vegagerðinni og Landhelgisgæslunni. Í þeim umsögnum geta umræddir aðilar kveðið á um að framkvæmt skuli áhættumat siglingaöryggis og tekur þá álit Skipulagsstofnunar, eftir atvikum, til þess.
    3. mgr. er nýmæli. Í henni felst að hvorki rekstrarleyfi né starfsleyfi verði gefin út til sjókvíaeldis nema að fyrir liggi strandsvæðaskipulag samkvæmt lögum um skipulag haf- og strandsvæða. Þó að umsókn um rekstrarleyfi samrýmist ekki gildandi strandsvæðaskipulagi er heimilt að senda slíka umsókn inn til Matvælastofnunar en Matvælastofnun er óheimilt að auglýsa tillögu að leyfinu nema nauðsynlegar breytingar séu gerðar á strandsvæðaskipulagi.
    4. mgr. er að miklu leyti samhljóða 2. mgr. 4. gr. b gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki skýringa.

Um 27. gr.

    Greinin er að miklu leyti samhljóða 8. gr. gildandi laga nr. 71/2008 Þó er lögð til sú breyting að einnig verði veittar upplýsingar um þá sem eiga meira en 10% í umsækjanda ef hann er lögaðili.

Um 28. gr.

    Greinin er að miklu leyti samhljóða 2. og 3. mgr. 9. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Greinin er einkum til áréttingar á mikilvægi umhverfismats vegna sjókvíaeldis og ekki síst því lykilhlutverki sem álit Skipulagsstofnunar gegnir. Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 29. gr.

    Greinin er að mestu leyti samhljóða 10. gr. a gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 30. gr.

    Greinin er að miklu leyti samhljóða 10. gr. gildandi laga nr. 71/2008 en er að nokkru leyti einfölduð. Ákvæði um endurskoðun rekstrarleyfis hafa verið felld úr greininni. Þó er ein meiriháttar breyting að formi til en sú breyting felst í því að rekstrarleyfi er ekki gefið út til tiltekins tíma heldur er ótímabundið, sbr. nánar í skýringu við 33. gr. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.


Um 31. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og gerir ráð fyrir að rekstrarleyfishafi geti sótt um breytingar á rekstrarleyfum þó þannig að gæta þurfi ákvæða 26. gr. eftir því sem við á. Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um 32. gr.

    Greinin tekur til þeirrar stöðu þegar rekstrarleyfishafi hefur fengið smitvarnasvæði úthlutað og rekstrarleyfi hefur verið útgefið með tilteknum hámarkslífmassa en Hafrannsóknastofnun gefur út nýtt burðarþolsmat sem hækkar burðarþol viðkomandi vatnshlots og þar með smitvarnasvæðis. Eldisrekstur rekstrarleyfishafa miðar á þeim tíma hins vegar við eldra burðarþolsmat og viðeigandi hámarkslífmassa. Fái rekstrarleyfishafi sjálfkrafa aukinn hámarkslífmassa væri hætta á að rekstrarleyfishafi myndi ekki ná að uppfylla skilyrði um nýtingu lífmassa og kynni því að missa leyfið. Því er farin sú leið að úthluta viðbótarlífmassa samkvæmt nýju burðarþolsmati eingöngu eftir ósk og umsókn rekstrarleyfishafa.
    2. mgr. gerir tilteknar kröfur til umsóknar rekstrarleyfishafa um hækkun á leyfilegum lífmassa. Eðlilegt er að aukning í rekstrarumfangi fari í gegnum sama ferli og á við í upphafi rekstrar. Ráðherra getur þó skýrt skilyrði og málsmeðferð við aukningu lífmassa í reglugerð.

Um 33. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli en lagt er til að rekstrarleyfi í sjókvíaeldi séu ótímabundin. Það er hins vegar ávallt skilyrði að rekstrarleyfishafi fari að öllum ákvæðum laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, og reglum settum með stoð í þeim svo hægt sé að líta á rekstrarleyfi sem ótímabundið. Ástæða þess að lagt er til að leyfi verði ótímabundin er fyrst og fremst sú að réttaráhrif gildistíma voru í reynd óljós samkvæmt eldri lögum. Þannig var leyfistíminn langur, eða 16 ár, auk þess sem gert var ráð fyrir að leyfum yrði úthlutað til sömu aðila við lok gildistíma, sbr. 3. mgr. 7. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Er miðað við það við samningu þessa frumvarps að réttast sé að rekstrarleyfishafar haldi leyfum ótímabundið en verði á móti að hlíta gildandi lögum og reglum á hverjum tíma og breytingum á þeim svo sem endranær. Þá er einnig við það miðað að skilyrði til afturköllunar eða niðurfellingar leyfis séu rýmri en ella þar sem ekki er um tiltekinn lokadag leyfis að ræða. Er hér miðað við það, sem eðlilegt er, að auknum og betri réttindum fylgi aukin ábyrgð og skyldur. Rekstrarleyfishafar þurfa því ekki að hafa áhyggjur af því að leyfi renni sjálfkrafa úr gildi á tilteknum degi en hins vegar verða þeir að þola að meiri kröfur séu gerðar til þess að þeir standi undir þeim kröfum sem gerðar eru til eldis og reksturs þess lögum samkvæmt.

Um 34. gr.

    Greinin er að mestu í samræmi við 11. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringar.

Um 35. gr.

    Greinin er að miklu leyti í samræmi við 13. gr. a gildandi laga en þrjár meginbreytingar er að finna í henni. Í fyrsta lagi er ábyrgð á viðbrögðum við sníkjudýrum færð frá Matvælastofnun og yfir á rekstrarleyfishafa en þó þannig að Matvælastofnun hefur tækifæri til þess að stöðva aðgerðir rekstrarleyfishafa ef þörf krefur. Þá er í öðru lagi kveðið á um að rekstrarleyfishafi skuli senda Matvælastofnun reglulegar tilkynningar um að farið sé að innri reglum. Ekki er nóg að innri reglur séu til staðar heldur þarf að fara eftir þeim. Skulu stjórnendur rekstrarleyfishafa tryggja að farið sé eftir innri reglum og staðfesta það við Matvælastofnun. Loks er í þriðja lagi sett inn málsgrein sem kveður á um reglubundnar dýraheilbrigðisheimsóknir á starfsstöðvar og er það í samræmi við ákvæði 25. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2016/429 um smitandi dýrasjúkdóma sem og tillögur starfshóps um smitvarnir í sjókvíaeldi frá janúar 2023.

Um 36. gr.

    Greinin byggist á 14. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Í 1. mgr. er nýmæli sem kveður á um að eftirlit Matvælastofnunar skuli vera áhættumiðað. Í því felst að Matvælastofnun skuli hafa meira eftirlit með þeim rekstraraðilum sem búa við meiri áhættu í sínum rekstri, að hafa skuli meira eftirlit með tilteknum þáttum sem teljast sérstaklega áhættusamir og jafnvel auka eða draga úr eftirliti eftir árstíma o.s.frv., allt eftir áhættumati Matvælastofnunar. Áhættumiðað eftirlit felur einnig í sér skilvirka nýtingu á mannafla og þekkingu Matvælastofnunar á hverjum tíma þannig að áhættumeiri rekstraratriði séu ávallt í forgangi við eftirlit.
    Í 2. mgr. er lögð til sú breyting að Matvælastofnun geti krafið rekstrarleyfishafa um skýrslu um starfsemi sína oftar en mánaðarlega ef tilefni er til. Endurspeglar þessi breyting áherslu á áhættumiðað eftirlit.
    Í 3. mgr. er nýmæli sem felur í sér að rekstrarleyfishafi skuli árlega útbúa framleiðsluáætlun sem send skal Matvælastofnun til samþykktar. Er þessi áætlun hugsuð til þess að auðvelda eftirlit og forgangsröðun Matvælastofnunar en ekki til þess að Matvælastofnun komi að skipulagningu viðkomandi rekstrar. Matvælastofnun er þó rétt að synja framleiðsluáætlun ef fyrirhuguð framleiðsla er til þess fallin að valda því að rekstrarleyfishafi fari fram úr framleiðslutakmörkunum eða hyggi á aðgerðir sem líklegar eru til að fara í bága við lög eða reglur. Framleiðsla rekstrarleyfishafa er þó sem endranær fyrst og síðast á ábyrgð rekstrarleyfishafa sjálfs. Leiðbeiningar Matvælastofnunar sem kunna að koma fram við samþykkt eða synjun framleiðsluáætlunar létta í engu ábyrgð af rekstrarleyfishafa sjálfum.
    Lagt er til að bætt verði við greinina nýrri málsgrein sem taki af allan vafa um það að vinnsla Matvælastofnunar á eftirlitsgögnum samkvæmt þessari grein skal vera í samræmi ákvæði laga um persónuvernd og reglur Persónuverndar um rafræna vöktun.
    Í 8. mgr. er nýmæli sem felur í sér tilmæli um aukna samræmingu í eftirliti og stjórnsýslu Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar. Núverandi rekstraraðilar hafa kvartað yfir því að Umhverfisstofnun og Matvælastofnun sinni, að einhverju marki, sama eftirlitinu og séu að óska eftir sömu gögnum. Ekki verður komist hjá einhverjum tvíverknaði en hins vegar er eðlilegt að ríkisstofnanir vinni saman að því marki sem hægt er. Með 8. mgr. greinarinnar er ætlunin að tryggja samtal milli Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar en báðar stofnanir sinna grundvallarhlutverki í tengslum við eftirlit með sjókvíaeldi. Í frumvarpinu er ekki gerð tilraun til þess að gefa stofnunum fyrirmæli um hvernig eigi að ná fram aukinni samvinnu en hins vegar er stofnununum skylt að gera grein fyrir þeim atriðum sem koma í veg fyrir samstarf, ef einhver eru.
    Í lokamálsgreininni er nýmæli sem lýtur m.a. að aðgangi Matvælastofnunar að tækjum og búnaði í eigu rekstrarleyfishafa. Ákvæðið er m.a. komið til vegna athugasemda frá rekstraraðila sem barst í umsögnum um stefnumótun í lagareldi. Þar kom efnislega fram að órökrétt væri að Matvælastofnun færi á milli smitvarnasvæða á eigin farartækjum þegar rekstraraðilum væri bannað að flytja búnað og tæki milli svæða vegna smithættu. Að sama skapi væri óraunhæft að Matvælastofnun kæmi sér upp búnaði vegna hvers smitvarnasvæðis fyrir sig. Kom fram í umsögninni að í „einhverjum tilvikum væri hagkvæmara að skylda fyrirtækin til að aðstoða við eftirlit með sínum búnaði og að hann sé til reiðu“. Tekið er undir þetta sjónarmið í frumvarpinu en miðað er við að skylda rekstrarleyfishafa að þessu leyti takmarkist við eftirlit með sjókvíum.

Um 37. gr.

    Tilgangur ákvæðisins, sem er nýmæli, er að skylda rekstrarleyfishafa til þess að ganga frá búnaði sem ekki er í notkun. Þá er Matvælastofnun gefið færi á að veita undanþágu frá skyldu til að fjarlægja búnað. Ekki er talið að Matvælastofnun eigi að leggja strangt mat á skyldu til að fjarlægja búnað enda ljóst að dýrt getur verið að koma búnaði fyrir og því rétt að rekstraraðili njóti vafans nema viðkomandi búnaður sé þeim mun fyrirferðarmeiri eða valdi öðrum miklu ónæði.

Um VII. kafla.

    Í VII. kafla er að finna nýmæli er lýtur að heimildum til eldis á frjóum laxi. Í kaflanum eru lagðar til breytingar á útfærslu og framkvæmd varðandi þær takmarkanir sem af áhættumati erfðablöndunar leiðir. Um efni kaflans vísast til kafla 3.1.6.

Um 38. gr.

    Tilgangur greinarinnar er að kveða á um skrá Matvælastofnunar sem skal geyma allar nauðsynlegar upplýsingar um skráningu laxahlutar, laxamagns hvers árs auk laxamagns sem er nýtt hverju sinni o.s.frv. Þá er tekið fram að skráning í skrá Matvælastofnunar sé skilyrði fyrir eldi á frjóum laxi.
    Í 2. mgr. er tekið fram að úthlutun og skráning laxahlutar samkvæmt frumvarpinu myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir heimildum til eldis á frjóum laxi. Að öðru leyti vísast í kafla 3.1.6.

Um 39. gr.

    Um greinina er fjallað í kafla 3.1.6 og vísast til þess sem þar segir. Lagt er til að laxamagn verði ekki flutt milli landshluta enda er áhættumatið í grunninn gefið út fyrir hvern landshluta, sem eru nú Austfirðir og Vestfirðir. Í 2. mgr. kemur fram að óheimilt sé að leigja laxahlut til annarra rekstrarleyfishafa lengur en tvær kynslóðir í senn. Sé miðað við að eldi tveggja kynslóða taki 3–4 ár, og að rekstrarleyfishafa sé heimilt að láta fjögur ár líða án eigin nýtingar áður en laxahlutur er afturkallaður, þá er ljóst að rekstrarleyfishafi getur haldið á laxahlut í 7–8 ár án þess að nýta hann sjálfur áður en hann sætir innköllun. Ætti sá tími að vera nægur til aðlögunar t.d. ef rekstraraðili lendir í áföllum eða stendur í rekstrarbreytingum sem koma í veg fyrir eigin nýtingu laxahlutar til skamms tíma.
    Veðsetning og framsal þeirra rekstrarleyfisbundnu réttinda, sem felast í skráningu í skrá Matvælastofnunar um laxahlut, er alfarið á ábyrgð þeirra aðila sem um slíka gerninga semja.

Um 40. gr.

    Greinin kveður á um innköllun og útboð laxahlutar. Með nýtingu laxahlutar er átt við nýtingu hans að fullu a.m.k. einu sinni á þriggja ára tímabili. Sé aðili t.d. skráður fyrir laxahlut sem veitir viðkomandi rétt til eldis 5.000 tonna en viðkomandi aðili nýtir mest 3.000 tonn á þriggja ára tímabili, þá verður laxahlutur sem samsvarar 2.000 tonnum innkallaður án endurgjalds. Hér er gert ráð fyrir óbreyttu heildarlaxamagni á þeim tíma sem um ræðir. Laxahlutur er ekki eign viðkomandi rekstrarleyfishafa heldur í reynd takmörkun, sem á bara við um frjóan lax, á almennu rekstrarleyfi til sjókvíaeldis. Meðferð þeirrar takmörkunar, t.d. með flutningi milli svæða, framsali eða leigu, er einungis hugsuð til þess að tryggja sem skilvirkasta nýtingu á heimildum til eldis á frjóum laxi. Það er samfélagslega óhagkvæmt að aðilar sitji á ónýttum laxahlut og mikilvægt að aðilar safni ekki laxahlut sem þeir nýta ekki enda útilokar slík söfnun réttinda aðra frá eldi á laxi. Þá verður einnig að horfa til þess að ákvæði um laxahlut eru í reynd almenn skerðing á atvinnufrelsi og þeir sem hafa rétt til laxahlutar því í forréttindastöðu. Innköllun laxahlutar er til þess fallin að hleypa nýjum aðilum að eldi frjórra laxa í gegnum útboð og innköllun er í því tilliti ætlað að vernda atvinnufrelsi almennt sem annars væri skert með því að tilteknir aðilar geti setið í lengri tíma á ónýttum laxahlut.
    Í 3. málsl. 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að aðili sem öðlast rétt til laxahlutar í gegnum útboð Matvælastofnunar hafi lengri tíma en ella til þess að nýta laxahlut fyrst eftir útboðið, eða fjögur ár í stað þriggja. Að loknu fjögurra ára tímabili verður rekstrarleyfishafi að leigja hlutdeildina eða nýta hana sjálfur. Eftir það gilda almennar reglur um þriggja ára frest til nýtingar fyrir innköllun. Lagt er til að sama gildi ef aukning hefur orðið á heildarlaxamagni sem, eðli máls samkvæmt, ætti að hafa í för með sér að hlutfallsleg nýting laxahlutar lækkar áður en rekstrarleyfishafi getur aukið framleiðslu sína.
    Í 2. mgr. kemur fram að einungis aðilar sem fengið hafa úthlutað smitvarnasvæði hafa rétt á að bjóða í laxahlut.

Um 41. gr.

    Greinin tekur á þeim möguleika að ný smitvarnasvæði í sjókvíaeldi verði skilgreind utan Vestfjarða og Austfjarða með þeim hætti að þar myndist möguleiki á eldi á frjóum laxi sem sé hrein viðbót við heimildir sem þegar eru til staðar til eldis á frjóum laxi samkvæmt áhættumati erfðablöndunar. Hér mætti, sem mögulegt dæmi, hugsa sér sjókvíaeldi fjær landi eða við Suðurland sem þó félli ekki undir það að vera hafeldi.

Um VIII. kafla.

    Í VIII. er fjallað um strok og afleiðingar þess. Strok allra fiska er óæskilegt, hvort sem um er að ræða lax eða annan fisk. Í reynd hefur reynslan hins vegar verið sú að strok laxa hefur reynst áhættumest varðandi áhrif á villtan fisk. Kemur þar bæði til að eldi á laxi er langumfangsmesta eldið sem stundað er í sjó en einnig að lax sem alinn er í sjókvíum er almennt vel til þess fallinn að þrífast í íslenskri náttúru enda af sömu tegund (Salmo salar) og hinir villtu stofnar laxa sem fyrir eru í íslenskum ám.
    Ákvæðum kaflans er ætlað að miða að því tryggja upplýsingagjöf um strok, fyrirbyggja strok og kveða á um viðbrögð þegar upp kemur strok.

Um 42. gr.

    Greinin byggist á 1. og 2. mgr. 13. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Í ákvæðinu er kveðið á með skýrari hætti en verið hefur um skyldu rekstrarleyfishafa til halda eldisfisk innan sjókvía og skyldu til að nota búnað sem kemur í veg fyrir strok. Ákvæðinu er ætlað að taka allan vafa af um að strok sé óheimilt og sé ekki hluti af almennum rekstri sjókvíaeldis.


Um 43. gr.

    Greinin byggist á 1. mgr. 13. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Ákvæðið er ítarlegra og hlutverk stofnana hefur breyst. Markmiðið er að Matvælastofnun hafi yfirstjórnar- og samræmingarhlutverk í öllum málum sem snúa að stjórnsýslu sjókvíaeldis. Matvælastofnun getur hins vegar leitað til annarra stofnana, ekki síst Fiskistofu, vegna hlutverks Fiskistofu varðandi ár og villta stofna. Er með ákvæðinu jafnframt lögð skylda á veiðifélög eða veiðiréttarhafa að tilkynna um fiska sem eru með eldiseinkenni.
    Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki sérstakra skýringa.

Um 44. gr.

    Greinin byggist á 2.–4. mgr. 13. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Hlutverk stofnana hefur breyst frá gildandi lögum. Markmiðið er að Matvælastofnun hafi yfirstjórnar- og samræmingarhlutverk í öllum málum sem snúa að stjórnsýslu sjókvíaeldis.

Um 45. gr.

    Greinin byggist á 3.–5. málsl. 2. mgr. 13. gr. gildandi laga nr. 71/2008 en hlutverk stofnana hefur breyst frá gildandi lögum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að Matvælastofnun skuli, þegar atburður verður sem greinir í 1. mgr. 43. gr., ákvarða hvort leita skuli að strokufiski í veiðiám eða vötnum og hann fjarlægður. Við mat sitt skal Matvælastofnun hafa samráð við Fiskistofu. Þannig skal Matvælastofnun hafa yfirstjórnar- og samræmingarhlutverk samkvæmt greininni en vegna sérþekkingar og framkvæmdar- og eftirlitshlutverks Fiskistofu samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, verður Matvælastofnun skylt að hafa samráð við Fiskistofu. Skal Fiskistofa m.a. leggja mat á hvaða áhrif aðgerðir samkvæmt ákvæðinu hefðu á villta fiskistofna og vistkerfi þeirra. Skal Matvælastofnun jafnframt hafa samráð við viðeigandi veiðifélög eða veiðiréttarhafa þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að þegar Matvælastofnun telur nauðsyn á því að fara í aðgerðir skv. 1. mgr. skuli Fiskistofa hafa samráð við stjórn veiðifélags eða veiðiréttarhafa þar sem veiðifélag hefur ekki verið stofnað. Er ástæðan fyrir þessu fyrirkomulagi sú sama og greinir hér að framan, þ.e. að Matvælastofnun skal hafa yfirstjórnunar- og samræmingarhlutverk í aðgerðum varðandi strok en nauðsynlegt er að nýta sérþekkingu Fiskistofu.
    Ákvæðið þarfnast að öðru leyti ekki skýringa.

Um 46. gr.

    Greinin er nýmæli en henni er ætlað að eyða vafa um framkvæmd og kostnað við upprunagreiningu laxa sem veiddir eru vegna gruns um eldisuppruna. Samkvæmt orðalaginu gildir greinin þó um allan fisk.
    Án sýnatöku og greiningar er sjaldnast vitað með fullvissu hvar tiltekinn lax á uppruna sinn enda lax sem nú er alinn í sjókvíum af sömu tegund og villtir laxar í íslenskum ám. Er þá helst að miða við sköpulag og ákomur á fisknum til þess að meta líkur á því að tiltekinn fiskur sé úr eldi eða villtur. Í kjölfar stroks hjá Arctic Fish (Arctic Sea Farm hf.) sem uppgötvaðist í ágúst 2023 og varð til þess að laxar úr eldi gengu upp í fjölda veiðiáa (sjá umfjöllun í kafla 3.1.10), var fiskur veiddur í mörgum ám og afhentur Hafrannsóknastofnun til sýnatöku og upprunagreiningar. Hluti þeirra laxa sem Hafrannsóknstofnun fékk til sýnatöku var villtur fiskur en slíkt er óhjákvæmilegt vegna hinna miklu líkinda milli villtra laxa og eldislaxa. Þar sem hinar nauðsynlegu aðgerðir eru afleiðing stroks úr sjókvíum rekstrarleyfishafa er lagt til að rekstrarleyfishafar greiði kostnað við alla greiningu fisks sem veiðist í slíkum aðgerðum, hvort sem niðurstaða greiningar leiðir í ljós að um eldisfisk eða villtan fisk sé að ræða. Sé um að ræða tilkynningu veiðifélags eða veiðiréttarhafa um grun um eldisfisk skv. 2. mgr. 43. gr., og ekki hluta af aðgerðum skv. 45. gr., skal íslenska ríkið greiða kostnað af greiningu ef í ljós kemur að tiltekinn fiskur sé villtur en að öðrum kosti rekstrarleyfishafi sem ól viðkomandi fisk áður en hann strauk.

Um 47. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 48. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli. Frumvarpsgreinin tekur til þekkts stroks, svo sem þegar göt finnast á sjókvíum eða þegar fiskur frá tilteknum rekstrarleyfishafa finnst í ám. Um óþekkt strok, þegar tiltekinn fjölda fiska vantar í sjókvíar af óútskýrðum ástæðum, gildir ákvæði 49. gr.
    Í 1. og 2. mgr. eru settar fram sektarákvarðanir eftir því hvort fiskur finnst í ám sem eru hluti af áhættumati erfðablöndunar eða ám sem ekki eru hluti áhættumats erfðablöndunar. Ástæða þessa greinarmunar er aðallega sú að stærri og mikilvægari stofna er að finna í ám sem eru hluti áhættumats erfðablöndunar, þ.e. villta nytjastofna lax. Ganga eldislaxa í slíkar ár hefur bæði mögulega áhrif á villta laxa en einnig hagsmuni og réttindi þeirra sem slíka villta stofna nýta. Ganga eldislaxa í smærri ár hefur mögulega áhrif á villta laxa en síður á réttindi tiltekinna hópa.
    Sektarákvarðanir 1. og 2. mgr. eru þannig að sekta skal rekstrarleyfishafa fyrir hvern strokinn lax sem finnst í viðkomandi á. Sektarfjárhæð fyrir hvern strokinn lax ræðst af því hvort viðkomandi á sé hluti áhættumats erfðablöndunar eða ekki. Í þeim tilvikum að lax finnst í á sem er hluti af áhættumati erfðablöndunar er margfeldisstuðullinn 500 fyrir hvern fisk. Finnist lax í á sem ekki er hluti af áhættumati erfðablöndunar er margfeldisstuðullinn 100. Í nýlegum uppboðum hafa norsk stjórnvöld með uppboði selt 1.000 tonna framleiðsluheimildir fyrir um 2 milljarða kr. Þetta þýðir að hvert kg framleiðsluheimildar er 2.000 kr. og ef hver fiskur er 5 kg, þá kostar framleiðsluheimild hvers fisks 10 þúsund kr. Þetta þýðir, að teknu tilliti til margföldunarstuðlanna sem á undan er lýst, að hver fundinn fiskur í á sem er hluti af áhættumati erfðablöndunar útleggst á 5 millj. kr. en sé áin ekki hluti af áhættumati erfðablöndunar þá reiknast hver fiskur á 1 millj. kr.
    Í 3. mgr. er fjallað um snemmbúið strok, þ.e. strok þegar fiskur er smár og er líklegri til að leita til sjávar á fæðuslóð heldur en upp í ár. Miðað er við 1 kg í frumvarpinu þegar rætt er um snemmbúið strok. Fiskur sem strýkur snemma í eldisferli er ólíklegri til að finnast, bæði vegna þess að langstærstur hluti hans mun ekki snúa til baka í ár en einnig vegna þess að hann hefur ekki eldiseinkenni með sama hætti og fiskur sem alinn er lengi í sjókvíum, m.a. vegna ólíkrar fæðuöflunar og færri ákoma sem annars eru líklegri til að sjást á eldri fiski í eldi. Er lagt til að þegar smár fiskur strýkur sé miðað við reiknaðar stærðir enda illmögulegt að finna viðkomandi fisk síðar meir. Þannig yrði bæði fjöldi strokinna fiska áætlaður sem og möguleg endurkoma slíkra fiska í ár. Að sumu leyti kann að vera erfitt að áætla fjölda strokinna fiska, en framleiðsluáætlanir og fóðurgjöf, ásamt öðrum upplýsingum rekstrarleyfishafa sjálfs, myndu veita leiðbeiningar. Sé um verulegt strok að ræða væri Matvælastofnun rétt að krefjast talningar upp úr sjókví.
    Endurkomuhlutfall er matskennt en myndi byggjast á ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar sem útfærð yrði í reglugerð. Með endurkomuhlutfalli er átt við þann fjölda fiska sem hefur haldið til sjávar í fæðuleit en snýr svo aftur upp í ár til að tímgast. Almennt má búast við að endurkomuhlutfall sé mjög lágt, jafnvel í kringum 1% af þeim smáfiski sem strýkur. Sem dæmi um útreikning sekta sem leiðir af snemmbúnu stroki mætti hugsa sér að áætlaður fjöldi strokinna fiska sé 50.000. Endurkomuhlutfall, þ.e. sá fjöldi sem líklegur væri til að reyna að ganga upp í ár væri 1,5% samkvæmt reglugerð. Sá fjöldi fiska sem þannig væri reiknaður væri 750 laxar, þ.e. 1,5% af 50.000. Áfram er miðað við verð sem norsk stjórnvöld hafa fengið í útboðum og lýst er í dæmi hér á undan. Miðað við sömu forsendur og þar eru gefnar, verður sektarfjárhæð samkvæmt ákvæðinu til þess að ákvarða heildarsekt rekstrarleyfishafa, því 750 sinnum 10 þúsund krónur eða 7,5 milljónir.
    Í 4. mgr. er sett fram heimild til þess að draga frá laxa í útreikningum ef þeir veiðast í fiskiteljara eða við veiðar nálægt strokstað. Er tilgangur þessa frádráttar að hvetja til veiða og uppsetningar fiskiteljara.
    Í 5. mgr. er kveðið á um hámarkssekt vegna sama stroks. Skal sektin taka mið af vísitölu neysluverðs og breytast í samræmi við breytingar á henni. Þá er í 5. mgr. einnig kveðið á um að ákvæði 5.–7. mgr. 133. gr. frumvarpsins skuli að öðru leyti gilda um sektarákvörðun samkvæmt greininni. Í því felst m.a. að stjórnvaldssektum samkvæmt ákvæðinu skal beitt óháð því hvort strok hafi átt sér stað vegna gáleysis eða ásetnings.

Um 49. gr.

    Efni greinarinnar lýtur að óþekktu stroki, þ.e. þegar skekkja er á milli þeirra fiska sem eiga að vera í sjókví og svo þeirra fiska sem upp úr henni koma við slátrun. Sem dæmi mætti nefna að 5.000.000 fiskar hafi verið taldir fara ofan í sjókví við útsetningu. Á þeirri talningu eru skekkjumörk, hér 2%, og eru það lægri mörk. Fjöldi útsettra fiska, að teknu tillit til mögulegrar talningarskekkju, reiknast því 4.900.000 fiskar. Þekkt strok væri svo áætlað t.d. 80.000 fiskar og lækkar því tala fiska í viðkomandi sjókví í 4.820.000. Að auki væru þekkt og reiknuð afföll 500.000 fiskar. Lækkar tala fiska í sjókvínni því úr 5.000.000 í 4.320.000 og hefur þá verið tekið tillit til talningarskekkju, þekkts stroks og affalla. Ef fiskar við slátrun upp úr sjókvínni eru hins vegar einungis 4.000.000 þá er mismunur upp á 320.000 fiska.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að óþekkt strok skuli ekki fara yfir viðmiðunarmörk. Fari óþekkt strok yfir viðmiðunarmörk skal rekstrarleyfishafi skila Matvælastofnun skýrslu um líklegar orsakir og ástæður stroks sem birt skal opinberlega af Matvælastofnun. Brýnt er að rekstrarleyfishafar gefi Matvælastofnun skýringar á því þegar skekkja er á milli fjölda útsettra og slátraðra fiska þar sem slíkt getur kallað á viðbrögð af hálfu Matvælastofnunar, sem gætu til að mynda verið aukið eftirlit með útsetningu og ósk um tíðari skýrsluskil skv. 36. gr.

Um 50. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og miðar að því að tilgreina tiltekin atvik sem undanskilið geta rekstrarleyfishafa refsiábyrgð vegna stroks. Meginreglan er að ábyrgð rekstrarleyfishafa er hlutlæg, þ.e. ekki þarf að sýna fram á sök rekstrarleyfishafa til þess að til sektarákvörðunar komi. Þá geta atvik sem eru hluti af eðlilegri og eðlisbundinni áhættu í rekstri sjókvíaeldis ekki verið óviðráðanlegir ytri atburður. Göt á netpoka vegna núnings við aðra hluti, árekstur á vegum rekstrarleyfishafa á sjókví o.s.frv. eru ekki óviðráðanlegir ytri atburðir í skilningi ákvæðisins enda eru þetta áhættuþættir í sjókvíaeldi þótt sannanlega geti verið um illviðráðanlega atburði að ræða. Fárviðri (33 m/sek eða meira), hafís eða árekstur skemmtiferðaskips á sjókví eru hins vegar dæmi um óviðráðanlega ytri atburði sem rekstrarleyfishafi getur lítið gert til að sporna við í sínum áætlunum og rekstri. Það er þó skilyrði að rekstrarleyfishafi hafi gripið til allra tiltækra ráðstafana og aðgerða í slíkum tilfellum svo þau geti í reynd talist óviðráðanleg. Yrði hér m.a. litið til þess hvort rekstrarleyfishafi hafi gripið til aðgerða í samræmi við viðbragðsáætlanir sem settar eru fram í gæðahandbók samkvæmt reglugerð. Þau atvik sem talist geta óviðráðanleg ytri atvik eru ekki tæmandi talin, en beiting ákvæðisins á þó aðeins við í undantekningartilfellum.

Um 51. gr.

    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um IX. kafla.

    Í IX. kafla er fjallað um afföll og afleiðingar þeirra. Svo sem greinir í orðskýringum í 3. gr. þá er með afföllum átt við dauða eldisfisks í sjó, sem og förgun á fiski vegna sára, sjúkdóma og sníkjudýra. Afföll eru þannig nokkurs konar heildarmælikvarði á dýravelferð sem tekur til sjúkdóma, lúsasmits, vanfóðrunar o.fl. Almennt má gera ráð fyrir nokkrum afföllum í sjó og miðar frumvarpið við að allt að 20% afföll séu viðbúin afföll en þegar afföll fari yfir 20% sé komin ástæða til að grípa inn í. Nái rekstraraðili undir 10% meðalafföllum á hverri kynslóð á smitvarnasvæði, þá telst það góð niðurstaða.
    Þrátt fyrir að kaflinn geri ráð fyrir ákveðnum afleiðingum vegna mikilla affalla þá gilda sem endranær almennar reglur um dýravelferð og ber rekstrarleyfishafa að hlíta tilmælum dýralækna og Matvælastofnunar að öðru leyti lögum samkvæmt. Þannig er mögulegt að ekki komi til skerðingar samkvæmt ákvæðum þessa kafla, en rekstrarleyfishafi verði þó að grípa til aðgerða í sínum rekstri til að draga úr afföllum.

Um 52. gr.

    Greinin er nýmæli og þarfnast ekki sérstakra skýringa að öðru leyti en því að benda má á að í 3. mgr. er gert ráð fyrir að fyrstu tilraunir með nýjan búnað eða ófrjóan lax séu undanþegnar skerðingarákvæðum kaflans. Í þessu felst hins vegar ekki að slíkar tilraunir séu undanþegnar almennum reglum um dýravelferð.

Um 53. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 54. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og lýtur að breytingu á hámarkslífmassa smitvarnasvæðis vegna affalla. Miðað er við afföll á öllu smitvarnasvæðinu, óháð fjölda eldissvæða eða sjókvíaeldisstöðva. Með öðrum orðum þá er miðað við annars vegar þann fjölda fiska sem var settur út í sjó en hins vegar þann fjölda fiska sem drapst í sjó eða sem fargað var vegna sára, sjúkdóma og sníkjudýra. Afföll geta verið mjög mismunandi, bæði milli eldissvæða en jafnvel milli einstakra sjókvía. Hafi verið settir út 5.000.000 fiska í sjó í tiltekinni kynslóð en 500.000 þeirra drápust í sjó fyrir reglubundna eða áður fyrirhugaða slátrun, þá reiknast afföll 10%. Slátrun sem fer fram vegna þess að dýrum er ekki hugað líf telst til förgunar. Snemmbúin slátrun sem fer fram til þess að forðast afföll, og þannig að nýta má afurðir án meltugerðar, myndi ekki teljast förgun.
    Hámarkslífmassi samkvæmt orðskýringum er hámarkslífmassi samkvæmt burðarþolsmati. Leyfilegur lífmassi er það hámark lífmassa sem ala má að teknu tilliti til breytinga samkvæmt köflum IX og X, sem fjalla um afföll og lús. Ástæða þess að miðað er við breytingar á lífmassa en ekki laxahlut er að þessir kaflar taka ekki einungis til eldis á frjóum laxi heldur allra fiska, svo sem regnbogasilungs og ófrjórra laxa.
    Affallaflokkar ákvæðisins eru þrír, þ.e. 10% afföll og lægri, afföll milli 10% og 20% og svo afföll sem eru 20% og hærri. Ef afföll eru 10% eða lægri, þá hækkar leyfilegur lífmassi milli kynslóða. Ef afföll eru á milli 10% og 20% breytist lífmassi ekki. Ef afföll eru 20% eða meiri, þá lækkar leyfilegur lífmassi.
    Breytingar miðast við breytingar frá einni kynslóð til annarrar. Sem dæmi mætti hugsa sér smitvarnasvæði með hámarkslífmassa upp á 10.000 tonn samkvæmt burðarþolsmati eins og því hefur verið skipt á viðkomandi smitvarnasvæði. Nái kynslóðin 10.000 tonna heildarlífmassa einhvern tímann á lífsskeiði sínu í sjó þá telst lífmassi smitvarnasvæðisins fullnýttur. Verði 25% afföll á smitvarnasvæðinu hjá einni kynslóð fisks, þá lækkar leyfilegur lífmassi smitvarnasvæðisins úr 10.000 um 3% og verður næst 9.700 tonn. Verði afföll næstu kynslóðar einnig 25%, þá lækkar leyfilegur lífmassi aftur um 3% úr 9.700 tonnum í 9.409 tonn og þannig ekki miðað við línulega lækkun. Tekið skal fram að áður en til skerðinga kemur samkvæmt ákvæðinu er ávallt nauðsynlegt að gætt sé að sjónarmiðum stjórnsýsluréttarins. Þannig skal t.d. gera rekstrarleyfishafa kleift að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um hvort afföll kynslóðarinnar stafi af óviðráðanlegum ytri atvikum, sbr. 55. gr. frumvarpsins.
    Þá skal einnig tekið tillit til hlutfallslegrar nýtingar smitvarnasvæðisins í lífmassa talið. Í dæminu hér að ofan var miðað við hámarkslífmassa upp á 10.000 tonn og hæsta heildarlífmassa kynslóðar á líftíma hennar upp á 10.000 tonn sem fæli í sér fulla nýtingu á leyfilegum lífmassa. Ef hæsti heildarlífmassi kynslóðar á líftíma hennar næði t.d. einungis 7.500 tonnum, þá er lagt til að breyting yrði aðeins hlutfallsleg. Sé haldið áfram með dæmið og breyting vegna þriðju kynslóðar reiknuð, þá yrði breytingin aðeins 2,39% en ekki 3% þar sem 2,39% eru 79,71% af 3% alveg eins og 7.500 er 79,71% af 9.409. Í töflu 7 er haldið áfram með dæmið og miðað við að hækkun verði á leyfilegum lífmassa í 3. kynslóð en óbreyttum lífmassa í 4. kyn-slóð vegna þess að afföll voru á milli 10% og 20%:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Tafla 7: Dæmi um áhrif afallakerfis miðað við hlutfallslega skerðingu á nýtingu lífmassa.

    Aftur á móti getur nýr leyfilegur lífmassi ekki verið hærri en hámarkslífmassi. Getur rekstrarleyfishafi þar af leiðandi ekki fengið hækkun á leyfilegum lífmassa ef hinn leyfilegi lífmassi var á þeim tíma jafn mikill og hámarkslífmassi. Hins vegar getur safnast upp innistæða fyrir rekstraraðila. Þannig að ef rekstraraðili fær á síðari stigum skerðingu kemur sú skerðing til frádráttar innistæðu, sbr. 6. mgr. ákvæðisins eins og er sýnt í töflu 8.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Tafla 8: Dæmi um áhrif afallakerfis þegar nýtt er uppsöfnuð innistæða.

    Líkt og tekið er fram í 5. mgr. þá eru skerðingar vegna affalla til viðbótar við aðrar skerðingar. Þó gildir sú sérregla í 7. mgr. að ef til breytinga kemur vegna lúsasmits vegna sömu kynslóðar þá skal hámarksbreyting vegna affalla vera 1,5% en ekki 3%. Eru rökin fyrir þeirri reglu þau að lúsasmit veldur oft afföllum og því rétt að breytingar vegna affalla komi ekki að öllu leyti fram þegar skerðing hefur orðið vegna lúsasmits.

Um 55. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og miðar að því að tilgreina atvik sem undanþegið geta rekstrarleyfishafa áhrifum af afföllum samkvæmt þessum kafla. Meginreglan er að ábyrgð rekstrarleyfishafa er hlutlæg, þ.e. ekki þarf að sýna fram á sök rekstrarleyfishafa til þess að til takmarkana á framleiðsluheimildum komi. Þá geta atvik sem eru hluti af eðlilegri og eðlisbundinni áhættu í rekstri sjókvíaeldis ekki verið óviðráðanlegir ytri atburður. Blóðþorrafaraldur, lús, þörungablómi og marglyttur o.s.frv. eru ekki óviðráðanlegir ytri atburðir í skilningi ákvæðisins enda eru þetta áhættuþættir sem fylgja sjókvíaeldi þótt sannanlega geti verið um illviðráðanlega atburði að ræða. Fárviðri (vindhraði 33 m/sek eða meira), hafís eða árekstur skemmtiferðaskips á sjókví eru hins vegar dæmi um óviðráðanlega ytri atburði sem rekstrarleyfishafi getur lítið gert til að sporna við í sínum áætlunum og rekstri. Það er þó skilyrði að rekstrarleyfishafi hafi gripið til allra tiltækra ráðstafana og aðgerða í slíkum tilfellum svo þau geti í reynd talist óviðráðanleg. Yrði hér m.a. litið til þess hvort rekstrarleyfishafi hafi gripið til aðgerða í samræmi við viðbragðsáætlanir sem settar hafa verið fram í gæðahandbók samkvæmt reglugerð. Þau atvik sem talist geta óviðráðanleg ytri atvik eru ekki tæmandi talin, en beiting ákvæðisins á þó aðeins við í undantekningartilfellum

Um X. kafla.

    Í X. kafla er fjallað um eftirlit og viðbrögð við lúsasmiti. Tekur kaflinn bæði til laxalúsar ( Lepeophtheirus salmonis) og fiskilúsar ( Caligus elongatus) en þessar lúsategundir geta valdið miklum usla í sjókvíaeldi. Lúsasmit getur orðið að dýravelferðarmáli eins og sannaðist í október 2023 þegar lúsasmit náði hámarki í sjókvíaeldi í Tálknafirði með þeim afleiðingum að farga varð verulegum fjölda fiska. Helstu aðferðir við lúsameðhöndlun eru annars vegar lyfjagjöf, sem getur verið veitt í gegnum fóður eða með því að efni er hellt í sjókví, og hins vegar meðhöndlun án lyfjagjafar í svokölluðu meðhöndlunarskipi sem gerir kleift að meðhöndla lax gegn lús án lyfja. Um er að ræða meðferð eins og ferskvatnsmeðhöndlun, hitameðhöndlun og burstun. Meðferð í meðhöndlunarskipi drepur lúsina á öllum stigum og hefur nær engin umhverfisáhrif ólíkt lyfjameðferðum sem geta haft í för með sér umhverfisáhrif. Í frumvarpinu er hugtakið lyfjameðhöndlun notað í stað efnameðhöndlunar eða lúsaeiturs enda eiga síðarnefndu heitin t.d. illa við um lyf sem gefin eru með fóðri.
    Markmið frumvarpsins er annars vegar að tryggja að rekstrarleyfishafar hafi hvata til snemmtækrar íhlutunar gegn lúsasmiti á grundvelli dýravelferðar og eins að rekstrarleyfishafar reyni á grundvelli umhverfissjónarmiða heldur meðhöndlun án lyfja en með lyfjum.
    Lúsasmit mun fylgja sjókvíaeldi um fyrirsjáanlega framtíð enda lúsin hluti af vistkerfum sjávar og því einungis hægt að leitast við að lágmarka lúsasmit og fækka alvarlegum smitum.

Um 56. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli en í 49. gr. reglugerðar nr. 540/2020 er gert ráð fyrir vöktun sníkjudýra og viðbragðsáætlun vegna lúsar líkt og í 1. mgr. greinarinnar.
    2. mgr. veitir annars vegar Matvælastofnun heimild til krefjast þess að rekstrarleyfishafi framkvæmi sjálfur lúsatalningu en hins vegar að Matvælastofnun sjálf, eða aðili á hennar vegum, framkvæmi talninguna. Aðkoma annarra en rekstrarleyfishafa að lúsatalningu tryggir samræmi og áreiðanleika við talninguna.
    Í 3. mgr. er sett fram mikilvægt ákvæði sem felur í sér takmörkun á lyfjameðferðum og skyldu til að hafa aðgang að meðhöndlunarskipi eða öðrum sambærilegum búnaði sem meðhöndlar lúsasmit án lyfja. Ástæður þess að æskilegt er að takmarka lyfjameðferðir eru neikvæð umhverfisáhrif í kringum kvíar sem fiskar eru meðhöndlaðir í ásamt hættu á því að lúsin myndi ónæmi gegn tilteknum lyfjum.
    Í 4. mgr. kemur fram að kveða megi á um sérstakar aðgerðir af hálfu rekstrarleyfishafa ef rannsóknir Hafrannsóknastofnunar gefa tilefni til að ætla að mikil hætta sé á lúsasmiti.

Um 57. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli en þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 58. gr.

    Í greininni er kveðið á um punktakerfi vegna lúsasmits og viðbragða við því. Sú aðferð sem lögð er til við skráningu viðbragða við lús er að tiltekinn fjöldi punkta sé skráður annars vegar í hvert skipti sem fjöldi lúsa fer fram úr tilteknu viðmiði á þeim tíma þegar talning fer fram og hins vegar í hvert skipti sem kynslóð fiska er meðhöndluð með lyfjum. Ekki er lagt til að viðmiðin sjálf séu sett í lög heldur að eðlilegra sé að setja viðmiðin í reglugerð, svo sem um þann fjölda og tegund lúsa sem varðar punktaskráningu. Sama gildir um þau lyf og þann fjölda lyfjagjafa sem varða punktaskráningu.
    Til útskýringar má taka dæmi um hvernig kerfið gæti verið sett fram í reglugerð. Hámarksviðmið um meðalfjölda lúsa á hverju eldissvæði gæti á tímabilinu 1. maí – 31. júlí t.d. verið 0,5 kynþroska kvenlús á fisk að meðaltali en hámarkið á tímabilinu 1. ágúst – 1. maí gæti t.d. verið 1 kynþroska kvenlús á fisk að meðaltali. Fyrir hverja talningu sem er yfir viðmiði gæti verið gefinn 1 punktur og síðan væri hlutfallsleg fjölgun punkta eftir því hversu langt er farið yfir viðmið. Sem dæmi að ef hámarksviðmið er 0,5 þá væri gefinn 1 punktur ef fjöldi kynþroska kvenlúsa væri 0,51 lús á fisk að meðaltali, en 2 punktar ef fjöldi kynþroska kvenlúsa væri 1,1 að meðaltali á fisk o.s.frv. Fyrir hverja lyfjameðferð í hverri kví yrðu t.d. gefnir 0,2 punktar. Kvíastæði með tíu kvíum sem allar eru meðhöndlaðar myndi því skila 2 punktum. Punktafjöldi á smitvarnasvæði yrði á endanum reiknaður sem heildarfjöldi punkta deilt með fjölda eldissvæða. Ef tvö eldissvæði eru á smitvarnasvæði og annað er með 4 punkta en hitt með 6 er punktafjöldi smitvarnasvæðisins 5.

Um 59. gr.

    Frumvarpsgreinin er að mestu samhljóða 54. gr. og vísast til þeirrar greinar um skýringar. Taflan hér á eftir setur fram breytingar á leyfilegum lífmassa vegna punktagjafar skv. 59. gr. Eftirfarandi tafla er þó ólík töflu 7 sem fylgir 54. gr. að því leyti að hér er gert ráð fyrir að einnig komi til skerðingar vegna affalla hjá kynslóð 2 sem þýðir lífmassaskerðing upp á 6,5%.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 9 – Dæmi um áhrif punktakerfis og afallakerfis.

    Sama gildir um áhrif punktakerfis og afallakerfis þegar ekki reynist unnt að hækka leyfilegan lífmassa vegna þess að hámarkslífmassa var þegar náð og vísast til skýringa við 54. gr. um það efni.

Um 60. gr.

    Í greininni er kveðið á um bann við eldi á lúsasmituðum fiski ef tilraunir til meðhöndlunar hafa reynst árangurslausar eða hámarksfjölda meðferða hefur verið náð. Ef fjöldi lúsa fer yfir viðmiðunarmörk, sem sett skulu fram í reglugerð, þrátt fyrir meðhöndlun, þá er þrautaráðið að fjarlægja lúsasmitaðan fisk úr sjókvíum. Skv. 1. mgr. ákvæðisins er rekstrarleyfishafa fengið nokkuð frelsi til þess að ákveða hvernig slíkt er gert en ljóst er að oft myndi sú aðgerð fela í sér að rekstrarleyfishafi kysi að slátra eða farga öllum fiski.
    Í lokamálslið 1. mgr. er settur fram sá möguleiki að Matvælastofnun skyldi rekstrarleyfishafa til að slátra fiski sem er kominn yfir tiltekna viðmiðunarþyngd og byggist það á því sjónarmiði að illréttlætanlegt sé að beita lyfjameðhöndlun eða annarri meðhöndlun án lyfja þegar fiskur á hlutfallslega stutt eftir í sláturstærð. Öll meðhöndlun getur haft neikvæð áhrif í för með sér, annaðhvort með tilliti til umhverfissjónarmiða eða dýravelferðarsjónarmiða.

Um XI. kafla.

    Í XI. kafla er fjallað um kynþroska lax og eldi hans. Kynþroski lax er almennt óæskilegur í eldi. Annars vegar verðfellur laxinn við kynþroska og hins vegar er kynþroska lax líklegri til að hafa áhrif á villta nytjastofna lax ef hann strýkur. Það er því almennt bæði hagur rekstrarleyfishafa og vistkerfis að kynþroska sé haldið í lágmarki.

Um 61. gr.

    Greinin er nýmæli og með henni er lagt til bann við eldi kynþroska lax þannig að þær aðstæður skapist að 1% fisks í sjókví sé kynþroska.
    Samkvæmt 2. mgr. verður rekstrarleyfishafi skyldur til að fjarlægja kynþroska fisk úr sjókvíum við tiltekin mörk. Þau mörk eru lægri á tímabilinu júní til nóvember þegar villtur lax gengur í ár og meiri hætta er á tjóni ef kynþroska fiskar sleppa. Þegar viðkomandi mörkum er náð verður að fjarlægja kynþroska fisk úr kvíum. Er rekstrarleyfishafa fengið nokkurt frelsi til þess að ákveða hvernig slíkt er gert en mögulegt er að sú aðgerð myndi fela í sér að rekstrarleyfishafi kysi að slátra öllum fiski.

Um 62. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 63. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli. Er annars vegar kveðið á um eftirlit með fjölda kynþroska laxa við slátrun. Hins vegar er í 2. mgr. kveðið á um sérstakar aðgerðir þegar hlutfall kynþroska fisks er komið yfir 0,5% en þá ber rekstrarleyfishafa að viðhafa aukið eftirlit.

Um XII. kafla.

    Í XII. kafla eru ákvæði sem lúta að afturköllun rekstrarleyfis til sjókvíaeldis, annars vegar á grundvelli forsendubrests og hins vegar á grundvelli brota gegn ákvæðum frumvarpsins. Er miðað við að heimildir til fella úr gildi eða afturkalla rekstrarleyfi samkvæmt frumvarpinu séu rýmri en samkvæmt gildandi lögum nr. 71/2008 þar sem frumvarpið gerir ráð fyrir að rekstrarleyfi séu ótímabundin og enn fremur að leyfi verði ekki endurskoðuð reglulega. Í staðinn er lagt upp með að rekstrarleyfi verði einfölduð þannig að þau vísi einkum til gildandi laga og reglna hverju sinni sem og að þau staðfesti heimild viðkomandi rekstrarleyfishafa til sjókvíaeldis á tilteknu smitvarnasvæði.

Um 64. gr.

    Greinin byggist á 15. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Markmið hennar er að hvetja rekstrarleyfishafa til þess að nýta útgefin leyfi en sæta ella afturköllun leyfis. Með því að veita einum aðila rétt til að starfa á smitvarnasvæði eru aðrir aðilar útilokaðir frá starfsemi þar. Þó að afturköllun rekstrarleyfis sé inngrip í atvinnufrelsi þess sem afturköllun sætir, þá er útilokun annarra frá starfsemi á viðkomandi smitvarnasvæði einnig takmörkun á atvinnufrelsi þeirra sem ekki hafa rekstrarleyfi. Rekstrarleyfi til sjókvíaeldis eru forréttindi sem rekstrarleyfishöfum ber að nýta með ábyrgum hætti, m.a. þegar kemur að nýtingu þeirra gæða sem um ræðir.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að rekstrarleyfishafi verði, innan fimm ára frá fyrstu útgáfu rekstrarleyfis, að nýta a.m.k. einu sinni 20% af hámarkslífmassa samkvæmt burðarþolsmati en ella verði rekstrarleyfið fellt úr gildi. Sem dæmi mætti taka ef smitvarnasvæði er með hámarkslífmassa upp á 10.000 tonn. Þá verður lífmassi fisks í eldi að ná 2.000 tonnum á einhverjum tímapunkti á fyrstu fimm árunum frá fyrstu útgáfu leyfis. Strangt til tekið gæti rekstrarleyfishafi náð 2.000 tonna lífmassa snemma dags en hafið slátrun seinna sama dag þannig að sú stund sem viðkomandi aðili þyrfti að hafa 2.000 tonn af fiski í sjó til að uppfylla skilyrði ákvæðisins gæti verið mjög stutt. Þá er heimilt að veita 12 mánaða undanþágu frá niðurfellingu ef málefnaleg sjónarmið búa að baki töf á upphafi rekstrar.
    Í 2. mgr. segir að fella skuli rekstrarleyfi úr gildi ef rekstur stöðvast alfarið í 3 ár, þó að gefnum fresti til úrbóta skv. 3. mgr. Þá segir enn fremur að leyfi verði fellt úr gildi ef mesta nýting leyfilegs lífmassa á hverju ári er undir 35% að meðaltali á ári á sex ára tímabili, þó að gefnum fresti til úrbóta skv. 3. mgr.
    Í 3. mgr. segir að gefa verði rekstrarleyfishafa skriflega viðvörun og hæfilegan frest til úrbóta áður en rekstrarleyfi er fellt úr gildi. Mætti almennt ætla að hæfilegur frestur yrði ekki meiri en 12–18 mánuðir og að á þeim tíma yrði rekstrarleyfishafi að sýna jafnt og þétt fram á raunverulegar aðgerðir til þess að auka við framleiðslu sína til þess að ná megi aukinni nýtingu lífmassa.
    Í 4. mgr. er kveðið á um viðbrögð við þeim vanda sem getur skapast þegar rekstrarleyfishafi hefur sætt ítrekuðum skerðingum skv. IX. og X. kafla með þeim hætti að hann hafi glatað meira en 40% af upphaflegum leyfilegum lífmassa smitvarnasvæðis vegna slíkra skerðinga. Þegar svo er komið er ljóst að hleypa þarf nýjum aðila að rekstri á viðkomandi smitvarnasvæði eða að endurmeta þarf möguleika á rekstri sjókvíaeldis á viðkomandi smitvarnasvæðis yfirhöfuð. Skal Matvælastofnun fella rekstrarleyfi úr gildi þegar uppsöfnuð skerðing hefur náð 40% af upphaflegum leyfilegum lífmassa þegar rekstrarleyfishafi tók við smitvarnasvæði.
    Í 5. mgr. eru tekin af tvímæli um að ef rekstrarleyfishafi glatar rekstrarleyfi sem tengt er tilteknu smitvarnasvæði, þá glatar rekstrarleyfishafi jafnframt öllu tilkalli til að starfrækja sjókvíaeldi á því tiltekna smitvarnasvæði og bjóða má smitvarnasvæðið út að nýju. Gildi starfsleyfis breytir þar engu. Í þeim tilvikum sem rekstrarleyfishafi glatar tilkalli til að starfrækja sjókvíaeldi á tilteknu smitvarnasvæði skal úthlutun smitvarnasvæðis til viðkomandi aðila falla niður án bóta og endurgreiðslu.

Um 65. gr.

    Greinin er nær samhljóða 16. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Gert er ráð fyrir að heimildir til þess að fella leyfi úr gildi séu rýmri en ella þar sem rekstrarleyfi samkvæmt frumvarpinu yrðu ótímabundin. Þó að niðurfelling rekstrarleyfis sé inngrip í atvinnufrelsi þess sem niðurfellingu sætir, þá er útilokun annarra frá starfsemi á viðkomandi smitvarnasvæði einnig takmörkun á atvinnufrelsi þeirra sem ekki hafa rekstrarleyfi. Rekstrarleyfi til sjókvíaeldis eru forréttindi sem rekstrarleyfishöfum ber að nýta með ábyrgum hætti, m.a. með því að hlíta þeim reglum sem um starfsemina gilda.

Um XIII. kafla.

    Í kaflanum er fjallað um Umhverfissjóð sjókvíaeldis. Ákvæði kaflans eru að miklu leyti sambærileg við ákvæði samsvarandi VI. kafla gildandi laga. Sú meginbreyting er þó gerð á fyrirkomulagi sjóðsins að í stað þess að Hafrannsóknastofnun þurfi að sækja um í sjóðinn þá er lagt til að ákveðið hlutfall af úthlutunarfé sjóðsins skuli ávallt veitt til tiltekinna verkefna stofnunarinnar. Um efni kaflans vísast að öðru leyti til kafla 3.1.11 og skýringa við einstakar greinar.

Um 66. gr.

    Greinin er sambærileg 20. gr. a gildandi laga nr. 71/2008. Sú breyting er þó gerð á markmiðum sjóðsins að honum er einnig ætlað að efla menntun á sviði sjókvíaeldis. Þá er áréttuð sú regla, sem áður gilti en kom hvergi fram berum orðum í gildandi lögum, að ákvarðanir stjórnar séu endanlegar á stjórnsýslustigi.

Um 67. gr.

    Greinin er samhljóða 20. gr. b gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki skýringa.

Um 68. gr.

    Greinin er samhljóða 20. gr. c gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki skýringa.

Um 69. gr.

    Greinin er samhljóða 20. gr. d gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki skýringa.

Um 70. gr.

    Greinin byggist á 20. gr. e gildandi laga nr. 71/2008. Lagt er til að rekstrarleyfishafi skuli greiða gjald fyrir hvert tonn leyfilegs lífmassa hvers smitvarnasvæðis sem hann hefur rekstrarleyfi fyrir. Fjárhæð gjaldsins skal vera í íslenskum krónum og taka breytingum miðað við vísitölu neysluverðs og breytast í samræmi við breytingar á henni. Fjárhæð gjaldsins verður óháð eldistegundum og eldisaðferðum ólíkt því sem er í gildandi lögum.

Um 71. gr.

    Greinin er samhljóða 20. gr. f gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki skýringa.

Um 72. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli. Í 1. mgr. er kveðið á um að Umhverfissjóður sjókvíaeldis skuli veita 80% af úthlutunarfé sjóðsins til Hafrannsóknastofnunar. Skal því fé varið í verkefni Hafrannsóknastofnunar sem eru nánar tilgreind í ákvæðinu. Þarf Hafrannsóknastofnun því ekki að sækja um í sjóðinn en skilyrt er að fé sem veitt er til stofnunarinnar sé nýtt í þágu verkefna og rannsókna sem tilgreind eru í ákvæðinu. Með þessu móti skapast meiri fyrirsjáanleiki fyrir Hafrannsóknastofnun um úthlutun úr sjóðnum sem gerir stofnuninni kleift að skipuleggja verkefni betur fram í tímann.
    Samkvæmt 2. mgr. skal þeim 20% sem eftir standa af árlegu úthlutunarfé sjóðsins úthlutað til rannsóknar- og menntaverkefna sem tengjast sjókvíaeldi á vegum annarra en Hafrannsóknastofnunar. Skal sjóðurinn auglýsa árlega eftir umsóknum um styrki til slíkra verkefna.
    Um ákvæðið vísast að öðru leyti til kafla 3.1.11.

Um 73. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og þarfnast ekki skýringa.

Um 74. gr.

    Greinin er sambærileg 20. gr. g gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki skýringa. Það nýmæli er þó að finna í greininni að Umhverfissjóður sjókvíaeldis skuli undanþeginn skattskyldu samkvæmt lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Um XIV. kafla.

    Í XIV. kafla er fjallað um töku sérstaks gjalds vegna sjókvíaeldis og Samfélagssjóðs sjókvíaeldis. Um efni kaflans vísast til kafla 3.1.12 og 3.1.13.

Um 75. gr.

    Greinin er sambærileg 1. mgr. 1. gr. gildandi laga um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019 og þarfnast ekki skýringa.

Um 76. gr.

    Greinin er sambærileg 2. gr. gildandi laga nr. 89/2019 en hefur tekið nokkrum breytingum.
    Í 1. mgr. er kveðið á um að það sé á hendi Matvælastofnunar að ákvarða og birta fjárhæð gjaldsins mánaðarlega. Er þetta breyting frá gildandi lögum nr. 89/2019 þar sem það var á hendi Fiskistofu að ákvarða og birta fjárhæð gjaldsins með auglýsingu eigi síðar en 1. desember hvert ár til að öðlast gildi fyrir komandi almanaksár.
    Í 2. mgr. er lagt til að fjárhæð gjaldsins á hvert kílógramm slátraðs lax miðist við nýjasta mánaðarmeðaltal alþjóðlegs markaðsverðs á eldislaxi næsta almanaksmánuð fyrir ákvörðunardag skv. 1. mgr. Er þetta breyting frá gildandi lögum nr. 89/2019 þar sem miðað er við nýjasta 12 mánaða meðaltal alþjóðlegs markaðsverðs. Ástæða breytingarinnar er einkum fólgin í því að heimsmarkaðsverð á laxi er mjög breytilegt milli mánaða. Í ljósi þess að upplýsingar um heimsmarkaðsverð eru aðgengilegar er auðvelt að nota mánaðarlegar upplýsingar í stað þess að miða við heimsmarkaðsverð fyrra árs. Sú breyting sem lögð er til er því talin leiða til þess að gjaldið endurspegli betur tekjur rekstrarleyfishafa á hverjum tíma. Um breytingar á gjaldhlutföllum samkvæmt málsgreininni vísast til kafla 3.1.12.
    3. mgr. er nýmæli og vísast til kafla 3.1.12.
    Í 4. mgr. er kveðið á um að fjárhæðaþrep 2. mgr. skuli uppreiknuð miðað við gengi evru þegar fjárhæðarþrep miðað við gengið 150 krónur á móti evru og sú evrutala síðan uppreiknuð miðað við viðkomandi evrugengi til þess að finna megi viðkomandi fjárhæðarþrep. Vegna þess að fjárhæðarþrepin eru sett fram í krónum, þá er nauðsynlegt að umreikna þau á hverjum tíma svo að fjárhæðaþrep fylgi breytingum í gengi krónu á móti evru líkt og heimsmarkaðsverð. Ástæða þess að fjárhæðaþrep eru sett fram í krónum, og gengið fastsett í 150 krónum á móti evru, er fyrst og fremst viðleitni til þess að nota krónur í lagatexta í stað erlendra gjaldmiðla þar sem því verður við komið.
    Í 5. mgr. er kveðið á um fjárhæð gjalds af slátruðum laxi sem alinn er í sjó með lokuðum eldisbúnaði. Um hugtakið lokaður eldisbúnaður vísast til orðskýringa í 3. gr.
    Í 6. mgr. er kveðið á um fjárhæð gjalds af slátruðum laxi sem alinn er í sjó með hálflokuðum eldisbúnaði. Um hugtakið lokaður hálflokaður eldisbúnaður vísast til orðskýringa 3. gr. frumvarpsins.
    Í 7. mgr. er kveðið á um fjárhæð gjalds af slátruðum laxi sem alinn er skemur en 12 mánuði í sjó. Styttri tími í sjó minnkar álag á umhverfið og líkur á stroki. Styttri tími í sjó dregur jafnframt úr líkum á sjúkdómum sem og lúsaálagi.
    Í 8. mgr. er kveðið á um fjárhæð gjalds af slátruðum laxi sem alinn er með búnaði, tækni eða aðferð sem líkleg er til að draga úr umhverfisáhrifum, samkvæmt fyrirframskilgreindum viðmiðum í reglugerð. Með ákvæðinu er gert ráð fyrir tæknilausnum og nýjungum sem hafa mögulega ekki litið dagsins ljós eða eru ekki sérstaklega útlistaðar í frumvarpinu, en geta falið í sér bætta umhverfisumgengni og dýravelferð.
    Í 9. mgr. er kveðið á um fjárhæð gjalds af slátruðum laxi sem aðeins er alinn einn vetur í sjó, þannig að slátrun fari fram eigi síðar en 20. október ári eftir útsetningu fisks. Sé lax aðeins alinn einn vetur í sjó má minnka líkur á afföllum þar sem oft verða mestu afföllin yfir vetrarmánuðina.
    Í 1. málsl. 10. mgr. er kveðið á um að eigi fleiri en ein framleiðsluaðferð við skv. 5.–9. mgr. þá skuli lægsta gjaldahlutfall gilda. Sem dæmi má nefna að ef lax er alinn skemur en 12 mánuði í lokuðum búnaði þá skal rekstrarleyfishafi greiða 25% af gjaldi skv. 2. mgr. Í 2. málsl. 10. mgr. er kveðið á um að fyrsta kynslóð fisks í starfsemi rekstrarleyfishafa sem alin er með þeim aðferðum sem um ræðir í 5.–9. mgr. skuli vera undanþegin gjaldi.
    11. mgr. er óbreytt frá 5. mgr. 2. gr. gildandi laga nr. 89/2019 og þarfnast ekki skýringa.
    Í 12. mgr. er kveðið á um fjárhæð gjalds þegar um að ræða regnbogasilung og ófrjóan lax. Segir þar að fjárhæð gjalds í slíkum tilvikum skuli nema helmingi af gjaldi samkvæmt greininni og kemur sú lækkun til viðbótar við aðra lækkun gjalds skv. 5.–9. mgr. Sem dæmi má nefna að ef ófrjór lax er alinn skemur en 12 mánuði í sjó þá greiðist ekki gjald samkvæmt grein þessari.

Um 77. gr.

    Greinin er sambærileg 3. gr. gildandi laga nr. 89/2019 að undanskilinni 5. mgr. sem er nýmæli. Þar er fjallað um að ráðherra skuli með reglugerð kveða á um slægingarstuðul sem nota skuli við útreikning gjaldstofns. Þær upplýsingar sem rekstrarleyfishafi afhendir Matvælastofnun eru annars vegar sláturtölur um óslægðan fisk og hins vegar um slægðan fisk. Mismunur milli þessara tveggja talna getur verið þónokkur og því mikilvægt að kveðið sé á um ákveðinn slægingarstuðul þegar gjaldstofninn er reiknaður.

Um 78. gr.

    Greinin er sambærileg 4. gr. gildandi laga nr. 89/2019. Gerð er þó sú breyting að gjaldið skal lagt á 12 sinnum á ári.

Um 79. gr.

    Greinin er sambærileg 5. gr. gildandi laga nr. 89/2019 og þarfnast ekki skýringa.

Um 80. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 81. gr.

    Greinin byggist á sambærilegu ákvæði 7. gr. gildandi laga nr. 89/2019.
    Í 1. mgr. er gerð sú breyting að hlutverk sjóðsins er nú að styrkja sjókvíaeldisbyggðir og þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á þeim svæðum.
    Í 2. mgr. er kveðið á um skipan stjórnar sjóðsins. Er sú breyting gerð frá gildandi lögum að í stjórn sjóðsins skal sitja einn fulltrúi úr hópi sveitarstjórnarfólks í sjókvíaeldisbyggðum samkvæmt tilnefningu Sambands íslenskra sveitarfélaga.
    3. mgr. er að miklu leyti sambærileg við 3. mgr. 7. gr. gildandi laga nr. 89/2019. Í samræmi við þær meginbreytingar sem gerðar eru á fyrirkomulagi sjóðsins er hins vegar gert ráð fyrir að úthlutun úr sjóðnum fari fram án umsókna frá sjókvíaeldisbyggðum.
    Í 4. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að úthlutanir úr Samfélagssjóði sjókvíaeldis skuli skiptast annars vegar á milli landshluta og hins vegar sjókvíaeldisbyggða innan viðkomandi landshluta. Fyrst skal reiknað hvernig skiptingin er milli landshluta og síðan skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða í viðkomandi landshluta. Kveðið verður á um í reglugerð hvernig skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða skuli háttað sem og hvaða sveitarfélög teljist til sjókvíaeldisbyggða.
    5. mgr. er samhljóða 5. mgr. 7. gr. gildandi laga nr. 89/2019 og þarfnast ekki skýringa.
    Í 6. mgr. er kveðið á um skyldu ráðherra til að kveða nánar á um starfsemi sjóðsins. Skal með reglugerðinni kveða á um málsmeðferð, útreikning úthlutunarfjár og skiptingu úthlutunarfjár milli sjókvíaeldisbyggða, að fenginni tillögu stjórnar.
    Ráðherra skal jafnframt kveða á um með reglugerð hvaða sveitarfélög teljist til sjókvíaeldisbyggða.
    7. mgr. er samhljóða 7. mgr. 7. gr. gildandi laga nr. 89/2019 og þarfnast ekki skýringa.

Um 3. þátt.

    Þriðji þáttur frumvarpsins tekur til landeldis. Ákvæði um landeldi eru til muna einfaldari en þau sem gilda um sjókvíaeldi. Eru fyrir því nokkrar ástæður. Í fyrsta lagi fela landeldisstöðvar ekki í sér nýtingu á takmörkuðum almannagæðum í sjó sem eru á forræði ríkisins. Í öðru lagi eru leyfisveitingar m.a. á forræði sveitarfélaga og Orkustofnunar en aðkoma Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar er takmarkaðri en í sjókvíaeldi. Í þriðja lagi eru strok og sníkjudýr hverfandi eða lítt þekkt vandamál í landeldi, ólíkt sjókvíaeldi. Afföll og sjúkdómar geta orðið vandamál í landeldi en ástæður og viðbrögð að einhverju leyti önnur en í sjókvíaeldi. Gildissvið frumvarpsins nær ekki yfir ýmis mikilvæg mál sem snúa að landeldi, svo sem leyfisveitingar Orkustofnunar. Ákvæði fyrsta og fimmta þáttar frumvarpsins gilda einnig um landeldi.

Um XV. kafla.

    Í XV. kafla er fjallað um smitvarnir og dýraheilbrigði í landeldi.

Um 82. gr.

    Greinin er að miklu leyti samhljóða 14. gr. frumvarpsins og vísast þangað um skýringar. Sá greinarmunur er þó að 82. gr. tekur aðeins til búnaðar og farartækja sem hafa verið í beinni snertingu við fisk.

Um 83. gr.

    Greinin er að miklu leyti samhljóða 15. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 84. gr.

    Greinin er að miklu leyti samhljóða 16. gr. frumvarpsins. Lagt er til að Matvælastofnun verði veitt heimild til að krefjast talningar upp úr eldiseiningum. Tekið er fram að ríkt tilefni þurfi til enda getur rask við talningu haft neikvæð áhrif á velferð fiska. Meðal þess sem réttlætt gæti talningu væri grunur um verulegt strok, alvarlegir sjúkdómar eða fjöldadauði.

Um 85. gr.

    Greinin er að miklu leyti samhljóða 17. gr. frumvarpsins en nær til rekstrarleyfishafa og skráningarskyldra aðila í landeldi. Vegna eðlismunar á landeldi og sjókvíaeldi eru þó sett fram atriði sem ráðherra skal m.a. líta til þegar hámarksþéttleiki fiska er ákvarðaður í landeldi.

Um 86. gr.

    Greinin er að miklu leyti samhljóða 18. gr. frumvarpsins og vísast þangað um skýringar.

Um 87. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og á sér ekki hliðstæðu, eðli máls samkvæmt, í sjókvíaeldi. Markmið ákvæðisins er fyrst og fremst að tryggja, eins og kostur er, að smitefni eða skaðleg efni berist ekki frá landeldisstöðvun í villta fiskstofna. Ákvæðinu er almennt ekki ætlað að auka á skyldur rekstrarleyfishafa eða skráningarskyldan aðila umfram það sem leiðir af ákvæði starfsleyfis samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir heldur er það fremur ætlað til áréttingar. Ætla má að Matvælastofnun myndi aðeins beita heimild ákvæðisins ef ástæða væri til að ætla að starfsleyfi hefði ekki að geyma ákvæði sem tækju á sama efni.

Um 88. gr.

    Greinin byggist á svipuðum sjónarmiðum og IX. kafli um afföll í sjókvíaeldi, þ.e. að stefnt skuli að því að lágmarka afföll. Afleiðingar affalla eru hins vegar ekki þær sömu í landeldi og í sjókvíaeldi. Þannig er enginn „leyfilegur lífmassi“ til staðar í landeldi sem miðar við hámarkslífmassa smitvarnasvæðis. Þau gæði sem felast í aðgengi að smitvarnasvæðum, og sem eru takmörkuð, eiga ekki við í landeldi. Því er ekki lagt til að afföll í landeldi leiði til sérstakra skerðinga á eldisheimildum eða framleiðslu. Afföll geta hins vegar haft aðrar afleiðingar fyrir rekstrarleyfishafa og skráningarskylda aðila enda gilda almennar reglur um dýravelferð um reksturinn sem endranær. Greinin þarfnast að öðru leyti ekki sérstakra skýringa.

Um 89. gr.

    Greinin er sambærileg 53. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 90. gr.

    Greinin er sambærileg 20. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa og vísast til skýringa við þá grein eftir því sem við á.

Um 91. gr.

    Greinin er sambærileg 21. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 92. gr.

    Greinin er sambærileg 22. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein eftir því sem við á.

Um 93. gr.

    Greinin er sambærileg 23. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein eftir því sem við á.

Um XVI. kafla.

    Í XVI. kafla er fjallað um rekstrarleyfi til landeldis. Kaflinn er að miklu leyti sambærilegur V. kafla hvað varðar rekstrarleyfi með þó því veigamikla fráviki að reglur V. kafla um smitvarnasvæði og eldissvæði eiga ekki við um XVI. kafla.

Um 94. gr.

    Greinin er sambærileg 25. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 95. gr.

    Greinin er nær samhljóða 5. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Eina breytingin frá gildandi lögum er að frumvarpsgreinin tekur eingöngu til landeldis. Greinin á sér ekki samsvörun í reglum frumvarpsins um sjókvíaeldi. Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 96. gr.

    Greinin er sambærileg 4. gr. b gildandi laga nr. 71/2008 og 26. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein eftir því sem við á.

Um 97. gr.

    Greinin er sambærileg 8. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og 27. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein eftir því sem við á.

Um 98. gr.

    Greinin er sambærileg 9. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og 28. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við 28. gr. eftir því sem við á.

Um 99. gr.

    Greinin er sambærileg 10. gr. a gildandi laga nr. 71/2008 og 29. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 100. gr.

    Greinin er sambærileg 10. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og 30. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við 30. gr. eftir því sem við á.

Um 101. gr.

    Greinin er sambærileg 33. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við þá grein.

Um XVII. kafla.

    Í XVII. kafla er fjallað um starfrækslu landeldisstöðva og eftirlit með þeim. Kaflinn er að miklu leyti sambærilegur VI. kafla hvað varðar rekstrarleyfi með þó því veigamikla fráviki að reglur V. kafla um smitvarnasvæði og eldissvæði eiga ekki við um XVII. kafla.

Um 102. gr.

    Greinin er sambærileg 11. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og 34. gr. frumvarpsins og þarfnast ekki sérstakra skýringa utan að bætt hefur verið orðalagi sem ætlað er að veita smærri landeldisstöðvum undanþágu frá skyldu til öflunar stöðvarskírteinis.

Um 103. gr.

    Efni greinarinnar er nýmæli og er ætlað að taka af vafa um að koma eigi í veg fyrir strok úr landeldisstöðvum. Eðli máls samkvæmt ætti strok úr landeldi að heyra til algerra undantekninga en viðbúið er að hætta sé á slíku ef ástand búnaðar eða lagna er ekki sem skyldi. Þá er einnig mögulegt að strok eigi sér stað við flutning á fiski.

Um 104. gr.

    Greinin er sambærileg 13. gr. a gildandi laga nr. 71/2008 og 35. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við 35. gr. eftir því sem við á.

Um 105. gr.

    Greinin er sambærileg 14. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og 36. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við 36. gr. eftir því sem við á.

Um XVIII. kafla.

    Í XVIII. kafla er fjallað um afturköllun rekstrarleyfis til landeldis og afskráningu smærri eldisstöðva.

Um 106. gr.

    Greinin er sambærileg 16. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og 65. gr. frumvarpsins og vísast til skýringa við 65. gr. auk þess sem ítrekað skal að heimildir til afturköllunar eru rýmri en ella vegna þess að leyfi eru ótímabundin.

Um 107. gr.

    Greinin er sambærileg 16. gr. a gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa að öðru leyti en ítrekað skal að heimildir til afskráningar eru rýmri en ella vegna þess að leyfi eru ótímabundin.

Um 4. þátt.

    Fjórði þáttur fjallar um hafeldi. Efni þessa þáttar frumvarpsins er nýmæli en byggist þó að miklu leyti á tillögum frumvarpsins um sjókvíaeldi. Auk 4. þáttar þá eiga ákvæði 1., 2. og 5. þáttar við um hafeldi. Vísast að öðru leyti til kafla 3.3 um skipulag þessa þáttar.

Um XIX. kafla.

    Í XIX. kafla er fjallað almennt um hafeldi en með hafeldi er skv. 3. gr. átt við sjókvíaeldi á svæðum sem eru hvort tveggja í senn utan friðunarsvæða skv. 7. gr. frumvarpsins og viðmiðunarlínu skv. 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Hafeldi og sjókvíaeldi eiga margt sameiginlegt og í grunninn má segja að aðalmunurinn felist í fjarlægð eldisstöðva frá landi. Sá skilsmunur hefur þó verulegar afleiðingar, ekki síst varðandi þær kröfur sem gerðar eru til sjókvía og annars eldisbúnaðar en almennt má búast við að kostnaður við hafeldisbúnað sé umtalsvert meiri en í sjókvíaeldi vegna meiri strauma og ölduhæðar lengra frá landi. Á hinn bóginn mætti búast við að botnset, þ.e. mengun og uppsöfnun lífrænna leifa á sjávarbotni, sem og áhætta af stroki og hætta tengd sníkjudýrum sé að einhverju leyti háð öðrum lögmálum fjær landi og er það einkum sú staðreynd sem ýtir undir þróun í hafeldi.

Um 108. gr.

    Líkt og önnur ákvæði 4. þáttar er efni greinarinnar nýmæli. Í greininni er tekið fram að ákvæði um sjókvíaeldi gildi einnig um hafeldi, þó með þeim breytingum sem leiða af ákvæðum 4. þáttar.
    Í 2. mgr. er fjallað um skilyrði þess að Matvælastofnun megi gefa út rekstrarleyfi og tilraunaleyfi. Eitt af markmiðum frumvarpsins þegar kemur að hafeldi er að tryggja að eldi verði ekki hafið áður en nægjanlegar grunnrannsóknir liggja fyrir. Er það bæði til þess að tryggja að vistkerfisáhrif séu ásættanleg af starfseminni og til þess að skipuleggja megi hafeldið með sem skilvirkustum hætti með tilliti til staðsetningar smitvarnasvæða o.fl. Af þessu leiðir að engin leyfi verða gefin út áður en grunnrannsóknir liggja fyrir. Það er ófrávíkjanlegt skilyrði fyrir útgáfu rekstrarleyfis til hafeldis að burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar liggi fyrir áður en rekstrarleyfi er gefið út. Það er hins vegar hægt að gefa út tilraunaleyfi án þess að burðarþolsmat og áhættumat erfðablöndunar liggi fyrir enda ætti aðeins takmarkaðan fjölda fiska að þurfa til á tilraunastigi sem leiðir aftur til þess að botnset verður lítið og hætta á stroki óveruleg.

Um 109. gr.

    Ákvæðið er til áréttingar á því að afmarka þurfi smitvarnasvæði og að burðarþolsmeta þurfi viðkomandi vatnshlot til þess að hægt sé að hefja hafeldi. Þau vatnshlot sem hér skipta máli eru strandsjór utan friðunarsvæða skv. 7. gr. frumvarpsins og viðmiðunarlínu skv. 5. gr. laga um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, nr. 79/1997. Strandsjór myndar vatnshlot samkvæmt lögum um stjórn vatnamála, nr. 36/2011, allt til einnar sjómílu utan grunnlínu landhelgi, sbr. skilgreiningu í 9. tölul. 3. gr. þeirra laga. Í frumvarpsgreininni kemur fram burðarþolsmeta megi svæði utan skilgreindra vatnshlota sem í því tilfelli væri svæði utan einnar sjómílu frá grunnlínu landhelgi.

Um 110. gr.

    1. mgr. er til áréttingar á því að gera þurfi áhættumat erfðablöndunar fyrir svæði sem ætluð eru til hafeldis.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að viðbót við heildarlaxamagn sem myndast við áhættumat erfðablöndunar fyrir hafeldissvæði skuli ekki bætast við heimildir þeirra sem þegar stunda hefðbundið sjókvíaeldi heldur skuli viðbótin boðin út.
    Í 3. mgr. er kveðið á um að aðeins megi nýta nýjar heimildir skv. 2. mgr. í hafeldi en ekki í hefðbundnu sjókvíaeldi.

Um 111. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um tilraunaleyfi til hafeldis. Með ákvæðinu er gert ráð fyrir að hægt sé að sækja um tilraunaleyfi til hafeldis án þess að burðarþolsmat eða áhættumat erfðablöndunar hafi farið fram. Útgáfa tilraunaleyfis getur verið mikilvægt skref til að kanna hvort fýsilegt sé að stunda hafeldi hér á landi. Vegna þeirrar undanþágu að hvorki þurfi áhættumat erfðablöndunar né burðarþolsmat eru hins vegar sett skýr skilyrði fyrir að um afturkræfar tilraunir sé að ræða. Þá er einnig kveðið skýrt á um að óheimilt sé að gefa út tilraunaleyfi ef einhver umsagnaraðila leggst gegn því og að enn fremur skuli leita álits Skipulagsstofnunar á því hvort framkvæmd sé umhverfismatsskyld.

Um 112. gr.

    Í ákvæðinu er fjallað um tímabundna undanþágu frá greiðslu gjalda samkvæmt ákvæðum XIII. kafla um Umhverfissjóð sjókvíaeldis og ákvæðum XIV. kafla um framleiðslugjald og samfélagssjóð sjókvíaeldis. Ástæður undanþágunnar eru aðallega tvær. Í fyrsta lagi er fjárfestingakostnaður almennt líklegur til að vera meiri í hafeldi heldur en í hefðbundnu sjókvíaeldi þar sem búnaður í hafeldi þarf að standast meira veðurálag. Í öðru lagi er hafeldi skemmra á veg komið í þróun búnaðar og framleiðslu heldur en sjókvíaeldi sem kallar með sama hætti á aukna fjárfestingu. Er eðlilegt að tekið sé tillit til þessara þátta við gjaldtöku.

Um XX. kafla.

    Í XX. kafla er fjallað um grunnrannsóknir sem eru nauðsynlegur undanfari leyfisveitinga í hafeldi. Með heitinu „grunnrannsóknir“ er vísað til þess að umræddar rannsóknir leggi grunn að þekkingu á fýsileika og skipulagningu hafeldis við Ísland. Grunnrannsóknir eru í vissum skilningi einungis upphafið að rannsóknum tengdum hafeldi en fullvíst má telja að rannsóknir og þróun muni halda áfram eftir útgáfu leyfa til hafeldis. Það er jafnframt mögulegt að niðurstöður grunnrannsókna muni leiða í ljós að hafsvæði við Ísland henti ekki til hafeldis yfir höfuð. Með frumvarpinu er engin afstaða tekin til þess hvort hefja eigi hafeldi við Ísland, aðeins hverjar forsendur slíks eldis eiga að vera með tilliti til rannsókna og leyfisveitinga. Í samræmi við markmið frumvarpsins í heild, þá er markmið grunnsókna að tryggja traustan grundvöll fyrir verðmætasköpun á forsendum vistkerfis- og varúðarnálgunar. Líkt og með aðrar greinar lagareldis, þá eru það forsendur vistkerfis og villtra stofna sem ráða mögulegu umfangi hafeldisins.

Um 113. gr.

    Í greininni er settur rammi utan um grunnrannsóknir vegna hafeldis. Til þess að teljast grunnrannsóknir í skilningi frumvarpsins er það ófrávíkjanlegt skilyrði að viðkomandi rannsóknir séu unnar af Hafrannsóknastofnun eða í samvinnu við Hafrannsóknastofnun. Ástæða þessa er að Hafrannsóknastofnun er hlutlaus og leiðandi stofnun við rannsóknir og ráðgjöf sem tengjast íslensku hafsvæði. Rannsóknaratriði geta verið hvaðeina sem snýr að hafeldi en ekki síst áhrif þeirra á villta stofna, vistkerfi og eldisfiskana sjálfa. Rannsóknir geta snúið að umhverfisþáttum eingöngu eða umhverfisþáttum og búnaði.

Um 114. gr.

    Í greininni eru markmið rannsókna skilgreind. Sem fyrr segir er fjallað um atriði sem lúta að umhverfisþáttum en einnig rekstraröryggi og dýravelferð. Upptalning í ákvæðinu er ekki tæmandi.

Um 115. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun skuli afmarka rannsókn hverju sinni, bæði með tilliti til landfræðilegrar afmörkunar rannsókna, tímasetningar og tímalengdar rannsókna sem og annarra atriða sem máli skipta við rannsókn á svæðum til hafeldi.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun geti ákveðið hvenær rannsóknum er lokið og hvenær þær hafa náð markmiðum sínum, sbr. 114. gr. frumvarpsins. Almennt myndi þetta ekki valda vandkvæðum en þó getur skapast núningur í samstarfi einkaaðila og Hafrannsóknastofnunar um það hvenær rannsóknum telst lokið. Þegar á reynir verður álit Hafrannsóknastofnunar að gilda enda um hlutlausan og sérfróðan aðila að ræða.

Um 116. gr.

    Markmið greinarinnar er að veita lagastoð fyrir einkaréttarlegum samningum milli Hafrannsóknastofnunar og einkaaðila um samvinnu við grunnrannsóknir. Markmið með þessari heimild er að tryggja aðkomu rekstraraðila að rannsóknaferli á fyrstu stigum en einnig að hvetja einkaaðila til að leggja fram fjármagn í rannsóknir sem annars þyrftu að bíða eftir að öðrum rannsóknum lyki eða að öðru leyti kynnu að verða aftarlega við forgangsröðun Hafrannsóknastofnunar.
    Almennt er gert ráð fyrir að framlag einkaaðila myndi takmarkast við skilgreind fjárframlög en að Hafrannsóknastofnun myndi sjá um faglegan þátt samstarfsins. Það er þó ekki kveðið á um þetta í greininni enda óþarfi að útiloka að einkaaðili gæti t.d. lagt til búnað, gögn eða jafnvel starfsfólk við rannsóknirnar.
    Gert er ráð fyrir að ráðherra taki ákvörðun um hvort grundvöllur sé fyrir samvinnu Hafrannsóknastofnunar við einkaaðila að gættum þeim atriðum sem talin eru í ákvæðinu en þau eru ekki tæmandi talin. Þá verður ráðherra að afla bindandi umsagnar Hafrannsóknastofnunar áður en ákvörðun er tekin um samvinnu við einkaaðila.
    Þegar fyrir liggur ákvörðun ráðherra um samvinnu við einkaaðila skal gerður samningur milli viðkomandi aðila og Hafrannsóknastofnunar. Veigamesti þáttur samningsins er skilgreining þeirra rannsókna sem ráðist skal í, sem og skilgreining þess endurgjalds sem einkaaðili greiðir Hafrannsóknastofnun. Mikilvægt er, sem endranær, að samningur sé skýr og að umfang rannsókna með tilliti til aðferða, búnaðar, tímalengdar, kostnaðar o.s.frv. sé skilgreint með sem ítarlegustum hætti. Gert er ráð fyrir að samningur aðila geti tekið til þess að aðrir rannsóknaraðilar en Hafrannsóknastofnun komi að rannsóknum.
    Í 4. mgr. kemur fram að einkaaðili, sem fjármagnað hefur grunnrannsóknir Hafrannsóknastofnunar samkvæmt samningi, geti nýtt þær greiðslur sem runnið hafa til Hafrannsóknastofnunar á móti greiðslu tilboðsfjárhæðar til íslenska ríkisins vegna útboða smitvarnasvæða til hafeldis. Í ljósi þeirrar áhættu sem felst í fjármögnun rannsókna, en rannsóknir gætu t.d. leitt í ljós að tiltekið svæði eða aðferðir hentuðu ekki til hafeldis, þá er lagt til að við frádrátt frá tilboðsfjárhæð skuli fimmfalda kostnað vegna rannsókna. Sem dæmi þá myndi aðili, sem lagt hefði út 20 kr. í kostnað við rannsóknasamvinnu við Hafrannsóknastofnun, ekki þurfa að greiða neitt til íslenska ríkisins ef sami aðili fengi tilboð samþykkt í smitvarnasvæði upp á 100 kr. Til að taka af allan vafa, þá má nýta kostnað sem ekki nýtist við tilboð í tiltekið smitvarnasvæða við tilboð í annað smitvarnasvæði. Kostnað má hins vegar ekki nýta oftar en einu sinni til frádráttar. Þá gerir ákvæðið ráð fyrir því að annar kostnaður en greiðslur til Hafrannsóknastofnunar geti nýst með sama hætti sem greiðsla tilboðskostnaðar.
    Í 5. mgr. er kveðið á um heimild einkaaðila, sem sækir um smitvarnasvæði við úthlutun þess í útboði, til þess að ganga inn í hæsta tilboð annars tilboðsgjafa.

Um 5. þátt.

    Fimmti þáttur hefur að geyma ýmis sameiginleg ákvæði sem gilda um allar greinar lagareldis, þ.e. sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Mörg ákvæði þáttarins eiga sér fyrirmynd í ákvæðum gildandi laga nr. 71/2008.

Um XXI. kafla.

    Í XXI. kafla er safnað saman ýmsum ákvæðum sem eiga ekki endilega samleið með öðrum ákvæðum.


Um 117. gr.

    Í greininni er kveðið á um að ákvarðanir Matvælastofnunar um förgun, slátrun eða aðra meðferð fiska sem miða að því að tryggja dýravelferð eða vernda vistkerfi skapi að jafnaði hvorki Matvælastofnun, íslenska ríkinu né öðrum stjórnvöldum bótaskyldu. Byggist ákvæðið á því sjónarmiði að varúðar- og vistkerfisnálgun sé viðhöfð við framkvæmd laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, sem og í starfsemi rekstraraðila. Með sama hætti verði að virða ákvæði laga þegar kemur að velferð eldisdýra. Taki Matvælastofnun ákvarðanir sem miða að því að tryggja að rekstrarleyfishafar fari að lögum varðandi meðferð dýra og áhrif á umhverfi, þá er óeðlilegt að slíkt skapi íslenska ríkinu eða einstökum stjórnvöldum bótaskyldu. Hér getur t.d. verið um að ræða fyrirskipanir Matvælastofnunar vegna lúsasmits sem miða að því að tryggja markmið laga um velferð dýra nr. 55/2013. Verður almennt að játa Matvælastofnun og öðrum stjórnvöldum rúmt mat í þessi tilliti, sérstaklega þegar kemur að velferð dýra. Ótti stjórnvalda við skaðabótaskyldu má ekki verða til þess að hafa áhrif á mikilvæg verkefni eins og t.d. að hafa eftirlit með velferð dýra og að grípa til nauðsynlegra aðgerða í því tilliti.

Um 118. gr.

    Greinin byggist á 2.–4. mgr. 2. gr. laga um Fiskistofu, nr. 36/1992, sbr. 8. gr. breytingalaga nr. 85/2022. Í skýringu við viðkomandi frumvarpsgrein síðarnefndu laganna segir: „Lagt er til að Fiskistofa fái heimild til að nota fjarstýrð loftför í eftirlitsstörfum sínum sem eru búin myndavélum til upptöku, eða annan fjarstýrðan búnað sem getur safnað upplýsingum. Ljóst er að sú vöktun sem lögð er fram í ákvæðinu er í eðli sínu rafræn vöktun og rafræn vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, og þarf þar með að uppfylla skilyrði þeirra laga. Við samningu ákvæðisins var litið til laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga en í 14. gr. þeirra laga er fjallað um rafrænt eftirlit og skilyrði þess. Í skýringum við ákvæðið kemur fram að rafrænt eftirlit megi fara fram með leynd ef það styðst við skýra lagaheimild eða dóm. Um rafrænt eftirlit gilda reglur nr. 50/2023 um rafræna vöktun. Í 5. gr. reglnanna kemur fram að við rafræna vöktun skal þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem að er stefnt. Skal gæta þess að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiði með slíkri vöktun sé unnt að ná með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.“

Um 119. gr.

    Greinin fjallar um þjónustuaðila og verktaka sem starfa fyrir rekstrarleyfishafa. Rekstrarleyfi, sem og flestar reglur frumvarpsins, gildandi laga og reglugerða, lúta að háttsemi rekstrarleyfishafa. Með ákvæðinu er rekstrarleyfishafi gerður ábyrgur fyrir því að þeir aðilar sem hann skiptir við lúti sömu kröfum og rekstrarleyfishafi sjálfur. Það er ótækt að rekstrarleyfishafi geti falið öðrum aðila þau verkefni sem rekstraraðili sjálfur ber ábyrgð á og að sú þjónusta sem sá aðili kynni að veita falli þannig utan eftirlits og viðurlaga sem Matvælastofnun kynni að ákveða.

Um 120. gr.

    Greinin lýtur að framsali, leigu og veðsetningu rekstrarleyfa og byggist á 17. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Almennt er skynsamlegt að heimila framsal og leigu rekstrarleyfa enda gerir það rekstraraðilum kleift að framselja rekstur sinn í heild án óvissu um hvort framsalshafi fái heimild til þess að reka viðkomandi rekstur áfram. Oft myndi hins vegar framsal reksturs fara þannig fram að eignarhlutur í rekstrarleyfishafa, ef hann er lögaðili, yrði framseldur og þá með viðkomandi leyfum. Ekki er gert ráð fyrir að samþykki Matvælastofnunar þurfi til þótt endanlegir eigendur að rekstrarleyfishafa breytist, þ.e. í þeim tilfellum þegar rekstrarleyfishafi er lögaðili. Markmið reglunnar um að skriflegt samþykki þurfti til framsals eða leigu er fyrst og fremst að tryggja að framsalshafi hafi burði til þess að sinna hinni rekstrarleyfisskyldu starfsemi lögum samkvæmt.
    Það nýmæli er lagt til varðandi veðsetningar rekstrarleyfa að til slíks þurfi ekki skriflega heimild Matvælastofnunar. Þá er enn fremur gert ráð fyrir því að fullnusta geti átt sér stað án aðkomu Matvælastofnunar en veðhafi, eða framsalshafi ef við á, fái þriggja mánaða frest til þess að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til rekstrarleyfishafa samkvæmt lögunum. Þann frest má framlengja um 12 mánuði en augljóslega yrðu gerðar ríkar kröfur til þess að kröfum laganna varðandi t.d. dýravelferð yrði fylgt lögum samkvæmt á aðlögunartíma sem endranær.
    Þá er lagt til að ákvæði um þinglýsingu veðsetningar sem leitt var í lög sem nýmæli með 17. gr. frumvarps til laga nr. 57/2006 (595. mál á 132. lögþ.), verði fellt niður. Ekki var skýrt með athugasemdum við frumvarpið hvert markmið þinglýsingar væri né í hvaða þinglýsingabók slík þinglýsing ætti að eiga sér stað. Um réttarvernd veðsetningar gagnvart þriðja manni fer því samkvæmt almennum reglum eftir því sem við á.

Um XXII. kafla.

    Í XXII. kafla er fjallað um skil og birtingu upplýsinga.

Um 121. gr.

    Greinin snýr að aukinni samvinnu stofnana og samnýtingu gagna, sem og einföldun á stjórnsýslu gagnvart rekstrarleyfishöfum. Ekki er talið fýsilegt að kveða með ýtarlegum hætti í frumvarpinu á um eiginleika og útfærslu hins miðlæga gagnakerfis en ljóst er að óskilvirkt er að hinir ýmsu leyfisveitendur og önnur stjórnvöld séu að safna t.d. sömu upplýsingum ítrekað frá rekstrarleyfishöfum.

Um 122. gr.

    Greinin byggist á 19. gr. b gildandi laga nr. 71/2008 en þó er gerð sú breyting í 2. mgr. að vísað er til mikilla affalla í stað óeðlilegra affalla í ljósi þess að afföll eru almennt óumflýjanleg við fiskeldi.
    Efni 3. mgr. er nýmæli sem er ætlað að veita svokölluðu mælaborði fiskeldis, sem birt er á vef Matvælastofnunar, beina stoð í lögum enda hefur mælaborðið sannað sig sem mikilvægt og handhægt verkfæri við upplýsingamiðlun.

Um 123. gr.

    Greinin er sambærileg 19. gr. c gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa. Þó er það nýmæli í ákvæðinu að áréttað er að heimilt sé að birta upplýsingar með fréttatilkynningu.

Um XXIII. kafla.

    Í XXIII. kafla er fjallað um gjaldtöku vegna lagareldis og vátryggingarskyldu.

Um 124. gr.

    Greinin er sambærileg 14. gr. a gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 125. gr.

    Greinin er sambærileg 4.–9. mgr. 14. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 126. gr.

    Greinin er sambærileg lokamálslið 11. mgr. 14. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa utan að bætt hefur við lagastoð vegna dráttarvaxta.

Um 127. gr.

    Greinin er sambærileg 14. gr. b gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um XXIV. kafla.

    Í XXIV. kafla er fjallað um reglugerðarheimildir og refsiákvæði.

Um 128. gr.

    Greinin er sambærileg 21. gr. gildandi laga nr. 71/2008. Í umsagnarferli um frumvarpið komu fram athugasemdir við mikinn fjölda reglugerðarheimilda í frumvarpinu, m.a. vegna þess að í þeim fælist óhóflegt framsal löggjafarvalds til ráðherra. Þá komu einnig fram sjónarmið um að hin almenna reglugerðarheimild væri óþörf vegna nákvæmari reglugerðarheimilda í tengslum við einstök reglugerðarákvæði. Telja verður að umsagnir um frumvarpið byggist að þessu leyti á nokkrum misskilningi. Tilgangur þess að greina heimildir ráðherra í tengslum við einstök ákvæði frumvarpsins er fyrst og fremst að veita ráðherra leiðbeiningar um reglusetningu. Sé t.d. gildandi reglugerð nr. 540/2020 um fiskeldi lesin með hliðsjón af frumvarpinu er ljóst að flest það sem mælt er fyrir um í frumvarpinu, utan það sem leiðir með beinum hætti af nýmælum, er þegar að finna í reglugerð nr. 540/2020. Það er í reynd hvorki ætlunin með frumvarpinu að skerða né auka við heimildir ráðherra til reglusetningar, heldur er sérstökum reglugerðarheimildum fyrst og fremst ætlað að skerpa á markmiðum ráðherra við setningu reglugerða.
    Varðandi hina almennu reglugerðarheimild frumvarpsins þá þjónar hún áfram þeim tilgangi að vera öðrum reglugerðarheimildum til fyllingar. Þannig er ekki ætlunin að gagnálykta megi frá sérstökum reglugerðarheimildum heldur getur ráðherra áfram stuðst við hina almennu heimild til setningar reglugerðar enda rúmist reglugerðarákvæði innan þeirra marka sem reglur stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar setja ráðherra líkt og endranær.

Um 129. gr.

    Greinin er sambærileg 18. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 130. gr.

    Greinin er sambærileg 21. gr. a gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa utan að fjárhæðarhækkun er m.a. til komin vegna almennra verðlagsbreytinga.

Um 131. gr.

    Greinin er sambærileg 21. gr. b gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 132. gr.

    Greinin er sambærileg 21. gr. c gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 133. gr.

    Greinin er nokkuð sambærileg 21. gr. d gildandi laga nr. 71/2008. Bent er á að þeim atriðum sem varða sektum hefur fjölgað frá gildandi lögum. Efri mörk sektarfjárhæða hafa verið hækkuð úr kr. 150.000.000 í kr. 500.000.000 til að taka mið af verðlagsbreytingum og auknu umfangi eldisstarfsemi.

Um 134. gr.

    Í ákvæðinu er að finna nýmæli, þar sem lagt er til að Matvælastofnun sé heimilt að ljúka máli með sátt í þeim tilvikum þegar sá brotlegi gengst við broti eða óskar eftir að ljúka máli með sátt. Er lagt til að Matvælastofnun fái slíka heimild til að greiða fyrir úrlausn mála og spara málsaðilum og stofnuninni tíma með því að ljúka máli með sátt í stað einhliða ákvörðunar Matvælastofnunar um beitingu viðurlaga. Heimildinni má þó aðeins beita ef ekki er um meiri háttar brot að ræða. Þá er mælt fyrir um að sátt sé bindandi og ef málsaðili brýtur gegn henni er Matvælastofnun heimilt að fella sátt úr gildi og getur þá tekið málið til meðferðar á ný og þá eftir atvikum gert hinum brotlega stjórnvaldssekt eða aðra ráðstöfun samkvæmt frumvarpinu.

Um 135. gr.

    Greinin er sambærileg 21. gr. e gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 136. gr.

    Greinin er sambærileg 22. gr. gildandi laga nr. 71/2008 og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 137. gr.

    Ákvæðið er nýmæli sem kveður á um að Umhverfisstofnun skuli ekki hafa heimild til að beita þvingunar- og refsiúrræðum samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir vegna sömu atvika og kynnu að varða þvingunar- og refsiúrræðum af hálfu Matvælastofnunar samkvæmt frumvarpinu. Ákvæðinu er ætlað að stuðla að skýrri verkaskiptingu stofnananna tveggja og jafnframt að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu rekstrarleyfishafa. Að jafnaði ættu valdheimildir stofnananna ekki að skarast þar sem verksvið Matvælastofnunar lýtur einkum að eftirliti með eldisþáttum starfseminnar og dýravelferð en Umhverfisstofnun hefur eftirlit með umhverfistengdum þáttum. Ef valdmörk stofnananna skarast hins vegar í reynd, þá er miðað við að úrræði og aðgerðir Matvælastofnunar samkvæmt lögum þessum gangi framar.


Um 138. gr.

    Gildistakan er miðuð við 1. september 2024 og falla þá um leið úr gildi ákvæði laga nr. 71/2008, um fiskeldi, og laga nr. 89/2019, um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð. Nauðsynlegt er að á þeim tíma sem frumvarpið tekur gildi muni ráðherra að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar, sem sett skal fram í áhættumati erfðablöndunar, ákveða með reglugerð það heildarlaxamagn frjórra laxa sem ala má á hverjum tíma. Að sama skapi er nauðsynlegt að ráðherra ákveði með reglugerð hvaða vatnshlot teljast smitvarnasvæði skv. 1. mgr. 11. gr. og hvernig smitvarnasvæði eru afmörkuð. Í þeim tilfellum þegar vatnshlot skiptist í fleiri en eitt smitvarnasvæði skal ráðherra einnig ákveða hvernig hámarkslífmassi viðkomandi vatnshlots skiptist milli smitvarnasvæða að fenginni ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar.
    Ákvæðum 3. mgr. er ætlað að veita rekstrarleyfishöfum og Matvælastofnun svigrúm til þess að laga sig að breyttum reglum varðandi tilteknar íþyngjandi reglur frumvarpsins. Í 1. tölul. er kveðið á um að þriggja ára viðmiðunartímabil sem kemur til skoðunar við innköllun á laxahlut skv. 1. málsl. 40. gr. hefjist ekki fyrr en 1. janúar 2025. Með því móti er fyrsti mögulegi innköllunardagur 1. janúar 2028. Í 2. tölul. er kveðið á um að IX. kafli frumvarpsins sem hefur að geyma ákvæði sem snúa að afföllum komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2025. Í ljósi þess að t.d. 54. gr. er bundin við kynslóð, þá myndi frestun á gildistöku til 1. janúar 2025 í reynd þýða að ákvæðið yrði fyrst virkt vorið 2025 þegar útsetningar nýrra kynslóða í sjó hæfist. Í 3. tölul. er kveðið á um að tvær frumvarpsgreinar sem lúta að lús myndu fyrst taka gildi 1. janúar 2025. Líkt og með afföll, þá myndi greinarnar fyrst verða virkar þegar ný kynslóð fisk er sett út vorið 2025. Ekki er gert ráð fyrir að sama gildi um ákvæði frumvarpsins varðandi reglur um kynþroska lax en þrátt fyrir að þau ákvæði séu nýmæli þá gegna þau ákvæði mikilvægu hlutverki við að koma í veg fyrir erfðablöndun auk þess sem það er hagur rekstrarleyfishafa sjálfs að halda kynþroska í lágmarki vegna áhrifa á afurðaverð. Í 4. tölul. er kveðið á um að reglur frumvarpsins um forsendubrest og nýtingu leyfilegs lífmassa taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2025. Varðandi breytingu á eldri leyfum í ótímabundin leyfi þá gilda einnig ákvæði bráðabirgðaákvæðis VI.

Um 139. gr.

    Í ákvæðinu er kveðið á um breytingar á ýmsum öðrum lögum í samræmi við efni frumvarpsins.
    Í 1. tölul. er lagt til að gera breytingu á lögum um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006. Lagt er til að við lögin bætist ný grein, 35. gr. a. Í greininni er kveðið á um að hverjum þeim sem starfrækir búnað með fastri staðsetningu til talningar, myndunar eða flokkunar fisks í ám sé skylt að láta Fiskistofu í té gögn úr þeim búnaði. Upplýsingar úr slíkum búnaði geta skipt miklu máli fyrir umræddar stofnanir til að þær geti sinnt störfum sínum. Má í þeim efnum t.d. nefna ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar vegna áhættumats erfðablöndunar. Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun, að fengnu leyfi Fiskistofu, og í samráði við landeigendur og veiðiréttarhafa, geti látið setja upp fiskiteljara skv. 1. mgr.
    Í 2. tölul. er lagt til að gerð verði breyting á lögum um varnir gegn fisksjúkdómum, nr. 60/2006. Með breytingunni er í fyrsta lagi ætlunin að breyta skipan fisksjúkdómanefndar. Um breytinguna vísast til skýringa við einstakar greinar frumvarpsins. Í öðru lagi er lagt til að 10. gr. laganna verði breytt þannig að viðbrögð sem mælt er fyrir um í ákvæðinu nái ekki til sníkjudýra heldur einungis til sjúkdóma. Ástæða breytinganna felst einkum í því að núgildandi fyrirkomulag getur reynst tímafrekt þegar brýnt er að bregðast skjótt við. Þess í stað er lagt til að viðhaft verði það fyrirkomulag sem kveðið er á um í 2. mgr. 35. gr. frumvarps þessa. Vísast að öðru leyti til umfjöllunar í kafla 3.1.14. Í þriðja lagi er lagt til að breyting verði gerð á 2. mgr. 11. gr. laganna. Felst sú breyting einkum í því að veita lagastoð fyrir reglugerðarheimild þar sem kveðið verður á um heimild Matvælastofnunar til að gefa út heilbrigðisvottorð vegna útflutnings á lagardýrum. Tengist þessi breyting þeirri breytingu sem fjallað er um í 3. tölul. þessarar greinar.
    Í 3. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um Rannsóknadeild fisksjúkdóma, nr. 50/1986. Á 2., 5., 10., 11. og 14. gr. laganna eru lagðar til breytingar sem fela í sér að það verði ekki í höndum Rannsóknadeildar fisksjúkdóma að gefa út heilbrigðisvottorð. Meginverkefni deildarinnar felast nú í því að annast rannsóknir á fisksjúkdómum og sjúkdómsgreiningar á fiski. Útgáfa heilbrigðisvottorða hefur hins vegar um langt skeið verið hjá Matvælastofnun og þykir því rétt að ekki verði lengur kveðið á um að útgáfa heilbrigðisvottorða sé á hendi Rannsóknadeildar fisksjúkdóma. Lagðar eru jafnframt til breytingar á 16. gr. laganna um innheimtu kostnaðar. Lagt er til að 3. málsl. 1. mgr. 16. gr. falli á brott. Þá er lagt til að 2. mgr. 16. gr. falli brott þar sem rétt þykir að kostnaður sem hlýst af rannsóknum sem ákvæðið fjallar um sé greiddur úr hendi rekstrarleyfishafa og fari eftir gjaldskrá hverju sinni.
    Í 4. tölul. eru lagðar til breytingar á lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri, nr. 34/1991. Ákvæðið byggist bæði á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna. Uppsetning ákvæðisins byggist á 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. laganna en að efninu til byggist ákvæðið frekar á 2. tölul. 1. mgr. sömu greinar. Ákvæðið fjallar um að aðilar á (1) Evrópska efnahagssvæðinu, (2) í aðildarríkjum að stofnsamningi um Fríverslunarsamtök Evrópu og (3) í Færeyjum geti allir fengið rekstrarleyfi til lagareldis á Íslandi. Sé rekstrarleyfishafi lögaðili myndi duga að hann væri undir yfirráðum aðila á einu hinna tilteknu svæða. Fellt hefur verið út fyrirhugað nýmæli í frumvarpinu um að lögaðili sem fengi rekstrarleyfi gæti verið undir yfirráðum aðila utan heimilaðra lögsagna ef sá síðarnefndi væri í dreifðu eignarhaldi og jafnframt skráður á skipulegan markað með fjármálagerninga.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    1. mgr. tekur til þeirrar aðstöðu sem er fyrir hendi við gildistöku laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, að fleiri en einn rekstrarleyfishafi séu með starfsemi á einu smitvarnasvæði þrátt fyrir almennt bann við slíku samkvæmt frumvarpinu. Ákvæðið setur fram almennar reglur sem þarf að fylgja þegar þannig er ástatt, m.a. varðandi samræmda útsetningu fiska og seiða, hvíld eldissvæða innan smitvarnasvæðis, smitvarnir, viðbrögð við lúsasmiti o.s.frv., allt í samræmi við ákvæði frumvarpsins. Mætti með nokkurri einföldun segja að þeir aðilar sem starfrækja sjókvíaeldi á sama smitvarnasvæði þurfi í reynd að haga mörgum rekstraratriðum eins og um einn og sama aðilann væri að ræða. Í lokamálslið 1. mgr. er kveðið á um að öll rekstrarleyfi sem brjóta í bága við 12. gr. skuli felld úr gildi af Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hinn 1. júlí 2028. Er nauðsynlegt að færa gildandi rekstrarleyfi til samræmis við ákvæði frumvarpsins en gefa þó sanngjarnan frest til aðlögunar. Þá er ekki síður vonast til þess að rekstrarleyfishafar nýti frestinn til 1. júlí 2028 til þess að ná samningum sín á milli um flutning starfsemi milli smitvarnasvæða, sbr. bráðabirgðaákvæði II þar að lútandi.
    Starfræki tveir eða fleiri rekstrarleyfishafar sjókvíaeldi á sama smitvarnasvæðinu eftir gildistöku laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, þá skulu reglur IX. kafla um afföll og X. kafla um lús gilda sameiginlega um slíka rekstrarleyfishafa. Hér er um íþyngjandi reglu að ræða en reglan byggist á því að aðstæður á smitvarnasvæði séu á sameiginlegri ábyrgð þeirra sem stunda þar sjókvíaeldi. Þannig felst það í reynd í hugtaksskilgreiningu smitvarnasvæða að þau eru svæði þar sem smit getur borist milli eldissvæða eða sjókvíaeldisstöðva. Komi upp sjúkdómar eða lúsasmit, þá verða áhrif af slíku metin sameiginlega á öllu smitvarnasvæðinu og verður ábyrgð rekstrarleyfishafa þannig óskipt. Í samræmi við sameiginlega ábyrgð rekstrarleyfishafa samkvæmt framangreindu þá skal skerðing eða aukning leyfilegs lífmassa vegna lúsa eða affalla skiptast milli viðkomandi rekstrarleyfishafa í hlutfalli við leyfilegan lífmassa hvors um sig á viðkomandi smitvarnasvæði.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Ákvæðinu er ætlað að skapa grundvöll fyrir samningum milli rekstrarleyfishafa vegna flutnings á milli smitvarnasvæða svo að þeir geti uppfyllt skilyrði laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, um að aðeins einn rekstrarleyfishafi starfræki sjókvíaeldi á smitvarnasvæði. Ákvæðið veitir frest til 1. júlí 2028. Auglýsa þarf ný rekstrar- og starfsleyfi en leyfin eru ekki háð umhverfismati framkvæmda enda rúmist umfang eldis samkvæmt nýjum rekstrar- og starfsleyfum innan eldri rekstrar- og starfsleyfa á viðkomandi smitvarnasvæðum. Í öllu falli skulu ný leyfi einnig vera í samræmi við strandsvæðaskipulag. Almennt er það allra hagur að stjórnvöld liðki fyrir flutningi rekstrarleyfishafa milli smitvarnasvæða og því ætti ekki að skýra heimildir þessa ákvæðis þröngt heldur með hliðsjón af tilgangi þess.
    Í 2. mgr. segir að þrátt fyrir ákvæði frumvarpsins geti ráðherra, án aðkomu eða umsagna Hafrannsóknastofnunar eða Matvælastofnunar, ákveðið skiptingu hafsvæða í smitvarnasvæði með reglugerð. Skal sú heimild gilda til 1. júní 2029. Ákvæði þessu yrði líklega aðeins beitt í undantekningartilfellum til þess að styðja við markmið og tilgang 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins.

Um ákvæði til bráðabirgða III.

    1. mgr. er ætlað að koma í veg fyrir að rekstrarleyfishafi, sem hefur rekstrarleyfi til tiltekins reksturs við gildistöku laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, sé í þeirri stöðu að glata starfsleyfi vegna þess að nýting lífmassa sé ekki nægjanleg samanborið við hámarkslífmassa viðkomandi smitvarnasvæðis. Ákvæðið miðar við að lífmassi samkvæmt rekstrarleyfi sem er í gildi fyrir gildistöku sé leyfilegur lífmassi en að rekstrarleyfishafa sé heimilt að sækja um hækkun á leyfilegum lífmassa skv. 32. gr.
    2. mgr. er komin til af sömu ástæðu og 1. mgr. en hins vegar er ekki gert ráð fyrir að meiri lífmassa sé úthlutað ef fleiri en einn rekstrarleyfishafi starfrækja sjókvíaeldi á viðkomandi smitvarnasvæði.
    3. mgr. er einungis ætlað að taka af allan vafa um að rekstrarleyfishafi, sem er einn með starfsemi á tilteknu smitvarnasvæði við gildistöku laganna, verði frumvarpið óbreytt að lögum, þurfi líkt og endranær að fara að ákvæðum laganna varðandi afmörkun eldissvæða, samræmi við strandsvæðaskipulag og umhverfismat eftir því sem við á.
    4. mgr. tekur á þeirri stöðu þegar fleiri en einn rekstrarleyfishafi starfar á smitvarnasvæði og hvernig skipta á framlagi til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis. Er lagt til að gjaldið miðist við að leyfilegum lífmassa sé deilt með fjölda rekstrarleyfishafa.

Um ákvæði til bráðabirgða IV.

    Ákvæðinu er ætlað að gera skil milli umsókna um rekstrarleyfi nokkru fyrir gildistöku frumvarpsins. Lagt er til að um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi, sem borist hafa Matvælastofnun fyrir 1. júlí 2023 og sem ekki hafa verið endanlega afgreiddar fyrir gildistöku, skuli fara samkvæmt eldri lögum. Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi, sem borist hafa Matvælastofnun 1. júlí 2023 og síðar og sem ekki hafa verið endanlega afgreiddar fyrir gildistöku frumvarpsins, skuli fara samkvæmt frumvarpinu ef að lögum verður. Með þessu er að nokkru leyti séð við því að aðilar sæki gagngert um rekstrarleyfi í aðdraganda lagasetningar til þess að láta eldri lög gilda um umsóknina eða tiltekna þætti hennar. Ákvæðið bannar þó ekki afgreiðslu umsókna sem berast eftir 1. júlí 2023. Dagsetningin 1. júlí 2023 miðast við að í júní 2023 hóf matvælaráðuneytið kynningu á væntanlegri lagasetningu fyrir hagaðilum.

Um ákvæði til bráðabirgða V.

    Ákvæðinu er ætlað að taka af allan vafa um að núverandi rekstrarleyfishafar, sem hafa fengið útgefin leyfi til eldis á frjóum laxi, skuli áfram hafa hlutfallslega sama rétt til slíks eldis. Hér mætti taka sem dæmi rekstrarleyfishafa sem hefur heimild til eldis á 30.000 tonnum af frjóum laxi af heildarlífmassa upp á 106.500 tonn samkvæmt áhættumati erfðablöndunar en það eru 28% af heildartonnafjölda sem væri jafnframt laxahlutur viðkomandi rekstrarleyfishafa.


Um ákvæði til bráðabirgða VI.

    Ákvæði 1. mgr. þarfnast ekki sérstakra skýringa. Ákvæði 2. mgr. er ætlað að veita núverandi rekstrarleyfishöfum svigrúm til þess að uppfylla skilyrði um nýtingu leyfilegs lífmassa umfram það sem kynni að leiða af almennum reglum laganna. M.ö.o. þá fá núverandi rekstrarleyfishafar fyrst 5 ára tímabil til þess að uppfylla nýtingarskilyrði 1. mgr. 64. gr. en verða eftir það að fara eftir 2. mgr. 64. gr. um nýtingu leyfilegs lífmassa samkvæmt almennum reglum frumvarpsins.


Um ákvæði til bráðabirgða VII.

    Ákvæðinu er ætla að innleiða framleiðslugjald í skrefum. Ákvæðið er sambærilegt við ákvæði til bráðabirgða við lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019.

Um ákvæði til bráðabirgða VIII.

    Ákvæðið er endurskoðunarákvæði sem kveður á um að frumvarpið, ef að lögum verður, skuli endurskoða eigi síðar en 1. júní 2029. Við endurskoðun laganna skal sérstaklega horfa til árangurs, eða skorts á árangri, varðandi umhverfisþætti. Til umhverfisþátta teljast m.a. lús, afföll og strok. Þá skal endurmeta stöðu laganna með tilliti til landeldis og hafeldis að fenginni reynslu af rannsóknum, framkvæmdum og rekstri, eftir því sem við á. Við endurskoðun laganna er sem endranær heimilt að líta til tækniþróunar og nýrra aðstæðna sem hafa áhrif til breytinga.
    Einnig skal endurskoða þrepaskiptingu gjalds skv. 2. mgr. 76. gr. og skal þá m.a. litið til þróunar heimsmarkaðsverðs á eldislaxi og rekstrarafkomu rekstrarleyfishafa. Erfitt er að sjá fyrir þróun í heimsmarkaðsverði á eldislaxi, þróun rekstrarkostnaðar, verðbólgu, vaxtaumhverfis o.fl. sem allt getur haft áhrif á getu rekstrarleyfishafa til greiðslu gjalds vegna Samfélagssjóðs sjókvíaeldis. Er óumflýjanlegt að gjaldtaka verði endurskoðuð ásamt öðrum ákvæðum laganna 2029.

Um ákvæði til bráðabirgða IX.

    Ákvæðinu er ætlað að taka af vafa um að Umhverfissjóður sjókvíaeldis samkvæmt frumvarpinu sé sami lögaðili og Umhverfissjóður sjókvíaeldis samkvæmt lögum um fiskeldi, nr. 71/2008. Með sama hætti er tekinn af vafi um að Fiskeldissjóður samkvæmt lögum um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð, nr. 89/2019, sé sami lögaðili og Samfélagssjóður sjókvíaeldis. Þá er tekið fram í ákvæðinu að sjóðunum sé heimilt að ljúka greiðslum vegna þeirra umsókna sem þegar hafa verið afgreiddar og samþykktar af sjóðunum fyrir gildistöku laganna, verði frumvarpið að lögum.